21.03.1966
Efri deild: 53. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í B-deild Alþingistíðinda. (430)

19. mál, eignarréttur og afnotaréttur fasteigna

Frsm. 1. minni hl. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Eins og frá hefur verið skýrt, hefur hv. allshn. ekki getað orðið samferða í þessu máli. Við í 1. minni hl. allshn., ég og hv. 1. þm. Vestf., teljum að vísu, að í frv. þessu felist mikil réttarbót frá þeirri skipan, sem gildir nú um þessi efni, en við teljum samt, að á frv. þurfi að gera breytingu, og í samræmi við þá skoðun okkar höfum við lagt fram brtt. á þskj. 333.

Lögin, sem um þetta efni gilda nú, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, eru, eins og hv. frsm. meiri hl. gat um, lög nr. 63 frá 1919. Þau eru í mörgum efnum orðin úrelt. Það var ástæða til þess, að af hálfu okkar framsóknarmanna var flutt hér fyrir nokkrum árum till. til þál. um það, að fram skyldi fara endurskoðun á þeim lögum. Afdrif þeirrar þáltill. munu hafa orðið þau að lokum, að henni var vísað til ríkisstj. En til þessarar þáltill. mun mega rekja það, að ríkisstj. lét fara fram endurskoðun á þessum l. frá 1919 og lagði frv. um það efni eða frv. til nýrra l. um eignar- og afnotarétt fasteigna fyrir síðasta Alþ. Það frv. var þá lagt fyrir hv. Nd. og hlaut ekki afgreiðslu á því þingi, náði aðeins að ganga til 2. umr. í þeirri hv. d., að ég hygg. Þá fluttu fulltrúar framsóknarmanna í allshn. Nd. brtt. við frv. Þær fjölluðu fyrst og fremst um tvö atriði. Annað atriðið var það, að í stað þess, að þá var í frv. gert ráð fyrir, að hlutafélag skyldi hér eignast fasteignir og öðlast afnotarétt þeirra, ef meira en helmingur hlutafjárins var í eigu Íslendinga og það fullnægði að öðru leyti þeim skilyrðum, sem í frv. greindi, — við þetta atriði var flutt sú brtt., að hlutafélög skyldu því aðeins mega öðlast hér eignar- og afnotarétt af fasteignum, að 3/4 hlutafjárins yrðu í eigu Íslendinga. Hin brtt. laut að því, að ekki þótti rétt að veita ráðh. jafnvíðtæka heimild til undanþágu frá skilyrðum l. eins og frv. gerði ráð fyrir.

Þegar þetta frv. var aftur lagt fram á þessu þingi, hafði sú breyting verið á gerð, að í stað þess, að áður var gert ráð fyrir því, að hlutafélag gæti eignazt hér fasteignir og fengið afnotarétt þeirra, ef helmingur hlutafjárins væri í eigu Íslendinga, þá er eftir frv., eins og það var lagt fram nú á þessu þingi og eins og það er nú, gert ráð fyrir, að hlutafélög geti því aðeins eignazt fasteignir hér og öðlazt afnotarétt þeirra, að 4/5 eða 80% hlutafjár séu í eigu Íslendinga og öðrum skilyrðum fullnægt að auki. En hins vegar var hinu atriðinu, sem aths. var sérstaklega við gerð á þinginu í fyrra, ekki breytt, sem sé því, að ráðh. gæti veitt undanþágu, ef hann teldi rétt vera og ástæður væru til, frá ákvæðum laganna yfirleitt.

Við í 1. minni hl. n. teljum, eins og ég áðan sagði, að frv. þetta stefni í rétta átt og feli í sér endurbót frá gildandi lögum að því leyti til, að eftir þessu frv. er meginreglan sú, að skilyrðið fyrir því að öðlast hér eignar- og afnotarétt fasteigna sé ríkisborgararéttur, í stað þess að áður var aðeins krafizt fastrar búsetu hér á landi og er skv. gildandi lögum, en ekki krafizt ríkisborgararéttar. Þó að ríkisborgararéttar sé ekki alls staðar krafizt erlendis sem skilyrðis fyrir slíkri réttindanautn, teljum við svo mjög öðruvísi á standa hér á landi, að það sé rétt að gera ríkisfang að skilyrði fyrir eignarrétti og afnotarétti á fasteignum, og föllumst algerlega á stefnu frv, að því leyti, og þarf ég ekki þar neinu við það að bæta, sem frsm. meiri hl. n. sagði hér áðan.

Við föllumst út af fyrir sig einnig á, að það sé ekki ástæða til að ganga lengra að því er varðar hlutafélög en frv. gerir ráð fyrir, þ.e.a.s. að það sé gert að skilyrði, að í hlutafélögum skuli 4/5 hlutafjár vera eign íslenzkra ríkisborgara, og við flytjum þess vegna enga brtt. við það atriði.

Hins vegar er það svo, að í 2. mgr. 1. gr. þessa frv. segir svo: „Nú eru skilyrði þau eigi fyrir hendi, er í 1.—4. tölulið segir, og er ráðh. þá rétt að veita leyfi, ef ástæða þykir til. Eigi þarf þó leyfi til leigu á fasteign eða réttinda yfir henni um þriggja ára tímabil, ef uppsögn er áskilin með eigi lengri en árs fyrirvara.“ Við í 1. minni hl. allshn. teljum, að þarna sé ráðh. veitt allt of ótakmörkuð heimild til þess að veita undanþágu frá ákvæðum l., og í samræmi við þá skoðun flytjum við brtt. á þskj. 333, þar sem við gerum ráð fyrir því, að undanþáguheimild ráðh. sé bundin við alveg tiltekin og afmörkuð tilvik, þ.e.a.s. við þau tilvik, að maður hafi eignazt fasteign við hjúskap eða fyrir erfðir eða öðlazt fasteignarréttindi fyrir gildistöku þessara laga, þegar skilyrðin, sem að því lúta, voru önnur en þau eiga að verða eftir samþykkt þessa frv.

Það er að vísu rétt, sem kom fram hjá hæstv. dómsmrh., þegar hann fylgdi þessu frv. hér úr hlaði á sínum tíma, að það er ekki kunnugt um, að það hafi misnotkun átt sér stað í þessu efni hér á landi, og í okkar brtt. felast út af fyrir sig engar getsakir um, að það megi sérstaklega gera ráð fyrir misnotkun af hendi núv. ráðh. eða þeirra, sem á eftir honum koma. En við teljum almennt, að það sé óheppilegt og varhugavert að veita ráðherra, framkvæmdarvaldshafa, jafnvíðtæka og í raun og veru alveg ótakmarkaða heimild til þess að víkja frá þeim skilyrðum, sem lögin hér setja. Og þó að það hafi ekki verið misnotað og þó að það sé kannske ekki sérstök hætta á því, að það verði misnotað, þá getur þó alltaf komið til þess, og við viljum taka þvílíka freistingu með öllu frá hæstv. ráðh.

Það mætti að sjálfsögðu tala langt mál um það, hversu það er varhugavert að fela framkvæmdarvaldshöfum svo víðtæka og óskoraða undanþáguheimild frá l., en ég sé nú ekki ástæðu til þess að fara út í það hér. Þetta atriði, eins og það liggur fyrir, er ákaflega einfalt og auðvelt fyrir hv. þdm. að gera sér grein fyrir því og gera upp hug sinn til þess. Spurningin er sem sagt um það, hvort þeir vilja veita ráðh. alveg ótakmarkaða undanþáguheimild í lögum eða takmarka undanþáguheimild hans við ákveðin tilvik, þau tilvik, sem manni virðist að helzt gæti verið þörf á slíkri undanþáguheimild.

Sú breyting, sem við leggjum til að gerð sé á frv., kemur í raun og veru fram í þessari okkar 1. brtt., og þær aðrar brtt., sem á eftir fara, sem að vísu eru nokkrar að tölunni til, leiðir aðeins af 1. brtt., þannig að ef 1. brtt. okkar verður felld, þá liggur það í hlutarins eðli, að hinar aðrar brtt., sem á eftir fara, eru þar með úr sögunni.

Ég sé svo ekki, herra forseti, ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta mál.