17.03.1966
Efri deild: 51. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í B-deild Alþingistíðinda. (476)

136. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Frsm. meiri hl. (Jón Árnason):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. meiri hl. sjútvn. um mál þetta, náðist ekki samkomulag innan n. um afgreiðslu þess. 6 af 7 nm. mæla með samþykkt frv., en tveir þeirra, hv. 3. þm. Norðurl. v. og hv. 6. þm. Sunnl., hafa fyrirvara og áskilja sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma við afgreiðslu málsins. Hv. 5. þm. Reykn. hefur hins vegar skilað séráliti um málið og flytur tvær brtt. við frv. á sérstöku þskj.

Eins og fram kom í framsögu hæstv. sjútvmrh. fyrir máli þessu, er efni þessa frv. einn liður þeirra, ráðstafana, sem ríkisstj. hét að beita sér fyrir og tengdar eru því samkomulagi, sem náðist um fiskverð á yfirstandandi ári. Þær ráðstafanir, sem hér er lagt til að gerðar verði, má segja að séu að mestu leyti hinar sömu, sem framkvæmdar hafa verið á tveimur undanförnum árum.

Samkv. 1. gr. er lagt til, að greiddar verði úr ríkissjóði verðuppbætur á línu- og handfærafisk, sem nema 25 aurum á hvert kg. Kemur sú upphæð til skipta milli sjómanna og útvegsmanna samkv. samningum um hlutaskipti. Er hér um sömu upphæð að ræða og greidd var á s.l. ári. en að þessu sinni samdist einnig svo um, að fiskkaupendur greiða sömu upphæð til viðbótar. Nýtur línu- og handfærafiskurinn því raunverulega 50 aurum hærra verðs en annar hliðstæður bolfiskur. Um það verður ekki deilt, að línu og handfærafiskurinn er úrvalshráefni, og er það vafalítið gæðum þessa fisks að þakka, hve gott orð íslenzki fiskurinn hefur hlotið á heimsmarkaðinum, og þá einnig því að þakka, hvað tekizt hefur að ná háu verði fyrir íslenzkar fiskafurðir. Ég tel, að hér sé stefnt í rétta átt með því að verðlauna úrvalsvöru og það geti e.t.v. ráðið úrslitum um það, hvort unnt verður að halda áfram þessum veiðiskap eða ekki, að svo verði einnig í framtíðinni.

Samkv. 2. gr. frv. er lagt til að greiða 50 millj. kr. úr ríkissjóði á árinu 1966 til framleiðniaukningar frystihúsa og annarra endurbóta í framleiðslu frystra fiskafurða. Er þessi upphæð um 17 millj. kr. hærri en greidd var í þessu sama skyni á s.l. ári og heildarupphæðinni ætlað að brúa um 2% af þeim 17%, sem meðalfiskverðið hækkaði um. Um úthlutun þessa fjár er gert ráð fyrir sama fyrirkomulagi og átti sér stað á s.l. ári, en það mun í framkvæmdinni hafa verið svo, að hlutur hvers frystihúss miðaðist við framleiðslumagn. Ekki er að efa, að sá styrkur, sem með þessum hætti hefur gengið til frystihúsanna á undanförnum tveimur árum, á sinn stóra þátt í því að koma á verulegum endurbótum í hraðfrystiiðnaðinum. Hefur sú aukna hagræðing, sem þannig hefur skapazt, auðveldað þessari mikilvægu atvinnugrein að standa að verulegu leyti undir þeirri fiskverðshækkun, sem menn voru yfirleitt sammála um, að óhjákvæmileg væri að þessu sinni.

Samkv. 3. gr. er lagt til að greiða úr ríkissjóði 10 millj. kr. verðuppbætur á útflutta skreiðarframleiðslu. Er hér um sömu upphæð að ræða og greidd var á s.l. ári. Framleiðsla skreiðar er e.t.v. sú grein sjávarútvegs, sem hefur hvað erfiðastan rekstrargrundvöll. Allt fyrir það er sú framleiðsla mjög þýðingarmikill þáttur í hagnýtingu aflans og þá sérstaklega í sambandi við netafiskinn. Eins og fram kemur í grg. fyrir frv., liggur það hins vegar fyrir, að enginn sjávarafli hefur á undanförnum árum hækkað jafnlítið í verði á erlendum markaði og skreiðin. Það er því augljóst mál. að sá stuðningur, sem þessi atvinnugrein nýtur samkv. þessu frv., er sízt of mikill.

Þá er loks samkv. frv. þessu gert ráð fyrir, að stjórn aflatryggingasjóðs sé heimilt að ákveða, að bætur úr sjóðnum til togara vegna aflabrests á s.l. ári skuli miðast við úthaldstíma þeirra, svo og að setja um það nánari reglur með samþykki sjútvmrh. Er hér um óbreytt orðalag að ræða frá því, sem var á s.l. ári fyrir árið 1964.

Hv. 5. þm. Reykn. flytur á þskj. 317 brtt. við 4. gr., þar sem hann leggur til, að við gr. bætist, að styrkur fyrir þann úthaldstíma togaranna, sem þeir veiða fyrir innlendan markað. skuli vera helmingi hærri en fyrir þann úthaldstíma, sem skipin veiða fyrir erlendan markað. Ég geri ráð fyrir, að það, sem flm. á hér við, sé sá afli, sem togararnir setja hér á land til vinnslu, enda þótt megnið af þeim afla fari eftir sem áður á erlendan markað. Samkv. því, sem frv. gerir ráð fyrir í þessum efnum, er ætlað að setja um þetta nánari reglur. 2 því sambandi er eðlilegt, að sjóðsstjórnin hafi samráð við félagssamtök togaraeigenda, og ég tel, að það væri æskilegt. að aðstaða togaranna til löndunar hér heima væri bætt frá því, sem nú á sér stað. Óski samtök þeirra eftir því, að reglugerðin kveði skýrt á um þetta atriði, efast ég ekki um, að sjóðsstjórnin mundi taka þá ósk til rækilegrar athugunar, og tel því brtt. óþarfa.

Einn liður í rekstri togaranna, sem verkar óheillavænlega og væri nauðsynlegt að breyta til þess m.a. að greiða fyrir því, að togararnir settu afla sinn hér á land til verkunar, er verðjöfnunargjald það, sem þeir eru látnir greiða af olíunni og gengur til að greiða niður rekstrarkostnað síldarverksmiðjanna, sem eins og öllum er kunnugt hafa nú á síðari árum haft mjög góða afkomu. Nú munar það togarana mörgum tugum þúsunda í hverri veiðiferð, hvort þeir kaupa olíuna í erlendri höfn eða hér heima. Mér er kunnugt um, að hér er um verulegar upphæðir að ræða, sem hafa mundu í sumum tilfellum úrslitaáhrif um það, hvort skip leggur afla á land í heimahöfn eða hér á landi eða siglir með aflann á erlendan markað. Ég tel, að hér sé raunar um sjálfsagða leiðréttingu að ræða varðandi togarana, og því fyrr sem hún kæmi til framkvæmda, því betra væri það.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess, herra forseti. að orðlengja frekar um frv., en legg til, að það verði samþ. og því síðan að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.