25.10.1965
Neðri deild: 6. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í B-deild Alþingistíðinda. (412)

19. mál, eignarréttur og afnotaréttur fasteigna

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Stjfrv. samhljóða í meginatriðum þessu frv. var lagt fyrir síðasta þing, en náði þá ekki afgreiðslu, en þetta frv. er endurskoðun á löggjöf okkar um eignarrétt og afnotarétt fasteigna frá 1919 og má segja að snerti aðallega, hvaða rétt útlendingar eða erlendir menn hafa til þess að eiga og nota fasteignir hér á landi. Frá núgildandi löggjöf felast aðallega í þessu frv. þær breytingar, að tekin eru upp ákvæði, sem miða við ríkisfang sem skilyrði fyrir réttindum yfir fasteign í stað heimilisfangs, sem er skilyrði núgildandi laga. Jafnframt er í þessu frv., sem ekki er í eldri löggjöf, ákvæði um, að meiri hluti hlutafjár í hlutafélögum skuli vera eign íslenzkra ríkisborgara, ef félögin eiga að geta án ráðherraleyfis átt fasteign hér á landi. Frá frv., sem lagt var fyrir á síðasta Alþingi, er m.a. sú breyting í 1. gr., að í hlutafélögum skulu 4/5 hlutar hlutafjár vera eign íslenzkra ríkisborgara og íslenzkir ríkisborgarar fara með meiri hluta atkvæða á hluthafafundum, en þarna hef ég tekið upp ábendingu, sem kom fram í meðferð málsins á síðasta Alþingi frá minni hl. um, að 4/5 hlutar skuli vera eign íslenzkra ríkisborgara í hlutafélögum, en í frv., eins og það var flutt í fyrra, var aðeins meiri

hluti. Að öðru leyti má segja, að þetta frv. sé mjög í samræmi við löggjöf skandinavísku þjóðanna, en þó er hún kannske nokkru frjálslegri en okkar löggjöf, og má segja, að það sé kannske ekki óeðlilegt, miðað við, hvað aðstaða okkar er sérstæð vegna smæðar þjóðar okkar.

Ég vona, að það þurfi ekki með þeirri breytingu, sem nú hefur orðið, að verða neinn ágreiningur um þetta mál, og leyfi mér að leggja til, að því verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og til hv. allshn.