10.03.1966
Efri deild: 48. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í B-deild Alþingistíðinda. (472)

136. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Það er nú ekki eftir ræðu hæstv. fjmrh. þörf á því, að ég víki að mörgum þeim atriðum, sem þegar hafa komið fram í þessum umr., en þó vildi ég einkum víkja að tvennu. Í fyrsta lagi því, að ég tel, að það hafi þegar komið fram í þessum umr., eins og reyndar við umr. um frv. til l. um útflutningsgjaldið, að sumir hv. alþm. vilji meta þetta svo, að hér sé raunverulega um stjfrv. að ræða, sem mótað sé að einu og öllu eftir vilja ríkisstj. Sannleikurinn er sá. að þau tvö frv., sem hér hafa komið fram, annað þegar afgreitt og hitt, sem við ræðum nú, eru staðfesting á samkomulagi, sem er gert í frjálsum samningum þeirra aðila, sem hér eiga hlut að máli. Mér finnst eins og þessi staðreynd sé dálítið sniðgengin í umr. eða a.m.k. á stundum. Og það snertir einmitt það atriði, sem ég vildi sérstaklega víkja hér að. Öðrum atriðum, sem snerta fjármál og umr. hafa aðallega snúizt um, hefur hæstv. fjmrh. þegar svarað og gert þau skil, sem kostur er á við umræðurnar nú.

Ég vík þá sérstaklega að þeirri spurningu hv. 4. þm. Norðurl. e., þegar hann spyr að því, hvort ekki sé mögulegt að haga skiptingunni á hagræðingarfénu, hinu svokallaða hagræðingarfé, eins og hann nefndi það, á annan veg en verið hefur, og taldi í því sambandi, að hlutur þeirra verr stöddu fiskiðjuvera væri þar verri en hinna, sem betur stæðu sig. En sannleikurinn er sá í þessu máli eins og reyndar í útgerðinni sjálfri, að það eru ákveðnar greinar útgerðarinnar, sem standa sig allvel og þurfa ekki á styrkjum að halda, og ákveðin atriði fisksölunnar einnig, eins og t.d. saltfisksins, og ákveðnar greinar útgerðarinnar, eins og smæstu vélbátarnir, sem hafa staðið sig verr. Aftur má benda á aðrar greinar í báðum tilfellum, sem standa sig vel, eins og þegar hefur komið fram í umr. um hið margnefnda frv. um útflutningssjóðsgjaldið. En það er einmitt hagur þessara verst stöddu aðila í báðum tilfellum, sem verið er að reyna að leiðrétta, og samkomulag það, sem gert var um fiskverðið, ber með sér, að stefnt hefur verið að því.

Afleiðingar þess samkomulags, sem gert var um fiskverðið, eru þessi frv. bæði. Ég skal ekki, án þess að afla mér frekari upplýsinga, fullyrða neitt um það, hvort möguleikar eru á að breyta úthlutun þessa útflutningsgjalds eða þessa hagræðingargjalds, heitir það, frá því, sem verið hefur. En ég hygg, ég tek fyrirvara á því, að um það hafi verið samið, að það yrði gert með sama hætti og verið hefur. Á annan hátt get ég ekki svarað þessari fsp. hv. þm. Mér er ekki kunnugt um, að um það hafi verið samið, eða a.m.k. hafa þær till. enn ekki borizt sjútvmrh., að önnur skiptiaðferð yrði höfð á nú en gilt hefur að undanförnu. Það þýðir hins vegar óbeint um leið, að samningsaðilar hafa litið svo á, að þessu yrði hagað með sama hætti. Ég álit rétt, að sú n., sem málið fær endanlega til meðferðar, kynni sér þetta frá þeim aðilum, sem geta skýrt frá þessu frá fyrstu hendi. þ.e.a.s. þeim aðilum, sem fulltrúa áttu í yfirnefnd verðlagsráðsins, sem gekk frá þessu samkomulagi. En ég hef ekki séð till. í þá átt að breyta þessu. Ef svo er, að aðilar líta þannig á, að samkomulagið hafi verið gert með þeim hætti eða það hafi verið að því staðið á þann veg, að þessi háttur yrði á hafður áfram, tel ég, að samkv. þeim viðræðum og upplýsingum, sem fram komu í sambandi við útflutningsgjaldið, sé lítið svo á. að það sé bundið í samkomulaginu að hafa þessa skiptingu óbreytta. En ég tel rétt, að n. athugi það undir meðferð málsins.

Þetta fannst mér það atriði í umr., sem sérstaklega sneri að mér að svara, og um önnur atriði, sem fram komu hjá hv. þm., bæði 3. þm. Norðurl. v. og hv. 4. þm. Norðurl. e., hefur hæstv. fjmrh. svarað efnislega, eins og kostur er á nú. Ég álít, að það dæmi sé ákaflega einfalt, eins og ég hef reynt að leggja áherzlu á í fyrri ræðum mínum um þessi mál. Ríkisstj. er kölluð til eða réttara sagt: það er fram á farið við hana, hvort hún vilji skerast í leikinn og brúa það bil, sem er á milli viðsemjenda, meðan á deilunni um fiskverðið stendur. Ríkisstj. átti þá þeirra kosta völ að neita þeirri milligöngu og eiga það yfir höfði sér, að stór þáttur útgerðarinnar lægi niðri um óákveðinn tíma, eða taka á sig þær skuldbindingar, sem hún hefur gert. og staðfesta þetta samkomulag með þeirri milligöngu, sem felst í frv. um útflutningsgjaldið og frv., sem hér er til umr., um aðstoð við sjávarútveginn. Málið er ákaflega einfalt að mínu viti, og tildrög þessara frv. beggja eru með sama hætti staðfesting á þessu samkomulagi. Frávik þar frá eru þess vegna ekki í venjulegum skilningi stjfrv., sem ríkisstj. sjálf og stuðningsmenn hennar hafa haft áhrif á að móta, heldur er hér um staðfestingu á samkomulagi samningsaðila um fiskverð að ræða.

Ég tel ekki þörf á því á þessu stigi málsins að víkja nánar að einstökum atriðum þessara umr. Til þess gefst áreiðanlega kostur síðar. En ég hefði álitið, að rétt væri, að sjútvn., sem væntanlega fær málið til meðferðar, hefði sama hátt á og við afgreiðslu frv. um útflutningsgjaldið, að taka þá menn til spurninga, sem hún telur að gerst viti um, hvernig þetta samkomulag er til orðið. Þannig fær hún upplýsingarnar frá þeim aðilum, sem að því stóðu, og getur þá jafnframt metið þá möguleika, sem kynnu að vera á því að breyta einstökum greinum, en skoðun mín er sú, að svigrúmið sé í þeim efnum ákaflega þröngt, hér sé um að ræða að samþykkja frv. eins og þau eru, þetta eins og hið fyrra, eða fella þau. Ég legg áherzlu á, að frv. nái fram að ganga sem allra fyrst, til þess að þessar greiðslur, sem þar er gert ráð fyrir, geti átt sér stað og útgerðarmálin eða mál þessara samningsaðila geti gengið með þeim hætti, sem ríkisstjórnin hefur lýst yfir, að hún vilji stuðla að.