01.04.1966
Neðri deild: 64. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 734 í B-deild Alþingistíðinda. (555)

106. mál, atvinnuleysistryggingar

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Frsm. heilbr.- og félmn. hefur nú gert grein fyrir málinu, og þarf ég ekki miklu við það að bæta.

Þetta frv. hefur sem sé tekið allverulegum breytingum, frá því að það var lagt fram í hv. Ed. Undirbúningur þessa máls var sá, að það var nokkuð rætt af hæstv. ríkisstj. á s.l. hausti eða öndverðum vetri, hvort hægt væri að fá samkomulag um það að rýmka ákvæði atvinnuleysistrygginganna á þann veg, að sjóðsstjórninni yrði heimilt að verja álit að 1/4 hluta vaxtatekna atvinnuleysistryggingasjóðs til þess að hlaupa undir bagga með þeim byggðarlögum, sem yrðu fyrir barðinu á tilfinnanlegu atvinnuleysi og ekki fyndust úrræði til þess að bæta úr. Með því að þessi sjóður góðu heilli er orðinn allsterkur, fannst okkur, sem tókum þetta mál til athugunar fyrir hönd verkalýðshreyfingarinnar, að það væri eftir atvikum rétt að ganga inn á rýmkun á þessum ákvæðum laganna um atvinnuleysistryggingar og heimila að verja allt að 1/4 af vaxtatekjum hans til þess að ráða bót á aðsteðjandi atvinnuleysi, þar sem það herjaði, og þannig nota styrkleika sjóðsins að nokkru leyti til þess að koma í veg fyrir atvinnuleysi, þar sem hann væri nú orðinn svo sterkur, að hann ætti þrátt fyrir þessa skerðingu vaxtateknanna að geta staðið við það hlutverk sitt að greiða sómasamlegar bætur, þegar menn yrðu fyrir barðinu á atvinnuleysi, og greiða þannig atvinnuleysisbætur.

En þegar málið var til meðferðar í Ed., fannst mönnum rétt að hækka bótagreiðslur, þannig að þær héldu a.m.k. gildi sínu, eins og upphaflega hefði verið til ætlazt, og sjóðurinn hefði styrkleika til þess, og á það var fallizt í Ed. Sú breyting er nú orðin á 1. gr. þessa frv. Einnig var fallizt á, að atvinnuleysistryggingabætur skuli nú verða sama upphæð og slysabætur samkv. almannatryggingalögum, og virðist það vera sanngjörn og sjálfsögð breyting líka.

Aðalbreytingin, sem í upphaflega frv. fólst, var sú, að heimilt væri að veita lán með lágum vöxtum, jafnvel vaxtalaus, og niður mætti fella um skeið afborganaskyldu hjá lántakendum, til þess að þessi aðstoð frá atvinnuleysistryggingunum kæmi að sem öruggustu gagni gagnvart hinum máttarminnstu sveitarfélögum, sem yrðu fyrir atvinnuleysi. Eftir stóð hitt, að þessi sterki sjóður, eins og allir vita, varð þannig til, að í vinnudeilu 1955 slökuðu verkalýðsfélögin nokkuð til á kaupkröfum gegn því að fá komið á fót atvinnuleysistryggingunum. Þess vegna líta nú verkalýðsfélögin þannig á, að hann sé myndaður í raun og veru af kaupi verkafólks og eigi þannig verkalýðsfélögin ríka eignarhlutdeild í þessum sterka sjóði, sem þau vitanlega fella sig mjög vel við, að sé öryggis- og hjálparsjóður þjóðfélagsins og sveitarfélaganna og fólksins, sem annars kynni að bíða óbætanlegt tjón af atvinnuleysi.

Nú var þess farið á leit, þegar málið var komið hér til hv. Nd., rætt við ríkisstj., hvort ekki væri hægt að fá samkomulag um það, að auk þeirra breytinga, sem gerðar höfðu verið á frv. í hv. Ed., yrði á það fallizt, að verkalýðssamtökin fengju lán úr atvinnuleysistryggingasjóðnum með lægri vaxtakjörum en venjulegum útlánsvöxtum, að sjóðsstjórninni yrði veitt slík heimild. Það er niðurstaða þessa máls, að um þetta fékkst samkomulag, og þegar til kasta hv. heilbr: og félmn. kom, féllst hún einnig á þetta, þannig að nú er hér brtt. við frv. frá því, sem það var, þegar það kom frá Ed., um að heimila sjóðsstjórninni að ákveða lægri vexti en venjulega útlánsvexti af lánum til samtaka verkafólks og atvinnurekenda til þess að koma upp húsnæði fyrir félagsstarfsemi sína. Undir þessa heimild falli lán til orlofsheimila verkafólks og þá auðvitað félagsheimila, sem verkalýðsfélög eiga hlutdeild í. Ég tel þetta til stórbóta fyrir verkalýðshreyfinguna, einkum með tilliti til þeirra verkefna, sem þau hafa nú með höndum, sem sé byggingar félagsheimila víða eða þátttöku í byggingu þeirra og svo byggingar orlofsheimila, sem er stórt framtíðarviðfangsefni og rétt hafið. En við höfum fengið lán til orlofsheimilisins að Ölfusborgum úr atvinnuleysistryggingasjóði, en samkv. vaxtakjörum þeim, sem sjóðsstjórnin hefur lánað eftir að undanförnu, eru vextirnir mjög háir, milli 9 og 10% og vaxtabyrðin af orlofsheimilinu í Ölfusborgum er núna um 600 þús. kr. á ári, allþung byrði, sem við þó kæmumst ekki hjá að þyngja verulega með áframhaldandi framkvæmdum, að svo miklu leyti sem við yrðum að gera það með lánsfé með slíkum kjörum.

Hér er sem sé opnuð heimild sjóðsstjórnar til þess að veita lán til slíkrar mannvirkjagerðar, slikra framkvæmda með lægri vaxtakjörum en útlánsvextir eru venjulega. Ég fagna því, að samkomulag skuli hafa fengizt um þessa breytingu, og vænti þess, að það verði ekki málinu til falls, þó að þessi breyting gerist hér svo seint á tímanum, því að vissulega þykir mér líklegt, að hv. Ed., sem gerði ýmsar breytingar á frv. til bóta og ég tel sjálfsagðar, muni fallast á þessa breytingu, sem einnig er til stórbóta frá verkalýðsfélaganna sjónarmiði eða sjónarmiði alþýðusamtakanna í heild.

Ég hefði að sjálfsögðu helzt kosið að taka upp til flutnings brtt., sem fram komu í hv. Ed., en fengu þar ekki samþykki og voru felldar. En eftir að samkomulag fékkst um þetta mál, fannst mér allsendis óviðurkvæmilegt af mér að fara að taka upp breytingar, sem kynnu að verða til þess að sundra samstöðu um þetta mál, og lét þær því liggja. En þar sem ég tel, að ég hafi með því viljað greiða þessari samkomulagsleið braut, hlýt ég að hafa þá afstöðu að leggjast gegn öðrum brtt., sem fram kunna að koma eða komnar eru við þetta frv., og mun mælast til þess, að frv. verði nú afgreitt sem samkomulagsmál, eins og það nú liggur fyrir samkv. brtt. heilbr: og félmn., því að ef einhverjir færu nú að taka upp brtt., sem kynni að verða ágreiningur um, gæti málinu öllu verið stefnt í nokkra tvísýnu og kannske orðið til þess, að frv. yrði ekki lögfest á þessu þingi. En það hygg ég, að

enginn vilji gera, sem ann hagsmunum verkalýðshreyfingarinnar, og vil því vonast til þess, að frv. fái hér fljóta afgreiðslu, eins og n. nú mælir með því, og það geti þannig farið til hv. Ed. sem greiðlegast og fengið þar endanlega afgreiðslu.