02.12.1965
Sameinað þing: 15. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í B-deild Alþingistíðinda. (54)

1. mál, fjárlög 1966

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég flyt hér eina brtt. við fjárlagafrv. á þskj. 134. Það er I. brtt. á því þskj. Till. er um, að bætt verði nýjum lið við lið nr. XIII á 14. gr. og að liðurinn heiti „Til náttúrugripasafns í Neskaupstað, 50 þús. kr.“ Í Neskaupstað hefur verið stofnað til náttúrugripasafns, samþykktir gerðar um safnið og leitað eftir staðfestingu menntmrn. á reglugerð fyrir safnið og framlag úr bæjarsjóði er tryggt til rekstrarins, en hann er nú þegar hafinn. Hér er farið fram á nákvæmlega hliðstæðan styrk til þessa safns og til annarra slíkra safna á öðrum stöðum á landinu, og ég ætla, að það geti ekki verið neinn vafi á því, að það liggja sömu ástæður til þess að óska eftir framlagi til þessa safns eins og ýmissa annarra, sem viðurkenningu hafa fengið hjá fjárveitingarvaldinu. Ég veit, að erindi um þetta efni hafði borizt fjvn., en hún hafði hins vegar ekki séð ástæðu til þess að taka þennan lið upp í sínar till., og af því hef ég flutt þessa till. og vænti þess fastlega, að hv. fjvn, sjái ástæðu til þess að endurskoða afstöðu sína í þessum efnum og láta safnið í Neskaupstað njóta sama réttar og önnur hliðstæð söfn njóta á öðrum stöðum.

Fyrst ég er nú kominn hér upp í ræðustólinn á annað borð, get ég ekki leitt að fullu hjá mér þær umr., sem hér hafa farið fram, þótt á nokkuð breiðum grundvelli hafi verið um afgreiðslu fjárl. Að vísu er nú nokkuð liðið á kvöldið og fáir hv. þm. í salnum, og það dregur að sjálfsögðu úr því, að upp séu teknar hér miklar umr. um það mikla mál, sem hér liggur þó fyrir, sem er afgreiðsla fjárl. og full ástæða væri nú til reyndar, að allmiklar og almennar umr. færu hér fram um. Ég mun því ekki hafa mál mitt langt að sinni í trausti þess, að síðar gefist tækifæri til að ræða nánar um þessi mál. En það voru nokkur atriði, sem fram komu í ræðum manna, sem ég vildi víkja hér að, og fyrst vildi ég beina fsp. til hæstv. fjmrh., sem ég sé nú, að er ekki staddur hér í salnum, og ég vildi gjarnan fá þeirri spurningu svarað og af því fer ég fram á það við hæstv. forseta, að hann hlutist til um það, að hæstv. fjmrh. sjái sér fært að vera hér inni, meðan ég tala. (Forseti: Fjmrh. er sjálfsagt í húsinu. Ég skal gera boð eftir honum. — EOl: Það ætti að fresta þá fundi til morguns, ef ríkisstj. hefur ekki tíma til að vera við. Forseti: Fjmrh. er áreiðanlega við.) Já, fjmrh. hlýtur að koma. Það kemur ekki til mála, að hann ætlist til þess, að við ræðum um fjárl., án þess að hann sé hér nærstaddur. Það væri af og frá.

Ég vék að því, að það hefði hér ýmislegt komið fram í ræðum manna, sem gæfi tilefni til þess, að um það yrði rætt frekar, og eitt gaf mér tilefni til þess að beina tiltekinni spurningu til hæstv. fjmrh. Hér var minnzt á sölu skipsins Þyrils, sem Skipaútgerð ríkisins hefur átt og rekið um nokkurra ára skeið. Það var greint hér frá söluverði skipsins og að nokkru leyti frá greiðsluskilmálum, og það getur ekki farið á milli mála hjá þeim, sem eitthvað þekkja til í þessum efnum, að þetta skip hefur verið selt fyrir hlægilega lágt verð. Ég er ekki í neinum vafa um, að það hefði verið mjög auðvelt verk fyrir ríkið að fá miklum mun hærra verð fyrir skipið, ef sala þess hefði farið fram með eðlilegum hætti. Nú hefur verið á það bent hér, að Þyrill hafi verið happaskip á margan hátt í útgerð ríkisins, það hafi skilað verulegum hagnaði í mörg ár og staðið þó undir mjög þýðingarmikilli þjónustu fyrir landsmenn. En þetta skip, sem hafði skilað verulegum ágóða í sjóð Skipaútgerðarinnar, sem var ekki allt of ríkur fyrir, var skyndilega tekið af Skipaútgerðinni og selt útgerðarmanni eða félagi hans vestur á fjörðum. Nú vil ég spyrja hæstv. fjmrh.: Hvaðan kom ríkisstj. heimild til þess að selja þetta skip? Ég hef ekki orðið þess var, að ríkisstj. hafi fengið heimild til þess að selja þessa eign ríkisins. Hitt veit ég, að það er ekki hægt að selja svo eyðikot neins staðar á landinu, sem ríkið á, að ekki þurfi að leita til Alþ. um heimild fyrir slíkri sölu. En allt í einu er stokkið upp í þessu tilfelli og skipið selt á hlægilega lágu verði, langt undir því verði, sem auðvelt er að sanna að hefði verið hægt að fá fyrir skipið, og það getur ekki farið neitt á milli mála, að þeim aðila, sem keypti skipið, hafi verið réttar nokkrar millj. kr. á þennan hátt. Að selja Þyril á 5 millj. kr., eftir að fram hafði farið nýlega á honum klössun upp á 2½ millj., það sjá vitanlega allir, sem eitthvað þekkja til skipaeignar, að nær engri átt. Auðvitað hefði ríkisstj. í fyrsta lagi átt að afla sér heimildar, nema hún hafi þá haft einhverja heimild, sem mér er ekki kunnugt um, til þess að selja skipið, en síðan hefði ríkisstj. að sjálfsögðu átt að auglýsa skipið til sölu með venjulegum hætti og gefa öllum kost á því að kaupa skipið, ef ríkið vildi endilega losa sig við þetta skip, sem skilaði árlegum hagnaði í sjóð ríkisins. Ég tel, að hér hafi verið framið hið herfilegasta hneyksli, sé hér rétt frá skýrt um sölu þessa skips, eins og forstjóri Skipaútgerðarinnar greinir frá. Ég vil því vænta þess, að hæstv. fjmrh. geri hér nokkra frekari grein fyrir þessu máli, hér er um fjárhagsmálefni að ræða, hvernig á þessu getur staðið. Ég veit að vísu, að það mun ekki hafa verið í hans stjórnartíð sem fjmrh., sem salan fór fram, en eigi að síður hlýtur hann að hafa fylgzt með þessu máli og kynnt sér málið. Ég vænti, að hann geri hér Alþ. frekari grein fyrir því, hvernig í þessu máli öllu liggur.

Það var ýmislegt fleira, sem vakti mjög athygli manna í sambandi við þær umr., sem hér hafa farið fram um afgreiðslu fjárl. En það, sem hefur þó mest vakið athygli mína í sambandi við umr. um afgreiðslu fjárl. nú, er sá nýi og sérstaki tónn, sem hér er kominn upp í sambandi við fjárhagsmálefni ríkisins. Nú kemur hæstv. fjmrh. hér fram hvað eftir annað og ber mjög lóminn og telur, að nú sé úr vöndu að ráða með fjárhag ríkisins og nú stöndum við frammi fyrir miklu vandamáli í þeim efnum. Sýnilegur halli, segir hann, á ríkisbúskapnum á því ári, sem nú er að líða, og halli var einnig á ríkisbúskapnum á árinu 1964. Og talsmaður fjvn. undirstrikar þetta einnig mjög, að nú sé erfitt um vik að sinna hinum nauðsynlegustu erindum, sem koma til fjvn., vegna þess að svo sé orðið ástatt hjá ríkissjóði, að þar sé í rauninni ekkert afgangs, og það, sem þó kórónar þetta allt saman að mínum dómi og vekur meira að segja alveg sérstaka athygli mína, er, að svo hrekkur Framsfl. við í þessum efnum, að hann gefst að fullu og öllu upp við að flytja till. til breytinga á fjárl. ríkisins, flytur að vísu eina till. Það er af, sem áður var. Þeir framsóknarmenn drógu ekkert af sér að flytja hér brtt. Ég get ímyndað mér, að hér standi eitthvað meira til. Er það kannske meining framsóknarmanna hér á eftir, að nú sé svo komið högum hjá ríkissjóði, að þeir verði að kippa til baka öllum frv. um útgjöld, sem þeir eru búnir að flytja, öllum till., þeir hætti nú með öllu að flytja till., því að það sé allt komið á hliðina hjá ríkinu? Hvað hefur eiginlega gerzt í þessum efnum? hlýt ég að spyrja, sem svo gersamlega hefur hleypt öllum vindi úr Framsfl. á einni kvöldstund og gerir þetta að verkum, að hæstv. fjmrh. og fjvn. bera sig svona óskaplega illa? Hvað hefur komið fyrir? Hvaða slys hefur hent ríkissjóð? Það hlýtur eitthvað mikið og hafa komið fyrir.

Ég hef bent á það áður, að það hefur ekki annað og meira gerzt í þessum efnum en það, að allar ytri aðstæður hafa verið ríkissjóði mjög hagstæðar hvað tekjuöflun áhrærir. Framleiðsla þjóðarinnar hefur farið vaxandi. Heildartekjur landsmanna hafa vaxið stórlega á árinu 1964 og enn meira á yfirstandandi ári. Og tekjur ríkissjóðs hafa ekki farið minnkandi, heldur fremur hækkandi. En samt er svona komið. Jú, ég hef nokkrum sinnum gert það hér að umtalsefni eins og fleiri, að það, sem hér hafi valdið mestu um, sé þróun verðlagsmálanna í landinu, það sé hinn mikli vöxtur dýrtíðarinnar, hann sé nú að segja til sín, ekki sízt eftir að ríkisstj. samdi um það við verkalýðssamtökin í landinu sumarið 1964, að ríkið yrði einnig að standa nokkuð ábyrgt í sambandi við þróun verðlagsmálanna í landinu, að það væri ekki lengur til sú leið fyrir ríkið að skjóta sér í sífellu undan ábyrgðinni af hækkandi verðlagi í landinu og standa jafnvel fyrir slíku. Sumarið 1964 samdi ríkisstj. við launþegasamtökin um það, að öllum launþegum í landinu skyldu greiddar sérstakar verðlagsuppbætur í hlutfalli við aukna dýrtíð. Það var auðvitað alveg augljóst mál, að þegar þessir samningar voru gerðir, kallaði það á breytta stefnu ríkisstj. í dýrtíðar- og verðlagsmálum. Annars hlaut ógæfan að skella yfir stjórnina og sérstaklega yfir ríkissjóðinn. En dýrtíðarstefnunni var haldið áfram, og því fór að halla undan hjá ríkissjóði þrátt fyrir vaxandi tekjur. Ríkisstj. vildi ekki hverfa frá þessari stefnu sinni og hefur því alveg óumdeilanlega þurft að glíma við þennan vanda.

Nú tók ég eftir því, að hæstv. fjmrh. sagði: Við erum allir sammála um það, að vandinn hjá ríkissjóði stafi af verðbólgunni. Við erum sammála um það, sagði hæstv. ráðh., að verðbólgan og dýrtíðin eru ógnvaldur ríkissjóðs, eins og hann orðaði það. Það er þá allmikið fengið, ef menn eru orðnir ásáttir um, að það sem við þurfi virkilega að glíma í þessum efnum, sé þessi vaxandi dýrtíð. En svo þegar kom að því, að hæstv. ráðh. vildi ræða nokkuð um vandamálið sjálft, um dýrtíðarvöxtinn, fannst mér allt gerast heldur þokukennt hjá hæstv. ráðh. Hann talaði um, að dýrtíðin væri í rauninni samspil kaupgjalds og verðlags, eins og hann orðaði það. Og það var alveg greinilegt á málflutningi hans, að hann taldi þetta samspil þess eðlis, að það væri hægara sagt en gert að koma nærri því eða fá nokkuð ráðið við það. Og ég gat ekki skilið málflutning hans á annan veg en þann, að hann viki sér með öllu undan því að vilja ræða frekar um þetta vandamál. Og þannig hefur hann líka og ríkisstj. tekið á vandamálinu nú að þessu sinni. Leiðin, sem ríkisstj. hefur valið sér í þessum efnum, er sú að skera niður tiltekin útgjöld, sem ríkið átti þó að standa undir, eins og ákveðin framlög til vegamála í landinu, og svo hin ráðstöfunin, að finna upp nokkra nýja tekjustofna handa ríkinu, tekjustofna eins og farmiðaskattinn, sem nú er gert réð fyrir að leggja á, tekjustofn eins og nýjan benzínskatt, tekjustofn eins og nýjan skatt á alla raforkusölu í landinu, tekjustofn eins og vegatollinn, tekjustofn eins og hækkun á aukatekjum ríkissjóðs. Þetta á allt að tína saman, rúml. 200 millj. kr. í auknar tekjur fyrir ríkið. Ráðið, sem hæstv. ríkisstj. sér gegn vandanum, er þetta, að standa að nokkrum niðurskurði á verklegum framkvæmdum og tilteknum fjárgreiðslum, sem ríkinu hefur verið ætlað að standa undir, og að finna út nokkra nýja tekjustofna sem þá, sem ég hef nú tilgreint. En ef við erum í raun og veru sammála um það, að ógnvaldur ríkissjóðs, eins og hæstv. fjmrh. orðaði það, sé vaxandi dýrtíð, hvernig verður þá um áframhaldið í þessum efnum eftir þá lotu, sem nú hefur verið tekin? Það er kannske hægt að bjarga sér yfir afgreiðslu fjárl. að þessu sinni á þennan hátt. Dýrtíðin heldur áfram að vaxa. Efast nokkur um það, eins og nú er staðið að málum?

Hvað á þá að gera við næstu afgreiðslu fjárl.? Ég hef bent á það hér áður, að ég get ekki séð annað en næsta og beina framhaldið af þessu verði það, að hæstv. fjmrh. finni upp eitthvað enn af útgjöldum, sem hvílt hafa á ríkinu, eins og t.d. framlög til skólamála í landinu, þau verði skorin niður, létt af ríkissjóði og fundinn verði upp einn eða tveir nýir skattar enn til þess m.a. að standa undir framlögum til skólamálanna. Svona er hægt að halda áfram, en vitanlega leysir þetta engan vanda.

Ég tók eftir því, að í þessum vanda, sem hæstv. fjmrh. var, þegar að þessum málum kom, vildi hann halda því fram, að í rauninni stæðum við allir jafnvarnarlausir gagnvart þessu vandamáli, vaxandi dýrtíð. Það hefði enginn fundið ráð við vandanum og því væri eðlilegt, að ríkisstj. hrektist undan á þennan hátt sem hún gerir. Hæstv. ráðh. benti á, að það dygði ekki að segja með almennum orðum, að það ætti að skipta um stefnu í efnahagsmálum, það ætti að breyta til. Vissulega er þetta rétt hjá hæstv. ráðh. Það þarf meira til. En ég fyrir mitt leyti tel, að við Alþb.-menn höfum bent alveg óumdeilanlega á tiltekin atriði, sem eigi að gera, sem er ákveðin stefna, til þess að glíma við vandamálið sjálft. Ég neita því ekki, að ýmislegt fleira geti komið þar til greina. Við bendum á, að í fyrsta lagi sé alveg nauðsynlegt, ef menn í fullri alvöru ætla að reyna að hamla gegn hækkandi verðlagi í landinu, að ríkisvaldið taki að sér stjórn á verðlagningarmálunum. Það eigi ekki lengur að segja við alla kaupsýslumenn í landinu og þá, sem hafa með verðlagningarmál að gera: Nú verðleggið þið eftir því sem ykkar hugur stendur til, eins og nú er sagt. Á því er enginn vafi, að sú stefna núv. hæstv. ríkisstj. að afnema verðlagseftirlit í jafnríkum mæli og hún hefur gert og að leyfa hækkandi álagningu í jafnmörgum tilfellum og hún hefur gert á vörum og þjónustu, það hefur vitanlega leitt til síhækkandi verðlags í landinu. Eins og ástandið er nú í okkar landi, er tvímælalaust nauðsynlegt að taka föstum tökum á þessum verðlagningarmálum, en víkja sér þar ekki að fullu undan og gefa kaupsýslustéttinni sjálfdæmi þar um. Ég álít, að ríkisstj. eigi að vera búin að fá það fullreynt, að samkeppnisreglan dugir okkur ekki til tryggingar því, að verðlagið í landinu sé eðlilegt.

Við Alþb.-menn höfum einnig bent á, að það sé óhjákvæmileg nauðsyn, ef eigi að hamla gegn hækkandi verðlagi í landinu, að taka þá stjórn á fjárfestingarmálum landsins. Það stjórnleysi, sem ríkisstj. hefur ákveðið að skuli gilda í þessum efnum nú, hlýtur að hafa sýnt ríkisstj., að þetta fær ekki staðizt. Stjórnleysið í fjárfestingarmálum leiðir til framkvæmda, sem spenna upp oft og tíðum uppboð á vinnumarkaði í ýmsum tilfellum og gefa ýmsum brasksjónarmiðum þar alveg lausan tauminn, og þetta leiðir einnig til þess, að fjármunum þjóðarinnar er á þennan hátt ráðstafað mjög óheppilega.

Hæstv. ríkisstj. viðurkennir, að það þurfi að reyna að hafa nokkra stjórn á fjárfestingarmálum opinberra aðila, ríkis og bæjarfélaga, og ég veitti því sérstaka athygli nú, að hæstv. ríkisstj. var mjög að hvetja forustumenn bæjarfélaganna í landinu til þess að fallast á að koma inn undir það fjárfestingareftirlit að fullu og öllu, sem nú gildir gagnvart framkvæmdum ríkisins. En ríkisstj. heldur sér eigi að síður fast við það, að allir þeir mörgu aðilar, sem standa með framkvæmdir fyrir utan ríki og bæ, eigi að ráða algerlega sjálfir, þar eigi aðeins gróðasjónarmið þeirra að ráða því, hvað gert er.

Ég held, að ef hæstv. ríkisstj. vill í fullri alvöru hamla gegn þessu mikla vandamáli, sem steðjar nú að ríkissjóði, og er afleiðing af hækkandi verðlagi í landinu, þá verði hún að viðurkenna það, að hún verði að hverfa frá þessari svonefndu frelsisstefnu sinni í fjárfestingarmálum.

Ég tel líka, að það sé enginn vafi á því, að ef snúizt er að því í alvöru að reyna að hamla gegn hækkandi verðlagi, þá eigi nú þegar að lækka vextina í landinu að verulegu leyti. Það er gersamlega þýðingarlaust að halda því fram nú orðið, að lækkun vaxta mundi þýða aukin útlán. Það eru ekki vextirnir, sem hér hamla nú í sambandi við útlánin. Sannleikurinn er sá, að nú er allt það fé lánað út í bankakerfinu á þessum háu vöxtum, sem bankakerfið getur mögulega lánað út miðað við þær reglur, sem Seðlabankinn setur því. Það mundu því ekki aukast neitt útlán, þó að vextirnir yrðu lækkaðir, en lækkun vaxtanna mundi líka segja til sín í verðlagsmynduninni í landinu. Það væri hægt að fylgja vaxtalækkuninni eftir með því að knýja verðið niður í fjölmörgum tilfellum, að ég tali nú ekki um, að það væri hægt að bæta upp ýmsum atvinnugreinum mjög verulega með því að lækka t.d. stofnlánavexti, sem hafa verið hækkaðir alveg óhæfilega miðað við það, hvaða þarfir stofnlánasjóðirnir hafa í mörgum tilfellum a. m. k.

Það ætti líka að mínum dómi að hætta tafarlaust sparifjárbindingunni, því að eins og nú er komið, eru engin rök fyrir því að binda jafnmikið af sparifjármynduninni í landinu og nú er gert til þess eins að auka við gjaldeyrissjóði þjóðarinnar. Það hlýtur vitanlega einhvern tíma að koma að því, að talið sé, að ekki þurfi að auka sérstaklega við þessa gjaldeyrissjóði. Þegar þjóðin fyrir um ári átti í kringum 1700 millj. í sínum gjaldeyrissjóði, var enginn vafi á því, að sá gjaldeyrissjóður var orðinn fyllilega nægilega stór miðað við okkar þarfir. Það er ekki ráðlegt að auka við þennan gjaldeyrissjóð, þegar vel gengur búskapur ríkisheildarinnar gagnvart útlöndum, auka við hann á einu ári 300 millj., hækka gjaldeyriseignina og krefjast þess þá jafnframt að binda af sparifjármynduninni í landinu 300 millj. kr. Í rauninni er hér um algert óvit að ræða, ekki sízt þegar þannig er haldið á málum, að á sama tíma og þjóðin er á þennan hátt að auka við hina lausu gjaldeyrissjóði sína, þá er þjóðin að taka erlend lán, fá gjaldeyri hjá öðrum þjóðum í lánsformi með miklu óhagstæðari kjörum en þjóðin fær fyrir sína gjaldeyrissjóði, þar sem þeir standa úti. Hvaða vit er t.d. í því að þvinga þá, sem eru að kaupa sér fiskiskip og láta byggja þau í Noregi, til þess að taka að láni í Noregi 300–400 millj. kr. á ári með 7%, vöxtum, á sama tíma og þjóðin ákveður að leggja fyrir í gjaldeyrissjóð 300–400 millj. kr. í bönkum erlendis og fá 2–3% vexti af þeim gjaldeyrissjóðum? Það er vitanlega engin ástæða til þess að halda á málunum á þennan hátt, og afleiðingin verður einfaldlega sú, að neyðzt er til þess að halda uppi óeðlilega háum vaxtakjörum á framleiðslunni í landinu vegna slíkra ráðstafana sem þessara, og það er staðið í vegi fyrir því með þessari sparifjárbindingu, að ýmsar greinar okkar þýðingarmikla rekstrar fái það rekstrarfé eða geti haft það rekstrarfé með höndum, sem þeim er í rauninni nauðsynlegt.

Það þarf líka að breyta um stefnu í efnahagsmálunum að því leyti til, að það þarf að stórauka eftirlit með skattaframtölum og sjá um það, að reksturinn sé ekki svo að segja undanþeginn allri skattgreiðslu, eins og hann er yfirleitt nú í dag. Sannleikurinn er sá, að þeir, sem einhvern rekstur hafa með höndum, eiga mjög auðvelt með það, eins og framkvæmd skattalaganna er nú, að skjóta gróða sínum undan skatti. Og alveg það sama er að segja um innheimtu söluskattsins, þar þyrfti að breyta um framkvæmd, og þá efast ég ekkert um, að ríkissjóður gæti, án þess að lögum yrði breytt, gert sér vonir um að fá verulega auknar tekjur bæði af tekjuskatti og eins af söluskatti, ef breytt yrði þarna um framkvæmd og þeir látnir borga, sem geta borgað til ríkisins. Ef ríkissjóður fengi þessar tekjur, gæti hann miklu betur aðstoðað við að reyna að halda verðlaginu í landinu niðri heldur en hann getur nú.

Við Alþb -menn höfum einnig bent á, að það er tvímælalaust hægt að taka fyrir braskið, sem nú fer fram í sambandi við íbúðarhúsnæði. Það er enginn vafi á því, að það er hægt að taka fyrir þetta brask, ef aðeins er til fullur vilji hjá þeim, sem fara með völdin í landinu, til þess að gera það. Og það er enginn vafi á því, að það væri einnig hægt að lækka húsnæðiskostnað almennings í landinu, ef stuðningur ríkisins við íbúðarhúsabyggingar yrði meira á félagslegum grundvelli en hingað til hefur verið. Það er vitanlega engin ástæða til þess að styðja menn til þess að koma upp íbúðum, ef meiningin er að láta slíkar íbúðir fara út á braskmarkað. Fyrir slíkt á að taka.

Þá höfum við Alþb.-menn einnig bent á, að það væri full ástæða til þess, ef ríkið ætlar að takast af einhverri alvöru á við vandann, að snúa sér að því af fullri alvöru að draga úr ýmsum þeim útgjöldum á fjárl., sem jafnvel hæstv. fjmrh. viðurkennir að verði að teljast til mjög vafasamra útgjalda, eins og í sambandi við þrjú sendiráð á Norðurlöndum og ýmislegt fleira, sem hér hefur verið minnzt á. Vitanlega er sjálfsagt, þó að þessu fylgi nokkur vandi, að snúa sér að því verkefni að reyna að draga úr þessum óþarfaútgjöldum, og það mundi einnig skapa ríkisstjórninni aðstöðu til þess að glíma við sjálft aðalvandamálið, sem við er að fást og hér hefur verið rætt um.

Ég skal ekki orðlengja þetta miklu meira, þó að vissulega væri tilefni til þess að ræða þetta mál enn, svo stórt sem það er. En ég vil halda því fram, að það hafi komið hér fram á Alþingi og það oftar en einu sinni tillögur, sem rétt sé fyrir hæstv. ríkisstj. að íhuga frekar en hún hefur gert, tillögur, sem gætu hjálpað verulega til þess að ráða við þann mikla vanda, sem m.a. hæstv. fjmrh. hefur rætt hér um í sambandi við fjárhagsmál ríkisins. Það er enginn vafi á því, að með óbreyttri stefnu í efnahags- og verðlagsmálum ræður ríkisstj. ekki við þennan vanda. Hún verður því fyrr eða síðar að horfast í augu við það, að hún verður að gefa upp þessa gömlu viðreisnarstefnu sína sem óhafandi stefnu í þessum efnum.