21.03.1966
Neðri deild: 57. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 676 í B-deild Alþingistíðinda. (487)

136. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, hefur hv. Ed. þegar afgreitt samhljóða úr hv. þd., þrátt fyrir að ýmsar brtt. hv. stjórnarandstæðinga hefðu þá verið felldar við atkvgr. þar.

Við umr. um frv. um útflutningsgjald af sjávarafurðum fyrir skömmu lýsti ég því yfir, að von væri á öðru frv. um aðstoð eða ráðstafanir vegna sjávarútvegsins til staðfestingar á því fiskverði, er yfirnefnd verðlagsráðs samþykkti 6. jan. s.l. Þetta frv. er nú hér til 1. umr.

Á tveimur undanförnum árum hefur ríkissjóður greitt framlag til framleiðniaukningar og hagræðingar í framleiðslu hraðfrystiiðnaðarins. Framlög ríkisins í þessu skyni námu 43 millj. kr. árið 1964 og 33 millj. kr. árið 1965. Upphaflega ástæðan til þessa stuðnings við undirstöðuatvinnuveginn var á sínum tíma talin sú, að þær launahækkanir, sem hér var samið um á árinu 1963, gæti þessi atvinnuvegur ekki borið, eins og á stóð um verðlag fyrir fiskafurðir erlendis. Þær endurbætur, sem síðar hafa átt sér stað á þessum mikilvæga iðnaði okkar, m.a. fyrir umrætt framlag ríkisins, hafa reynzt nær ómetanlegar okkur í vil til þeirrar hörðu samkeppni, sem á sér stað á heimsmarkaðinum um sölu fiskafurða. Það er engum vafa undirorpið, að hið jafnt hækkandi verðlag erlendis á fiskafurðum okkar á s.l. árum byggist að öðru jöfnu og jafnvel vilja sumir fullyrða öðru fremur á bættum vinnsluaðferðum og þar með aukinni hagnýtingu aflans, sem umræddur styrkur ríkisins hefur stuðlað að.

Svo sem frá er skýrt í grg. frv., tóku frystihúsin að fullu á sig 15% kauphækkun árið 1963 og einnig það, sem í þeim efnum bættist við á árinu 1964, ásamt þeirri fiskverðshækkun, 6%, sem einnig bættist víð á því ári og ríkissjóður hafði greitt þá um sinn til bráðabirgða. En vegna 51/2% fiskverðshækkunar, sem þá var ákveðin af yfirnefnd verðlagsráðs sjávarútvegsins, svo sem áður er frá greint, var ákveðið með l. nr. 34 í ársbyrjun s.l. árs að greiða 33 millj. kr. úr ríkissjóði.

Niðurstaða yfirnefndar verðlagsráðs að þessu sinni varð sú, að ekki væri unnt að ná samkomulagi aðila um minni fiskverðshækkun en 17%, þrátt fyrir gott árferði í afurðasölumálum og bætta aðstöðu heima fyrir í sjálfri framleiðslunni. Var nauðsynlegt talið til að brúa bilið til samkomulags, að hið opinbera hlypi nú enn undir bagga, ef tryggja ætti sjómönnum og útgerðarmönnum fyrrnefnt verð. Tekjumismunur sjómanna af bolfiskveiðum og síldarsjómanna hafði aukizt með hinu góða árferði í síldveiðum undanfarin ár og því eðlilegt, að tregða væri á sjómönnum til þessara starfa, þar sem minni tekjuvon var. Í áttina til tekjujöfnunar milli þessara greina sjávarútvegsins var 17% fiskverðshækkun því nú talin algert lágmark samkv. mati yfirnefndarinnar. Til þess að margnefnt samkomulag um fiskverð gæti átt sér stað, var samkvæmt athugun yfirnefndarinnar talið nauðsynlegt í fyrsta lagi að hækka framlagið til framleiðniaukningar um 17 millj. kr., eða úr 33 millj. kr. í 50 millj. kr., sem talið var samsvara 2% fiskverðshækkun. Í öðru lagi, að 25 aura verðuppbót á línu- og handfærafisk, sem greidd var á árinu 1965, héldist áfram óbreytt þetta ár, en auk þess féllust fiskkaupendur á — og nú í fyrsta sinn — að greiða jafnháa upphæð á móti á þennan fisk. Framlag ríkissjóðs í þessu efni er áætlað 20 millj. kr. Í þriðja lagi var á s.l. ári með sérstökum lögum samþykkt að heimila greiðslu verðuppbótar úr ríkissjóði á útflutta skreið, er næmi allt að 10 millj. kr. Heimild þessi var að fullu notuð, og var nú einnig álitið nauðsynlegt að heimila sömu verðuppbætur í krónutölu. Í fjórða lagi: Til þess að umrætt samkomulag gæti tekizt, var umfram framangreinda aðstoð enn fremur álitið nauðsynlegt að breyta viðmiðun útflutningsgjaldsins, svo sem þegar hefur verið afgreitt frá hv. Alþingi með sérstöku frv. nú fyrir skömmu.

Samanborið við fjárhagslega aðstoð hins opinbera í þessum efnum á s.l. ári, er hér um 17 millj. kr. hækkun að ræða. Þá nam þessi aðstoð 60—63 millj. kr. Nákvæm endanleg tala er enn ekki að fullu ljós, en skv. frv. þessu mun aðstoðin nema um 80 millj. kr.

Þegar fjárlög voru endanlega afgreidd hér á Alþ. nú fyrir jól, varð ekki séð, að hve miklu leyti aðstoðar hins opinbera væri þörf. Það eina, sem lá þá örugglega fyrir í þessum málum, var, að verulegar hækkanir höfðu orðið í mörgum greinum útfluttra sjávarafurða, eins og frá er skýrt í grg. frv., og því ljóst, að fiskkaupendur gætu af þeim sökum borið nokkra fiskverðshækkun. Það kom einnig á daginn, að í fyrsta sinn í starfi verðlagsráðsins gátu fiskkaupendur nú fallizt á að taka á sig 8% fiskverðshækkun. Fiskseljendur, sjómenn og útgerðarmenn, töldu það boð hins vegar allt of litla hækkun og vísuðu málinu af þeim ástæðum til yfirnefndar, sem endanlega felldi úrskurð sinn, svo sem hér greinir, 6. jan. s.l.

Af þessum ástæðum er ljóst, að ekki var mögulegt að áætla tekjuþörf í þessu skyni við afgreiðslu fjárlaga. Að mati ríkisstj. er tekjuöflun fjárl. hins vegar það naum, að ekki er fyrirsjáanlega unnt fyrir ríkissjóð að taka á sig þau útgjöld, er af samþykkt frv. þessa leiðir, án rekstrarhalla.

Með framangreindar staðreyndir í huga er eðlilegt, að hv. alþm. spyrji: Með hvaða hætti hyggst ríkisstj. leysa þann fjárhagslega vanda, er af útgjöldum þessum leiðir? Taki ríkisstj. á sig að leysa þann fjárhagslega vanda, sem fylgdi 17% fiskverðshækkun, var því um tvær höfuðleiðir að velja: Í fyrsta lagi að beita sér fyrir almennum skattahækkunum, er brúað gætu bilið. Í öðru lagi að létta af ríkissjóði þeim útgjöldum, sem þegar er gert ráð fyrir, t.d. verklegum framkvæmdum eða niðurgreiðslu vöruverðs.

Varðandi fyrri liðinn er það að segja, að ríkisstj. hefur lýst sig við fjárlumr. andvíga almennum skattahækkunum. Af þeim ástæðum yrði lausn vandans nú ekki fundin með þeim hætti. Hvað síðari liðinn áhrærir virðist óþarft að minna á, að á s.l. 2 árum hefur verið notuð almenn heimild í fjárl. til að draga úr opinberum framkvæmdum og yrði þegar af þeim ástæðum ekki farið inn á þá braut enn einu sinni.

Í blöðum hv. stjórnarandstæðinga sem og reyndar viðar hefur því verið þráfaldlega fram haldið, að niðurgreiðslur ýmissa vörutegunda kæmu neytendum að litlu sem engu haldi, og ríkisstj. sökuð um að viðhalda þessu ástandi þvert ofan í yfirlýsingar sínar um að vilja afnám niðurgreiðslna og til þess eins að falsa kaupgjaldsvísitölu, eins og stundum hefur verið sagt. Hvað sem liður sannindum þessara ásakana, þá er víst, að afnám niðurgreiðslna af einstökum vörutegundum hefði, áður en kaupgjaldsvísitala var á ný upp tekin á laun, verið af launþegasamtökunum réttilega metið sem bein og óbætt kjaraskerðing og því lögð áherzla á að fá slíkt bætt í næstu kjarasamningum. Nú á greiðsla verðlagsuppbótar á laun hins vegar að tryggja launþegum bætur fyrir afnám niðurgreiðslna á vörutegundum, sem nú gilda.

Ríkisstj. hyggst, eins og fram kemur í lok grg. fyrir frv., mæta nauðsynlegum útgjöldum vegna frv. þessa með því að draga úr eða afnema með öllu niðurgreiðslur á ákveðnar vörutegundir. Það er hins vegar ekki endanlega ákveðið, hverjar þessar vörutegundir eru, og óeðlilegt að skýra frá því í einstökum atriðum, þótt svo væri, að sú ákvörðun hefði verið tekin, eins og hv. þm. hlýtur að vera ljóst. Ég tel hins vegar eðlilegt og skylt að skýra nú þegar frá þessum fyrirhuguðu ráðstöfunum, sem ríkisstj. hyggst gera, þótt endanlega hafi ekki verið frá þeim gengið eða gildistöku þeirra.

Herra forseti. Ég legg til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.