21.03.1966
Neðri deild: 57. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í B-deild Alþingistíðinda. (492)

136. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur orð. Það er nú þegar orðið áliðið nætur. — Ég verð aðeins að lýsa undrun minni yfir því svari, sem hæstv. fjmrh. veitti til skýringar á þeirri yfirlýsingu, sem hann gaf við afgreiðslu fjárl. varðandi það mál, sem hér hefur verið rætt. Þegar hann lýsti því yfir við afgreiðslu fjárl., eins og hann endurtók hér, að það væri skoðun sín, að það þyrfti ekki að grípa til nýrra skatta til að standa undir hliðstæðum greiðslum til stuðnings sjávarútveginum og hefðu farið til hans á s.l. ári, segir hæstv. fjmrh. nú, að hann hafi beinlínis haft í huga, þegar hann gaf þessa yfirlýsingu, að það yrði gripið til þessara ráðstafana um lækkun á niðurgreiðslum. Það má undarlegt heita, að hann skyldi þá ekki skýra frá því alveg hreint og greinilega, eins og hann þó var spurður. Hann var spurður af mér um það, hvort það mundi þurfa að grípa til þess að leggja á nýjar álögur. Og það verð ég að segja, að það er lítil alvara, sem fylgir hjá hæstv. fjmrh. í sambandi við afgreiðslu fjárl., að þegar er verið að greiða atkv. um tiltekna liði á fjárl., meina menn ekkert með því, þeir eru jafnvel ákveðnir í að fara ekkert eftir því, sem þeir eru að leggja fyrir Alþ. og samþykkja. Þeir hafa allt annað í huga, að hverfa frá þessum upphæðum. Það er undarlega staðið að málum. Ég hygg, að það hafi fleiri skilið ummæli hæstv. fjmrh. en ég á þá leið, þau sem hann gaf hér 13. des., að ríkisstj. hefði beinlínis gert ráð fyrir því, að fjárhagur ríkissjóðs leyfði að standa undir hliðstæðum greiðslum til sjávarútvegsins á árinu 1966 og hann hefði getað staðið undir á árinu 1965. En það að ætla að snúa sig út úr þessu á þann hátt, að hér sé ekki um skattaálögur að ræða, ekki formlega séð, eins og hæstv. fjmrh. sagði, slíkt er aðeins orðaleikur. Vitanlega er hér um ráðstöfun að ræða, sem fullkomlega jafngildir skattahækkun, og þar er þess vegna aðeins um orðaleik að ræða.

Mér þykir alveg einsýnt, að frá því, sem hæstv. fjmrh. hefur gert sér vonir um við afgreiðslu fjárl. um greiðslugetu ríkissjóðs, hefur hann nú verið að hverfa og grípur þá til þessa ráðs að ætla að lækka niðurgreiðslur á vöruverði, þó að hann sjái, að afleiðingarnar verða almenn verðhækkun, sem vitanlega kallar á stóraukin útgjöld, bæði hjá ríkinu og hjá atvinnuvegunum. Hann gerir sýnilega, eftir því sem hann sagði hér, ráð fyrir því, að þessi 2% hækkun á kaupi muni þýða í aukin útgjöld hjá ríkissjóði 20 millj. kr. Og ég veit, að hann hefur líka gert sér grein fyrir því, að sjávarútvegurinn sem heild í landinu fær af þessum sökum ekki minni aukaútgjöld á sig en sem nemur 20 millj, kr. Það mun láta nærri, að frystihúsin ein muni verða að taka á sig af þessum ástæðum í kringum 12 millj. kr. vegna 2% hækkunar á kaupi. Og svo vita allir, að slíkar hækkanir leiða af sér nýjar hækkanir og nýjan vanda.

Ég skal svo ekki lengja þessar umr. frekar, en mér þykir sem sagt, að illa hafi staðizt þær yfirlýsingar, sem hér voru gefnar varðandi þetta mál við afgreiðslu fjárlaga.