18.02.1966
Efri deild: 38. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í B-deild Alþingistíðinda. (539)

106. mál, atvinnuleysistryggingar

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég stend ekki hér upp til þess að hafa uppi gagnrýni á þetta frv., a.m.k. ekki að svo komnu máli, enda skildist mér á ræðu hæstv. félmrh., að til greina kæmi að breyta því í nefnd, þ.e.a.s. þeim ákvæðum, sem það hefur sérstaklega inni að halda, og þá aðallega á þá lund, að atvinnubótasjóður gæti orðið lántakandi ásamt öðrum aðilum. Ég mundi telja þessa breytingu til bóta, en ætla ekki að fjölyrða um það að svo komnu.

Ég álít, að það hefði vel komið til greina að ganga lengra í þessa átt, að rýmka um starfsemi sjóðsins, og hefði ekki talið það neina goðgá, þó að um beina styrki hefði verið að ræða í sambandi við það að koma, í veg fyrir atvinnuleysi og styrkja uppbyggingu á þeim stöðum. þar sem sérstaklega er þörf á. En sem sagt, ég læt það bíða til betri tíma a.m.k. að ræða það frekar, þangað til þau efnisatriði, sem frv. fjallar um, hafa fengið á sig væntanlega endanlega mynd í meðferð þeirrar n., sem kemur til með að fjalla um það hér.

En í sambandi við þetta mál get ég ekki alveg stillt mig um að fara að dæmi hæstv. félmrh. og minnast örlítið á tilkomu þessa sjóðs og nokkur atriði, sem koma upp f hugann í því sambandi. Ég held, að það fari ekki á milli mála, að þegar samið var um atvinnuleysistryggingasjóð 1955, — og ég hygg, að hæstv. félmrh. muni það vel, því að hann sat í þeim samningum sem fulltrúi verkalýðshreyfingarinnar, einn ef mörgum í þeirri samninganefnd, sem um þetta samdi við ríkisstj., — þá hafi a.m.k. það atriði í sambandi við atvinnuleysistryggingasjóð verið ofarlega í huga, sem lýtur að hinni beinu tryggingastarfsemi, og það hafi í raun og veru, a.m.k. í fyrstunni, verið aðalatriðið. Það er að vísu alveg rétt, að sjálfsagt hafa menn haft það í huga strax frá byrjun, að hlutverk sjóðsins væri hvort tveggja í senn: sú beina tryggingastarfsemi, sem lögin fjalla um, og einnig önnur starfsemi, eins og lánastarfsemi, sem gæti komið í veg fyrir atvinnuleysi. Ég er auðvitað alveg sammála hæstv. ráðh. um það, að sú starfsemi er mikils virði. En ég held samt, að það megi ekki gleyma því, að atvinnuleysistryggingasjóður er þó samkv. öllu eðli málsins og hugsun fyrst og fremst tryggingasjóður, þ.e.a.s. hann eigi að skapa öryggi í þeim tilfellum, þegar um atvinnuleysi er að ræða.

Það hefur farið svo á þeim 10 árum, sem sjóðurinn hefur starfað, ég vil segja: sem betur fer, að það hefur ekki komið til alvarlegs atvinnuleysis og greiðslur frá sjóðnum í hinu beina tryggingaskyni hafa verið ákaflega litlar. Og ég tel það reyndar athyglisvert, að þegar hæstv. félmrh. kemur hér með mjög góðar upplýsingar um það, hvernig sjóðurinn hafi starfað, minnist hann ekki á það, hvað hafi verið mikið látið úti í tryggingagreiðslum á þessu tímabili. En það stafar vitanlega af því, hvort sem þar er um gleymsku eða ásetning að ræða, að hér er um svo óverulega upphæð að ræða, að það hlýtur að leiða til þess, að menn staldri við og spyrji, hvað líði þessari raunverulegu tryggingastarfsemi, sem ég vil segja að hafi verið raunverulega fyrsta og stærsta atriðið, þegar um sjóðinn var samið. Höfuðástæðan fyrir því, að lítið hefur verið greitt úr sjóðnum í tryggingaskyni, er auðvitað þessi staðreynd, sem ég minntist á, að atvinnuleysi hefur verið lítið, hefur verið staðbundið og bundið við árstíma, en ekki um fjöldaatvinnuleysi að ræða, sem hefði getað komið verulega við sjóðinn. En einnig er nokkur ástæða fólgin í því, að lögin um atvinnuleysistryggingarnar hafa ekki verið endurskoðuð eins og lög standa til. Lögin hafa verið brotin að því leyti, og það hafa ekki af þeirri ástæðu verið gerðar neinar breytingar á tryggingabótunum á þessu 10 ára tímabili. Þær standa óbreyttar enn í dag, grunnbæturnar, sem lögin ákváðu í fyrstu, og hefur aðeins lagzt á það sú vísitala, sem gert er ráð fyrir í lögunum. En vitanlega var það svo, að þegar lögin voru sett, — og það var aðeins ætlazt til þess þá, að þau stæðu óbreytt í tvö ár eða til 1958, en þá átti endurskoðuninni að vera lokið, — þá var það sjónarmið haft að fara mjög gætilega í þetta, ákveða bæturnar mjög lágar, meðan nokkurt stofnfé væri að safnast og meðan sjóðurinn væri að styrkjast til þess að gegna því hlutverki, sem hann átti að gegna. En vitanlega var það hugmyndin áreiðanlega hjá öllum, sem um þetta mál fjölluðu, að þegar sjóðnum yxi fiskur um hrygg, yrði um verulegar hækkanir á bótunum að ræða. En það hefur sem sagt farizt fyrir að endurskoða þetta eins og önnur atriði í sambandi við löggjöfina, og ég tel, að við svo búið megi ekki standa.

Það er að vísu ágætt, að atvinnuleysistryggingasjóður hefur breytzt frá því að vera hugsaður sem tryggingasjóður gegn atvinnuleysi og í það að verða almennur fjárfestingarsjóður fyrir landsmenn. En ég hygg, að það geti farið svo, að þeir, sem gjalda til sjóðsins raunverulega hluta af kaupi sínu, eins og hæstv. félmrh. viðurkenndi með sínum orðum, — hann sagði, að það hefði ekki verið samið um það kaupgjald, það hefðu ekki verið gerðir þeir samningar, sem voru gerðir 1955, ef ekki hefði verið samið um sjóðinn, og í því felst vitanlega, að það var raunverulega fallið frá kröfum um kauphækkanir gegn því að fá ákveðna sjóði, og þetta er sömuleiðis viðurkennt með því, að á pappírnum a.m.k. eru verkalýðsfélögin skráð eigendur að sjóðnum, hvert verkalýðsfélag á sinn hlut í þessum sjóði, og þau eru raunverulega hinn eini skráði eigandi, — en ég hygg, að þó að það sé gott, að við höfum fengið öflugan fjárfestingarsjóð, kunni svo að fara, að almenningur og þá fyrst og fremst láglaunafólkið, sem greiðir í þennan sjóð hluta af raunverulegum launum sínum, það fari að hika við, hvort það sé réttmæt aðferð, ef hér er eingöngu um fjárfestingarsjóð að ræða fyrir atvinnureksturinn og fyrir sveitarfélögin, fyrir ríkið, en hins vegar ekki sjóð, sem það nýtur neinna verulegra hlunninda úr og á engan beinan aðgang að til þess að bæta sinn hag á nokkurn hátt. Ég tel, að bæturnar, eins og þær eru núna úr sjóðnum í atvinnuleysistilfellum, séu orðnar hreint hneyksli, miðað við þá stórkostlegu sjóðmyndun, sem hér er um að ræða. Bæturnar, sem nú eru greiddar úr sjóðnum, nema ekki nema kannske innan við 1/10 hluta af vaxtatekjum sjóðsins, kannske er það ekki nema 1/20, ég skal ekki fullyrða um það. En það væri fróðlegt að fá upplýsingar um, hvað það væri mikill hluti, ekki af árlegum tekjum sjóðsins, heldur aðeins af sjálfum vaxtatekjunum. En á hinn bóginn það, sem einstaklingarnir fá í sinn hlut, er nú 106 kr. á hvern virkan dag, sem fjölskyldufaðir er atvinnulaus, eða 2650 kr. á hvern atvinnuleysismánuð. Einhleypur maður fær 93 kr. á dag eða 2265 kr. Og hæstu mögulegu bætur, sem menn geta notið í atvinnuleysistilfellum, eru 120 kr. á dag, þ.e.a.s. ef börnin á heimilinu eru 3 eða fleiri, eða réttar 3000 kr. á mánuði. Ég þarf ekki mörgum orðum að því að eyða, hve langt er hægt að komast með að lífa á þessum bótum. En ég hygg, að þegar þessar upphæðir eru skoðaðar í ljósi þeirrar stórkostlegu auðsöfnunar, sem á sér stað, og sjóðmyndunar, geti menn verið sammála mér um það, að þessar bætur eru hneyksli, — þær eru hreint hneyksli. Og sagan er ekki öll sögð með þessu, vegna þess að til þess að geta öðlazt þessar lítilfjörlegu bætur þurfa menn að hafa uppfyllt það skilyrði að hafa verið atvinnulausir í a.m.k. 36 daga á síðustu 6 mánuðum og a.m.k. 9 daga af síðustu 18 dögum áður en bætur eru greiddar, þannig að bæturnar eru miklu minni en þetta á hvern raunverulegan atvinnuleysisdag, sem um er að ræða. Ef t.d. um er að ræða tveggja mánaða atvinnuleysi, eru rannverulegar bætur á hvern dag ekki nema helmingur af þessu eða röskar þús. kr. á mánuði fyrir fjölskylduföðurinn.

Ég álít, að þó að sú staðreynd blasi við, að stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs, sem falin var endurskoðun l., hafi ekki verið fær um að ná samkomulagi um heildarendurskoðunina, megi ekki við svo búið standa hvað bæturnar snertir og biðtímann a.m.k. Ég held, að sú staðreynd, að það hafi ekki tekið tvö ár að reyna að endurskoða lögin eins og ákveðið er í lögunum, heldur 6—7 ár, það sýni aðeins, að þeir, sem hafa fjallað um það mál, eru ekki færir um að leysa vandann, sem um er að ræða, og þar verði aðrir að koma til. Og ég held, að í þessu tilfelli a.m.k. sé Alþ. sá rétti aðili, sem á að ráða hér bót á, enda hygg ég, að þó að deilur hafi verið um margt í sambandi við starfsemi sjóðsins, hafi ekki verið svo ýkjamiklar deilur um það í sjóðsstjórninni, að bæturnar bæri að hækka. Ég fyrir mitt leyti verð þó að segja það, að ég get engan veginn fellt mig við, að bæturnar séu endilega bundnar við það að verða þær sömu og slysabætur. Vitanlega geta slysabætur líka verið allt of lágar, og hinn atvinnulausi maður er auðvitað engu bættari fyrir það, þó að bæturnar séu ekki hærri þar.

Það, sem hér er um að ræða, er það, hvort þeir, sem eiga sjóðinn, greiða í hann og hafa myndað hann með vinnu sinni, eigi að njóta þeirra réttinda, sem upphaflega voru fyrst og fremst hugsuð með tilkomu sjóðsins, eða ekki. Og ég held, að það væri miklu farsælla að leysa þetta mál á þann hátt, sem verkamenn almennt og verkalýðsfélögin mundu sætta sig við, heldur en til þess þyrfti að koma að gera það ef til vill að úrslitaatriði í sambandi við nýja samninga um kaup og kjör að fá þennan sjóð og starfsemi hans í það horf, í það lágmarkshorf, sem verkafólk getur sætt sig við. Ég geri þetta að umtalsefni hér vegna þess, að ég álít, að hér sé um svo brýnt mál að ræða, að það sé ekki sæmandi á nokkurn hátt fyrir hv. Alþ. að opna þessi lög og gera á þeim nokkrar breytingar öðruvísi en þetta mál sé tekið til gagngerðrar athugunar og á því ráðin bót.

Ég vil trúa því og hef mikla ástæðu til að álita, að hæstv. félmrh. skilji vel, hvar skórinn kreppir að í þessu efni, sem ég hef hér gert að umtalsefni, og ég vil leyfa mér að beina þeim tilmælum til hans, um leið og ég beini þeim til þeirrar hv. n., sem fær málið til athugunar, að hún taki þetta sérstaka atriði í sambandi við löggjöfina til athugunar, og ef hún gerir það af fullri einlægni, þá er ég ekki í nokkrum vafa um, að hún kemst að þeirri niðurstöðu, að hér má ekki við svo búið standa og að þær kröfur, sem uppi hafa verið um hækkanir á atvinnuleysisbótunum, eru fullkomlega réttmætar og eiga að ganga í gegn nú þegar, hvað sem að öðru leyti líður ákveðinni heildarendurskoðun á þessum lögum.