14.03.1966
Efri deild: 49. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í B-deild Alþingistíðinda. (543)

106. mál, atvinnuleysistryggingar

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins í upphafi til þess að fyrirbyggja frekari misskilning leiðrétta eitt lítið atriði úr ræðu frsm. heilbr.- og félmn. Það var varðandi það atriði, að þeirri endurskoðun, sem sett var á fót 1960, væri ekki lokið. Það er ekki alls kostar rétt. Þeirri endurskoðun er lokið. En hitt er rétt, sem er náttúrlega aðalatriði í hans máli, að það nál. hefur ekki komið fyrir augu alþm., einfaldlega af þeirri ástæðu, sem ég tók fram í framsöguræðu fyrir þessu frv., vegna þess ágreinings, sem var á milli mikilvægra aðila að þessari endurskoðun, þ.e.a.s. fulltrúa Alþýðusambands og vinnuveitenda, en meðal þeirra var grundvallarágreiningur um afgreiðslu málsins, og það er ástæðan til þess, að það frv., sem varð niðurstaðan af þessari endurskoðun, hefur ekki verið flutt. Og það var vitanlega aðalatriðið, sem máli skipti í sambandi við þau atriði, sem hv. frsm., 4. þm. Vestf., gat um.

Í sambandi við þær brtt., sem n. hefur hér lagt fram, vil ég lýsa ánægju minni með þær og vísa um þær að öðru leyti til framsöguræðu minnar, þar sem ég minntist á, að nauðsynlegt væri fyrr eða seinna, að þessi ákvæði 1. væru endurskoðuð umfram það, sem í frv. var lagt til, og fagna ég því, að hér hefur orðið samkomulag í n. um að leggja til þær breytingar. sem fram koma á þskj. 295, og tel þær mjög í bótaátt og það fari ekki á milli mála, að þar er um miklar endurbætur að ræða frá gildandi ákvæðum og ég hygg sér í lagi meðlimum verkalýðsfélaganna í vil, enda hygg ég, að um það hafi ekki verið ágreiningur í hv. heilbr.- og félmn.

Varðandi þær brtt. aðrar, er hv. 9. þm. Reykv. leggur til á sérstöku þskj., 301, vil ég segja það. að sjálfsagt má færa fyrir þeim ýmis ágæt rök. en vil þó taka það fram, að flest af því, sem hann leggur þar til, er umfram það, sem samkomulag varð um í fyrrnefndri endurskoðun, og gengið allverulega lengra en aðilar urðu þó sammála um við þá endurskoðun, sem fram fór á tímabilinu 1960—1964. Ég hygg, að till. n. allrar séu mjög í samræmi við þær niðurstöður, sem út úr þeirri endurskoðun komu, og þar sem aðilar verkalýðshreyfingarinnar við þá endurskoðun höfðu þar á þær fallizt, tel ég, eins og á stendur nú, ekki rétt að ganga lengra en þar varð samkomulag um. Ég hygg, að það fari ekki heldur á milli mála, eins og ég gat um í minni framsöguræðu fyrir málinu, að hér væri nauðsyn á að reyna enn á það, hvort samkomulag fengist ekki millí aðila um allsherjarendurskoðun á l., og ég mun reyna að beita mér fyrir því, að sú tilraun verði gerð, þó að þarna sé um allverulegan og djúpstæðan ágreining að ræða. En ég vil aðeins, að það komi hér fram. um leið og ég þakka n. ágæt störf, að ég tel ekki rétt að ganga lengra í breytingum að þessu sinni heldur en n. leggur til, þar sem ætla má, að um þær breytingar geti orðið samkomulag. Þar með segi ég ekki, að ýmsar af þeim brtt., sem hv. 9. þm. Reykv. leggur til, geti ekki átt rétt á sér. En þar sem hér er um að ræða mjög viðkvæmt mál milli mjög mikilvægra aðila á vinnumarkaðinum, tel ég ekki rétt að ganga að sinni lengra og tel. eins og ég áðan sagði, að með samþykkt brtt. n. hafi verið gengið svo vel í leiðréttingarátt um aðalágalla l., að ég vil ekki stefna þeim endurbótum í hættu með því að leggja til, að frekari breytingar verði á þeim gerðar. Ég vona, að menn geti orðið sammála um það hér í hv. þd., að þær endurbætur, sem nefndin leggur til, séu til verulegra umbóta frá gildandi ákvæðum og þær nái fram að ganga.

Að svo mæltu endurtek ég þakkir mínar til n. fyrir afgreiðslu málsins og fagna þeim breytingum, sem n. leggur til.