31.03.1966
Neðri deild: 62. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í B-deild Alþingistíðinda. (506)

136. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Frsm. meiri hl. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Eins og tekið var fram af hálfu okkar, sem flytjum brtt. á þskj. 385, við 2. umr. málsins, byggjum við þessa till. á því, að það sé meiri þörf uppbóta á línu- og handfærafisk fyrir þá, sem gerðu út síðari hluta árs 1965, heldur en þá, sem gerðu út fyrri hluta ársins. Þetta stafar af því, eins og var fram tekið af okkar hálfu. að á miðju ári 1965 urðu miklar hækkanir á kostnaðarliðum útgerðarinnar, sem gera það að verkum, að sú 25 aura uppbót, sem ákveðin var með l. um aðstoð við sjávarútveginn s.l. vetur, rýrnaði verulega. Það kann vel að vera, að það séu réttar upplýsingar, sem hv. 3. þm. Sunnl. flutti um það, að ekki væri búið að borga út eins mikið af þessum bótum og okkur hafði verið upp gefið, er við fluttum þessa till. Ég vil þess vegna taka fram, að þrátt fyrir það, að svo kunni að reynast, reiknum við ekki með, að í þetta fari meira en 3—4 millj., eins og við gerðum ráð fyrir, þegar till. var lögð fram. Enda er það svo, eins og hv. alþm. sjálfsagt vita, að fjáröflunin til ráðstafananna vegna sjávarútvegsins í fyrra var gerð með þeim hætti, að áætlað var að skera niður verklegar framkvæmdir um 20% , og samkv. áætlun átti sá niðurskurður að nema allt að 120 millj. kr. Í reynd mun niðurskurðurinn ekki hafa numið nema 85 millj. kr. og má því segja, að það geti verið hæpið, að þeir peningar, sem þarna er um að ræða, séu í raun og veru fyrir hendi. Það mundi þess vegna vera undir velvilja hæstv. fjmrh. komið, hvort sú heimild, sem veitt yrði samkv. till. okkar, yrði notuð eða ekki.