24.02.1966
Efri deild: 41. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í B-deild Alþingistíðinda. (363)

123. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég verð að byrja á því, að biðja hv. síðasta ræðumann afsökunar á því, að ég kunni ekki rétt skil á nöfnunum á þeim fyrirtækjum, sem hann hefur með að gera, en fyrir tilviljun í gegnum mitt starf hef ég haft ofurlítil kynni af því, a.m.k. sum árin, hversu góð afkoman hefur verið hjá þeim síldarskipum, sem hann hefur gert út, hversu aflögufær þau mundu hafa verið til þess að greiða nýjar álögur. En það getur nú tæplega heyrt undir aðalatriði í þessu máli.

Hv. þm. virðist vera enn á því, að aðalatriðið í sambandi við þetta frv. sé það, að nú sé breytt í magngjald í staðinn fyrir gjald af verðmæti, en sleppir alveg að ræða um það, að eitt aðalatriðið í frv. er að færa öll gjöldin, sem renna til fiskveiðasjóðs, yfir á síldveiðiskipin, en það er vitanlega eitt höfuðatriðið í þessu frv. og orsakar meginið af þeirri tilfærslu, sem hér er um að ræða.

Hv. þm. bar sig hér mjög vel yfir því, hvað allt gengi hér vel í viðreisninni og annar væri nú búskapurinn en þegar vinstri stjórnin hefði gefizt upp. En ég vildi í því sambandi spyrja hv. þm., hvenær það hefur skeð, að það hafi verið gripið til neyðarúrræða í sambandi við sjávarútveginn, og ég tel það frv.. sem hér er um að ræða, hreint neyðarúrræði, þegar sú staðreynd liggur fyrir, að á einu ári hafa samanlagðar afurðir fiskiðnaðarins hækkað um aðrar eins upphæðir og nú hefur verið og þar að auki verið sett algert met í aflabrögðum. Eða var kannske um slíkar verðhækkanir að ræða á okkar afurðum um það leyti sem vinstri stjórnin fór frá, eins og nú eru? Og var um eitthvað viðlíka sjávarafla að ræða þá, þar að auki, eins og nú? Ég held, að þótt ég ætli ekki að fara nánar út í viðskilnað vinstri stjórnarinnar, þá ætti þessi hv. þm. að hugleiða þótt ekki væri nema þessi atriði, áður en hann hefur um þetta svo stór orð sem hann hafði hér áðan.

Þá kvað hann miklar líkur á því, að það væri ekki aldeilis víst, að sjómennirnir eða síldarútgerðarmennirnir yrðu látnir borga þetta, það væri alveg eins víst, að verksmiðjurnar yrðu látnar borga þetta að hluta eða kannske að mestu leyti. Ég verð að segja það, að ég hef það fyrir mér, að ég hef kynnt mér, hvernig verðlagningin hefur farið fram á undanförnum árum, að auðvitað verða þessi útflutningsgjöld, eins og önnur sannanleg og óumflýjanleg útgjöld, sem útflutningsaðilinn verður að borga, viðurkennd í sambandi við verðkalkúlasjónina og tekin að fullu til greina í sambandi við ákvörðun á fiskverðinu. Allt annað er hreint fleipur, borið fram annaðhvort af fávizku eða gegn betri vitund. Þessi skattur getur hvergi lent annars staðar en á útgerðarmönnunum og sjómönnunum skv. lögum og samkvæmt öllum þeim reglum, sem hafa gilt á undanförnum árum og gilda enn. Það mundi þá þurfa að breyta lögum, til þess að svo mætti verða, að hægt yrði að koma einhverju af þessu gjaldi yfir á síldarverksmiðjurnar. En það er vitanlega hins vegar alveg rétt, að síldarverksmiðjurnar hafa a.m.k. síðustu 2—3 árin haft mjög góða afkomu og væru aflögufærar. Og það væri vitanlega miklu frambærilegra að byggja tilfærslu í sambandi við fiskiðnaðinn og útgerðina á því að láta þær borga, því að þær hafa sannanlega haft, a.m.k. samanlagt, mjög verulegan hagnað.

Hv. ræðumaður gerði hvort tveggja að láta á sér skilja, að allt væri í himnalagi með tryggingamálin hjá okkur og þar yrði naumast um bætt. Og um þann samanburð, sem hefði verið gerður, að mér skildist, af jafnágætum sérfræðingi og Gerhardsen hinum norska, sem hér var og ég hef ekki fyrr heyrt rengdar hans niðurstöður, er því haldið fram, að hann hafi farið með hreint fleipur og verið með algerlega ósambærilega hluti, þegar hann var að bera saman tryggingar hér og í Noregi. Ég hef ekki heyrt það fyrr, og það er vissulega nýlunda að finna mann, sem telur sig færan um að hrekja þær skoðanir, sem hann lét í ljós. En í öðru orðinu viðurkenndi hann þó, að það væri vitanlega hægt að lækka þessar prósentur, sem færu í tryggingarnar, ef ábyrgð viðkomandi yrði gerð svolítið meiri. Ég get ekki lesið út úr þessum ummælum hans annað en það, að ástæðan fyrir því, að við höfum svo háar tryggingar, hærri tryggingar en þekkjast í nokkurri sambærilegri áhættu í grannlöndum, er sú, að ábyrgð útgerðarmannanna, sérstaklega á stærri skipunum, er mjög lítil og þeir fá yfirleitt allt borgað í tryggingunum, sem hugsanlegt er að koma undir tryggingar, hvort sem er um handvömm eða annað að ræða.

Hæstv. sjútvmrh. kom inn á tryggingarnar og benti á þau frv., sem hér hafa verið lögð fram á Alþ. og ég tel ekki að geti valdið neinum straumhvörfum í þessum efnum. En þá er sá gallinn á gjöf Njarðar, að fyrst mæla útvegsmenn með því, og síðan mæla þeir á móti því. Skoðanir þeirra eru ekki fastmótaðri en þetta, að fyrst óska þeir eftir því, að borið sé fram frv., og síðan óska þeir eftir því, að það sé borið til baka. Ég sé ekki, hvað mikið sé gerandi með skoðanir þessara manna á tryggingamálunum. En hitt væri þá ástæða til að spyrja um: Hefur hæstv. ríkisstj. og hæstv. sjútvmrh. enga sjálfstæða skoðun á því, hvernig tryggingamálunum verði fyrir komið? Eða er hann að bíða eftir því, að útgerðarmennirnir leysi vandann sjálfir og komi loksins með gerbreytingu á tryggingalöggjöfinni eða frv. um það, sem þeir ekki fyrst biðja menn að flytja og svo að taka til baka? Ég held það sé mál til komið í sambandi við tryggingamálin, að hæstv. ríkisstj. gangist fyrir algerlega hlutlægu mati á því, hvernig þeim verður bezt komið fyrir. Ég er ekki að segja, að það sé ekki sjálfsagt að hlusta á Landssamband ísl. útvegsmanna og alla aðra, sem málið varðar, en að síðustu hlýtur það þó að vera hæstv. ríkisstj. og Alþ., sem skipa þessum málum, eftir því sem þessir aðilar telja hagkvæmast. Og það er víssulega ástæða til að spyrja: Hver er skoðun hæstv. sjútvmrh., hans ráðuneytis og ríkisstj. á þessum málum? Ég vil að vísu fagna því, að hæstv. ráðh. taldi, gagnstætt því, sem frsm. meiri hl. sjútvn. sagði a.m.k. í öðru orðinu, að allt væri í lagi, þá var að skilja á hæstv. ráðh., að hann teldi þetta þurfa a.m.k. frekari athugunar og rannsóknar við, hvort ekki mætti koma þessum málum betur fyrir. En það er vissulega orðið tímabært að auglýsa eftir skoðunum hans og hans ráðuneytis á þessum málum og þannig verði a.m.k. að því unnið, að hans ráðuneyti sé bært um að leggja á það sjálfstætt mat, hvort ekki er unnt, eins og ég sagði, að lækka útflutningsgjöldin verulega með því að lækka tryggingakostnaðinn.

Þá er það aðeins viðkomandi því, að það mætti ekki breyta neinu í þessu frv. og ekki heldur koma því inn í frv., að sjómannasamtökin fengju eitthvert hliðstætt fjármagn við útgerðarmenn í sambandi við samþykkt þessa frv., vegna þess að samkomulagið hefði byggzt á því, að þetta væri nákvæmlega svona og engan veginn öðruvísi. Ég vil nú í fyrsta lagi segja það, að hæstv. ráðh., yfirnefndin eða hæstv. ríkisstjórn hefur ekkert leyfi til að skuldbinda Alþ. á einn eða neinn hátt. Það er aðili, sem hlýtur að taka sínar ákvarðanir út frá málefnum og enginn þriðji aðili getur bundið á nokkurn hátt. Og strax af þeirri ástæðu vil ég mótmæla þessum ummælum hans. Hitt vil ég svo segja, að ef yfirnefndin hefur samið um það, hvernig ætti að verja útflutningsgjöldunum, þá hefur hún verið að fara út fyrir sitt verksvið. Þá hefur hún verið að semja um allt aðra hluti en þann eina hlut, sem hún á að semja um og á að ákveða, þ.e. sjálft verðið. En henni kemur ekkert við og getur ekki komið við, hvernig útflutningsgjöldunum er varið. Það er útilokað. Og hún getur hvorki samið þessa upphæð af sjómönnum né af öðrum, ef þeir eiga rétt til hennar. Og Alþ, er fullkomlega bært til þess að ákveða það, að ákveðinn hluti af útflutningsgjaldinu skuli renna til sjómannasamtakanna, alveg eins og það er bært um að ákveða, hvað útvegsmenn eiga að fá. Ef hefur verið farið að semja um slíka hluti, hefur n. gengið út fyrir sitt verksvið og tvímælalaust brotið þau lög, sem hún á að vinna eftir.

Þá voru það loks ummælin, sem hæstv. ráðh. hafði um fyrirvara Tryggva Helgasonar í yfirnefndinni. Því miður hef ég þann fyrirvara ekki hér skriflegan fyrir framan mig, en hitt er mér kunnugt um, að a.m.k. munnlega gerði Tryggvi Helgason þann fyrirvara um sitt atkv., að hann teldi, að fiskiðnaðurinn væri, eins og á stæði, fullkomlega fær um að bera þá fiskverðshækkun, sem um var að ræða. Þess vegna greiddi hann atkv. með fiskverðshækkuninni, en ekki með þeirri tilfærsluaðferð, sem hér var á höfð. Þetta fer ekki á milli mála, að kom greinilega fram hjá Tryggva Helgasyni, þó að ég hafi ekki aðstöðu til að fullyrða, hvort það hafi verið í hans skriflega fyrirvara eða ekki. En hitt veit ég, að öllum, sem skipuðu yfirn., og einnig hæstv. sjútvmrh. var vel kunnugt um þessa skoðun Tryggva, sem hann hefur líka á öðrum vettvangi rökstutt fullkomlega.

Það var svo aðeins eitt atriði, sem ég átti eftir í sambandi við ræðu hv. frsm. meiri hl. Ég harma það að hafa ekki haft hér fyrir framan mig tölur um eigin aukningu fiskveiðasjóðs árlega, og það kann að hafa skakkað einhverju hjá mér. Ég er ekki svo stór í mér, að ég geti ekki vel viðurkennt það, að ég hafði ekki tölur og mig getur misminnt ekkert síður en aðra, og það má vel vera, að tölur hv. frsm. hafi verið réttari en mínar, ég skal ekkert segja um það. En fram hjá hinu gengu bæði þessi hv. ræðumaður og eins hæstv. sjútvmrh., að það hljóta auðvitað að vera til ýmsar aðrar leiðir til þess að tryggja fiskveiðunum og útveginum í landinu nægilegt uppbyggingarfjármagn heldur en taka það sem beinan skatt á framleiðsluna. Og ég benti hér á eina handhæga aðferð, sem hlýtur að vera fær, þ.e.a.s. að tryggja það, að t.d. fiskveiðasjóður fái árlega til útlána af frystingarfénu það mikinn hluta, að það nægi til eðlilegrar uppbyggingar í þessari atvinnugrein. Ég rengi það út af fyrir sig alls ekki, og enginn skyldi hafa skilið orð mín svo, að ég teldi, að fiskveiðasjóður hefði haft of mikið fjármagn til umráða. Ég tel aðeins, að það séu fullkomnir möguleikar á því að afla honum fjármagns með öðrum hætti en beinum skatti á útgerðina, og það hugsa ég, að fleiri geti orðið mér sammála um.