03.03.1966
Neðri deild: 50. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í B-deild Alþingistíðinda. (406)

4. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Axel Jónsson:

Herra forseti. Lög um Bjargráðasjóð Íslands voru fyrst sett árið 1913 og hafa verið í gildi síðan, en hafa eðlilega tekið ýmsum breytingum. Tilgangur laganna um bjargráðasjóð er, að sjóðurinn komi til hjálpar, þegar að steðja vandræði af náttúrunnar völdum, og þá með lánveitingum eða styrkveitingum til sveitarfélaga og einstaklinga.

Hér liggur fyrir frv., um breytingu á gildandi lögum, og miðar breytingin að því að hækka framlög til sjóðsins og á þann hátt stuðla eð því, að sjóðurinn verði frekar megnugur að sinna sínu hlutverki. Frá 1961 hafa sveitarfélög greitt 5 kr. af hverjum íbúa til sjóðsins, og ríkissjóður greiðir jafnháa upphæð. Nú er lagt til að hækka þetta úr 5 kr. í 10 kr. Í öðru lagi er breyt. við 9. gr. l. til þess að skilgreina nánar, til hvers heimilt sé að verja fé úr sjóðnum. Í þessum viðaukalið við 9. gr. segir svo: „að veita bændum lán eða styrk úr sjóðnum, ef þeir verða ella að farga bústofni sínum vegna grasbrests, svo að til auðnar horfi. Lán samkv. þessum staflið skulu tryggð með ábyrgð hlutaðeigandi sveitarfélaga eða annarri öruggri tryggingu.“ Í athugasemdum við frv. segir enn fremur, að á þessu ári nemi framlögin samtals ca. 1,9 millj. kr. Sjóðurinn hefur orðið að hlaupa undir bagga með bændum, einkum á Austurlandi, nú á þessu hausti vegna hins mikla grasbrests, sem þar hefur orðið vegna kals í túnum. Sjóðurinn hefur varið í þessu skyni samtals 6.6 millj. kr., þar af 4.2 millj. kr. sem styrk og 2.4 millj. kr. sem vaxtalausum lánum til 5 ára. Til þess að geta gert þetta varð sjóðurinn að taka 3 millj. kr. lán í Búnaðarbankanum. Af þessu má ljóst vera, að tekjur þær, sem sjóðurinn hefur nú, hrökkva ekki til þess að veita slíka aðstoð sem hér um ræðir.

Hv. Ed. afgreiddi þetta frv. shlj. og heilbr.- og

félmn. þessarar hv. þd. hefur athuga frv., og eins og fram kemur á þskj. 271, leggur n. einróma til, að það verði samþ., en einn nm., Hannibal Valdimarsson, var fjarstaddur, þegar málið var afgreitt.

Herra forseti. Með tilvísun til þessa legg ég til, að frv. verði samþ.