18.10.1965
Sameinað þing: 4. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í B-deild Alþingistíðinda. (39)

1. mál, fjárlög 1966

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það eru í rauninni ekki mörg atriði, sem ég þarf að svara hér í ræðum hv. stjórnarandstæðinga. Hv. talsmaður Alþb. kom að litlu leyti inn á fjárlögin, heldur ræddi mörg önnur atriði, sem út af fyrir sig voru fróðleg, en ekki varða það mál, sem hér liggur fyrir, einkanlega stóriðju. Það mál út af fyrir sig væri fróðlegt að ræða, en það gefst tækifæri til þess síðar á þessu þingi, og tel ég ekki ástæðu til að lengja þessar umræður hvað það snertir.

Hann var að sjálfsögðu óánægður með fjárlfrv., og er ekkert við því að segja. En það örlaði þó naumast á nokkurri viðleitni til að benda á, hvaða úrræði ætti að velja til þess að leysa þann vanda, sem nú er við að glíma og ég lýsti ákveðið í einstökum atriðum og að ég hélt skýrt og greinilega í minni framsöguræðu. Það var töluvert fróðlegt að heyra hann tala um það, að sá vandi, sem ríkissjóður hefði átt við að glíma á árinu 1964, stafaði af því, hvað útlán bankanna hefðu verið mikil og hvað hefði verið úthlutað miklu framkvæmdafé á árinu 1963. Hingað til hefur það verið aðaldeiluefni hv. Alþb.-manna á hendur ríkisstj., að hún hafi skorið niður verklegar framkvæmdir og það til mikils ills og takmarki útlán bankanna. Nú á ógæfan 1964 og halli ríkissjóðs fyrst og fremst að hafa stafað af þessum ástæðum.

Hann kvað óþarfaeyðslu vera mikla. Þetta höfum við oft áður heyrt. Hann gerði þó tilraun til þess, sem hv. samþingismaður hans af Austurlandi gerði ekki, að benda á nokkur atriði, þar sem spara mætti. Það mætti leggja niður lögreglu á Keflavíkurflugvelli, það mætti leggja niður nokkur sendiráð, ganga úr NATO, leggja niður eitt prestsembætti og hætta að greiða ferðakostnað fyrir ráðuneytin og byggja ekki embættisbústaði eða kaupa embættisbústaði. Ég er sammála honum um það síðasta, að kaup á embættisbústað í sambandi við húsakaup af Guðmundi Í. Guðmundssyni voru ekki sérlega hagstæð fyrir ríkið, en það eftirtektarverða er, að þau kaup skuli hafa verið til komin fyrir tilverknað vinstri stjórnarinnar. Þó að allt þetta væri gert, sem hv. þm. talaði um, þó að við legðum niður öll þau sendiráð, sem hann nefndi, og þetta eina prestsembætti, og afnæmum allan ferðakostnað ráðuneyta, hættum öllum embættisbústöðum, þá sér auðvitað hver heilvita maður, að þessir liðir eru ekki nema svolítið brot af öllum útgjöldum ríkisins og skipta sáralitlu máli. Það breytir ekki því, að það er sjálfsagt að skoða allar till. sem þessar. En að halda því að fólki, að atriði sem þessi, og óljósar fullyrðingar um, að ótalmargt annað komi til greina, sem við höfum nú séð hér á hinu háa Alþingi undanfarin ár, hvernig er í reynd, fullyrðingar sem þessar um, að hér liggi hundurinn grafinn, ef svo má segja, varðandi erfiðleika ríkissjóðs, eru auðvitað gersamlega út í hött, þegar við litum á fjárl., sem nema 3700–3800 millj. kr.

Það var að sjálfsögðu mjög einkennileg kenning hjá hv. þm. að halda því fram, að það hefði orðið til að lagfæra hag ríkissjóðs, ef ekki hefði verið gripið til söluskattshækkunarinnar í ársbyrjun 1964. Þá hefði nú fyrst keyrt um þverbak.

Hann kom að því, að framleiðslan hefði aukizt meira en hjá öðrum þjóðum. Það er rétt, framleiðsluaukningin síðustu árin hefur verið meiri en hjá flestum öðrum þjóðum og meiri en áður hefur þekkzt hér á Íslandi. Og þó að það sé auðvitað ekki nema að nokkru leyti hægt að segja, að það sé stjórnarvöldunum að þakka, þá getur það þó naumast verið, að það sýni, að hér hafi verið illviljuð ríkisstj., sérstaklega framleiðsluatvinnuvegunum, þegar slíkt hefur gerzt, enda vitum við, að mikill þáttur í þeirri framleiðsluaukningu, sem verið hefur, er einmitt hin miklu skipakaup, sem verið hafa nú á síðustu árum og hafa lagt t.d. grundvöll að hinum mikla síldarafla, sem nú hefur komið á land.

Varðandi það, sem hann síðar sagði um, að þessi ríkisstj. hefði fylgt fjandskaparstefnu gegn launþegum, verð ég að mótmæla því, og ég held, að hv. þm. meini það raunverulega ekki, þó að hann haldi því fram hér. Ég held, að það sé óhætt að fullyrða það án nokkurra öfga, að fáar eða engar ríkisstjórnir hafi lagt sig eins fram um það og núverandi ríkisstj. síðustu árin að skapa skilning á því að bæta kjör þeirra, sem verst eru settir í þjóðfélaginu. Þetta veit ég, að hv. þm. viðurkennir í raun, og þess vegna harma ég það, að hann skuli hafa þær fullyrðingar í frammi, sem hann gerði í þessu efni, þar sem allt annað er hið rétta.

Ég sé svo ekki ástæðu til að verja lengri tíma til að svara ræðu hv. þm. Hún var að mörgu leyti hófsamleg og ekki gerð tilraun til þess að rangfæra efnislega veigamikil atriði. En það var nokkuð á annan veg, þegar við komum að hv. talsmanni hinnar leiðarinnar, hinnar stefnunnar, hinum manninum, sem vildi, að við værum hinsegin, en ekki svona, þ.e.a.s. hugsuðum öðruvísi, töluðum öðruvísi og þar fram eftir götunum. Mér fannst satt að segja, að það væri mikill kjarkur af þessum hv. þm., sem hefur verið lengur fjmrh. en nokkur annar, að leyfa sér að flytja þann boðskap um hina leiðina, sem hann flutti hér í kvöld. Í síðustu kosningum gengu framsóknarmenn til kosninga undir kjörorðinu, að þeir vildu fá þriðju leiðina. Reyndin varð sú, að almenningur í landinu vildi ekki mikið hlusta á fullyrðingarnar um þessa leið, vegna þess að gallinn var sá, að það vissi enginn, hver þessi leið var, og því fékkst aldrei svarað. Það er nákvæmlega það sama, sem gerist hér. Hér hafa menn heyrt lýst hinni leiðinni í kvöld. Að svo miklu leyti sem hægt er að átta sig á, hver hin leiðin er, þá er hún þessi: Það á að auka framlög til allra hugsanlegra hluta í þjóðfélaginu. Það á að margfalda þessi framlög. Og það á jafnframt að afnema sem mest af þeim sköttum, sem á hefur verið lagt. Hann tiltók ótal skatta, þessi hv. þm., sem hann taldi vera hina mestu óhæfu. Ég man ekki betur að vísu en að hann og hans flokkur hafi verið með öllum þeim hlutum, sem féð átti að ganga til, sem voru tekjur af þessum sköttum. Nú er hann á móti þeim öllum. Meira að segja reynir hann að ala á óánægju, sem hefur komið upp varðandi umferðargjald á Keflavíkurvegi. Hvað heldur hann, að yrði til örvunar vegaframkvæmdum á Austurlandi eða öðrum landshlutum, sem hann talaði um að skorti vegi, ef yrði fallið frá þessu og lagt á ríkissjóð eða vegasjóð að borga þær 265 millj. kr., sem lagðar hafa verið í Keflavíkurveg? Hitt er rétt, að þessi hv. þm. og flokkur hans vildi á síðasta þingi leggja öll þessi útgjöld á ríkissjóð. Það munu hafa verið um 200 millj. kr., sem átti til viðbótar öllu öðru áð leggja á ríkissjóðinn. Og mér er ekki kunnugt um, að þeir hafi greitt atkvæði á móti einni einustu till. um útgjöld, sem lögð voru á ríkissjóðinn á því þingi. En ef það hefði orðið sú niðurstaðan, að orðið hefði verið við öllum þessum óskum, ef hin stefnan hefði verið ríkjandi að undanförnu og hinn maðurinn hefði fengið að móta stefnuna í fjármálum, þá sjáum við útkomuna á þeim boðskap, sem hann flytur hér þjóðinni í kvöld, og mig furðar, að jafnreyndur maður og Eysteinn Jónsson skuli reyna að flytja þann boðskap, sem hlýtur að gera ráð fyrir því, að áheyrendur séu miklu grunnhyggnari en nokkur ástæða er til að halda að almennin ur í landinu sé. Eftir að það er kominn halli hjá ríkissjóði og þegar verið er að ræða um fjárlög, þar sem það er meginviðfangsefnið að stöðva greiðsluhalla, mjög alvarlegan greiðsluhalla, sem orðið hefur, þá er uppistaðan í ræðu hv. form. Framsfl. sú, boðskapur hinnar stefnunnar sá, að það eigi að stórauka öll útgjöld, það sé óhæfa að hafa lagt á skatta og leiðin sé ekki önnur en sú að taka upp hina stefnuna, hina leiðina, sem enginn veit hver er.

Minni skattar, enn meiri framkvæmdir, þetta hljómar ákaflega vel. En ég held sannast sagna, að þetta hljómi ekki vel nema í eyrum framsóknarmanna sjálfra, og þó held ég, að það hljómi ekki vel í eyrum nema sárfárra þeirra, kannske ekki nema í eyrum mannsins, sem fann upp hina stefnuna, mannsins, sem var að ljúka ræðu sinni hér áðan.

Svo eru það öll umbótamálin, sem Framsfl. hefur knúið fram, m. a. það, að hann hafi nú fengið því framgengt, að það hafi verið fengið fé til Vestfjarðaáætlunarinnar. Hvílíkt hugmyndaflug!

Á meðal margs, sem þessi hv. þm. sagði og var allt álíka rökstutt, var það, að ástand í húsnæðismálum hefði stórkostlega versnað og ekkert væri í þeim efnum gert. Ég hélt, að allir hv. þm. vissu, að það hafa verið gerð stærri átök í þessum málum nú en nokkru sinni fyrr, og í sambandi við þá samninga, sem gerðir voru við stéttarfélögin nú í sumar, er gert ráð fyrir algerlega óþekktum átökum hér á landi í sambandi við lausn húsnæðismála.

Þessi hv. þm., hinn margreyndi fjmrh., veit að sjálfsögðu mætavel, hvað það er þægilegt að koma við sparnaði, því að hann veit það úr öllum sínum fjárlagaræðum, þegar hann var að boða sparnað, og hver niðurstaðan varð, hve auðvelt það var að skera niður hin margþættu útgjöld ríkisins, enda var lausnarorðið hjá honum í kvöld aðeins þetta, að núverandi ríkisstj. hefði komið á alls konar skriffinnsku og tildri og hin stefnan væri sú að afnema þetta tildur. Hvert þetta tildur er, það forðaðist hv. þm. gersamlega að minnast á, ekki einu orði. Hv. samþingismaður hans, Lúðvík Jósefsson, taldi þó upp nokkur atriði sem dæmi um tildrið. Nei, það taldi hv. þm. Eysteinn Jónsson ekki ástæðu til að gera, heldur aðeins tvítaka fullyrðingar um tildur.

Því miður bar öll ræða hans þau einkenni að vera tildur. Í henni var hroðað upp samsafni af því, sem hann taldi að væri til þess fallið, að það væri eitthvað fyrir alla óánægða. Það er víst byggt á sömu kenningunni og eitt blað hér í borg hefur að mottói: eitthvað fyrir alla eða blað fyrir alla. Og ræða hv. þm. var nokkuð í svipuðum dúr og það blað oft skrifar. M. a. var nú sú perlan hjá hv. þm., að samvinnuhreyfingin væri lögð hér sérstaklega í einelti og þess vegna gæti hún ekki stuðlað að neinum umbótum í verzlun. Ég veit ekki til, að neinn leggi samvinnuhreyfinguna hér í einelti nema Framsfl. Hún getur aldrei undan honum sloppið, og það er böl samvinnuhreyfingarinnar í dag að geta ekki losnað við Framsfl., þannig að ég hygg, að ef hv. þm. vildi beita sér fyrir því, að Framsfl. léti samvinnuhreyfinguna í friði, þá gæti hún unnið margt gott verk, sem henni er meinað að vinna í dag.

Hann vék að verðbólgunni og sagði, að núv. ríkisstj. væri verðbólgustjórn. Þetta höfum við heyrt, held ég, einhvern tíma áður af vörum hv. þm. og flokksbræðra hans, og sannast sagna skil ég ekki, hvað menn endast til að halda fram svona fásinnu. Núv. ríkisstj. hefur alla sína tíð varað við þeim aðgerðum, sem því miður hafa verið gerðar af ýmsum aðilum og hafa leitt til þeirrar verðbólguþróunar, sem er. Ríkisstj. lofaði aldrei að stöðva verðbólguna. Hún lofaði því einu að beita aðgerðum sínum, eftir því sem auðið væri, til þess að vinna gegn verðbólgunni. Það hefur hins vegar komið í ljós, að því miður hefur ekki ríkt sá skilningur í þjóðfélaginu, að hægt væri að fá samstöðu um nægilegar ráðstafanir til að stöðva verðbólguna. Eins og ég vék að í minni framsöguræðu, standa vonir þó til þess, að fyrir þessu sé aukinn skilningur. Sá skilningur kemur ekki frá hv. framsóknarmönnum, vegna þess að við vitum það allir hér á hinu háa Alþingi og þjóðin öll veit það, að í sambandi við þá samninga, sem gerðir hafa verið við verkalýðsfélögin nú síðustu tvö árin og má telja skaplega samninga og byggjast á álit öðru hugarfari en áður hefur verið, þar gerði Framsfl. og hv. formaður hans, Eysteinn Jónsson, allt, sem í þeirra valdi stóð til að eyðileggja þessa samninga, til þess að skapa meiri verðbólgu, til þess að skapa meiri vandræði.

Nú er óskapazt yfir útgjöldum ríkissjóðs, sem að meginhluta til stafa af stórkostlegum launahækkunum. Hefur Framsfl. verið á móti þessum launahækkunum? Skyldi hann vera á móti því, að ríkisstarfsmenn fengju launakjör sín bætt? Ég held ekki. Það verður a. m. k. fróðlegt að sjá fullyrðingar um það efni.

Ég held, að ég þurfi ekki að fara fleiri orðum um ræðu hv. 1. þm. Austf. Ég held, að hverjum, sem á hana hefur hlýtt, hafi hlotið að renna til rifja, að þessi mæti maður skuli hafa látið tilhneiginguna til innihaldslauss áróðursglamurs ná svo tökum á sér, að hann hefur gersamlega varpað fyrir borð þeirri gætni í málflutningi í sambandi við fjárlög og fjármál ríkisins, sem einkenndi hann, meðan hann fór með þau mál. Við áttum þá oft samvinnu saman, við Eysteinn Jónsson, og áttum hlut að því að setja saman fjárlög, og það var sannarlega ekki sá hugsunarháttur, sem þá réð hjá þessum hv. þm. En það er kannske eins með þetta og með friðinn í heiminum, að það hefur komið í ljós, að friðarhorfur í heiminum fara mjög eftir því, hvort Framsfl. er í stjórn. Ef hann er ekki í stjórn, er mjög friðsamlegt útlit í veröldinni, þannig að það er mjög auðvelt að láta varnarlið fara frá Íslandi. Þegar hann kemur í stjórn, versna stórlega allar friðarhorfur, þannig að það er brýn nauðsyn að halda uppi sem traustustum vörnum. Þetta er eitthvað svipað boðskapnum um fjárl. og í sambandi við fjármál ríkisins. Þegar hv. formaður Framsfl., Eysteinn Jónsson, er fjmrh., þá er sjálfsagt að taka allt föstum tökum, þá er allt í voða, ef á að gera kröfur á hendur ríkissjóði, þá er allt í voða, ef ekki má hækka skatta, og sýnir ábyrgðarleysi, ef menn eru á móti nýjum og nýjum sköttum. En ef hv. þm. Eysteinn Jónsson er í stjórnarandstöðu, þá er dæmalaust að stórauka ekki öll útgjöld ríkisins, þá er dæmalaust að lækka ekki alla skatta, þá er það hrein óhæfa að gera ráðstafanir til þess að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög, þá má allt vera á floti og kviksyndi, það gerir ekkert til, það er allt í lagi. Ég held ekki, að svona málflutningur verki til lengdar vel á þjóðina, og ég held, að þetta sé kannske ástæðan til þess fyrst og fremst, að fólkið vill ekki treysta Framsfl. til þess að fara með forustu sinna mála. Og ég held, að ef þeir halda áfram að ganga þessa hina leið sína og hina götu sem þeir hafa valið sér, eftir að hafa gefizt upp á þriðju leiðinni, þá séu ekki miklar líkur til þess, að þeir verði fyrir því láni, sem allur þeirra hugur þó stefnir að, og það er að fá að taka að sér ráðherrastólana, fá að bera ábyrgð á fjárlögum, fá að deila á menn fyrir það að heimta hærri útgjöld úr ríkissjóði og deila á menn fyrir það að vilja ekki hærri skatta. Við skulum sjá, hvort það yrði ekki fljótt skipt um tón, ef þannig yrði.

Nei, það er alvörumál, sem við stöndum andspænis, og það er ekki leyfilegt fyrir þá menn, sem ábyrgir vilja teljast, að taka því með tilduryrðum og glamri. Það er allt annað, sem þjóðin þarfnast. Það getur vel verið, að það sé eitt og annað skakkt af því, sem við leggjum til í sambandi við þetta fjárlfrv., og eins og ég áðan sagði, finnst mér sjálfsagt að íhuga allar skynsamlegar leiðir, sem af alvöru og einlægni er bent á af áhuga á að leysa vandamálin. En það þýðir ekki að halda því að þjóðinni, að það sé hægt að heimta hærri útgjöld á öllum sviðum, þegar ríkisbúskapurinn er þannig staddur eins og hann er í dag, og það sé hægt að skammast og óskapast yfir öllum úrræðum til þess að jafna þann halla, sem orðinn er á ríkisbúskapnum. Þetta vill þjóðin ekki. Hún skilur vandann allt of vel til þess að vilja hlusta á svona raddir. Hún veit, hvað hún á í húfi, ef ekki tekst að stöðva þá þróun, sem nú er. Hún vill þess vegna fylkja sér að baki þeim mönnum, sem raunverulega vilja stöðva verðbólgu, vilja leggja grundvöll að raunhæfum framförum í landinu, vilja stuðla að því, að hér geti verið hallalaus ríkisbúskapur, vilja stuðla að því með skynsemi að halda sköttum í skefjum og vinna af raunsæi að því að byggja upp framtíðarheill íslenzku þjóðarinnar. Og það tjóar ekki í ofanálag á þetta allt saman, sem hér hefur verið flutt, að óskapast og taka undir kommúnistískan áróður um, að það megi alls ekki ljá því eyra eða megi ekki athuga það, hvort það geti ekki verið hagkvæmt fyrir okkur að fá erlent fjármagn til frekari uppbyggingar í okkar landi, þar sem er stórvaxandi þjóð, sem við verðum að sjá fyrir nægilegum verkefnum í framtíðinni. Sjávarútvegurinn er vissulega haldreipi okkar í dag. En við skulum gera okkur grein fyrir því, að það er atvinnuvegur, sem er þess eðlis, að hann getur brugðizt hvenær sem er. Og það væri fullkomið ábyrgðarleysi af hvaða ríkisstj. sem væri að athuga það ekki af fullri alvöru og kanna öll úrræði til þess að leita eftir að gera atvinnulífið fjölþættara og skapa þjóðinni bjarta framtíð og atvinnulegt öryggi í framtíðinni.

Ég sé ekki, herra forseti, ástæðu til þess að hafa þessi orð mín fleiri, að umr. hafi gefið tilefni til þess, og býð hv. hlustendum að lokum góða nótt.