17.03.1966
Efri deild: 51. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í B-deild Alþingistíðinda. (481)

136. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það væri auðvitað mjög fróðlegt að ræða nokkuð þær hugleiðingar, sem fram voru settar hjá sérstaklega tveimur hv. þm., sem hér hafa talað, þeim 5. þm. Reykn. og 6. þm. Sunnl., varðandi verðbólgu og efnahagsmál. en ég skal ekki fara að tefja þessar umr. með því. Það gefst kostur á að gera það á öðrum vettvangi. En það voru aðeins nokkur orð, sem ég vildi hér segja, bæði út af brtt. þeim, sem fyrir liggja, og nokkrum atriðum öðrum.

Ég skal fullkomlega játa það, að ég er persónulega mjög sammála þeirri hugsun, sem kemur fram í brtt. hv. 5. þm. Reykn. um, að æskilegt væri að haga greiðslu hagræðingarfjárins með öðrum hætti en gert er. Og ég tel, að það væri mjög athugandi, hvort hægt er að fá samkomulag um einhverja breytingu í því efni. En enda þótt ég hafi þá skoðun, — og ég tala þar algerlega persónulega, — tel ég mér ekki fært að styðja till. á þessum vettvangi, og það byggist fyrst og fremst á því, sem hæstv. sjútvmrh. hefur hér gert grein fyrir, að það var gert ráð fyrir því og var út frá því gengið, þegar samkomulagið var gert við frystihúsin, að tiltekin vinnubrögð yrðu í meginatriðum höfð í þessu sambandi. Ég tel hins vegar rétt að láta þessa skoðun mína koma í ljós, vegna þess að ég vil ekki, þrátt fyrir það, þó að till. hv. þm. verði felld, megi það túlkast sem svo, að það sé almenn skoðun þm., sem kynnu að greiða atkv. gegn henni, að það kæmi ekki til álita að haga greiðslu hagræðingarfjárins með þessum hætti, þannig að ekki megi gagnálykta frá afstöðu manna, að það merki það, að menn vilji alls ekki, að það sé tekið tillit til þeirra sjónarmiða, sem þarna er um að ræða. Þetta tel ég nauðsynlegt að komi fram, vegna þess að ella mætti líta svo á, að það að fella þessa till. merkti, að menn væru algerlega ásáttir með að fara þessa leið, sem frv. gerir ráð fyrir. Ég tel, að hagræðingarfé geti átt mikinn rétt á sér, og það er gert ráð fyrir því, t.d. í sambandi við frv., sem ríkisstj. flytur um iðnlánasjóð, að það sé komið á sérstakri aðstoð við iðnaðinn í því efni, og það er mjög mikils um vert í sambandi við sjávarútveginn líka, og það er engum efa bundið, að það er rétt, að aðstaða frystihúsanna er mjög mismunandi. Hins vegar varð þessi skoðun ofan á í samtökum hraðfrystihúsaeigenda eða fiskkaupenda, sem voru aðilar að þessu samkomulagi um fiskverðið, og ég tel, að með hliðsjón af því, að ríkisstj. samþykkti að beita sér fyrir því, að þessi aðstoð yrði veitt, og það var grundvöllurinn að því, að Samningar tókust, verði að standa við það samkomulag, enda þótt menn kunni að vera mismunandi hrifnir af einstökum atriðum í því efni. Ég tel því, að það sé mjög æskilegt þrátt fyrir þetta, hvernig málið liggur fyrir, að það verði kannað, hvort með einhverjum hætti er hægt að koma við skilningi á því, að þessu fé yrði skipt með öðrum hætti. En það yrði að sjálfsögðu að gerast með samkomulagi.

Hv. 1. þm. Norðurl. e. gerði hér grein fyrir till. um frystihús, sem ættu í erfiðleikum, og ræddi þar einmitt mismunandi aðstöðu fiskvinnslustöðvanna, sem er í nokkuð svipuðum anda og hv. 5. þm. Reykn. ræddi. Þó er þessi till. hv. 1. þm. Norðurl. e. nokkuð óljós, hvernig ætti að hugsa sér framkvæmd hennar, en það mun þó vera gert ráð fyrir einhverjum svipuðum leiðum í því efni og felast í till. hv. 5. þm. Reykn. Það getur út af fyrir sig vel verið, að það muni ekki um að bæta einum pinkli á Skjónu, eins og sagt er, — var það Brúnka? — jæja, hvað sem hún heitir, en það kemur nú samt oftast nær að því, að öllu er ofboðið. 10 millj. eru kannske ekki mikið fé, en miðað við allar þær hneykslanir manna við þetta, — það er út af fyrir sig sjaldan hneykslazt yfir því að vísu, að það sé verið að greiða út peninga, — en miðað við hneykslanir manna yfir þeim ráðstöfunum, sem eigi að gera til þess að afla fjárins, getur þetta skipt nokkru máli. Látum það allt vera. Það var ekki það, sem ég ætlaði um að ræða, heldur hitt, að ég er efnislega sammála hv. 1. þm. Norðurl. e. um, að það er um að ræða, eins og ég áður sagði, mikla mismunun varðandi afkomu fiskverkunarstöðva og sérstaklega varðandi möguleika þeirra til þess að fá afla til vinnslu, og ég tel þess vegna alveg rétt, að það komi fram hér við þessar umr., að þó að ég telji ekki auðið að styðja þessa till., merkir það sízt af öllu það, að ríkisstj. hafi ekki haft skilning á því, að hér væri um erfiðleika að ræða. Við vitum, að það eru einmitt sérstaklega fiskvinnslustöðvar fyrir öllu Norðurlandi, sem hafa átt við mikla örðugleika að stríða, fyrst og fremst vegna þess, að þær hafa ekki fengið nema mjög takmarkað hráefni. Nú hefur af hálfu ríkisstj. verið gerð sérstök ráðstöfun til þess með alveg sérstakri styrkveitingu, sem nú er að vísu ekki örugglega vitað um, hvað há fjárhæð er, en það mun vera á milli 6 og 7 millj. kr., sem hefur verið heimilað að nota sérstaklega til þess að veita aðstoð í því skyni, að fiskvinnslustöðvar á Norðurlandi geti fengið hráefni, og til þess að greiða fyrir því í senn, að heimabátar geti verið þar, stundað veiðar heima fyrir án mjög verulegrar áhættu, og jafnframt til þess að gera tilraunir með flutning á hráefni frá útgerðarstöðum annars staðar á landinu. Þessu fé er ætlunin að verja á þessum vetri til aðstoðar einmitt við þessi byggðarlög og þessar fiskvinnslustöðvar og útgerðarfyrirtæki, sem þarna eiga við mesta erfiðleika að stríða. Og það má jafnframt ganga út frá því, og það verður að ætlast til þess, að það verði niðurstaðan varðandi ráðstöfun á hinum mismunandi markaðsmöguleikum hraðfrystihúsanna, að þeir möguleikar, sem nú eru fyrir hendi til þess að selja heilfrystan fisk, sem er miklum mun ódýrari í vinnslu fyrir frystihúsin en önnur fiskverkun, að það verði fyrst og fremst látið koma til góða frystihúsum, sem eiga í erfiðleikum, og þess vegna var lögð á það mikil áherzla af ríkisstj. í viðskiptasamningum að fá einmitt möguleika til þess að selja slíkan fisk. Þetta hvort tveggja hefur að sjálfsögðu mjög veigamikla þýðingu fyrir einmitt þessar stöðvar og þessa staði, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. ræddi um, þannig að ég tel. að þrátt fyrir það, þó að ekki verði talið fært að samþykkja þessa till. eins og hún liggur fyrir, hafi vissulega verið gerðar mjög jákvæðar ráðstafanir til þess áð líta með skilningi á erfiðleika þessara aðila.

Ég vil. eins og ég sagði í upphafi, ekki fara að efna hér til almennra umræðna um skattamál og efnahagsmál og skal því reyna að forðast að gefa mikil tilefni til þess. Því var lýst yfir af báðum þeim hv. talsmönnum, sem aðallega gagnrýndu frv. hér áðan, 5. þm. Reykn. og 6. þm. Sunnl., að það versta við þetta frv. væri tekjuöflunin, og það er í rauninni ekkert nýtt að heyra þá skoðun varðandi mál, sem hér liggja fyrir þingi, ekki eingöngu frá þessum hv. þm., heldur frá stjórnarandstöðunni yfirleitt, og þetta séu út af fyrir sig ágæt mál, en það, sem sé slæmt við þau, sé það, að ekki sé gert ráð fyrir að afla fjár til að standa undir kostnaði við þau. Hv. 6. þm. Sunnl. var nokkru orðhvassari í sinni ræðu og taldi þetta allt mjög vítavert og sýndi, að ríkisstj. hefði ekki tök á neinu. Hins vegar var lítið upplýst um „hina leiðina“, sem manni skilst að nú sé eina leiðin. Því miður fær maður aldrei þessi vísdómsorð, hvernig eigi að leysa þetta með öðrum og skynsamlegri hætti en hér er um að ræða. En það kannske kemur í ljós á sínum tíma.

Hv. 5. þm. Reykn. sýndi þó viðleitni til þess, sem ber vissulega að virða, og játaði í rauninni, að þótt það væri skylda ríkisstj. að benda á úrræði, væri það að sjálfsögðu einnig skylda stjórnarandstöðu, sem væri andvíg úrræðunum, að benda á einhverjar leiðir þá aðrar. Og hann nefndi þó eitt atriði, þar sem hann ræddi um skattlagningu svokallaðs verðbólgugróða. Þetta lítur út af fyrir sig vel út á pappírnum, það má segja, að að vissu leyti hafi ríkisstj. farið þá leið, og sú leið mætti þó mjög takmörkuðum skilningi frá stjórnarandstöðunni hér, en það var í sambandi við það, þegar samþykkt var fyrir áramótin að hækka fasteignamat til eignarskatts, því að áð sjálfsögðu felst verðbólgugróðinn ekki hvað sízt í því, að menn eigi húseignir og fasteignir og hafi þannig verndað peninga sína gegn verðfalli og í gegnum árin, sem vissulega er rétt, öðlazt þannig mjög verulegar fjárhæðir. Hvort ber að túlka það sem gróða eða ekki, er önnur saga. Það fer eftir því, hvernig á málið er litið. Kostnaður við byggingar hefur að sjálfsögðu aukizt á móti, þó að það sé ekki í öllum tilfellum hliðstætt, það fer eftir atvikum. En engu að síður má þó segja, að þarna sé um að ræða nokkurs konar skattlagningu verðbólgugróðans. Ég sé ekki með góðu móti, að það væri hægt að hugsa sér annað skattlagningarform en einmitt einhvern slíkan eignarskatt, þannig að ég held, að það þurfi allt að hugleiðast betur, áður en menn telja, að sé hægt að afla til viðbótar 80 millj. kr. með þessum hætti.

Varðandi svo að lokum þær ávítur hv. 6. þm. Sunnl., að það væri stórlega vítavert, eins og hann orðaði það, að hafa ekki í fjárl. séð fyrir fé til að mæta þessum útgjöldum hér, sem hann sjálfur þó viðurkenndi að enginn hefði vitað um, fyrr en nokkrum vikum eftir að fjárlög voru afgreidd, þá held ég nú, að sá ágæti maður sjálfur mundi ekki telja þetta jafnvitavert og hann segir í sínum málflutningi, til þess er hann allt of glöggur maður að gera sér ekki grein fyrir því. að það er útilokað að gera ráð fyrir og ákveða fjárveitingu til útgjalda, sem enginn veit, hversu há verða. Það var hins vegar tekið fram í sambandi við afgreiðslu fjárlaga, eins og hér hefur verið rætt um, að vitanlega hefði ríkisstj. gert sér grein fyrir því, að allar horfur væru á því, að einhverja aðstoð þyrfti að veita í þessu efni. Þá lágu ekki fyrir niðurstöður af athugunum á efnahag frystihúsanna eða afkomu útgerðarinnar, og það yrði að sjálfsögðu að liggja endanlega fyrir, áður en hægt væri að taka ákvörðun um þá hluti, og það yrði þá að sjálfsögðu að sjá fyrir fjármunum til þess. Og það var alltaf haft í huga að fara þá leið, sem hér er gert ráð fyrir, að mæta þeim útgjöldum með lækkun niðurgreiðslna. Ég sé því ekki, að varðandi formið á því, hvernig þetta mál ber að, sé það með nokkrum óeðlilegum hætti, því að það er auðvitað enginn kostur á því, og ég held ekki, að jafnvel hv. 6. þm. Sunnl. sé svo forspár maður, að hann hefði getað fullyrt þá nákvæmlega um það, hve mikið fé þyrfti í þessu skyni.

Það má svo í ofanálag segja það varðandi þessar vítur, að manni skildist við afgreiðslu fjárl., að allar tillögur ríkisstj. til að jafna halla fjárl. væru líka vítaverðar, þannig að það hefði sennilega ekki breytt ákaflega miklu um þær vítur, þó að hefðu verið fluttar till. um einhverja sérstaka skatta þá til þess að mæta væntanlegum útgjöldum, sem enginn vissi um. Mér er sem ég hefði séð framan í suma hv. stjórnarandstæðinga, ef fluttar hefðu verið tillögur í þá átt, án þess að hafa nokkra hugmynd um, hver raunveruleg útgjöld á þeim liðum yrðu.

Ég skal svo aðeins endurtaka það að lokum, að eins og hv. 5. þm. Reykn. réttilega sagði, er það að sjálfsögðu skylda ríkisstj. að benda á úrræði til þess að mæta þeim útgjöldum, sem hún leggur til að séu tekin á ríkissjóðinn. Það hefur hér verið gert. Menn segja sumir, að það hefði verið heppilegra að fara aðrar leiðir í því efni. Um það má að sjálfsögðu ræða og rökræða fram og aftur, og það er ekkert trúaratriði fyrir ríkisstj., hvort þessi leið er farin eða önnur. Það var niðurstaðan, að þetta væri heppilegasta leiðin, sem um væri að ræða, fremur en að skerða enn verklegar framkvæmdir eða leggja á beina nýja skatta, þannig að þetta er sú skoðun, sem mótast í frv. Það er svo auðvitað gersamlega út í hött og er ekki hægt að taka á nokkurn hátt alvarlega þá menn, sem óskapast yfir þessu án þess að hafa þó nokkra tillögu fram að færa. En við hina, sem gagnrýna þetta og segja, að það hefði verið betra að fara einhverjar aðrar leiðir, er að sjálfsögðu hægt að ræða, og mér finnst sjálfsagt, að það sé tekið til athugunar við meðferð málsins hér í þingi, hvort þar er um nokkrar raunhæfar tillögur að ræða, sem hægt væri að sýna fram á að leystu þennan vanda með æskilegri hætti en gert er ráð fyrir.

Skattahækkanir eru auðvitað alltaf vandamál. í hvaða formi sem þær eru, hvort sem það eru beinir skattar eða taka af hlunnindi, eins og hér er gert, og það er auðvitað engin sérstök speki, sem menn hafi ekki gert sér grein fyrir, að þetta muni hafa viss áhrif, skattahækkanir allar hafa það yfirleitt. Og ég er ekki búinn að sjá það t.d., að menn mundu koma sér saman um það, þegar verið er að gagnrýna, að þetta leggist aftur á atvinnureksturinn, að leggja á einhverja skatta, sem atvinnureksturinn hefði komizt hjá að greiða sjálfur. Ég er ekki alveg búinn að sjá, að menn hefðu fundið slík úrræði eða talið sér gerlegt að styðja að skattlagningu annarra þjóðfélagsborgara, þannig að það lenti ekki á atvinnurekstrinum a.m.k. held ég, að það sé úrræði, sem ekki hefðu verið líkleg til þess að hljóta þann skilning almennings, sem talið er og að sjálfsögðu er alltaf nauðsynlegt að sé sem mest fyrir hendi, þegar um lausn á svona vandamálum er að ræða.