17.03.1966
Efri deild: 51. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í B-deild Alþingistíðinda. (479)

136. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Helgi Bergs:

Herra forseti. Það, sem boðað er í lok grg. að fylgi í kjölfar þessa frv., markar að vissu leyti tímamót í efnahagsmálunum hér, því að með því gefst hæstv. ríkisstj. upp við frekari tilraunir til þess að hafa hemil á verðlagsþróuninni í landinu. Til þess að bæta fiskiðnaðinum upp um 65 millj. kr., því að raunverulega er það það, sem um er að ræða, eins og ég skal koma að síðar, á að velta á annað hundrað millj. króna út í verðlagið og auka þannig stórlega hraða verðskrúfunnar. Þetta er boðskapurinn, sem þetta frv. flytur okkur. Frv. sjálft felur þetta ekki í sér, og við erum samþykkir því með fyrirvara um breytingar, sem sjálft frv. felur í sér, ég og hv. 1. þm. Norðurl. e. (KK), sem ásamt mér hefur skrifað undir nál. með fyrirvara, og mér þykir rétt að gera hér í örfáum orðum grein fyrir fyrirvara okkar.

Við erum, eins og ég segi, samþykkir því aðalatriði frv.-greinanna sjálfra, að fiskiðnaðurinn fái þau framlög, sem þar er gert ráð fyrir, og að staðið verði við þau fyrirheit, sem voru forsendur samkomulagsins um fiskverðið í jan. s.l. Á hinn bóginn teljum við frv. gallað, og fyrirvari okkar lýtur m.a. að því, að við teljum æskilegt að breyta því nokkuð, en hins vegar að því, að við viljum vekja athygli og vara við þeim afleiðingum, sem það hefur í för með sér, ef hæstv. ríkisstj. fer þá leið, sem boðuð er í grg. þessa frv.

Óðaverðbólgan grefur nú sem óðast undan atvinnugreinum landsmanna, fleirum og fleirum, jafnt og þétt. Hæstv. ríkisstj. hefur enga stefnu í þessum málum. Hún hefur enga efnahagsmálastefnu. Nú á fiskiðnaðurinn að fá nokkrar uppbætur, þar sem hann ella hefði rekið í strand. Og í annan tíma eru það einhverjir aðrir, sem á að reyna að láta halda áfram með einhverjum bráðabirgðaúrræðum. Vegna fiskverðssamninganna í janúar var ríkisstj. til þess neydd að gera eitthvað í málinu, og þannig aðstaða kemur upp öðru hverju gagnvart ýmsum stéttum. En stefna hæstv. ríkisstj. er engin önnur en að reyna að finna einhver bráðabirgðaúrræði til þess að forða strandi hjá einum í dag, hjá öðrum á morgun. En óðaverðbólgan fær að halda áfram að grafa undan öllu saman jafnt og þétt og með vaxandi hraða.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir því að leggja fram til fiskiðnaðarins 80 millj. kr., þannig að hagræðingarfé, sem kallað er, til hraðfrystihúsanna skal nema 50 millj. kr., verðuppbætur á línufisk og handfærafisk 20 millj. kr. og verðuppbætur á skreiðarframleiðslu 10 millj. kr. Fyrir þessu 80 millj. kr. framlagi var ekki á neinn hátt séð í fjárlögum, sem afgr. voru hér á hv. Alþ. fáum vikum áður en fiskveiðasamningarnir, sem eru tilefni þessa frv., voru gerðir. Það lá auðvitað ljóst fyrir, þegar fjárl. voru til meðferðar, að fjármuni þyrfti til þessara hluta. Það vissum við allir. Samt var ekki fyrir neinu fé séð í þessu efni í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna, og það er að mínum dómi stórlega vítavert.

Hvernig hyggst svo hæstv. ríkisstj. afla fjár á móti þessum 80 millj.? Auðvitað er það einnig gert með bráðabirgðaúrræðum, án þess að menn virðist hafa gert sér fulla grein fyrir þeim afleiðingum, sem það hlýtur að hafa. Nú á að minnka niðurgreiðslurnar til þess að mæta þessu og kannske meir, því að ef mér hafa borizt réttar fréttir af ummælum hæstv. fjmrh., sem ég því miður heyrði ekki, mun hann hafa boðað, að það ætti að minnka niðurgreiðslur, svo að ríkissjóður yrði hallalaus. Nú veit ég ekki, hvað þetta þýðir með þeirri fjármálastjórn, sem hér hefur verið tíðkuð um sinn, og ég raunar dreg það nokkuð í efa, að hæstv. fjmrh. viti það sjálfur. En ef niðurgreiðslur verða minnkaðar bara um 80 millj. kr., þær 80 millj. kr., sem fiskiðnaðurinn á að fá, skilst mér, að það þýði 2% hækkun á almennu kaupgjaldi vegna hækkunar verðlagsvísitölu, og það kostar ríkissjóð 20 millj. kr., þá erum við komnir upp í 100. Það mundi þurfa, eftir þessari kenningu, að lækka niðurgreiðslurnar um 100 millj. kr. En þá er sú vísitöluhækkun, sem af því leiðir, ekki 2% lengur, heldur 2 1/2%, og þannig heldur spólan áfram. Það er þess vegna nokkuð ljóst, að til þess að mæta þessum aðgerðum á þann hátt, sem boðað er, verður að velta á annað hundrað millj. kr. út í verðlagið.

En hvað kostar svo 2 1/2—3% hækkun fiskiðnaðinn, sem leikurinn er gerður til að styðja? Ég tel, án þess að hafa gert neina tilraun til þess að grafa upp um það nákvæmar tölur, að gera megi ráð fyrir, að vinnulaun, sem greidd eru í hraðfrystihúsunum og við skreiðarvinnslu og saltfiskverkun, muni nema a.m.k. 5 eða 6 hundruð millj. kr. á ári. Og þá er auðséð, að þessar aðgerðir, sem þarna eru boðaðar, muni kosta þá, sem átti að styðja, a.m.k. 15 millj. kr. strax, hvað sem síðar verður, þegar skrúfan spólar meira upp á sig.

Niðurstaðan verður þess vegna sú, sem ég gat um í upphafi, að til þess að veita hraðfrystiiðnaðinum stuðning, sem í raun og veru nemur 65 millj. kr. eða þar um bil, er velt út í verðlagið upphæðum, sem nema á annað hundrað millj. kr. og munu gefa vísitöluskrúfunni nýjan snúningskraft.

En til hvers er svo að vinna, þegar það er ljóst, að innan stundar verðum við jafnnær, ef ekkert verður að gert? Verðbólgan heldur áfram að grafa undan öllu saman, hraðar og hraðar. Það er augljóst, að í þessum málum verður að finna aðrar leiðir og jafnvel í þessu máli aðra bráðabirgðaleið, leið, sem hefur minni verðbólguáhrif en sú, sem hér er boðuð. Haldi hæstv. ríkisstj. fast við þá leið, sem hún boðar, getur það ekki þýtt annað en það, að hún hafi gefið frá sér allar tilraunir til viðnáms, sem raunar hafa ekki verið miklar í seinni tíð, en þó nokkrar, síðan kaupgjaldið var á ný tengt kaupgjaldsvísitölu.

Um þetta, sem hér hefur orðið mér aðallega að umræðuefni, fjallar þó ekki þetta frv., eins og ég tók fram, ekki frvgr. sjálfar. Við teljum, að það sé óhjákvæmilegt, eins og nú er komið, að samþykkja þær, þótt við viljum mæla með nokkrum breytingum. Hv. 1. þm. Norðurl. e. hefur gert grein fyrir brtt., sem hann flytur ásamt hv. 3. þm. Norðurl. v., og ég skal ekki fara neitt frekar orðum um hana, en lýsa stuðningi mínum við hana. Á þskj. 317 flytur hv. 5. þm. Reykn. tvær till. Sú fyrri gengur nokkuð í sömu átt og brtt. hv. 1. þm. Norðurl. e., sem ég geri ráð fyrir að verði afgreidd á undan, og nái hún ekki samþykki, tel ég rétt að styðja fyrri till. hv. 5. þm. Reykn. Enn fremur álít ég, að síðari brtt. hans um að reikna helmingi hærri styrk til togaranna fyrir innlendan fiskiðnað heldur en erlendan markað, eigi rétt á sér og eigi að fá stuðning. En ég vil gera það að lokaorðum mínum að vara hæstv. ríkisstj. alvarlega við þeim fyrirætlunum að gefa frá sér síðustu tilraunir sínar til að sýna verðbólguþróuninni nokkurn viðnámsvott. Það getur aldrei leitt í annað en ófæru.