24.02.1966
Efri deild: 41. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í B-deild Alþingistíðinda. (359)

123. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. 2. minni hl. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Framleiðsluatvinnuvegirnir eiga við stórfellda erfiðleika að stríða vegna óðaverðbólgunnar. Þessir erfiðleikar munu fara vaxandi að óbreyttri stjórnarstefnu, því að hún hlýtur að leiða til áframhalds óðaverðbólgunnar. Með ráðstöfunum af því tagi, sem hér er gert ráð fyrir í þessu frv., er tjaldað til einnar nætur, auk þess sem þær ráðstafanir eru í veigamiklum atriðum gallaðar. Þar sem á hinn bóginn virðist allvíðtæk samstaða um þessar ráðstafanir meðal forustumanna í samtökum þeirra stétta, sem hlut eiga mestan hér að máli, — væntanlega sökum þess, að þeir eru úrkula vonar um haldbetri ráðstafanir af hálfu ráðandi meiri hl., — sjáum við ekki ástæðu til þess, við sem að þessu nál. stöndum, hv. 3. þm. Norðurl. v. og ég, að leggjast gegn framgangi frv.

Það eru ekki aðrir, fyrr eða síðar, sem hafa haft stærri orð um það en núv. hæstv. ríkisstj., að nú skyldu tekin upp ný vinnubrögð í efnahagsmálum, og ég hlýt að minna á, að þegar ríkisstj. lagði fram sitt fyrsta frv. um efnahagsmál í ársbyrjun 1960, sagði þar í aths., með leyfi hæstv. forseta:

„Hér er ekki um að ræða ráðstafanir sama eðlis og þær efnahagsráðstafanir, sem tíðkazt hafa svo að segja árlega nú um skeið og snert hafa fyrst og fremst breytingar á bótskerfi útflutningsins og nauðsynlega fjáröflun í því sambandi, heldur algera kerfisbreyting.“ Og áfram segir: „Meginatriði till. eru þessi: 1. Bótakerfi það, sem útflutningsframleiðslan hefur búið við síðan 1951, verði afnumið, en skráningu krónunnar breytt þannig, að útflutningsframleiðslan verði rekin hallalaust án bóta eða styrkja.“

Það er ekki ástæða til þess að tengja miklar aths. við þessa tilvitnun. Við vitum allir, hvernig nú er komið þessum málum, og það frv., sem hér liggur fyrir, er skýrt dæmi um það. Og það er raunar ekki það fyrsta. Það heyrir ekki lengur til tíðinda, að hæstv. ríkisstj. leggi fram mál á hv. Alþ., sem miða að því að veita framleiðsluatvinnuvegunum eða einstökum þáttum þeirra bráðabirgðaúrlausn á vandamálum óðaverðbólgunnar. Þannig var það fyrir tveimur árum, þegar hæstv. forsrh. lagði fram frv. um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins, að hann lét svo um mælt, að það frv. væri til þess ætlað að firra vandræðum í bili og raunhæfari ráðstafanir yrðu síðar að koma til. Við höfum ekki orðið varir við þær raunhæfu ráðstafanir til stefnubreytingar í efnahagsmálum eða til þess að hamla gegn vaxandi óðaverðbólgu. En nú er fyrir framan okkur nýtt frv. frá hæstv. ríkisstj. til þess ætlað aftur að firra vandræðum í bili.

Undanfarin ár hefur verið einstakt góðæri til sjávarins, og aflabrögð hafa verið meiri en nokkru sinni áður. Það hafa átt sér stað miklar verðhækkanir á afurðum sjávarútvegsins á erlendum mörkuðum ár eftir ár í mörg ár í röð. Og við það hafa skapazt hagstæðari söluskilyrði fyrir afurðir sjávarútvegsins en við áður höfum þekkt. Ytri skilyrði til góðrar afkomu sjávarútvegsins hér á landi hafa því verið ákjósanleg. En því miður mega þau skilyrði sín lítils gegn verðbólgustefnunni, sem fylgt hefur verið. Óðaverðbólgan er gersamlega að sliga sjávarútveginn, eins og raunar aðra atvinnuvegi landsins, þrátt fyrir þessi hagstæðu skilyrði.

Þegar skyldi verðleggja þorskfiskaflann nú um áramótin, varð það auðvitað hverjum manni ljóst, að veruleg hækkun þyrfti að verða á fiskverðinu vegna þeirrar þróunar tilkostnaðarins, sem orðin var. Það var niðurstaða yfirnefndar verðlagsráðsins, að verðið til bátanna skyldi hækka um 17%. Það skal ekki dregið í efa, að sú hækkun hafi verið nauðsynleg, og raunar virðist mér, að hún hafi ekki mátt minni vera, enda virðist hún tæplega nægja til þess að tryggja eðlilega útgerð á þessari vertíð. En þá kom það í ljós, að fiskverkunarstöðvarnar og hraðfrystihúsin voru ekki talin geta staðið undir þeirri hækkun. Sjútvn. fékk á fundinn til sín oddamann yfirnefndar, Jónas Haralz, forstjóra Efnahagsstofnunarinnar, og kynnti sér eftir föngum þann grundvöll og þá útreikninga, sem þetta álit, að frystihúsin gætu ekki staðið undir þessum verðhækkunum að fullu, var byggt á. Og það kom vissulega fram þar, sem öllum er að sjálfsögðu ljóst, að möguleikar frystihúsanna og fiskverkunarstöðvanna til þess að borga þetta fiskverð eru feikilega misjafnir eftir ýmsum aðstæðum. Ýmis frystihús og fiskverkunarstöðvar, sem hafa jafnan og góðan afla og eru nægilega stór í sniðum, hafa tvímælalaust mjög góða afkomu, önnur lakari. En það er ekkert í þessu frv., sem miðar að því á neinn hátt að leysa þann vanda, sem skapast við þennan aðstöðumun. Það er skoðun okkar, sem stöndum að þessu nál., það er mat okkar á þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, að það muni vera rétt, að mjög mörg frystihúsanna hafi ekki tök á að taka á sig 17% fiskverðshækkun, og á þessum mismun á mati okkar og hv. 1. minni hl. byggist að nokkru leyti mismunandi afstaða okkar til málsins, enda þótt ég fyrir mitt leyti sé sammála ýmsum atriðum, sem fram komu hjá hv. 1. minni hl., 5. þm. Reykn.

En þegar frystihúsin geta ekki borgað það verð, sem bátaútvegurinn þarf að fá, er það vissulega ekki vegna þess, að þau hafi á undanförnum árum farið varhluta af þeim hækkunum, sem orðið hafa á erlendum mörkuðum á útflutningsafurðum okkar Íslendinga. Tvær helztu framleiðsluvörurnar, hraðfryst fiskflök og óverkaður saltfiskur, hafa hækkað stórlega í verði á undanförnum árum. Aðeins á undanförnum tveimur árum, ef borið er saman meðalverð 1963 og meðalverð 1965, kemur í ljós, að verð á frystum flökum hefur hækkað um fjórðung og verð á óverkuðum saltfiski hefur hækkað um þriðjung. En þessar miklu hækkanir hafa horfið í hít óðaverðbólgunnar, sem magnast ár frá ári og spennir upp framleiðslukostnaðinn í landinu á þann hátt, að starfsgrundvellinum er kippt undan fleiri og fleiri af þessum atvinnugreinum. Og það á vissulega við um fiskiðnaðinn eins og aðrar greinar framleiðslulífsins, að undirrót þeirra erfiðleika, sem við er að fást, er óðaverðbólgan sjálf. En hæstv. ríkisstj. hefur aldrei fengizt til þess að ráðast að rótum meinsins. Ráðstafanir hennar til þess að vinna gegn verðbólgunni hafa einungis verið kák og sýndarmennska. Það eru næsta kátlegir tilburðir, þegar ríkisstj. setur upp hátíðlegan alvörusvip, til að lækka vextina um 1% þetta árið og hækka þá um 1% þetta árið og ætlar með því að skapa jafnvægi í efnahagslífinu, án þess að slíkir tilburðir hafi minnstu áhrif á þá óheillavænlegu verðbólguþróun, sem ekkert lát hefur verið á nú hin síðustu árin. Slíkir tilburðir minna öllu frekar á skopleik heldur en á vinnubrögð ábyrgrar þjóðarforustu.

Nú á að leysa vandamál sjávarútvegsins með því að lækka útflutningsgjöld á þorskfiskafurðum, en hækka þau jafnmikið á bræðslusíldarafurðunum, og með þessu á að færa tæplega 40 millj. kr. frá síldarútgerðinni og til þorskfiskútgerðarinnar. En óðaverðbólgan á að fá að halda áfram að grafa undan hvoru tveggja. Það er alveg augljóst, að hér er tjaldað til einnar nætur.

Það er rétt að vekja athygli á því, að millifærsla af þessu tagi fellur ekki á gróðann af síldveiðunum. Það er ekki verið að taka gróðann af síldveiðunum til þess að bæta þeim, sem lakar eru settir. Það fer varla á milli mála, að sumir þeirra aðila, sem fást við síldariðnað og síldarútgerð, hafa haft mjög góða afkomu í þessum uppgripum, sem verið hafa undanfarin ár, og mikinn gróða. En það er ekki verið að taka þennan gróða til þess að bæta þeim upp, sem lakari afkomuna hafa, heldur er verið að leggja byrðarnar jafnt á alla, sem við síldariðnað og síldarútgerð fást, því að væntanlega lendir það á þeim, sem síldarútgerðina og síldveiðarnar stunda. Það er verið að taka af þeim öllum. Það er ekki verið að leggja byrðarnar á breiðu bökin, eins og einu sinni þótti sanngirnis- og réttlætismál. heldur lýsir sér hér hin nýtízkulega jafnaðarstefna hæstv. sjútvmrh. En það er vitað mál, að afkoma þeirra, sem fást við síldina, hvort sem það er að veiða hana eða vinna hana, hefur verið mjög misjöfn og tekjur sumra síldveiðisjómanna — og kannske ekki eins fárra og sumir virðast halda — hafa takmarkazt við kauptrygginguna og nokkur hluti síldveiðiflotans hefur mátt sækja fé í aflatryggingasjóð. Upplýsingar um þetta efni komu fram á fundum sjútvn. um þetta mál af hálfu fulltrúa Alþýðusambandsins í verðlagsráði, Tryggva Helgasonar, og því var ekki mótmælt af öðrum kunnugum aðilum, sem þar voru, að verulegur hluti þeirra báta, sem eru innan við 90 tonn, hafi gert upp eftir kauptryggingu og margir þeirra orðið að sækja féð í aflatryggingasjóð og miðflokkur bátanna, sem svo er nefndur, 90–140 tonna, hafi yfirleitt jaðrað við það að eiga rétt á aflatryggingasjóðsframlagi. Af því er ljóst, að afkoma þessara báta er vissulega mjög misjöfn og greiðslugetu þeirra margra hverra er mjög þröngur stakkur sniðinn, og verður ekki séð, hvert réttlæti er í því að láta þessa aðila standa undir þeim kostnaði, sem af því leiðir að bæta frystihúsunum og fiskverkunarstöðvunum nokkurn hluta af því tjóni, sem þau hafa orðið fyrir af völdum verðbólgustefnu ríkisstj.

Það liggur heldur ekkert fyrir um það á þessu stigi málanna, hvert muni verða verðlag á síldarafurðum á þessu ári, og það er allsendis óséð, hvort það verður framkvæmanlegt að hækka útflutningsgjöldin á þeim, svo sem hér er gert ráð fyrir, en þær álögur, sem þarna er gert ráð fyrr á síldarafurðirnar, nema sem svarar 10 kr. á hvert bræðslusíldarmál eða nálægt því. Nú er það öllum ljóst, að ekkert sem máli skiptir af síldarafurðum af framleiðslu þessa árs, verður flutt út fyrr en einhvern tíma í sumar, og það er þess vegna alveg ónauðsynlegt að ákveða núna, hvernig útflutningsgjöldum á þær afurðir yrði háttað, og hefði verið skynsamlegra, ef menn hefðu viljað læra af fyrri biturri reynslu, að sjá til um það, hvaða verðlag gæti orðið á síldinni í sumar. Alþ. á eftir að sitja að störfum í eina tvo mánuði enn, og það lágu því ekki nein ósköp á með þennan þátt málsins. Menn hljóta að óttast það, að hér sé um nýtt frumhlaup að ræða af hálfu hæstv. ríkisstj. á borð við brbl. frá því í júní í sumar, sem hún gafst upp við að framkvæma, þótt við allir hljótum að vona, að af þessu leiði ekki eins hörmulegar afleiðingar og þá urðu.

Það skal á hinn bóginn — eins og ég raunar tók fram áðan — sízt dregið í efa af hálfu okkar, sem að áliti 2. minni hl. stöndum, að frystihúsin mörg hver, jafnvel flest, þurfi þann stuðning eða ámóta stuðning og þeim er ætlaður með þessu frv. En hann hefði að okkar dómi betur verið í öðru formi. Við viljum í því sambandi minna á till. þm. Framsfl. um minnkaðar álögur og aukinn stuðning við fiskiðnaðinn, till. eins og lækkun á vaxtabyrði þessarar starfsemi, aukningu afurðalánanna og fleiri ráðstafanir, sem við höfum gert till. um. En slíkar till. þjóna því jákvæða markmiði í þessu sambandi að draga úr tilkostnaði framleiðslunnar í stað þess að velta byrðunum af einni greininni yfir á aðra.

Nauðsynin á því að snúa við á braut verðbólgunnar ætti að vera svo augljós hverjum manni, að að því þyrfti ekki að færa mikil rök. Af hálfu þm. Framsfl. hafa hvað eftir annað verið lagðar fram till. um það, að þingflokkarnir sneru sér sameiginlega að því verkefni að móta nýja og heillavænlegri stefnu í þessum málum. Strax við meðferð efnahagsmálafrv. ríkisstj. í ársbyrjun 1960 var lögð fram af hálfu þingflokks Framsfl. till. af því tagi og aftur í janúar 1964. En þær till. hafa verið hunzaðar af ráðandi meiri hl. Hann einn ber ábyrgð á því ástandi, sem skapazt hefur hjá framleiðsluatvinnuvegunum í einu mesta góðæri í manna minnum.

Ég skal ekki, herra forseti, fara mikið út í að ræða einstök formsatriði þessa frv. Við framsóknarmenn höfum þegar fyrir tveimur árum lýst fylgi okkar við þá stefnu, að útflutningsgjöldin yrðu byggð á þungaviðmiðun, en ekki verðviðmiðun, og þau rök, sem hv. frsm. meiri hl. flutti fyrir því hér áðan, hefði hann getað sótt beint í ræður okkar frá því í janúar 1964. En þá var flutt í báðum d. hv. Alþ. af hálfu Framsfl. till. um það, að þessi breyt. skyldi gerð, jafnframt því sem útflutningsgjöldin skyldu lækkuð verulega.

En þó að látið sé í veðri vaka, að þessi hugsun liggi til grundvallar þessu frv., er öðru nær en að svo sé í raun og veru nema að mjög litlu leyti. Í þremur af fjórum flokkum útflutningsvaranna, sem frv. gerir ráð fyrir, er útflutningsgjaldið enn byggt á verðviðmiðun, auk þess sem önnur gjöld, sem miðast við sama gjaldstofn, eru það líka, svo sem aflatryggingasjóðsgjald og ferskfiskeftirlitsgjald. Það er að vísu í 11. gr. frv. heimild fyrir ríkisstj. til þess að færa slík gjöld yfir á þungaviðmiðun, en eftir því sem fram kom í n., virðist ástæða til þess að ætla, að sú heimild muni ekki að sinni a.m.k. verða notuð. En hvað sem um það er, er rétt að vekja athygli á því, að af hálfu fulltrúa útflytjenda, sem komu á fund sjútvn., var lögð mjög rík áherzla á það, að í þessum efnum verði fylgt einhverjum grundvallarreglum. En hér er engri reglu fylgt. Það er ekkert „prinsip“ í þessu máli. Það er í góðu samræmi við annað hjá hæstv. ríkisstj. og táknrænt fyrir hennar vinnubrögð.

Eins og aðrir atvinnuvegir, eiga nú næstum allar greinar sjávarútvegsins við sívaxandi örðugleika að etja vegna verðbólguþróunarinnar, eins og ég hef áður drepið á. Það hefur verið sett á fót nefnd til þess að leita bjargráða fyrir þann hluta bátaflotans, sem er undir 120 tonnum, sem raunar er meiri hl. bátaútvegsins. Togararnir hafa ekki rekstrargrundvöll. Aðeins stærstu síldarbátarnir ganga sæmilega, margir kannske allvel. En áframhaldandi verðbólga mun einnig kippa grundvellinum undan starfsemi þeirra, ef áfram heldur sem horfir í þessum efnum. Þetta er í rauninni ekki önnur saga en segja má bæði frá iðnaðinum og frá landbúnaðinum og öðrum atvinnugreinum þjóðarinnar. Ég skal ekki eyða tíma í að rekja þá sögu mjög mikið. Við vitum, að það hafa verið miklar umr. um það nú undanfarna daga og vikur, og við vitum, hvernig verðbólgan hefur kippt grundvellinum undan samkeppnishæfni íslenzks iðnaðar, ekki bara á erlendum mörkuðum, heldur einnig á innlendum, og við vitum, hvernig verðbólgan hefur farið með útflutningsbótakerfi landbúnaðarins.

Þessi málefni verða ekki löguð fyrir sjávarútveginn eða einstakar greinar hans með tilfærslu á útflutningsgjöldum fremur en verðbólgan verður hamin með því að hringla með vextina frá ári til árs. Aðeins raunhæfar ráðstafanir til þess að hafa hemil á dýrtíðinni geta hér þokað nokkru. En til slíkra ráðstafana hefur ríkisstj. verið ófáanleg. Fulltrúar samtaka útvegsmanna og sjómanna mættu á fundi sjútvn. til viðræðna við hana um þetta frv. Af hálfu Landssambands ísl. útvegsmanna mættu þar framkvæmdastjóri Landssambandsins og erindreki þess og lýstu yfir því, að stjórn Landssambandsins hefði lýst sig samþykka frv. og að efni fiskverðssamkomulagsins frá því í janúarbyrjun hafi verið rætt á fundum útvegsmanna víðs vegar um land, án þess að andmæli hafi borizt þaðan gegn því atriði samkomulagsins, sem þetta frv. fjallar um. Þar mættu einnig fulltrúar frá samtökum sjómanna, formaður Sjómannasambands Íslands, Jón Sigurðsson, fulltrúi Alþýðusambands Íslands í verðlagsráðinu, Tryggvi Helgason, og fulltrúi frá stjórn Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Guðmundur Oddsson. Þeir skýrðu frá því, að andmæli gegn frv. lægju ekki fyrir frá samtökum þeirra, og formaður Sjómannasambandsins lýsti því enn fremur yfir, að meðal sjómanna mundi vera víðtækur skilningur á nauðsyn þessa máls, eins og ég trúi að hann muni hafa orðað það, og hann ætti ekki von á andúð af þeirra hálfu á þessu máli.

Þó að við höfum ýmislegt við frv. þetta að athuga, eins og ég hef gert grein fyrir, munum við að svo vöxnu máli, — þegar forustumenn í samtökum þeirra stétta, sem hér eiga mestan hlut að máli, hafa þessa afstöðu til þess, — ekki sjá ástæðu til þess, hv. 3. þm. Norðurl. v., og ég, að leggja til, að lagzt verði gegn framgangi þessa frv. En við munum ekki heldur ljá því stuðning okkar. Okkur þykir raunar fara vel á því, að þeir, sem ábyrgð bera á efnahagsþróuninni undanfarin ár og mánuði, standi að þeim kákaðgerðum, sem þeir telja að gera þurfi til þess að firra vandræðum í bili, eins og hæstv. forsrh. orðaði það fyrir tveimur árum. Við munum hins vegar halda áfram viðleitni okkar hér á hv. Alþ. til þess að skapa grundvöll fyrir raunhæfum aðgerðum, að tekin verði upp ný og heilbrigðari stefna í efnahagsmálum.