01.04.1966
Neðri deild: 64. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 732 í B-deild Alþingistíðinda. (554)

106. mál, atvinnuleysistryggingar

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér um ræðir, er komið frá hv. Ed. Þegar frv. var lagt fyrir Ed., var aðalefni þess í þeirri gr., sem nú er 3. gr. þess, en í meðförum Ed. hefur verið bætt við þeim greinum, sem nú eru 1. og 2. gr.

Frv. miðar að því að veita stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs rýmri heimildir en áður hefur verið til lánveitinga. Fram að þessu hefur stjórnin eingöngu veitt lán gegn mjög ströngum tryggingum, ef svo mætti segja, oftast nær ekki nema gegn ríkisábyrgð, en með þessu frv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir, að þegar sérstaklega stendur á, sé hægt að víkja frá þessu og í sumum tilfellum að veita lán gegn ábyrgð sveitarsjóðs. Á þetta einkum við, þegar um það er að ræða að ráða fram úr erfiðleikum atvinnulífsins á stöðum, þar sem atvinnuleysi er. Einnig felur frv. það í sér, að heimilt verði að veita atvinnubótasjóði lán án sérstakra trygginga.

Í meðferð hv. Ed. var svo, auk þess að rýmka þannig um lánveitingar sjóðsins, bætt inn þeim tveim gr., sem ég gat um áðan, og fela þær það í sér, að bætur úr sjóðnum vegna atvinnuleysis verði nokkru ríflegri en verið hefur. En eins og kunnugt er, og ég vil segja: sem betur fer, hefur ekki komið til þess, að sjóðurinn hafi þurft að greiða neinar verulegar upphæðir vegna atvinnuleysis. Ákvæðin, sem voru í 1. um það atriði, voru orðin á eftir tímanum, og ástæða til að endurskoða þau. Reyndar er það svo, að talið er, að endurskoða þurfi þessa löggjöf í heild, en ýmissa orsaka vegna hefur ekki orðið úr því, eins og hæstv. félmrh. gerði grein fyrir í framsöguræðu sinni í Ed., og þótti ekki ástæða til að taka að þessu sinni til endurskoðunar önnur atriði en þau, sem komin eru inn í þetta frv. Þó er það svo, að í meðferð heilbr.- og félmn. þessarar d. varð samkomulag um það að bera fram eina brtt. til viðbótar, og liggur hún hér fyrir á þskj. 399. Sú brtt. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Aftan við 3. gr. komi ný mgr., svo hljóðandi: Sjóðsstjórninni er heimilt að ákveða lægri vexti en venjulega útlánsvexti af lánum til samtaka verkafólks og atvinnurekenda til að koma upp húsnæði fyrir félagsstarfsemi sína, þar með talin lán til orlofsheimila verkafólks.“

Um þessa till. var alger samstaða í heilbr.- og félmn., og mæli ég með því fyrir hönd n., að hún verði samþ.

Hér er einnig fram komin á þskj. 408 önnur brtt., frá hv. 7. þm. Reykv., sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Á eftir 3. gr. komi ný gr., er orðist svo:

3. tölul. í ákvæðum til bráðabirgða orðist svo: Á meðan kjararannsóknanefnd starfar, skal kostnaður við störf n. greiddur úr atvinnuleysistryggingasjóði, enda séu fulltrúar Alþýðusambandsins í n. kjörnir hlutfallskosningu á þingum þess. Reikningar yfir slíkan kostnað skulu samþ. af forsrh.

Við 4. gr. bætist:

Jafnframt eru úr gildi fallin lög nr. 21 21. maí 1964, um breyt. á l. nr. 29 7. apríl 1956, um atvinnuleysistryggingar.“

Um þessa till. hefur heilbr.- og félmn. Ekki fjallað, en ég get fyrir mitt leyti lýst því yfir, að ég er henni efnislega samþykkur.

Ég sé svo ekkí ástæðu til, herra forseti, að fara fleiri orðum um þetta mál, en ég leyfi mér að mæla með samþykkt frv. með þeirri breyt., sem heilbr: og félmn. stendur að.