14.10.1965
Efri deild: 3. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í B-deild Alþingistíðinda. (395)

4. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að segja örfá orð um þetta mál, áður en það fer til n.

Bjargráðasjóður hefur því hlutverki að gegna að veita lán eða óafturkræf framlög til þess að mæta tjóni, sem atvinnurekendur til lands eða sjávar verða fyrir af náttúrunnar völdum. Ég ætla, að það séu nú meira en 50 ár, síðan lög um bjargráðasjóð voru fyrst sett, og bendir það til þess, að löggjafinn hafi tiltölulega snemma komið auga á, að nauðsyn bæri til að setja á fót sjóð, sem gegndi þessu hlutverki. Bjargráðasjóður hefur síðan verið efldur með endurskoðun laganna, a.m.k. bæði 1950 og 1961. En þrátt fyrir það er það ekkert vafamál. að þessi sjóður hefur yfir allt of litlu fjármagni að ráða til þess að geta sinnt því hlutverki, sem honum er ætlað, eins og verðmæti eru orðin mikil í atvinnurekstri landsmanna nú á tímum. Þetta hefur mörgum í hópi alþm. verið ljóst, og þess vegna hafa á undanförnum þingum verið fluttar till. um að undirbúa tryggingasjóð eða stofnun fyrir landbúnaðinn, sem gegndi hliðstæðu hlutverki fyrir landbúnaðinn og aflatryggingasjóður gerir fyrir sjávarútveginn. Og hinn 1. apríl 1964 var afgreidd hér á hv. Alþ. þál. um þetta mál, þ.e. um tryggingar gegn uppskerubresti og afurðatjóni í landbúnaði. Þessi ályktun hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að skipa 4 menn í n., einn tilnefndan af stjórn Bjargráðasjóðs Íslands, annan af Búnaðarfélagi Íslands, hinn þriðja af Stéttarsambandi bænda og hinn fjórða án tilnefningar, til að endurskoða lög um búfjártryggingar og önnur lög, er málið varða, í því skyni, að komið verði á fót fyrir landbúnaðinn tryggingum gegn uppskerubresti og afurðatjóni með hliðsjón af aflatryggingu sjávarútvegsins. Sá nm., sem skipaður er af ríkisstj. án tilnefningar, skal vera form. nefndarinnar.“

Ég vil leyfa mér í þessu sambandi að beina þeim fsp. til hæstv. ráðh., hvað liði undirbúningi þess máls, sem þál. sú, sem ég var að lesa, fjallar um, og í öðru lagi, hvort vænta megi af hendi ríkisstj. frv. um þetta efni á þessu þingi, sem nú er að hefja störf. En í aths. við þetta frv., sem hér liggur fyrir, og í ræðu hæstv. ráðh. kemur það fram, að ástæðan til þess, að þetta frv. er flutt, er fyrst og fremst sú, að bjargráðasjóður hefur orðið að hlaupa undir bagga með bændum, einkum á Austurlandi, nú á þessu hausti vegna þess mikla grasbrests, sem þar hefur orðið vegna kals í túnum. Þetta sýnir ótvírætt, að frv. það, sem hér er til umr., er borið fram af ríkri nauðsyn, og það er vitanlega réttmætt og sjálfsagt að greiða fyrir samþykkt þess, eftir því sem frekast er kostur.

En það, sem ég hef að athuga við þetta frv., er einungis það, að mér virðist, að með því sé of skammt gengið. Og ég ætla að færa þessum orðum stað með því að benda sérstaklega á einn þátt, sem þarf að gefa gætur í þessu sambandi. Það eru margir nú á dögum, sem telja sig bera skyn á málefni landbúnaðarins, og það, sem um þau er sagt, er af misjöfnum toga spunnið. Ég ætla ekki í þessu sambandi að fara að ræða landbúnaðarmálin almennt, en þrátt fyrir misjafnar skoðanir virðist þó mönnum koma saman um það, að framleiðsla landbúnaðarafurða þurfi að vera sem fjölbreyttust og fullnægja þörfum þjóðarinnar í sem flestum greinum. En einn þáttur landbúnaðarframleiðslunnar og hann ekki veigalítill er framleiðsla garðávaxta. Það eru matvæli, sem þjóðina má ekki skorta og þarf að framleiða mikið magn af á hverju sumri. Nú eru skilyrði til garðræktar mjög misjöfn í hinum ýmsu héruðum landsins. Og það tel ég ekki óeðlilegt, að nokkur verkaskipting verði innan bændastéttarinnar um framleiðsluna, þannig að þar sem skilyrði eru bezt til garðræktar, séu að miklu leyti afurðir búanna bundnar við þá framleiðslugrein, en í öðrum héruðum séu garðávextir lítið eða ekki ræktaðir. En þessi framleiðsla er mjög áfallasöm og er jafnvel meira háð veðurfari en grasræktin og sú framleiðsla, sem á henni byggist. En eins og lögin um bjargráðasjóð eru, telur stjórn sjóðsins naumast heimilt og að ekki sé ráð fyrir því gert, að sjóðurinn bæti tjón, sem verður við framleiðslu garðávaxta. Ég mæli þetta af nokkurri reynslu, og ég get stutt þessi almennu orð með ákveðnu dæmi. Hornafjörður hefur um langt skeið verið mikið kartöfluræktarhérað, og Hornafjarðarkartöflur hafa oft verið auglýstar sem sérstök gæðavara, úrvalskartöflur. Nú hefur borið svo við, að undanfarin ár, nokkur ár í röð, hefur þar orðið mikið afurðatjón, vegna þess að þessi framleiðsla hefur ekki heppnazt vegna áfalla af náttúrunnar völdum. Og þannig var það s.l. sumar, að hafísinn lá við strönd Austurlands og var klaki óvenjulega lengi í jörðu í Hornafirði og ekki hægt að sá garðávöxtum fyrr en 4—5 vikum seinna en venjulegt var, og hafði það sín áhrif á uppskeruna á þessu sumri. Þeir, sem hafa orðið fyrir skakkaföllum af þessum sökum, hafa oftar en einu sinni leitað til bjargráðasjóðs um lán, ekki verulega fjárhagsaðstoð eða óafturkræf framlög, heldur að fá nokkra fyrirgreiðslu í lánaformi til þess að komast yfir þessi tímabundnu skakkaföll. Og það hafa verið sendar umsóknir og safnað skýrslum í þessu sambandi. En þetta liggur allt óafgreitt hjá stjórn bjargráðasjóðs, og svör þau, sem hún veitir, eru eiginlega nánast þau, að lögin geri ekki ráð fyrir eða jafnvel heimili ekki að bæta tjón af þessu tagi og í annan stað séu fjárráð sjóðsins svo lítill, að það sé ekki mögulegt að verða við þessum umsóknum.

Ég vildi koma þessu sjónarmiði á framfæri, áður en þetta mál fer til nefndar, í trausti þess, að n., sem fjallar um þetta frv., leitist við að bæta þarna úr augljósum ágöllum á löggjöfinni og opna a.m.k. leið til þess, að það sé ekki óheimilt að bæta tjón, sem bændur verða fyrir, sem stundað hafa garðrækt — sem hafa hana að atvinnu eða stunda þessa framleiðslugrein.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál. En þótt ég geri þessar aths., endurtek ég það, að það er augljóst, að þetta frv. er borið fram af ríkri nauðsyn og það er sjálfsagt að greiða götu þess gegnum þingið, eftir því sem framast er kostur.