17.02.1966
Neðri deild: 42. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í B-deild Alþingistíðinda. (420)

19. mál, eignarréttur og afnotaréttur fasteigna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hafði nú hálfpartinn haldið, að hæstv. iðnmrh. mundi gefa hér einhverja yfirlýsingu út af þessu máli. Ég hafði skilið það á þeim umr., sem hér fóru fram seinast, og hafði dokað við eftir því, og nú sé ég, að hann er ekki einu sinni við hér í svipinn. En það var ein setning, sem ég hnaut nokkuð um í hans ræðu, sem haldin var síðast um þetta mál, og það var sú setning, hvort við þyrftum að óttast, að því valdi, sem ráðh. hefði til þess að gefa leyfi til kaupa fyrir útlendinga á fasteignum, yrði misbeitt frekar en gert hefur verið. Ég held, að við þurfum að átta okkur fyllilega á því, hvaða breyting það er, sem orðið hefur í þessum efnum hjá okkur. Það var svo um tíma á Íslandi, að það var litið á það sem sjálfsagðan hlut, að ef það þyrfti ráðherraleyfi til þess að veita t.d. útlendingum einhver réttindi hér, væri þar með bannað að veita útlendingum slík réttindi. Eftir að þjóðin hafði barizt gegn erlendu valdi öldum saman, var sá hugsunarháttur orðinn svo sterkur, að það væri alveg sjálfsagður hlutur, að hver sá maður, sem sæti í ráðherrastól, hlyti fyrst og fremst að vera vörður þjóðarinnar um hennar vald yfir hennar eigin auðlindum, þannig að það þyrfti ekki meira en setja eina mgr., sem hljóðaði á þá leið, — ef ráðherraleyfi þyrfti til einhvers og það snerti það, að barizt hefði verið fyrir því að fá þarna útlendinga til yfirráða eða þeirra rétt, var það talið útilokað. Þetta var hugsunarhátturinn.

Ég skal, fyrst verið er að ræða þessi mál júridískt hér núna, hvort ráðherraleyfi sé nægileg vörn, nægileg trygging, nægilegt öryggi, taka dæmi af öðru máli ekki óskyldu þessu frá 1923 og hvernig litið hefur verið á í fulla tvo áratugi, ef ráðherraleyfi þyrfti, hvað það raunverulega gilti. Öll vötn á Íslandi, öll fallvötn á Íslandi, allar ár á Íslandi nema Sogið voru komnar í eigu útlendinga um 1922—1923. Íslendingar áttu í raun og veru kannske bara Sogið og svo einhverjar smásprænur, allt hitt áttu erlend fossafélög. Og í 4 ár stóð barátta hér á Alþ. um það, hvort bændurnir, sem ættu jarðir að þessum ám og hefðu þar með að áliti ýmissa eignarrétt á þeim, gætu selt þessar ár, m.a. útlendum mönnum, og þessir útlendu menn eða útlendu auðfélög þess vegna virkjað þau, og stór hluti Alþ. hélt fram þeirri skoðun, að þetta væri hægt. Þeir menn, sem börðust harðast á móti þessari skoðun og voru um tíma meiri hl. svokallaðrar fossanefndar, voru Jón Þorláksson, Guðmundur Björnson og Bjarni frá Vogi. 1923 er þetta mál útkljáð á Alþ. Og hvernig er þetta mál útkljáð þá? Þetta mál er þá búið að ganga í gegnum Ed., og þeir, sem börðust fyrir algeru valdi bændanna til þess að selja árnar í hendur útlendingum og þar með algeru leyfi útlendinga til að virkja þær, þeir höfðu verið í meiri hl. og höfðu fengið sitt frv. í gegn í Ed. Í Nd. fer hins vegar svo, að Jóni Þorlákssyni og Bjarna frá Vogi tekst að koma að smábreytingu við 2. gr. frv., þar sem svo er mælt fyrir, að réttur þessara landeigenda skuli miðast við ákvæðin í þessum l., en hinir höfðu miðað við hefðbundinn rétt. En í þessum l., eins og þau höfðu komið frá Ed., stóð um notkun vatnsorkunnar í 49. gr. og stendur enn þá, með leyfi forseta:

„Eigi má umráðamaður vatnsréttinda virkja hluta af fallvatni, sem hefur meira en 500 eðlishestöfl, nema leyfi ráðh. komi til“ o.s.frv.

M.ö.o.: með því að fá breytt 2. gr. við umr., þannig að þessi vatnalög ákvæðu hlutina, öðlaðist þetta, að ráðherraleyfi þurfti til notkunar vatnsréttinda, slíka tryggingu í augum Jóns Þorlákssonar, Bjarna frá Vogi og þeirra, sem höfðu harðast barizt á móti vatnal. í þeirri mynd, sem þau höfðu verið lögð fyrir, að þar með þótti öruggt, að ekkert útlent hlutafélag fengi tök á neinum fallvötnum í landinu. Og þeir menn, sem höfðu verið ákafastir og af Bjarna frá Vogi og Jóni Þorlákssyni verið mest sakaðir um fossaprang, eins og það var orðað í þskj., þeir snerust á móti frv., vegna þess að þeir litu líka þannig á, að fyrst það var ekki sá hefðbundni réttur, sem landeigendur hefðu, heldur það, hvernig þessi lög mæltu fyrir, væri búið að svipta bændurna eða eigendurna, sem þeir töldu vera að vatnsföllunum, réttinum til þess að virkja, fyrst það þyrfti til þess ráðherraleyfi.

Og í 23 ár stendur þetta án nokkurra breytinga í íslenzkum lögum. Fossafélagið Titan á Þjórsá allan þennan tíma, og öll önnur útlend hlutafélög, hlutafélagið Ísland og önnur slík, sem áttu tíunda hlutann af öllu fossafli á Íslandi, eiga öll saman vötnin, þessi fallvötn, þau eiga þau einstaklingseignarrétti. Og hið eina, sem kemur í veg fyrir, að þau séu virkjuð, var, að það þurfti ráðherraleyfi til, og það datt engum í hug, hvorki bændunum, sem áttu lönd að þessu og töldu sig eiga vatnið, ríkisstj. né að því er ég held jafnvel útlendingunum, að það kæmi til nokkurra mála, að nokkur ráðh. veitti slíkt leyfi, enda kom það aldrei til, öll þau 23 ár, sem engin önnur trygging var gegn því, að erlend hlutafélög, sem ættu Þjórsá og aðrar stórár á Íslandi, færu í að virkja þær, önnur en sú, að það þurfti að fá leyfi ráðh. til. Meðvitund þjóðarinnar og meðvitund hennar ráðamanna og forustumanna var svo sterk um þetta, að enginn ráðh. gæti farið að nota sitt vald á þann hátt að láta útlending fá leyfi til þess að virkja íslenzk fallvötn, það datt engum í hug, að slíkt yrði gert. Þetta var sem sé næg trygging. Það þurfti ráðherraleyfi, þar með var það útilokað, að nokkrum útlendum aðila, þó að hann ætti Þjórsá, þó að hann ætti Hvítá og þó að hann ætti slík vötn, gæti dottið í hug, að hann gæti fengið að virkja þau.

Svona stendur þetta alveg fram til 1946, að raforkulögin voru sett, sem gefa ríkinu einu heimild til þess að virkja. Og ein fyrsta afleiðingin af því er, að árið eftir er Titan reiðubúið til þess að selja Þjórsá, og eins og þm. vita, keypti Ísland Þjórsá 1948, ef ég man rétt, það var í tíð Bjarna Ásgeirssonar sem raforkumrh., fyrir 3 millj. kr., vegna þess að að vísu höfðu þeir haldið eignarréttinum allan þennan tíma, en vitað það, að þeir gátu ekki hagnýtt þetta, vegna þess að það þurfti ráðherraleyfi til, og þegar svo var búið að setja þetta, að ríkið hefði einkarétt á virkjun fallvatnanna, var það orðið úrkula vonar algerlega, og þess vegna seldu þeir

Þjórsá, og þeirra einstaklingseignarréttur á íslenzkum fossum var eyðilagður.

Þetta er hlutur, sem ég álít að við verðum að gá mjög vel að, þegar við ræðum um það lagafrv., sem hér liggur fyrir. Hæstv. iðnmrh, eða dómsmrh. segir alveg réttilega: Í þessu frv. eru sterkari tryggingar og meiri takmarkanir á því, að útlendingar geti eignazt fasteignir, heldur en áður var. Það er alveg rétt. Það eru júridískt sterkari takmarkanir í þessu frv. á því, að útlendingar geti eignazt fasteignir hér á Íslandi, heldur en áður var. Ef allt væri þess vegna normalt á Íslandi, ef sá sami hugsunarháttur ríkti, sem við höfðum lært og hafði komizt inn í okkur frá blautu barnsbeini af að vera nýlenda í 600 ár, — ef sá hugsunarháttur ríkti enn þá, væri þetta allt saman öruggt og við hefðum engu þurft að breyta í þessum lögum. En það, sem hefur breytzt, er hugsunarhátturinn hjá ráðandi mönnum á Íslandi. Hann er ekki lengur í neinu samræmi við hagsmuni Íslands sem sjálfstæðs ríkis eða við þá tradisjón, við þá hefð, sem hér hefur ríkt undanfarna öld, liggur mér við að segja. Það, sem nú er komið upp á Íslandi, er það, að það þykir ekki lengur neitt hættulegur hlutur, að útlendingar eignist fasteignir. Og stærsti flokkur landsins og nú forustuflokkur í ríkisstj. hefur í sínu blaði hvað eftir annað tekið afstöðu með þessum áróðri og einstakir ofstækismenn í þeim armi jafnvel barizt fyrir því, að slíkt væri alveg hömlulaust, að útlendingar gætu eignazt hér aðstöðu á Íslandi og fengið sem mesta aðstöðu. Hins vegar veit ég, að ýmsir aðrir eru með ýmsum hömlum í þeim efnum.

Það, sem þarna hefur þess vegna breytzt, eru sjálfar forsendurnar, þegar við ræðum þessi lög. Áður voru það óbrigðular forsendur, að það var nóg, að það stóð í l., að það þyrfti ráðherraleyfi, til þess að útlendingur gæti fengið sérstaka aðstöðu, t.d. til að virkja fallvötn hér, þá kom það ekki til mála, að útlendingur fengi slíka aðstöðu. Sömuleiðis er það búið að standa í l. allan þennan tíma, að það þyrfti ráðherraleyfi og ýmislegt annað slíkt, til þess að útlendingar gætu fengið þau réttindi, bæði eignarrétt og annað, sem þarna er um rætt, og það hefur verið nóg vörn. En þessar forsendur eru nú brostnar. Það, sem var næg forsenda fyrir l., sem eru búin að vera í gildi í upp undir 40 ár, er ekki forsenda lengur, vegna þess að hugsunarhátturinn, sem þau lög byggðust á, er breyttur og alveg sérstaklega hjá þeim mönnum, sem hafa forustu þjóðarinnar, og þar með líka hjá þeim mönnum, sem hvað eftir annað koma til með að eiga að fara með ráðherravald. Ég er ekki að segja það viðvíkjandi núv. hæstv. dómsmrh., ég býst við, að e.t.v. mundi hann nota þetta vald mjög skynsamlega og reyna að halda eitthvað í gamla erfð. En það koma ráðh. á eftir honum, sem eiga að fara með slíkt vald, og eins og sumt af þeirri æsku er, sem vex upp í Sjálfstfl. nú, eftir áróðri þeim, sem þeir ungu menn beita í Morgunblaðinu, mundi ég ekki hafa mikla trú á, að þeir menn stæðu á verði gegn því, að útlendingar gætu hömlulaust sölsað undir sig fasteignir hér á Íslandi.

Það er vitanlegt hverjum manni, sem eitthvað veit í fjármálum, að ein bezta fjárfesting, sem nú er til í Evrópu, er að kaupa upp Rangárvalla og Árnessýslur, og það kostar ekki mikið. Jarðir eru eitt af því eftirsóknarverðasta í allri Vestur-Evrópu nú, og jarðir eru eitt af því, sem billegast er selt á Íslandi sem stendur. Enda þyrfti ekki að því að spyrja, um leið t.d. og við hefðum verið komnir inn í Efnahagsbandalagið, hefðu íslenzkir bændur eftir nokkurn tíma ekki átt mikið af sínum jörðum. Þeim hefði verið boðið það vel í þær, að þeir gætu ekki staðizt þá freistingu að selja þær nema örfáir.

Við verðum að gá að því, hversu gersamlega þessi hugsunarháttur er breyttur. Alþ. verður nú sjálft að setja hömlur, að setja takmarkanir við því, á hvern hátt sé hægt að fara með þetta vald, vegna þess að Alþ. getur ekki lengur treyst því, eins og það gat í áratugi eftir 1923, að ráðherraleyfi eitt, ef það þyrfti, væri nægilegt til þess að standa á móti ágengni útlendinga. Þess vegna er það ekki næg afsökun hjá hæstv. dómsmrh., hvort það sé hægt að benda á, að þetta leyfi hafi undanfarið verið misnotað. Það hefur ekki verið misnotað. En hugsunarhátturinn, sem gerði það að verkum, að þetta leyfi var ekki yfirleitt notað, er breyttur. Hann er breyttur og þar með fallnar burt þær forsendur, sem áður voru Alþ. nægar, að það þyrfti ráðherraleyfi þarna til. Þess vegna álit ég, að þarna þurfi alveg nauðsynlega að stemma stígu við á þann hátt, sem báðir minni hl., hvor í sínu lagi, leggja til í sambandi við afgreiðslu þessara laga. Við megum ekki láta það blekkja okkur, hvernig l. hafa verið hingað til og það sé verið að herða á þessu, vegna þess, hversu hugsunarhátturinn hefur breytzt og sérstaklega hjá þeim ráðandi flokki í landinu. Það þarf að stórbreyta l., ef Alþ. vill vera öruggt gegn því, að það sé farið að veita útlendingum í stórum stíl leyfi til þess að kaupa hér fasteignir. Valdið, sem ráðh. hefur í slíku efni í sambandi við 1. gr., er afar víðtækt, og það meinar álit annað, þau orð, nú en þau sömu orð meintu fyrir 40 árum. Þá datt engum í hug að leggja annan skilning í það en þann, að fyrst ráðh. á að leyfa þetta, er þetta bannað, og ef við ætluðum að hafa samsvarandi lagaákvæði nú, þyrfti að standa þarna í, að þetta mætti ekki gera nema með leyfi Alþ., það þyrfti í hvert skipti að fá leyfi Alþ. til. Hv. þm. vita líka, að það er svo með hverja smáþjóðjörð, að hana er ekki hægt að selja, án þess að Alþ. leyfi það með sérstökum l., ekki hægt að selja hana íslenzkum manni, íslenzkum bónda t.d., sem þarf jafnvel á henni að halda. En með þessum l., ef þau verða afgreidd eins og þau eru, ætti sem sé að vera mögulegt að leyfa útlendingi aðstöðu til rekstrar og eignarréttar hér á landi án þess að spyrja Alþ. nokkurn tíma um það. Þetta, að afgreiða þessi lög eins og hæstv. ríkisstj. hefur lagt til, er stórhættulegt, og ég vil alvarlega skora á hv. þm. að athuga þetta mál miklu betur í ljósi þeirra breytinga, sem orðið hafa á okkar þjóðlífi, áður en þetta mál fer lengra.

Umr. (atkvgr.) frestað.