31.03.1966
Neðri deild: 62. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í B-deild Alþingistíðinda. (462)

107. mál, sveitarstjórnarkosningar

Frsm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er komið frá Ed. og var afgr. þar ágreiningslaust.

Við afgreiðslu frv. til laga um sveitarstjórnarkosningar 1962 féll niður ákvæði um afnám eldri sveitarstjórnarlaga. Þar sem svo stendur á, eins og vitað er, að nú standa fyrir dyrum sveitarstjórnarkosningar, þykir nauðsynlegt til þess að fyrirbyggja hugsanlegan misskilning í þessu sambandi að samþ. þetta frv., en aðalefni þess er það að fella niður lög nr. 81 frá 23. júní 1936. Einnig er 1. gr. frv. ætlað að gera ýmis ákvæði gildandi laga um kosningar til Alþingis og sveitarstjórna skýrari en talið er að nú sé, og er frv. einnig ætlað að gera nánari grein fyrir þeim efnum.

Heilbr: og félmn. hefur haft þetta frv. til athugunar, og leggur hún einróma til, að það verði samþ. óbreytt.