28.03.1966
Neðri deild: 60. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 708 í B-deild Alþingistíðinda. (525)

122. mál, skógrækt

Frsm. minni hl. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Það kom fram hjá forseta við 2. umr., að hann virtist líta á það sem eitthvað óviðeigandi, að ég lagði til, að frv. væri látið daga uppi. Forseti Sþ. leit öðrum augum á þetta og taldi þetta sérstaka háttvísi. Og það er svo, enda virðist hæstv. forseti Nd. varla hafa skilið þetta í svipinn, — ég veit, að hann er farinn að skilja þetta nú. En ég vil í þessu sambandi benda á það, að við, sem í stjórnarandstöðunni erum, getum ekki ætlazt til þess, að þm. stjórnarliðsins felli frv. fyrir ríkisstj., því að þetta er ekkert stórmál, en ef það væri um stórmál að tala, þýddi það vantraust. Þess vegna álít ég, að stjórnarandstaðan ætti að taka þennan sið upp, ef henni líkar illa frv., sem stjórnin kemur með, að fara hógværlega fram á, að þau verði látin daga uppi. Það er allt annað að koma með þetta í nál., það er skoðun, sem kemur fram í nál., — eða bera það fram í tillöguformi, því að þá till. þarf vitanlega að bera upp, en ekki álit manns, sem kemur fram í nál. Þetta vildi ég skýra. Af því að þetta er frumlegt hjá mér, þá vildi ég benda á þetta og benda jafnframt á það, að ég held, að stjórnarandstaðan ætti yfirleitt að taka þetta form upp í stað þess að leggja til hvað eftir annað að fella frv. fyrir stjórninni. Það er aldrei gert, þýðir ekkert að fara fram á það.

Annar liður viðvíkjandi þessu er það, að það kom fram hjá hæstv. landbrh., að ég þyrfti að fara að ferðast um landið og sjá þessa glæsilegu skóga, sem hér væru. Það er satt, að ég hef ekki skoðað Hallormsstaðaskóg, en ég hef komið í skóg í Fnjóskadalnum. En svo fór ég að spyrjast fyrir um skógrækt hérna sunnanlands hjá nákunnugum mönnum, eftir að ég fékk þessa áminningu. Annars hef ég ferðazt talsvert um dagana, þó að ég hafi ekki mátt vera að kíkja á öll þessi skógarrjóður hér á landi. Ég hef þó fylgzt með því, að það er yfirleitt ekki betur búið í kringum þessa skóga heldur en annars staðar. Eiginlega flæma þessir skógar bændurna hálfgert í burtu. Þeir mega ekki hafa skepnur sínar þarna í friði og annað því um líkt, og landið er gert nytjalítið. Ég fór að spyrjast fyrir um þessa skóga hér á Suðvesturlandinu. Hér uppi í Heiðmörkinni er megnið af þessum trjám dautt, sem var látið niður, og hitt sprettur lítið og illa og á vist eftir að deyja mikið af því enn þá. Á Þingvöllum er þetta orðið eitthvað á aðra mannhæð, var látið þar í einn álitlegasta blettinn, og í raun og veru er ekki nema gott um það að segja, því að þetta land var ekki notað til annars. En að það gefi einhverjar fjárhagslegar tekjur, það skuluð þið ekki ímynda ykkur. Þetta á að vera til prýði, og um það er ekki nema gott að segja.

Í þriðja lagi fór ég að spyrjast fyrir um skógræktina í Haukadal. og þar hafði það gengið þannig, að þessu var sáð í bjarkarkjarr, og það tók ég fram við 2. umr. málsins, að helzt væri hægt að halda lífi í barrskógunum þannig að sá þessu innan um björkina. Mikið af þessu er dautt, en hitt er orðið rúm mannhæðarhá tré. Mann, sem er nákunnugur þessu, spurði ég, hvort hann héldi, að þessi tré væru orðin til einhvers nýt eftir 100 ár. Hann sagði, að skógræktin væri lítils virði, ef það yrði ekki fyrr. En þetta gefur auga leið, hvort það borgar sig fyrir okkur að fórna sæmilegu landi undir skógrækt, þegar tré vaxa svona seint og verða kannske aldrei til hagnýtra hluta, og við sjáum, að það borgar sig alla vega betur að nota gott land til annars. En á slæma landinu þrífast trén ekki. Við verðum að reyna að rækta barrskógana upp í kjarri, og það er í rauninni ekkert við því að segja, að það sé gert. Það er eytt miklu fé í þetta. En ég álít, að ríkið eigi ekki að vera að leggja milljónir í þetta, heldur eigi þetta að vera ræktað fyrir heimahéruðin. Það er búið að stofna skógræktarfélög í mörgum sýslum. Við stofnuðum skógræktarfélög fyrir eitthvað 20—30 árum í Húnavatnssýslunni. Ég er ekki farinn að sjá einn einasta skóg koma upp, ekki nokkurn. Svo var gefið býli til skógræktar. Það er byrjað að sá. Það liggur á móti austri, og ég er sannfærður um, að plönturnar deyja hér um bil allar út. En það er eins og ég tók fram, það er í einstaka stað hér á landi mögulegt að rækta dálitið af trjám. Að það hafi fjárhagslega þýðingu fyrir þjóðfélagið eða viðkomandi héruð, það skulum við ekki ímynda okkur. En þetta getur verið ánægjuauki, og ég t.d. tel prýði að görðunum hér í Reykjavík. En það þarf að rækta trén upp með fádæma umönnun og í skjóli, og þá geta þau þrifizt. Það er engin planta, sem við reynum að láta vaxa hér, sem þarf jafnmikla umönnun og trén. Þannig er nú þessi skógrækt hér á Suðvesturlandinu.

En það eru raunar ekki Íslendingar eða styrkirnir, sem hafa búið til Hallormsstaðaskóg eða Vaglaskóg, heldur eru þetta fornar skógarleifar, sem gera það kleift að rækta barrtré.

Svo spurði ég að því, hvað gert væri við kjarrið í Haukadal, birkikjarrið, sem búið er að friða og ætti að stækka, en stækkar hér um bil ekki neitt, hvort ekki væri hægt að nota þetta í eldsneyti eða til einhvers. Nei, ónei, það borgaði sig ekki enn þá. Hitt veit ég, að hér í Reykjavík eru fáeinir menn, sem hafa gaman af að vera eitthvað öðruvísi en annað fólk, sem hafa arin í húsum sínum, — við sjáum það t.d. í okkar fræga Glaumbæ, að þar er arinn, og þar brenna einhverjir birkikubbar. Ég held, að þeir fái ekki mikið fyrir þetta. En þetta er ágætt, ef einhvern langar til að vera eitthvað öðruvísi en annað fólk, sem hafa arin í húsum sínum, við sjáum það t.d. í okkar fræga Glaumbæ, að þar er arinn, og þar brenna einhverjir birkikubbar. Ég held, að þeir fái ekki mikið fyrir þetta. En þetta er ágætt, ef einhvern langar til að vera eitthvað öðruvísi en aðrir menn, að brenna einhverjum trjábútum, og þeir borga vafalaust eitthvað fyrir það. En að þetta hafi fjárhagslegt gildi, því hef ég ekki trú á.

Segja má, að það skipti ekki miklu máli, hvort þetta sé samþykkt eða ekki, vegna þess að þarna sé aðeins um heimild að ræða, samkv. fjárl., ef veitt er fé til að rækta þessi skógræktarbelti.

En það eru tvö atriði, sem ég vildi benda á í þessu sambandi, og það er í fyrsta lagi, ef bændur fara að taka upp á þessari vitleysu, sem hafa sauðfé, þá eyða þeir í þetta bæði vinnu og peningum, því að það er ekki lítill peningur, sem liggur í tvöföldum girðingum. En eins og ég lýsti við 2. umr. er útilokað að rækta þessi skógræktarbelti, þar sem sauðfé er. Ef kind kemst í skjólbeltin og skemmir þau, á að endurgreiða styrkinn. Ég held, að fáir vildu taka það á sig að líta eftir því. Það má vel vera, að einstaka maður fari að eyða peningum og vinnu í það að búa til þessar tvöföldu girðingar til að reyna að rækta þessar plöntur, sem aldrei mundu vaxa eða þrífast. Tel ég það illa farið.

Í öðru lagi, ef við samþykkjum þetta frv., eins og það liggur fyrir, sýnir það sig, að við höfum ekki vit á hlutunum. Við erum ekki með á því, hvað hægt er að gera hér í skógræktarmálum og við hvaða skilyrði trjáplönturnar þrífast. Það sýnir fáfræði okkar á okkar atvinnuvegum, ef við förum að samþykkja þetta frv. Þess vegna óska ég eftir nafnakalli, þegar frv. þetta verður borið upp við 3. umr., því að ég vil ekki binda mitt nafn við þessa flónsku. Þetta er höfuðatriðið. Enn fremur verða sífelldar deilur og rex út af þessu. Héraðsráðunautar eiga að mæla fyrir skjólbeltunum eða skógræktarstjóri og ákvarða, hvar þau verði. Nú gefur það auga leið, þar sem er um heyrækt að ræða, að skjólbeltin þvælast fyrir, þegar slegið er og heyinu er rakað saman.

Viðvíkjandi því að skjólbeltin auki grasvöxt, þá má vera, að það sé skjól að þeim 2—3 faðma. En hvaða þýðingu hefur það, þó að það sé eitthvað loðnara þar? Það er bara, að sá blettur er sprottinn úr sér og það er verra að heyja á honum. En það er hreinn barnaskapur að ætla að taka þetta upp nema í þeim tilfellum, eins og ég benti á við 2. umr., þar sem er um garðrækt að ræða og lítil svæði og e.t.v. með kornrækt, að það gerði eitthvert gagn. Þó held ég, að með garðræktina þarna í Rangárvallasýslunni, í Þykkvabænum, að þeim gangi illa niðri við sjávarsandinn að rækta trjágirðingar kringum garðana. Ég held, að trén verði dálítið laus fyrir í fjörunni niðri undir sjónum.

Þetta er aðalatriðið. Ég held, að þetta sé hlutur sem er vanhugsaður og geti ekki orðið til mikilla nytja. En heill þeim, sem vilja rækta skóg. Þeir verða bara að gera það á annan hátt en þennan. Ef menn hafa ánægju af því að girða blett og eyða frístundum sínum í það, er það vel farið. En að bændur hafi tíma til þess, er alveg fráleitt, eða það sé fjárhagslega hyggilegt fyrir þá. Það er allt annað mál með sandgræðsluna. Það er stórt mál. Í raun og veru álít ég, að skógræktina ættum við að fá héruðunum í hendur, skógræktarfélögunum og ungmennafélögunum, ríkið ætti að hætta að skipta sér af því. En sandgræðslan er stórmál. Það ætti að beina meiri orku í það í ýmsum tilfellum. Ég hygg, að það sé tæplega nógu vel frá því gengið, þar sem verið er að reyna að rækta upp sandana á ýmsum stöðum.