14.03.1966
Efri deild: 49. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 719 í B-deild Alþingistíðinda. (541)

106. mál, atvinnuleysistryggingar

Frsm. (Þorvaldur G. Kristjánsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur fjallað um frv. það, sem hér liggur fyrir, rætt um það á nokkrum fundum og orðið sammála um að mæla með samþykkt frv. með breytingum, sem lagðar eru fram á sérstöku þskj., 295. Karl Kristjánsson og Ásgeir Bjarnason áskilja sér rétt til þess að flytja eða fylgja frekari brtt., en Alfreð Gíslason telur brtt. n. ganga of skammt og hefur flutt frekari brtt. á þskj. 301.

Hér er um að ræða frv. til l. um breyt. á l. nr. 29 1956, um atvinnuleysistryggingar. Árið 1956, þegar þessi löggjöf var sett, höfðum við almannatryggingar, þar sem almenningur var tryggður gegn afleiðingum þess að missa starfsgetu sína fyrir ellisjúkdóma, slys eða örorku eða af öðrum ósjálfráðum ástæðum. En á þeirri tíð vantaði veigamikinn hlekk í okkar tryggingakerfi, og sá hlekkur var settur með setningu laga um atvinnuleysistryggingar. Með þeim lögum var almenningur tryggður gegn því, að starfsgetan yrði verðlaus, þ.e.a.s. ef menn gætu ekki hagnýtt starfsorku sína, af því að um atvinnuleysi væri að ræða.

En svo mikilvægt sem það var að greiða bætur til þeirra, sem voru atvinnulausir, liggur það í augum uppi, að mikilvægast af öllu hlýtur að vera að koma í veg fyrir atvinnuleysi. Og mér sýnist, að það eigi ekki að greiða mönnum bætur fyrir það að ganga atvinnulausir fyrr en í síðustu lög, það eigi að gera flest, sem mögulegt er áður, til þess að koma í veg fyrir atvinnuleysið sjálft. Nú er það svo, að atvinnuleysistryggingalögin frá 1956 sköpuðu ekki aðeins aðstöðu til þess að greiða bætur þeim, sem yrðu fyrir atvinnuleysi, heldur sköpuðu þau að vissu leyti betri aðstöðu til þess að koma í veg fyrir sjálft atvinnuleysið. Þetta gerðist með þeim miklu sjóðsmyndunum, sem hafa orðið samkv. þessum lögum. Um síðustu áramót var talið, að eignir atvinnuleysistryggingasjóðs hefðu numið á 8. hundrað millj. kr., og árið 1964 hafði atvinnuleysistryggingasjóður tæplega 123 millj. kr. í tekjur það ár, og tekjuafgangur sjóðsins var rúmlega 120 millj.

Það gefur auga leið, að það er ekki sama. hvernig svo miklum fjármunum er varið eða hvernig þessi sjóður er ávaxtaður. Þessu gerðu menn sér þegar grein fyrir 1956, þegar lögin um atvinnuleysistryggingasjóð voru sett. Í aths. með frv. að þeim lögum sagði svo m.a., að ef um útlán geti orðið að ræða, telji n. eðlilegt, að forgangsrétt hafi lánveitingar, sem ætlaðar eru til varanlegrar atvinnuaukningar, einkum þar sem þörf er fyrir slíkar framkvæmdir. Það er greinilegt, að ég held, að það sé enginn vafi á því, að hér hefur vakað fyrir löggjafanum það sjónarmið að ráðstafa sjóðnum, eftir því sem við yrði komið, sem mest til þess að koma í veg fyrir atvinnuleysi. En í l. frá 1956 eru ströng ákvæði um þessar lánveitingar, þannig að stjórn sjóðsins er ekki heimilað að ávaxta fé sjóðsins í útlánum eða vaxtabréfum nema gegn ábyrgð ríkissjóðs eða annarri öruggri tryggingu.

En síðan þetta ákvæði var sett 1956, höfum við fengið reynslu af löggjöf þessari og það hefur komið í ljós, að þessi ákvæði um tryggingar á útlánum sjóðsins eru til trafala, þegar haft er í huga það sjónarmið að veita lánin þangað, þar sem þörfin er mest, til þess að afstýra atvinnuleysi. Þar kann það að vera, að það sé erfitt að veita fullkomnar tryggingar, og það kann einnig að vera, að það sé erfitt að greiða háa vexti eða vexti yfirleitt af slíkum lánum, sem þessum til atvinnuaukningar. Með tilliti til þess að bæta úr þessu er frv. það, sem hér liggur fyrir, komið fram.

Í frv. þessu er lagt til, að lánaheimild sjóðsstjórnarinnar verði rýmkuð frá því, sem nú er. Í fyrsta lagi er lagt til, að þegar í hlut eiga staðir, sem við eiga að stríða verulegt atvinnuleysi, sé heimilt að veita lán, sem verði vaxtalaust eða með lágum vöxtum um lengri eða skemmri tíma. Í öðru lagi gerir frv. ráð fyrir, að sjóðsstjórninni sé heimilað að ákveða, að slík lán verði afborgunarlaus tiltekið árabil. Og í þriðja lagi er lagt til, að ekki þurfi aðra tryggingu fyrir slíkum lánum en ábyrgð hlutaðeigandi sveitarfélaga, en lán þessarar tegundar megi þó ekki nema hærri fjárhæð samtals á ári hverju en nemur fjórðungi vaxtatekna sjóðsins. Loks er svo lagt til í frv. þessu, að sjóðsstjórn skuli leita umsagnar stjórnar atvinnubótasjóðs, áður en hún veitir lán samkv. þessari lagagr., sem hér er um að ræða. Hér er aðeins gert ráð fyrir því, að atvinnubótasjóður, sem hefur það hlutverk að leysa úr vandræðum vegna atvinnuskorts, hafi aðstöðu til þess að fylgjast með þeim ráðstöfunum, sem sjóðsstjórn atvinnuleysistrygginganna kynni að gera samkv. þessari lagaheimild.

Þetta er efni frv., sem hér liggur fyrir, en eins og ég gat um áðan, var heilbr.- og félmn. sammála um að mæla með samþykkt þessa frv. og bera fram brtt., sem lagðar eru fram á þskj. 295. Skal ég nú víkja að efni þeirra tillagna.

1. brtt. gerir ráð fyrir, að 17. gr. núgildandi l. breytist og verði orðuð svo sem greinir í brtt. Hér er um að ræða breytingu frá núgildandi lögum aðeins í 1. mgr. Þar er lagt til, að ákvæðunum um biðtíma verði nokkuð breytt frá því, sem nú er, í þá átt, að bætur verði greiddar fyrr en nú er. Biðtíminn er þó 6 dagar, eins og nú er, en tímabilið, sem þessir 6 atvinnuleysisdagar eru á, er stytt úr 18 dögum í 12 daga. Þegar um er að ræða algert og samfellt atvinnuleysi, er lagt til, að heimilt sé að greiða bætur eftir 9 daga atvinnuleysi og þá frá og með 7. atvinnuleysisdegi í stað eftir 18 daga, sem nú gildir, og frá og með 16. atvinnuleysisdegi. Hér er um að ræða rýmkun bótaréttar frá því, sem er í gildandi lögum.

2. brtt. kveður svo á, að 18. gr. núgildandi laga orðist svo sem fram er tekið í brtt. 18. gr. 1. fjallar um upphæð atvinnuleysistryggingabótanna. Samkv. núgildandi l. er gert ráð fyrir ákveðnu lágmarki bóta og ákveðnu hámarki. Nú er lágmarkið fyrir einhleypa kr. 46,17 á dag, en hámarkið kr. 102,33 fyrir einhleypa. Fyrir kvænta er lágmarkið kr. 58.67 en hámarkið kr. 117.34, og fyrir hvert barn kr. 12.50 lágmark og kr. 15.55 hámark. Ákvörðun bótanna á milli þessara marka fer eftir reglum. sem gert er ráð fyrir að úthlutunarnefndir setji. 2 brtt. þeirri, sem hér liggur fyrir, er lagt til, að í staðinn fyrir þessi ákvæði verði bæturnar alls staðar hinar sömu og jafnháar slysadagpeningum samkv. almannatryggingar. En í því sambandi verður að gæta þess, að slysadagpeningar greiðast fyrir alla daga, helga jafnt sem rúmhelga, en atvinnuleysisbætur greiðast að eins fyrir rúmhelga daga. Slysadagpeningar eru nú fyrir einhleypan á dag kr. 119.48, fyrir kvæntan mann kr. 135.19 og fyrir hvert barn kr. 15.72. Samkv. þessu er því lagt til, að atvinnuleysisbæturnar verði hækkaðar nokkuð. Hækkun þessi er þó ekki eins mikil og kynni að virðast í fljótu bragði, þegar þess er gætt, að úthlutunarnefndir hafa yfirleitt ákveðið bæturnar í hámarki. En bótagrundvöllur er traustari, þegar um slys er að ræða, heldur en þegar um atvinnuleysi er að ræða, svo að hærri bætur vegna atvinnuleysis en slysa koma vart til greina.

Þetta er meginbreytingin, sem felst í þessum lið brtt. frá því, sem nú er ákveðið í l. Það er enn fremur tekið fram í brtt., og það er nýmæli, að grunnupphæð að viðbættri verðlagsuppbót skuli jafnan standa á hellum eða hálfum tug króna. Hér er einungis um að ræða afgreiðsluatriði og skiptir engu raunverulegu máli fyrir upphæð bótanna.

Þá er 3. liður brtt., sem er svo hljóðandi, að aftan við 1. gr. frv., er verði 3. gr., komi ný mgr., er orðist þannig:

„Heimilt er að veita atvinnubótasjóði lán samkvæmt grein þessari án sérstakra trygginga.“

Þessi till. skýrir sig sjálf. Það þótti eðlilegt og nauðsynlegt að setja ákvæði um þetta, þannig að atvinnubótasjóðurinn, sem hefur það hlutverk að vinna að atvinnujöfnun og jafnvægi í byggð landsins, sé meira en til kvaddur til að segja álit sitt um þessi efni, heldur sé veitt heimild til þess að veita honum bein lán úr atvinnuleysistryggingasjóðnum, án þess að sérstakar tryggingar séu settar. Þetta er til þess að leggja enn þá meiri áherzlu á þá viðleitni að ráðstafa atvinnuleysistryggingasjóðnum til þess að koma í veg fyrir atvinnuleysið sjálft, og hygg ég, að naumast geti verið ágreiningur um, að það sé rétt stefna, og ég skal ekki fjölyrða frekar um það.

Ég hef þá lokið við að gera grein fyrir þeim brtt., sem n. í heild fylgir. Sumir nm., eins og ég gat um áðan, hafa áskilið sér rétt til þess að koma með aðrar brtt. eða frekari brtt. eða fylgja þeim, og einn nm. hefur þegar lagt fram frekari brtt. Ég skal ekki á þessu stigi málsins tjá mig um þær. En það er augljóst mál, að það kemur margt til álita að breyta í lögum um atvinnuleysistryggingasjóðinn. Við munum það, hvernig sá sjóður varð til. Hann varð til upp úr verkfallinu mikla 1955, og það þurfti að semja þessa löggjöf með tiltölulega stuttum fyrirvara, og ég hygg, að flestir, ef ekki allir, sem tjáðu sig um frv. að atvinnuleysistryggingalögunum, þegar það var lagt fram hér á hv. Alþ., hafi einmitt talað um, að það þyrfti von bráðar eða sem fyrst að endurskoða þessi lög. Og það var gert ráð fyrir því í 22. gr. laganna, að lögin yrðu endurskoðuð eftir tvö ár. Sú endurskoðun hefur ekki enn farið fram hér á Alþ. Árið 1960 skipaði félmrh. sérstaka n. til að endurskoða lögin, en sú endurskoðun hefur ekki komið fram hér á Alþingi. Það mun ekki vera neitt leyndarmál, að það sýnist sitt hverjum í sumum atriðum um það, hvernig á að breyta atvinnuleysistryggingal., og ég skal ekki fara út í þá hluti hér. En till. n. í heild eru ekki umfangsmeiri en raun ber vitni, vegna þess að það var talið eðlilegt að halda sér við gerð brtt. innan þeirra marka, sem talið var líklegt, að víðtæk samstaða gæti verið um.