25.02.1966
Neðri deild: 46. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í B-deild Alþingistíðinda. (371)

123. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Hv. Ed. hefur afgr. frv. þetta. Þrátt fyrir ósamkomulag í n., er klofnaði í þrjá hluta, var málið afgr. þar á mjög skömmum tíma. Hv. sjútvn. Ed. undirbjó afgreiðslu málsins með þeim hætti að kalla til viðtals hlutaðeigandi aðila málsins, þ.e. yfirnefnd verðlagsráðs og þá aðila, sem þar eiga fulltrúa, að viðstöddum þm. úr sjútvn, þessarar hv. d. Niðurstaða þessara viðræðna kemur ljóslega fram í nál. og brtt. hinna þriggja nefndarhluta á þskj. 257, 258, 259 og 262.

Svo sem fram kemur af tilgreindum nál., eru einkum tvö atriði, er hv. stjórnarandstæðingar leggja áherzlu á, annars vegar fyrir andstöðu sinni við frv. og hins vegar fyrir hlutleysisafstöðu. Í fyrsta lagi, að mögulegt hafi verið að afgreiða þá 17% meðalverðhækkun á bolfiski, sem frv. gerir ráð fyrir, án millifærslu á útflutningsgjaldi af þorskafurðum yfir á síldarafurðir, m.a. með breyt. á viðmiðun úr verðmæti yfir í magngjald, svo sem frv. gerir ráð fyrir, sem gefa á um 4% af fiskverðshækkuninni, sem fyrr er nefnd, m.ö.o., að frystihúsin hefðu sjálf getað tekið á sig umrædda hækkun, a.m.k. að stærri hluta en þau gera. Þessari skoðun til stuðnings er vitnað í þá hækkun, sem orðið hefur á afurðaverði á s.l. árum. Ég hef í sambandi við þessa afstöðu reynt að afla mér frekari upplýsinga um gang mála í yfirn., en frv. þetta er nánast flutt til staðfestingar á niðurstöðum hennar, og þær upplýsingar eru í sem fæstum orðum þessar: Í fyrsta lagi, að það er rétt, að fram talinn nettóhagnaður frystihúsanna var 38 millj. kr. 1964 og áætlaður tæpar 74 millj. kr. 1965. Sú áætlun er hins vegar byggð á þeirri forsendu, að framleiðslumagn húsanna væri það sama 1965 og 1964, og er búizt við því, að heildarframleiðslumagnið sé svipað, en hins vegar liggja nú fyrir staðreyndir um, að allmikil víxlun var á verðmætasköpuninni milli hinna ýmsu fisktegunda. Það er enn fremur skoðun Efnahagsstofnunarinnar, að viðhalds- og endurbótakostnaður á árinu 1964 sé í hærra lagi, einkum hvað viðkemur Vestmannaeyjahúsunum, og sé þetta afleiðing af góðri afkomu þetta árið. Um raunverulegan viðhalds- og endurbótakostnað á árinu 1965 er hins vegar ekkert vitað, og ekki er hægt um það að fullyrða, hvað eðlilegur viðhaldskostnaður sé. Annars vegar eru raunverulegar niðurstöður skattaframtals og hins vegar áætlunartölur, sem ekki eiga að spegla raunverulega þróun, heldur þá þróun, sem orðið hefur á tilteknum, en jafnframt óraunhæfum forsendum, þ.e.a.s. framleiðsla hefur verið óbreytt.

Þá var á það bent í hv. efri deild, að meðalhækkun útflutningsverðs á árinu 1966, saman borið við 1965, verði 11% eða hátt í það eins mikil og hún var á milli áranna 1964 og 1965. Sú hækkun er alveg óvenjuleg, og ekkert áþreifanlegt liggur fyrir um, að vænta megi áframhaldandi verðhækkana á freðfiski á þessu ári umfram það, sem þegar er orðið, en það eru tæp 7%.

Það yfirlit um afkomu frystihúsanna, sem lagt var fram í yfirn. og gefur bezta yfirlitið, sem hægt er að gefa sem stendur um afkomu frystihúsanna, sýnir, að allar líkur eru til, að afkoma frystihúsanna geti versnað á árinu 1966 þrátt fyrir hagræðingarféð og tilfærsluna. Þetta er sú atvinnugrein, sem hefur verið og hlýtur að verða enn um sinn einn helzti vaxtarbroddurinn í íslenzku atvinnulífi og verður að fylgjast með örum tæknilegum nýjungum hjá öðrum þjóðum. Það eru því að sjálfsögðu brýnir hagsmunir sjómanna og útgerðarmanna og þá um leið þjóðarinnar allrar, að þessari atvinnugrein séu sköpuð skilyrði til framfara og endurbóta, og á hinn bóginn að skapa skilyrði fyrir hærra fiskverði og þar með hærri vinnulaunum. Þetta vildi ég að kæmi fram í sambandi við þær umr. og blaðaskrif, sem orðið hafa vegna afkomu frystihúsanna, og fullyrt er, að hafi verið lögð fram um það efni gögn í þeirri yfirnefnd, sem um málið fjallaði um áramót.

Í öðru lagi eru rökin fyrir hlutleysisafstöðunni aftur á móti þau, að hér sé aðeins með frv. þessu tjaldað til einnar nætur og því um algera bráðabráðabirgðalausn að ræða, sem ekki risti að rótum höfuðmeinsemdarinnar í íslenzkum sjávarútvegi, þ.e. verðbólgunni í landinu. En niðurstaða yfirn. um fjárhagslega getu fiskvinnslustöðvanna er í þessu tilfelli ekki véfengd, a.m.k. ekki þegar á heildina er lítið. Með hliðsjón af þessum meginrökum er sú afstaða tekin að hindra ekki framgang frv.

Með þessum orðum hef ég reynt að leitast við að svara þeim rökum, sem gerð var tilraun til að leggja fram gegn frv. eða fyrir hjásetu við afgreiðslu þess af hv. stjórnarandstæðingum í Ed. En með tilliti til þessarar afstöðu hv. stjórnarandstæðinga vil ég leggja áherzlu á það, að frv. þetta er flutt til staðfestingar á því samkomulagi, er yfirn. náði hinn 6. jan. s.l. Það samkomulag var grundvallað á ýtarlegum rannsóknum um hag og heildarástand sjávarútvegsins, með þeim breytingum, er síðar áttu sér stað í samvinnu og samkomulagi við þá aðila, er fulltrúa áttu í yfirnefndinni. Ég mun síðar víkja að niðurstöðum nefndarinnar.

Hvað viðkemur umr. um almenn efnahagsmál þjóðarinnar, tel ég ekki rétt, a.m.k. ekki án frekara tilefnis, að efni þessa frv. verði inn í þær dregið. Því hefur þegar verið yfirlýst af forustumönnum hlutaðeigandi aðila, að þeir styðji megintilgang frv., þó að mér sé ljóst, að nokkur andstaða sé til í þeirra röðum, þ.e.a.s. sjómannanna, um atriði, sem ég skal einnig víkja að hér á eftir. En eining virðist vera um, að nauðsynlegt hafi verið að tryggja a.m.k. 17% meðalverðhækkun á bolfiski, og í sumum tilfellum er jafnvel véfengt, að það sé nógu hátt. Í nýlega afgreiddum fjárl. nú fyrir áramótin var ekki unnt að gera sér ljósa grein fyrir möguleikum fiskvinnslustöðvanna til að bera þá hækkun fiskverðs, sem fiskseljendur gætu fallizt á. Á sama hátt var þá ekki sagt til um, hvort það opinbera þyrfti að brúa þarna bilið, og þá enn síður, að hve miklu leyti slík aðstoð væri nauðsynleg. Það er því ekki fyrr en allar hugsanlegar leiðir hafa verið ýtarlega kannaðar í samningaumleitunum í verðlagsráðinu og síðan í yfirn., að ríkisstj. tekur ákvarðanir um að beita sér fyrir lagasetningu um nauðsynleg atriði samkomulaginu til fullnægingar, svo sem fram kom í yfirlýsingu yfirn, frá 6. jan. s.l. Við afgreiðslu fjárl. var því ekki mögulegt að áætla gjöld eða tekjur þar á móti í þessu skyni. Að þessum orðum sögðum vil ég með örfáum orðum víkja frekar að efnishlið frv.

Eftir að sjútvmrn. hafði fyrir sitt leyti fallizt á að veita umbeðinn frest, lauk yfirn. störfum þann 6. jan. s.l., svo sem fyrr er frá greint, þar sem samþykkt var með shlj. atkv. till. oddamanns n., en einn fulltrúi, fulltrúi sjómanna, greiddi ekki atkv., en gerði sérstaka bókun, þar sem hann véfengdi m.a., að till. væru gerðar á réttum vettvangi, sem yfirn. gerði varðandi tilfærsluna á milli magn- og verðmætagjalds. En þessi till. oddamanns, eins og fyrr er frá greint, fól það aðalatriði í sér, að meðalverð á ferskfiski hækkaði um 17% frá fyrra ári. Verðhækkun þessi var grundvölluð á því skilyrði, að breyt. yrði gerð á útflutningsgjaldi, þannig að það miðist við krónuupphæð á magneiningu, en ekki einungis við verðmæti, og yrði yfir höfuð það sama á allar fiskafurðir. Innbyrðis er svo gjaldheimtunni sjálfri enn fremur breytt í nokkrum atriðum. T.d. skal gjaldið til fiskveiðasjóðs, jafnvirði þess framlags, sem greitt hefur verið til sjóðsins af þorskafurðum, framvegis vera gjald af síldarlýsi og síldarmjöli. Umræddar breytingar, sem nánar er frá skýrt í grg. frv., eru taldar leiða til nokkurrar hækkunar gjalds af síldarlýsi og síldarmjöli og lækkunar gjalds af þorskafurðum. En áætlað er, að gjaldið geti vegna þessara breytinga gefið, svo sem fyrr er sagt, sem næst 40 millj. kr., er svari til 4% fiskverðshækkunar.

Umræddar breytingar á fyrirkomulagi útflutningsgjalda eru að meginefni í samræmi við þær hugmyndir, er ræddar voru í yfirnefndinni. Um frávik þar frá hefur verið haft samráð við þá aðila, sem fulltrúa áttu í yfirnefnd. Ástæðan til breytinga, sem áttu sér stað, eftir að yfirnefndin lauk störfum, eru fyrst og fremst tæknilegs eðlis og varðandi sjálfa framkvæmdina. Í grg. frv. eru nákvæmlega skýrðar ástæðurnar til þeirrar breytingar, en meginástæðan er sú, að sá háttur, er á hefur verið hafður í þessu efni, var talinn geta leitt til minni áhuga fiskkaupenda á frekari vinnslu afurðanna, t.d. á framleiðslu fisks í neytendaumbúðir, en það verður að telja mjög óæskilega þróun. Niðurlagðar og niðursoðnar vörur hafa á undanförnum árum greitt 2% útflutningsgjald. Með hliðsjón af því, sem fyrr var sagt, er lagt til með þessu frv., að gjald þetta verði nú að fullu og öllu fellt niður. Ráðstöfun þessi ætti að létta nokkuð undir með umræddri starfsemi, sem mikil nauðsyn er á að eflist hér á landi.

Svo sem fram kemur í 3. gr. frv., er nú sem áður ætlað, að nokkur hluti útflutningsgjaldsins renni til starfsemi L.Í.Ú., eða 0.8%. Með tilvitnunum til þessa ákvæðis, sem á sínum tíma var upp tekið vegna sérstakra starfa, er L.Í.Ú. innti þá af hendi fyrir það opinbera, hafa samtök sjómanna, þ.e. Sjómannasamband Íslands og Farmanna- og fiskimannasambandið, eindregið óskað eftir að fá hliðstæða fjárhagsaðstoð af útflutningsgjaldi og færa fram þau rök, að gjald þetta verki til lækkunar á fiskverði, ekki síður til sjómanna en til útgerðarmanna, þar sem þeir eigi hvor um sig sinn hlut eða um helming aflans, þeir greiði með þessum hætti útflutningsgjaldið að sínum hluta. L.Í.Ú. telur hins vegar, að breyting á þessum hlutföllum nú væri nánast brigð á samkomulaginu um fiskverð, a.m.k. ef taka ætti nú af hluta þeirra og færa yfir til sjómannanna, þar sem þeir greiði í styrktar- og sjúkrasjóði sjómanna ásamt launaskatti og gjaldi til atvinnuleysistryggingasjóðs o.s.frv., eins og greint er frá í bréfi þeirra, og eigi þrátt fyrir fiskverðshækkunina í miklum fjárhagslegum erfiðleikum.

Ég tel rétt, að n. sú, sem þetta mál fær til umræðu, rannsaki þessar óskir svo ýtarlega sem mögulegt er, því að það er mín persónulega skoðun, að rökstuðningur sjómannanna fyrir þessari ósk sinni sé eðlilegur og ekki ósanngjarn og því eðlilegt, að það mál fái frekari athugun, hvort þarna er möguleiki til að brúa bilið með einhverjum hætti, því að mér er kunnugt um, að sú óánægja, sem með þetta frv. er í röðum farmanna og sjómanna, byggist fyrst og fremst á þessu atriði, en ekki á öðru efni frv.

Eftir að fyrrgreint samkomulag var gert í yfirnefnd verðlagsráðs, hafa saltfisksframleiðendur látið í ljós óánægju með, að þeim skuli ekki ætlað fé til endurbóta og framfara á verkunarstöðvum sínum eins og frystiiðnaðinum, og færa ýmis mikilvæg rök fyrir þessari skoðun sinni. Í forsendum yfirnefndarinnar er hins vegar gert ráð fyrir, að framlag til framleiðniaukningar verði greitt til sömu aðila og áður. Af framangreindum ástæðum er því ekki unnt að verða við þessum óskum nú. Á hinn bóginn munu umræður um þetta atriði fremur heyra til sérstöku frv. um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins, sem innan skamms tíma verður lagt fram hér á hv. Alþingi.

Um einstakar greinar frv. tel ég ekki þurfa að ræða, svo vel sem þær eru skýrðar í þeim athugasemdum, er frv. fylgja.

Ég vil að lokum leggja áherzlu á, að afgreiðslu þessa frv. verði hraðað svo sem kostur er hér í þessari hv. þd., þar sem allar áætlaðar tekjur frv. eru miðaðar við gildistöku 1. marz n. k. Herra forseti. Ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. sjútvn.