21.03.1966
Neðri deild: 57. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í B-deild Alþingistíðinda. (488)

136. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, ber vott um það, sem raunar orkar ekki lengur tvímælis, að komið er á hér á landi nýtt uppbótakerfi í verulegum hluta útflutningsframleiðslunnar samhliða niðurgreiðslukerfinu, en til niðurgreiðslu á vörum innanlands er í fjárl. fyrir árið 1966 gert ráð fyrir að verja nálega 560 millj. kr. Þetta uppbóta- og niðurgreiðslukerfi er að sjálfsögðu rökrétt afleiðing af þeirri þróun, sem orðið hefur á öðrum sviðum efnahagslífsins, þ.e.a.s. hinni sívaxandi dýrtíð síðustu ára.

Í 1. gr. þessa frv. er ákveðið að greiða úr ríkissjóði 25 aura verðuppbót á hvert kg af línu- og handfærafiski og áætlað, að sú upphæð nemi um 20 millj. kr. Samkvæmt 2. gr. á að greiða 50 millj. kr. á framleiðslu hraðfrystihúsanna. Og í 3. gr. er heimilað að greiða allt að 10 millj. kr. til verðuppbóta á skreiðarframleiðslu. Það er að vísu orðað svo, að 50 millj. skv. 2. gr. skuli greiða til framleiðniaukningar og endurbóta, en í umr. í hv. Ed. um þetta mál kom það glöggt fram, hvers konar greiðslur hér er raunverulega um að ræða. Samtals eru útgjöld skv. frv. áætluð 80 millj. kr. Við þetta bætist svo það fé, sem greitt er vegna framleiðslu togarafisks, en um ráðstöfun þess fjár eru ákvæði í 4. gr. frv., þar sem heimilað er að miða greiðslur til togara úr aflatryggingasjóði við úthaldstíma þeirra á því ári o.s.frv.

Þessar uppbótagreiðslur hafa áður átt sér stað, en verða nú skv. frv. nokkru hærri en fyrr, ef að lögum verður. Athyglisvert er, að þær þarf að inna af höndum og hefur þurft, á sama tíma og verð hefur hækkað til muna á sjávarafurðum erlendis. Sú staðreynd undirstrikar alveg sérstaklega þá þróun, sem hér á sér stað í efnahagsmálum.

Að því hníga flest rök, að ég ætla, að þær uppbætur, sem hér er um að ræða, séu óhjákvæmilegar, til þess að sú útflutningsframleiðsla, sem hér á hlut að, fái staðizt. Á sumum sviðum, hygg ég, að meira þurfi til að koma, ef duga skal. A þessu stigi málsins vil ég láta í ljós þá skoðun, að uppbótin til frystihúsanna verði, ef hún verður greidd á sama hátt og áður, alls kostar ófullnægjandi fyrir þau frystihús eða vinnslustöðvar, sem erfiðasta aðstöðu hafa, og hef ég þá sérstaklega í huga ýmis frystihús á því svæði, þar sem sumarveiðar eru stundaðar, og þá einkum Norðurland. Ég held, að óhjákvæmilegt sé að samþykkja breyt. eða viðbót við frv. til að bæta úr þeirri þörf, sem hér er um að ræða. Einnig virðist mér, að taka þurfi til sérstakrar athugunar ákvæði 4. gr. frv. um uppbætur til togaraútgerðarinnar eða greiðslur, á hvern hátt þær skuli inntar af höndum.

Fé til þeirra uppbóta, sem gert er ráð fyrir í frv., er ekki veitt í fjárl. þessa árs. Í grg. frv. er gert ráð fyrir tilfærslu í uppbóta- og niðurgreiðslukerfinu, til þess að hægt sé að greiða þessar 80 millj., sem hér er um að ræða, þ.e.a.s. að lækka niðurgreiðslur á vöruverði innanlands um 80 millj. á þessu ári. Samkvæmt þessu hlýtur vöruverð að hækka, þ.e.a.s. verð á þeim vörum, sem niðurgreiðslan verður lækkuð til.

Ég vil nú leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh., hvort áætluð hafi verið sú hækkun á vísitölunni, sem brottfall þessara niðurgreiðslna hefur í för með sér, og þá um leið, hverju sú vísitöluhækkun nemi til hækkunar á útgjöldum ríkissjóðs á árinu.

Þar sem ég á sæti í nefndinni, sem fær væntanlega málið til meðferðar, mun ég ekki ræða það nánar að þessu sinni.