10.03.1966
Efri deild: 48. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í B-deild Alþingistíðinda. (473)

136. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég mun nú ekki lengja þessar umr. mikið, þó að reyndar ærið tilefni væri til að ræða ýmislegt af því, sem fram hefur komið. Ég get þó ekki stillt mig um að víkja nokkrum orðum að þeim ræðum, sem hæstv. ráðh. hafa nú verið að halda. Ég var að reyna að taka eins vel eftir og ég gat, hver raunveruleg svör hæstv. fjmrh. væru við þeim spurningum, sem ég bar fram og fjölluðu fyrst og fremst um það, um hve miklar breytingar væri hér að ræða frá fjárl. Í fjárl. er ákveðin upphæð, kringum 500 millj., að mig minnir, ætluð til niðurgreiðslna á vöruverði, og það er auðvitað um algera breytingu að ræða á samþykkt fjárl., ef teknar eru stórkostlegar upphæðir af því og notaðar til annarra hluta. En svör við því, hvað hér væri um miklar upphæðir að ræða, átti ég erfitt með að finna út hjá hæstv. ráðh. Þó skildist mér, að 100 millj. væri sú tala, sem hann staðnæmdist aðallega við, en gæti þó bæði hækkað og lækkað og komizt allt upp í 150 millj., jafnvel þó að ekkert óvenjulegt gerðist. En ég álít þetta vera mjög athyglisverða yfirlýsingu, og er sjálfsagt að skoða betur, hvað í þessu felst og þá jafnframt í þeirri yfirlýsingu hæstv. ráðh., sem ég gat ekki annað en fundið að fælist í orðum hans, að hvern þann fjárhagsvanda, sem bæri að höndum nú á næstunni, ætti að leysa með því að minnka niðurgreiðslur á vöruverði, sem hann taldi ákaflega óæskilegar. Það er reikningsatriði, sem ég er ekki tilbúinn að reikna til fulls, hvað það þýðir, ef hæstv. ríkisstj. ætlar að minnka niðurgreiðslurnar á næstu tímum um 500 millj. kr. En það væri vissulega ástæða til þess að reikna það dæmi og athuga, hvaða áhrif það hefði á alla efnahagsþróunina í landinu, á verðlagsmálin og á hag atvinnuveganna. Ég hygg, að það sé ekkert smáræði, sem þar er um að tefla. En frekar ætla ég ekki að ræða nú um annars þessa töluvert loðnu ræðu hæstv. ráðh., enda tók hann mjög á þeim ágæta eiginleika að geta talað langt mál án þess að segja nokkuð hreint út um hlutina.

En ég verð þá jafnframt að lýsa nokkurri undrun minni á ræðu hæstv. sjútvmrh. 2 sambandi við ræðu hans vil ég benda á, að í 2. gr. þessa frv.. sem hér liggur fyrir, segir:

„Stofnlánadeild sjávarútvegsins úthlutar fé þessu til tiltekinna framkvæmda í samráði við Landsbanka Íslands og Útvegsbanka Íslands eftir reglum, sem sjútvmrh. setur.“

Ég held, að ef hér er eingöngu um að ræða að veita verðuppbót til frystihúsanna eftir hráefnismagni, þ.e.a.s. hreina verðuppbót á keyptan fisk, geti þetta orðalag ekki staðizt, og ef á að framkvæma þetta eftir orðanna hljóðan, geti sú aðferð, sem hann taldi líklegast að yrði viðhöfð og hefur verið viðhöfð. raunverulega ekki staðizt. Það er vitanlega ekki greitt til tiltekinna framkvæmda, ef það er greitt eingöngu eftir keyptu hráefnismagni.

Að öðru leyti þótti mér það furðulegt, að samtök fiskkaupenda og fiskseljenda hefðu ekki aðeins tekið í sínar hendur löggjafarvaldið, samið þetta frv. og þvingað því upp á hæstv. ríkisstj. gegn hennar vilja, heldur hefðu þm. einnig tekið sér ráðherravaldið um það, hvern hátt reglugerð yrði hagað, og það gegnir vitanlega hinni mestu furðu, þegar hæstv. ráðh. vísar algerlega frá sér hreinum spurningum um það, hvernig hann hyggist hafa aðalatriðin í þeirri reglugerð, sem honum er falið að setja samkv. lögum, og vísar þar til aðila utan þings, sem vitanlega hafa ekkert vald með nokkrum löglegum hætti til þess að taka ákvarðanir um þessi efni. En ég vil aðeins segja það, að það hefði einhvern tíma verið sagt, að vald Alþ. væri komið eitthvað út í bæ til óhlutvandra manna eða manna, sem ættu ekki með það að fara, ef þessi háttur hefði verið upp tekinn undir öðrum kringumstæðum. Ég vil aðeins segja þetta í sambandi við það, hvaða háttur er á um greiðslu þessa svonefnda hagræðingarfjár, því að vitanlega er þar ekki um neitt hagræðingarfé að ræða, ef það er alger og hrein fiskverðsuppbót, og verður þá að breyta lögum í samræmi við það, að það er ekki með slíkum hætti, sem á því hefur verið hafður, verið raunverulega að bæta hag þeirra, sem verst eru settir, heldur fá þeir mest, fá þær fiskvinnslustöðvar mest, sem mesta hafa möguleikana, hafa mesta hráefnið og hafa komizt bezt af á undanförnum árum. Það er þess vegna ekki verið að bjarga þeim, sem frekast skyldi bjargað í þessum efnum.