25.02.1966
Neðri deild: 46. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í B-deild Alþingistíðinda. (373)

123. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins fyrst af öllu varðandi þau atriði, sem hv. 5. þm. Austf. drap hér á, mótmæla eindregið og skilyrðislaust þeirri ásökun, sem hann hafði hér í frammi varðandi formann Sjómannafélags Reykjavíkur og þann þankagang, sem hann gerði honum hér upp, sem er ódrengilegt að gera hér, þar sem hann hefur ekki aðstöðu til þess að verja sig eða sínar skoðanir hér á þessum stað, að gera á þann hátt, sem hv. þm. gerði, — í meira lagi gróft og ódrengilegt að hafa í frammi slíkan málflutning. Þetta er krafa, sem búin er að vera uppi um alllangt skeið hjá sjómannasamtökunum og er ekki til komin endilega með þessu frv. nú. Hún hefur heyrzt úr þeirra röðum fyrir löngu, og þess vegna mjög ódrengilegt að láta að því liggja, að hann eða þau samtök, sem hann er forsvarsmaður fyrir, séu tilbúin til að láta kaupa sig til eins eða neins í þessu máll.

Ég kemst ekki hjá því að lesa hér upp vegna þess, að það hefur verið vitnað til sérstöðu fulltrúa sjómanna í yfirn. og hefur utan um þá sérstöðu verið spunnið ýmsu, sem ekkert kemur fram a.m.k. í sjálfri bókuninni af hans hendi. Ég tel þess vegna, að honum og öllum hlutaðeigandi aðilum sé hollast og réttast að rifja það upp, þó að það hafi áður verið birt opinberlega, en í þeirri bókun yfirn. segir svo í lokin orðrétt:

„Ofangreind till. oddamanns var samþ. með 4 shlj. atkv., hans, Kristjáns Ragnarssonar, Helga Þórðarsonar og Bjarna Magnússonar. Tryggvi Helgason greiddi ekki atkv. og lét bóka eftirfarandi grg.:

Í sambandi við þessa verðákvörðun eru gerðar till. af yfirn. um breytingar á útflutningsgjöldum, sem fela í sér hækkun á útflutningsgjöldum einstakra síldarafurða. Þar sem ég tel yfirn. ekki vera réttan aðila til að gera samkomulag eða till. um slíka tilfærslu á gjöldum sem þarna er um að ræða, vil ég ekki eiga hlut að því máli og greiði því ekki atkv. um fram komna till. um fiskverðið, enda þótt ég gæti verið sammála sjálfri verðákvörðuninni.“

Þetta er hið sanna og rétta, sem Tryggvi Helgason, fulltrúi sjómanna í yfirn., lét eftir sér bóka, og er rétt, að það sé haft í huga við frekari umr. um málið. Ég vil af þeim ástæðum, sem ég ásakaði hv. 5. þm. Austf. fyrir varðandi formann Sjómannafélagsins, ekki gera Tryggva upp neitt frekar en hann hefur hér skrifað, eins og mér skildist að hv. þm. væri að reyna að gera áðan, að hann hefði mótmælt og verið á móti ákveðnum hlutum o.s.frv. Ég skal ekki gera það, þar sem annað liggur ekki fyrir í þessu máli heldur en þessi hans bókun, en tel eðlilegt, að hún liggi fyrir.

Það eru aðeins örfá atriði, sem talizt geta ný frá umr. í Ed., sem komu fram í ræðu hv. þm. Hann reiknaði hér út mjög nákvæmlega, hvað væntanlegt síldarverð muni lækka við síldarákvörðunina næsta vor. Og hann hefur í því efni sérstakar áhyggjur af útgerðarmönnum og sjómönnum. Það er einn aðili, sem hv. þm. minnist aldrei á í þessu sambandi, sem gæti komið til með að greiða hluta af þessu, en það eru síldarverksmiðjurnar. Það verður áreiðanlega nú eins og alltaf áður, þegar ákvörðun er tekin um verð á síldarafurðum, reiknað með því, hvert gjaldþol þessara aðila er, og ég hygg, að hv. þm. sé þeim hnútum það vel kunnugur, að afkoma síldarverksmiðjanna sé með þeim hætti, að þær geti hæglega tekið á sig nokkurn hluta af þessu gjaldi. Ég skal ekki leiða neinum getum að ástæðu til þess, að þm. hins vegar minntist ekki á síldarverksmiðjurnar, en eigi að síður er það staðreynd, að hann gerði það ekki. Hann reyndi, svo sem kostur var, að einblína einungis á þær álögur, sem kynnu að lenda á sjómönnum og útgerðarmönnum, í von um — og hann gat ekki dulið þá von — að sagan frá s.l. sumri um verkfall síldveiðiflotans endurtaki sig vegna þessara ráðstafana. Og ekki einu sinni, heldur oft í ræðu sinni minnti hann á það, að þessi hætta væri mjög mikil, og áréttaði þá skoðun sína með því að segja, að þetta frv. gengi mun lengra í óréttlætisátt heldur en þó það, sem sjómenn gerðu vinnustöðvun vegna á s.l. sumri.

Annað atriði vildi ég einnig leiðrétta, sem hv. þm. vitnaði til. Það er kunnur aflamaður, sem ræddi við mig um möguleikana á því, að íslenzk síldveiðiskip gætu landað erlendis og þá fyrst og fremst í Noregi. Og það fer ekkert á milli mála, hver þessi aflamaður var, það var Eggert Gíslason, og ræddum við þetta mál mjög ýtarlega. En það kom hvergi fram í hans tali það, sem hv. þm. vildi gera hér að meginatriði þessara óska hans, þ.e.a.s. mismunurinn á síldarverði í Noregi og á Íslandi, heldur fyrst og fremst aðstaðan, eftir að fiskiskipin hefðu stækkað svo sem raun ber vitni um og horfið til norðlægra og fjarlægra miða hér frá landi, væru komin mun nær Noregi og mun auðveldara fyrir þá að eiga aðstöðu til löndunar þar, en sjálft síldarverðið var ekki orðað í þeim viðræðum. Læt ég svo útrætt um það, en vildi leiðrétta þá tilvitnun, sem hann vildi gera hér að atriði, að þarna væri einungis um verðmismun að ræða, sem eru hreinar getgátur og á algerlega röngum forsendum byggðar.

Hins vegar vil ég minna á það í sambandi við þessar umr. um norska og íslenzka síldarverðið, að mér skilst, að þegar hv. 5. þm. Austf. gegndi því starfi, sem ég gegni nú, um alllangt skeið, hafi þessi mismunur verið uppi þá líka og það hafi verið gerðar til hans fsp. hér um í hverju þetta lægi, og af því að ég man ekki orðrétt svör hans við því, skal ég ekki vera að gera tilraun til að hafa þau eftir. En efnislega voru þau á þann veg, að hið norska síldarverð væri ákaflega erfitt að finna út, þar sem ýmsar greinar síldarútvegsins nytu sérstakra fríðinda og sumar beinnar meðgjafar af ríkisins hálfu. Þetta tel ég ekki vera efnislega rangt eftir haft, en ég hef heyrt þessar skýringar oftlega síðan og veit reyndar, að svo er, af upplýsingum, sem komið hafa fram í opinberum málgögnum þar um. Er óþarft að ræða það nánar nú.

Ég tel ekki þörf á að rekja hér önnur atriði málsins. Þau eru þegar nokkuð ljós af blaðaskrifum um þetta, hvernig menn skiptast í flokka um afstöðu til þessa frv. Það hefur ekki verið bent á aðrar leiðir til úrbóta þeim vanda, sem þarna liggur fyrir. Og ég legg enn sem fyrr áherzlu á það, að n. hraði svo störfum sem kostur er til þess að fá endanleg úrslit í málið, þar sem þau gjöld, sem í frv. eru ákveðin, eru hugsuð taka gildi frá 1. marz, og það fjármagn, sem af þeim gjöldum á að koma, raskast því verulega, ef það drægist umfram þann tíma.