28.02.1966
Neðri deild: 47. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 598 í B-deild Alþingistíðinda. (380)

123. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. 2. minni hl. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Það frv., sem nú er verið að ræða hér í hv. d., um útflutningsgjald af sjávarafurðum, sýnir vel, hvernig komið er hag annars meginþáttar sjávarútvegsins, þ.e.a.s. bolfiskveiðanna. Á tímum síhækkandi verðlags á útfluttum sjávarafurðum og umtalsverðra umbóta í rekstri fiskvinnslustöðvanna er því slegið föstu, að fiskkaupendur geti ekki greitt verð, sem er í algeru lágmarki fyrir ferskfiskinn, og þurfi að færa til þeirra 40 millj. kr. frá síldveiðisjómönnum og síldveiðiútvegsmönnum, til þess að vetrarvertíð í ár geti hafizt. Hér er um alvarleg tíðindi að ræða, sem ástæða er til þess að gefa fyllsta gaum. Við framsóknarmenn höfum ítrekað bæði innan þings og utan bent á þá hættu, sem ört vaxandi verðbólga skapaði undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar. Við höfum lagt til á hv. Alþ., að fulltrúar allra flokka yrðu til þess sérstaklega settir að reyna að finna till. og hafa samstöðu um flutning till. á hv. Alþ. til lausnar dýrtíðarvandamálunum. En við höldum því fram, að margra ára reynsla sé fyrir því, að án allvíðtækrar samstöðu í þinginu og eins utan veggja þingsalanna sé borin von, að við þau erfiðu vandamál verði hægt að fást með árangri. Till. okkar í þessum efnum hafa allar verið stráfelldar, og flm. þeirra hefur af hálfu stjórnarliða verið gerður upp alls kyns annarlegur tilgangur í sambandi við tillöguflutninginn. Á meðan á þessu þófi hefur staðið, hefur dýrtíðin geystst áfram í þjóðfélaginu af óþekktum krafti, og hæstv. núv. ríkisstj. hefur gersamlega staðið ráðþrota gegn þeim vanda, sem hún hefur skapað í þjóðfélaginu og þá ekki sízt í undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar.

Þegar sú staðreynd er höfð í huga, að það er fyrst og fremst verðbólgan, sem er bein afleiðing þeirrar stjórnarstefnu, sem fylgt hefur verið í landinu á undanförnum árum, sem vandamálunum veldur í sjávarútveginum, er sú bráðabirgðalausn, sem frv. það, sem hér liggur fyrir og felur í sér að leysa vandann í þetta skipti á kostnað síldarsjómanna og síldarútvegsmanna, ósanngjörn í meira lagi, því að með engum rökum verður þessum sérstöku þegnum þjóðfélagsins kennt um verðbólguna. Hver atvinnugreinin af annarri ber sig nú upp undan erfiðleikum, sem við er að stríða hjá þeim í rekstri vegna vaxandi dýrtíðar og hækkandi rekstrarkostnaðar.

Formaður Stéttarsambands bænda lýsti þessu nýverið nokkuð í grein, er hann skrifaði í janúarhefti Freys. Þar sagði hann, með leyfi hæstv. forseta, m.a.: „Þýðingarmestu ályktanirnar, sem draga má af niðurstöðum þessara reikninga, eru þær, að bændur, eins og allur almenningur, tapa sífellt á verðbólgunni, að framleiðslukostnaðarverð á afurðum fjarlægist það að geta orðið samkeppnisfært á erlendum mörkuðum, eftir því sem dýrtíðin eykst.“ Enn fremur sagði hann, að það væri höfuðnauðsyn fyrir bændur sem þjóðfélagið í heild, að verðbólgan yrði stöðvuð.

Gunnar J. Friðriksson, formaður Félags ísl. iðnrekenda, skrifaði um ástandið í iðnaðinum við áramótin síðustu í grein, sem birtist í Morgunblaðinu 14. jan. s.l. Hann hafði þar m.a. þetta að segja:

„Á árinu 1964 tóku erfiðleikar að gera vart við sig í ýmsum greinum verksmiðjuiðnaðarins. Stöfuðu þeir af stórauknu frjálsræði í innflutningi, lækkun tollverndar með nýjum tollalögum, sem sett voru á miðju árinu 1963, og vegna örrar hækkunar framleiðslukostnaðar.“

Úr röðum sjávarútvegsmanna hafa þó kvartanirnar orðið mestar, sem vonlegt er, þar sem þeir verða að sæta erlendu markaðsverði fyrir framleiðslu sína, sem í mörgum tilfellum stendur ekki undir sívaxandi tilkostnaði við framleiðsluna þrátt fyrir umtalsverðar hækkanir á erlendum mörkuðum undanfarin ár.

Loftur Bjarnason hefur nýlega í ræðu lýst ástandinu í togaraútgerð landsmanna. Hæstv. sjútvmrh. skipaði sérstaka n. seint á s.l. ári til þess að athuga um leiðir til úrbóta á rekstrarvandamálum smærri báta í landinu, og margir útvegsmenn hafa vitnað um það í blöðum og á mannfundum að undanförnu, að rekstrargrundvöllurinn í sumum greinum útgerðarinnar væri nánast brostinn af völdum verðbólgunnar. Finnbogi Guðmundsson sagði m.a. í Þjóðviljanum 2. febr. s.l.: „Mér er óhætt að fullyrða, að við flestir atvinnurekendur í sjávarútvegi erum ákaflega kvíðnir út af framtíðinni vegna spennunnar á vinnumarkaðinum og hinnar gegndarlausu verðbólgu.“ Nýafstaðið fiskiþing lagði höfuðáherzlu á, að allt væri gert, sem unnt væri, til þess að stöðva dýrtíðina og engar nýjar álögur yrðu lagðar á útgerðina. Nýafstaðinn fundur frystihúsaeigenda, sem haldinn var s.l. föstudag hér í Reykjavík, samþykkti samhljóða að lýsa yfir áhyggjum sínum vegna vaxandi verðbólgu og mikillar samkeppni um takmarkað vinnuafl í landinu.

Það liggur þannig ljóst fyrir og er hafið yfir allan efa, að öllum höfuðatvinnuvegum landsmanna er verðbólgan ákaflega þung í skauti og aðalkrafa fyrirsvarsmanna allra þessara atvinnugreina er sú, að ríkisstj. og þingmeirihl. ráðist til atlögu gegn verðbólguvandanum. Þetta er að vísu ekki nýtt, því að svipaðar raddir höfum við áður heyrt. En það er mjög greinilegt, að þær fara nú í vöxt, þeim fjölgar, sem þessi ummæli hafa uppi, og raddir þeirra verða háværari. En hæstv. ríkisstj. hefur tekizt illa til í baráttunni við dýrtíðardrauginn þrátt fyrir mjög stóryrtar yfirlýsingar í upphafi valdaferils síns um fastan ásetning sinn um að framkvæma nú loks þær aðgerðir, er duga mundu í eitt skipti fyrir öll til þess að skera fyrir meinsemdir verðbólgunnar í landinu. Það er sagt í grg. með frv. þessu, og það kom einnig fram í ræðu hæstv. sjútvmrh., er hann fylgdi frv. þessu úr hlaði, að frv. er byggt á samkomulagi, sem tókst með fulltrúum fiskseljenda og fiskkaupenda í yfirnefnd verðlagsráðs sjávarútvegsins, þegar það fjallaði um verðákvörðunina á ferskfiski fyrir yfirstandandi verðlagsár. Þar sem verðákvörðun sú, sem samkomulag tókst um, 17%, gildir aðeins fyrir árið í ár, sýnist mér það rökrétt afleiðing að láta hækkun útflutningsgjaldsins á bræðslusíldarafurðum, sem stendur undir fiskverðshækkuninni að nokkru leyti, aðeins gilda fyrir sama tíma. Augljóst er a.m.k. að mínu viti, að lengri gildistími hins hækkaða útflutningsgjalds getur ekki byggzt á fyrrgreindu samkomulagi. Við hv. 3. þm. Norðurl. e. flytjum því sérstaka brtt. á þskj. 270 í þessa stefnu.

Ég vil að gefnu tilefni taka fram, og ég hygg, að ég mæli þar fyrir munn okkar framsóknarmannanna, sem stöndum að þessu nál., að við erum samþykkir þeirri meginstefnu út af fyrir sig, sem fram kemur í 2. gr. frv., að miða útflutningsgjaldið við magngjald, en ekki við verðmæti, enda flutti ég á hv. Alþ. á árinu 1963 frv. í þessa stefnu, sem þá hlaut ekki stuðning úr röðum stjórnarliða. Afstaða okkar, sem að nál. á þskj. 269, stöndum, er sú að leggjast ekki gegn framgangi þessa frv., af því og af því eingöngu að allvíðtækt samkomulag virðist hafa tekizt um meginefni þess með fulltrúum fiskseljenda og fiskkaupenda, eins og ég vék að áðan. En við ætlum okkur ekki heldur að veita frv. brautargengi, því að við teljum þá leið, sem valin er með því, orka mjög tvímælis í mörgum meginatriðum.

Í fyrsta lagi er það ljóst, að afkoma síldveiðiflotans hefur á undanförnum árum verið afar misjöfn. Smæstu skipin, þ.e.a.s. skip undir 90 brúttólestum, hafa s.l. tvö ár ekki fiskað það mikið, að nægi fyrir kauptryggingu, og hafa þau því fengið bætur úr aflatryggingasjóði þessi árin. Bátar af stærðinni frá 90—140 brúttólestir jöðruðu rétt við það að eiga bótarétt úr aflatryggingasjóði fyrir þessi árin, þannig að auðséð er, að umframgjaldþol þeirra er ekki heldur mikið. Hins vegar er það rétt, að afkoma stærstu síldarbátanna hefur verið allgóð þessi árin, a.m.k. flestra þeirra. En á það ber að líta, að fljótt getur brugðizt um veiði hjá þessum skipum og verðlag útfluttra bræðslusíldarafurða er háð stærri og meiri sveiflum frá ári til árs en algengast er um útfluttar sjávarafurðir. Svo er á það að líta enn fremur, að í flestum þessara nýju báta er bundið mikið og dýrt fjármagn, sem óafskrifað er að mestu leyti, og kostnaður við rekstur þessara báta, sem stafar eingöngu af völdum örra tæknibreytinga, að því er tekur bæði til veiðarfæra og þó sérstaklega veiðileitartækja, er ákaflega mikill.

Í öðru lagi er ljóst, að afkoma hluta frystihúsanna hefur verið góð að undanförnu og því sennilegt, að þau geti staðið undir 17% fiskverðshækkuninni. Önnur frystihúsin bera sig hins vegar miklu verr. Ráðstafanir af hálfu hins opinbera í lánamálum frystihúsanna, t.d. stóraukin hagkvæm stofnlán, er þau gætu notað til endurnýjunar og hagræðingar í rekstri sínum, hefðu að mínu viti vafalítið getað komið þeim að svipuðum notum og sú 4% meðgjöf með fiskverðinu, sem ætlunin er að leggja nú á síldarútvegsmenn og sjómenn, og sú leið hefði að mínu viti verið miklu eðlilegri en sú, sem ofan á varð og staðfest er með frv.- flutningi þessum.

Í þriðja lagi er útflutningsgjaldið á bræðslusíldarafurðum orðið svo hátt, um 40 kr. á hvert veitt síldarmál, að það hefur veruleg áhrif á skiptakjörin á síldarbátunum. Um 20 millj. kr. skatt á með frv. að leggja á hluti sjómannana til þessara þarfa. En ég tel, að eðlilegra hefði verið að afla þeirra tekna, er með hefði þurft, með almennri skattlagningu á landsmenn alla. Þrátt fyrir þessa miklu skattheimtu á sjómenn er ekki í frv. að finna nokkurn stafkrók um það, að þeir eða samtök þeirra séu þess verð að hljóta hluta af útflutningsgjaldinu, svo sem gert er með frv. um samtök útvegsmanna. Út af fyrir sig er það augljóst ranglæti, því að sannanlegt er, að sjómennirnir greiða um helming útflutningsgjaldsins af sinum tekjum, alveg eins og útvegsmennirnir gera af sínum.

Höfuðgalli þessa frv. er þó sá að mínu viti, að með því að leggja það fram sýnir hæstv. ríkisstj. áframhaldandi stefnuleysi og ákveðin vilja í þá áttina að víkja sér undan þeim vanda með því að grípa til bráðabirgðaráðstafana. Verðbólgan er höfuðskaðvaldurinn í rekstri sjávarútvegsins, og það á að vera frumskylda hverrar ríkisstj. að reka þá efnahagsstefnu, er tryggir undirstöðuatvinnuvegunum sæmilega rekstrarafkomu í meðalárferði. Langt er frá því, að svo sé í dag. Sjávarútvegurinn er veigamikill þáttur í efnahagsbúskap okkar og sé stæður umfram aðra atvinnuvegi að því leyti, að afurðir hans eru seldar á erlendum mörkuðu að langmestu leyti og lúta því erlendu markaðsverði, sem við ráðum engu um, hvað er í það og það skiptið. Stjórnarstefna, sem ekki miðar við þessa meginstaðreynd, er því röng að mínu viti. Ég tel þannig fráleitt, að í þjóðfélagi se okkar, þar sem ríkjandi er lánsfjárskortur og hefur verið ríkjandi lánsfjárskortur um margra ára bil, skuli þessum atvinnuvegi enginn forgangur tryggður til lánsfjárins umfram margt annað. Ég tel einnig réttlætanlegt, að lánakjörin til þessa atvinnuvegar væru betri en til ýmislegs annars, sem lánað er til.

Þótt ég sé því ekki mótfallinn, að atvinnuvegirnir leggi nokkuð af mörkum til að byggja upp stofnlánasjóði hjá sér með hæfilegu gjaldi, eru takmörk fyrir því, hversu hátt það má vera.

Stofnlánasjóður sjávarútvegsins, fiskveiðasjóður, hefur verið byggður upp að langmestu leyti með útflutningsgjaldi á útfluttar sjávarafurðir, sem getur skv. frv., ef að lögum verður, orðið allt að 8% af fob.-verðmæti útflutningsins. Á sama tíma innheimta Norðmenn, sem eru aðalkeppinautar okkar um markaðina, útflutningsgjald af sjávarafurðum, sem nemur aðeins hluta úr 1%. Augljóst er, til hvers þetta leiðir. Þjóðfélagið á því að leggja hluta af sparifjármynduninni á hverjum tíma til fiskveiðasjóðs. Það er fyllilega eðlileg og réttmæt ráðstöfun.

Ég trúi því, að ef fiskiðnaðurinn hefði á undanförnum árum átt kost á nægum og hentugum lánum til hagræðingar, hefðu frystihúsin sæmilega getað staðið undir 17% verðhækkun þeirri, sem ákveðin var af yfirnefnd verðlagsráðsins í byrjun janúar, þrátt fyrir vaxandi framleiðslukostnað af völdum verðbólgunnar. Það hefði verið eðlilegra, að hæstv. ríkisstj. hefði boðið upp á einhverja slíka fyrirgreiðslu, er í nauðirnar rak með verðákvörðunina á ferskfiskinum, en varpaði ekki afleiðingum óstjórnar sinnar yfir á bök síldarsjómanna og síldarútvegsmanna, þótt um sinn hafi nokkur hluti þeirra haft góðar tekjur og heildarafkoman verið góð.