02.12.1965
Sameinað þing: 15. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í B-deild Alþingistíðinda. (56)

1. mál, fjárlög 1966

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Áður en ég svara ofur lítið hæstv. fjmrh.; þessari ræðu, sem hann hélt nú, vil ég beina nokkrum varnaðarorðum til hæstv. ríkisstj. og þm. í sambandi við afgreiðslu fjárlaganna.

Ég sé ekki betur en Alþ. sé að verða sér til skammar með, hvernig fjárlög eru rædd og afgreidd nú orðið hjá okkur. Ég sé ekki betur en þessi hæstv. ríkisstjórn, og raunar hafa aðrir stigið spor í sömu átt áður, sé að skipuleggja niðurlægingu Alþingis með því, hvernig nú er farið að. Á þeim tæpum þrem áratugum, sem ég hef setið hér á Alþingi, hefur maður getað fylgzt með því, hvernig þetta er að breytast, og nú er svo komið, að enginn stjórnarþm. treystir sér lengur til þess að flytja eina einustu till. við afgreiðslu fjárlaga. Hér fyrrum þótti það sjálfsagður hlutur, að allir þm. flyttu till., líka þeir, sem voru fylgjandi stjórn, meira að segja þegar stjórn var sterk, eins og þjóðstjórnin með 9/10 hluta þingsins með sér og meira. Það er smátt og smátt búið að kreppa þannig að þm., með flokksvaldinu, að þeir eru að gefast upp við að nota þann rétt, sem stjórnarskráin bókstaflega leggur þeim á herðar í þessum efnum. Og þó að fjárlög séu komin upp undir 4000 millj., er ekki skilið svo mikið eftir sem 40 eða 4 millj., sem þm. gætu reynt að ráða einhverju um við afgreiðslu fjárl., þegar frv. kemur til kasta þingsins sjálfs út úr fjvn. Jafnhliða þessu gerist sú þróun í fjvn., að fjvn. virðist, eins og raunar meiri hl. Alþ. sjálfur, meir og meir vera farin að líta á sig sem einhvers konar afgreiðslustofnun fyrir ríkisstj. Ég er ekki bara að segja þetta um núverandi hæstv. ríkisstj. Þróunin er að halda áfram, sem hefur verið líka hjá öðrum ríkisstjórnum. En það var samt svo fyrir svo sem hálfum eða heilum áratug, þá gat það enn þá komið fyrir hér og kom oft fyrir, að fjvn. leit á sig sem fulltrúa Alþ. gagnvart ríkisstj., og þegar formaður fjvn, flutti sínar ræður hér, voru þær ræður kannske eins skörp gagnrýni á ýmislegt í fjármálastjórn ríkisins og það, sem kom fram af hálfu stjórnarandstæðinga. Það var vegna þess, að menn höfðu þá enn eitthvert álit á því, að Alþ. væri sjálfstæð stofnun, væri ekki bara titlað „hið háa Alþingi“, þegar hæstv. ráðh. töluðu, heldur væri líka sá, sem valdið hefði, og það væri verkefni fjvn. að reyna að standa á verði um þetta vald gagnvart hæstv. ríkisstj. Þessi þróun er hættuleg. Með því að gera Alþ. og sérstaklega þegar um er að ræða fjárveitingarvaldið, sem er eitt höfuðvald þess, meira og meira afgreiðslustofnun fyrir ríkisstj., er verið að brjóta Alþ. niður. Þá er krumla ríkisstjórnarvaldsins að kyrkja Alþingi. Við börðumst á móti slíku valdi, meðan það var í höndum Dana, í rentukammerinu eða einhverju slíku. Alþ. stóð þá á móti ríkisstj., þegar um slíkt var að ræða. Og þó að við séum búnir að fá þingræði í landinu, eigum við að sjá um að reyna að halda uppi valdi Alþ. og rétti þess gagnvart hvaða ríkisstj. sem er, líka þeir þm., sem fylgja einni ríkisstjórn, — hvaða ríkisstjórn sem er.

Þetta er mjög hættuleg þróun, sem þarna er að verða hjá okkur, og það kemur ekki bara fram í því, að það sé farinn að verða síður að drepa svo að segja hverja einustu till., sem kemur fram frá stjórnarandstöðu, heldur líka hindra eigin menn með handjárnum í því að bera fram nokkrar till. Og hvað verður orðið úr Alþ. með þessari þróun? Ég held, að það sé mál, að linni.

Hæstv. fjmrh. sagði í ræðu sinni í dag, að verðbólga væri ekki bara hérna hjá okkur, hún væri líka erlendis. Já, rétt er það. Munurinn er sá, að í nágrannalöndum okkar er verðbólgan þetta 3–5%, en hér er hún á síðustu árum 18%. Og það gerir mikinn mun. Það gerir þann afgerandi mun, að með 18% verðbólgu á ári er það bezta og gróðavænlegasta fyrirtæki, sem til er, að festa fé í einhverju, kannske ekki út frá því, hvað sé praktískt endilega upp á rekstur þjóðfélagsins eða slíkt, en t.d. sérstaklega að festa fé í einhvers konar húsum, vegna þess að þau hús tvöfaldast í verði á 6 árum. M.ö.o.: með því að viðhalda þetta mikilli verðbólgu er það gert að öruggustu gróðalindinni að byggja hús, t.d. eins og verzlunarhallir og annað slíkt, án nokkurs tillits til þarfa þjóðfélagsins. M.ö.o.: í staðinn fyrir þá eðlilegu gróðalind í einu kapítalistísku þjóðfélagi að hafa gróða af atvinnurekstri og slíku, er fénu beint inn á þessa fjárfestingu sem öruggustu gróðalindina. Það er þetta, sem menn verða að horfast í augu við. Og það er bezt að vera ekki að tala neitt almennt þannig um verðbólguvandamálið, heldur tala um þetta sérstaka verðbólguvandamál á Íslandi, sem skapar hagsmuni af verðbólgu fyrir ákveðna menn í þjóðfélaginu. Ég ætla ekki að fara að endurtaka það, sem hér hefur verið sagt alveg réttilega áður viðvíkjandi bæði verðlagstakmörkunum og fjárfestingartakmörkunum. Af hverju tekur hæstv. fjmrh. og Sjálfstfl. svona illa í verðlagsákvarðanir og fjárfestingartakmarkanir hjá einkaframtakinu? Af hverju? Ég vil leyfa mér að spyrja um leið: Af hverju tekur Framsfl. svona illa í verðlagsákvarðanir og slíkar fjárfestingartakmarkanir? Og ég vildi gjarnan, að hv. framsóknarmenn segðu alveg hreint út sína afstöðu um verðlagsákvarðanir í þjóðfélaginu. Verðlagsákvarðanirnar eru eina ráðið, sem þjóðfélagið hefur til þess að hindra. að atvinnurekendurnir og þeir, sem fjármálunum ráða, velti öllum kauphækkunum yfir á almenning. Verðlagstakmarkanirnar eru um leið eina aðferðin, sem þjóðfélagið hefur til þess að knýja þessa aðila til þess að bæta sinn rekstur, til þess að skipuleggja hann betur, til þess að reka hann í stærri stíl, til þess að treysta ekki á verðbólgu sem gróðalind, heldur treysta á eðlilegan og góðan atvinnurekstur. M.ö.o.: þessar verðlagstakmarkanir eru eina ráðið, sem við höfum eins og stendur til þess að knýja það fram, að þessir atvinnurekendur hætti fyrst og fremst að spekúlera í fjárfestingu sem höfuðgróðalind sinni og gjöri svo vel að hugsa um að skipuleggja atvinnurekstur af viti, m.a. með því að reka hann í stærri stíl og betur, m.ö.o. að knýja íslenzka atvinnurekendur til að gera það, sem allir atvinnurekendur hafa gert í öllum löndum í kringum okkur, að gera reksturinn í sífellu stærri, hagkvæmari og betri. Hér hafa þeir í skjóli verðbólgunnar fengið að draslast með svo og svo ómögulegan atvinnurekstur langa lengi, og það er það, sem verður að stöðva. Verðlagstakmarkanir og verðlagsákvarðanir eru sem stendur eina ráðið til þess að kenna þeim að reka þetta af einhverju viti.

En hvernig stendur á, að Sjálfstfl. og að því er mér skilst að sumu leyti Framsfl. skuli standa á móti þessu, skuli heimta þetta svokallaða frelsi, skuli heimta einræði til handa verzlunarstéttinni til að mega ráða sjálf verðlaginu í landinu og þannig ráða sjálf, hve hart verðbólgan gengur? Raunlaun verkamanna hafa ekki hækkað á öllum þessum árum. Það, hvað þeir hafa betri afkomu, stafar af því, að helmingurinn af öllum þeirra tekjum er af eftirvinnu og næturvinnu. Og hvers konar atvinnurekstur er það, sem fyrst og fremst vill byggja á því að borga 50% og 100% meira fyrir vinnuaflið heldur en hann þyrfti að borga, ef hann hefði eitthvert vit í sínum rekstri? Það verður að þora að taka þennan atvinnurekstur fyrir, og ég held, ef menn eru að ræða um þessi mál af virkilegri alvöru, þá sé eitt af því, sem mætti gjarnan taka hér fyrir í Reykjavík, könnun á því, hvað menn hafa grætt á verðbólgunni á undanförnum árum. Það dugir ekki að vera hræddur við allt slíkt. Þegar rannsakaður er glæpur, er venjan að spyrja, á þann gamla máta: Hverjum til góðs? Þegar verðbólgan er rekin eins kerfisbundið og hún er gerð í íslenzku þjóðfélagi, hljóta menn að spyrja: Hverjum er það til góðs? Og þegar menn sjá, hverjir það eru, sem græða á henni, og það eru sömu mennirnir sem gera út stærsta stjórnmálaflokkinn í landinu, hlýtur maður að spyrja: Þorir Sjálfstfl. ekki gagnvart þessum mönnum að stöðva þessa verðbólgu? Ef á að taka sífellt þannig í þau mál. sem við komum hérna með, um verðlagsákvarðanir og verðlagstakmarkanir og fjárfestingareftirlit og fjárfestingaráætlanir hjá einkaframtakinu líka, hlýtur sú spurning að vakna: Er Sjálfstfl. og að einhverju leyti Framsfl. á móti því, að verzlunarbáknið í landinu sé svipt því valdi, sem það hefur núna til að ráða verðlaginu í þjóðfélaginu og þar með ráða, hve hratt verðbólgan gengur?

Verðbólgan og spursmálið um að stöðva hana er hápólitískt mál. Það er spursmál um það, hvort verzlunarauðvaldið hér í Reykjavík eigi að ráða, hver sé aðalgróðalind þjóðfélagsins eða ekki, það sama verzlunarauðvald, sem tekur af sjávarútveginum allan gjaldeyrinn, hann má þjóðnýta, afhendir hann sjálfu sér með því pólitíska valdi, sem það hefur, en heimtar svo, að það sjálft hafi frelsi um allt, frelsi um verðlag, frelsi um fjárfestingu, en þjóðfélagið eigi síðan að skera það niður hjá sér. Það verður að þora að ræða þessi mál hreinskilnislega. Án þess að gera það og án þess að nefna hlutina réttu nafni komumst við ekki til botns í þessu. Fjárfestingin í þjóðfélaginu er yfir 5000 millj. kr. á ári, ef ég man rétt. Hvað á það að þýða, þegar menn eiga að stjórna þjóðfélaginu, að koma og segja við okkur: Það er sjálfsagður hlutur, það er það minnsta frelsi í þjóðfélaginu, að heildsali fái að byggja hús upp á 100 millj. inn við Suðurlandsbraut, en skólar fyrir fólk, þá skal skera niður, — nær þetta nokkurri átt? Nær þetta frelsi nokkurri átt? Fyrir neðan Suðurlandsbrautina er þrísett í skóla, meira að segja í kjöllurum skóla eru 39 börn í skólastofu þrisvar sinnum á dag. Og þetta á að viðgangast, og þetta á að vera frelsi. En fyrir ofan Suðurlandsbraut eru 16 hús m.a., sem kosta 500 millj. kr., bílaumboð í flestum þeirra. Ef menn ætla að ráða við verðbólguna, verða menn að þora að ganga framan að þeim, sem valda verðbólgunni, og framan að þeim, sem græða á verðbólgunni, og segja við þá: Hingað og ekki lengra. — Og ef menn stinga höfðinu í sandinn og segja, eins og einu sinni var sagt gagnvart kreppunni, að enginn viti, hvaðan þetta kemur eða hvert það fer, komast menn ekkert áfram með það.

Það er ekki von, að menn sætti sig við, að það sé dregið úr því, sem nauðsynlegast er í þjóðfélaginu, en megi eyða í það, sem er ónauðsynlegast. Það þarf enginn maður að segja okkur, að það þurfi að byggja fyrir mörg hundruð millj. kr. fyrir bílaumboð á Íslandi. Þess vegna finnst mér undarleg sú málsvörn, sem hér kemur fram í þessu sambandi.

Hv. 11. landsk. þm. sagði hér áðan, þegar hann var að verja þetta: „Það vill enginn dýrtíð.“ Það er það, sem er ekki rétt. Það eru ákveðnir, voldugir menn í landinu, sem vilja dýrtíð, sem skipuleggja dýrtíð og fá valdið frá Alþ. og ríkisstj. til þess að skipuleggja dýrtíðina, og það er verzlunarauðvaldið í Reykjavík. Þess vegna spyr ég sérstaklega Framsfl., hvar hann standi í þessu. Við munum það enn þá, að Sjálfstfl. og Framsfl. hafa staðið saman að því einmitt að skipuleggja eina verstu stjórn verzlunarauðvaldsins hér á Íslandi í 6 ár, frá 1950–1956, helmingaskiptastjórnina, þar sem verzlunarauðvaldið hér í Reykjavik skipti á milli sín, heildsalarnir og Sambandið, um höftin, hvað hver skyldi fá að byggja um sig, meðan jafnvel almenningi var bannað að byggja hús yfir sig nema með sérstöku leyfi einhverrar nefndar hér. Og við vitum ósköp vel, að bæði Alþýðubandalagið og Alþfl. eru með því að hafa verðlagsákvarðanir, en hinir tveir stærri flokkarnir eru báðir á móti því, og ég óska satt að segja eftir því, að það komi alveg hreint og greinilega fram, hvort þeir eru ekki reiðubúnir til þess að endurskoða þá afstöðu sína og ræða svo alvarlega við okkur um þetta, hvort það sé mögulegt að ætla að stöðva þessa dýrtíð, sem þeir þykjast vera á móti, með öðru móti en því að koma á verðlagsákvörðunum og fjárfestingareftirliti. Ég held það sé óhugsandi. Ég skal viðurkenna, að það væri hægt að beita öðrum ráðum, ef okkar þjóðfélag væri 30–100 sinnum stærra en það er, þá væri það hugsanlegt. Það er hægt í stórum löndum eins og Bretlandi eða Bandaríkjunum, þá er hægt að beita valdi bankanna og öðru slíku. Hver einasta smálækkun á vöxtum og öllu mögulegu slíku segir til sín. Og barnaskapurinn, svo að ég taki vægt á þessu öllu saman, liggur sumpart í því, að ráðunautar ríkisstj., sem ráða henni um þessi mál og allt hennar verzlunarfrelsisævintýri, eru skólapiltar frá Bandaríkjunum og Bretlandi, sem yfirfæra reglur í efnahagslífi, sem eiga vel við þar og hægt er að stjórna með þar, yfir á okkar litla þjóðfélag, þar sem ekki er hægt að beita þeim með þeim árangri, sem þar er hægt. Þess vegna verður að endurskoða þessa afstöðu án allrar trúarlegrar afstöðu. Það er trúarleg afstaða, ef menn halda fast í þetta verzlunarfrelsi, verðlagsfrelsi og annað þess háttar. Það er ekkert frelsi, þegar skólabörnum svo að segja er úthýst, en heildsölum boðið upp á hallir, þegar tannlækningaskóla er lokað, en húsnæðið aftur á móti þanið út í verzlunarhöllunum.

Ég skil vel, að menn séu á móti fjárfestingarhöftum eins og voru hér á tímum helmingaskiptastjórnarinnar. Ég skil það ósköp vel. Það, sem þarf að gerast, er, að það séu ekki bara þau neikvæðu höft, sem við allir saman vorum orðnir þreyttir á, heldur með þá jákvæðu skipulagningu, sem er í senn skapandi í þessum efnum, en miðast samt við getu þjóðarinnar. Það er alveg rétt, sem hæstv. ráðh. kom inn á, það er ekki meiningin með því að vera að heimta þessar takmarkanir, að það eigi að skipuleggja atvinnuleysi. Það væri vel hugsanlegt, og ef ein stjórn væri þannig innrætt, gæti hún það með slíku. Okkur er alveg ljóst, að allar okkar hugmyndir um áætlunarbúskap og annað slíkt, það má nota þær til þess að skipuleggja atvinnuleysi. En með því að skipuleggja þetta fyrir fram og geta reiknað þetta nokkurn veginn rétt út hér hjá okkur, það þarf visst þanþol í þetta vegna sjávarútvegsins, vegna veiðimennskunnar, þá er hins vegar hægt að stilla þannig til, að fjármunir þjóðfélagsins sem heildar fari fyrst og fremst í það, sem þjóðfélaginu er nauðsynlegast. Og ég vil benda hæstv. ríkisstj. sérstaklega á, ef hún nú er að hugsa um þær stórkostlegu fjárfestingar, sem talað er um í sambandi við jafnvel erlenda fjárfestingu hér á Íslandi, að þessi mál verða margfalt óviðráðanlegri, ef ráðizt verður í það, heldur en þau eru í dag, þannig að ef menn ekki í tíma taka upp raunhæfa áætlunargerð í þessum efnum, er enn þá meiri voði fram undan heldur en sá, sem menn eru að tala um og glíma við í dag.

Ég veit, að hæstv. fjmrh. meinar það vel, er hann segir, að það sé ekki æskilegt, að pólitískar nefndir séu að úthluta, hverjir megi byggja og annað slíkt. Vissulega. En er það nú miklu betra, að pólitískar nefndir séu að úthluta, hvaða skóla megi byggja og annað slíkt, og við erum alltaf að því hér núna. Við skulum gá að þessum hlutum. Við getum ekki gefið efnuðustu mönnum í þjóðfélaginu sérstakt frelsi, meðan við sviptum þjóðina sjálfa því svo að segja. Það verður eitt yfir alla að ganga í þessum efnum.

Hæstv. ráðh. og aðrir hafa komið hér inn á skattana og annað slíkt. Við vitum vel, að þeir sömu menn, sem ráða hraða verðbólgunnar, þeir sleppa bezt, þ. e. verzlunarauðvaldið hérna í Reykjavík, það sleppur líka bezt við skattana, ekki aðeins tekju- og eignarskatt og útsvör, heldur líka söluskattinn. Almenningur fær að borga það allt saman.

Ég hef áður lýst því hér yfir, að ég væri reiðubúinn til þess að benda hæstv. ríkisstj. á fasta skatta, sem hægt væri að leggja á þetta verzlunarauðvald. Satt að segja hrópa byggingar þess á okkur að gera það. En þá komum við aftur að þessu: Eru það þessar heilögu heildsalakýr, sem mjólka Morgunblaðinu auglýsingar og gróða, sem ekki má snerta við? Það má þjaka alla aðra í þjóðfélaginu með sköttum, með vinnuþrældómi og öðru slíku, en þessum aðilum má ekki snerta við. Og samt er það opinbert leyndarmál. að þetta verzlunarauðvald sé meira eða minna skattfrjálst í þjóðfélaginu eða skammti sér a. m. k. skattana sjálft að heita má.

Þarna er mál, sem við komumst ekki hjá að ræða. Við getum rætt það í mismunandi tón, og ég ræði það í frekar „agressivum“ tón núna, vegna þess að mér líkar ekki, að hæstv. ríkisstj. sé að slá úr og í í sambandi við spursmálið með verðlagsákvarðanir og annað slíkt og haldi fast við sín gömlu verzlunarfrelsistrúarbrögð í því sambandi. Það er kominn tími til þess að endurskoða það, rétt eins og annað. Ef menn vilja ekki ræða þessi mál af fullri alvöru, fer sá grunur að læðast að mönnum, að hæstv. ríkisstj. vilji ekki ráða við verðbólguna, vegna þess að þau voldugu öfl, sem hafa mikil áhrif einmitt í Sjálfstfl. og kannske líka í Framsókn, vilji láta verðbólguna ganga áfram. En hins vegar er öllum að verða ljóst, að þannig getur það ekki gengið.

Ég skal ekki fara meira út í þær almennu umr., sem hér hafa orðið. Ég hef lagt hér fram nokkrar smátill., a. m. k. smáar í samanburði við þessi 4000 millj. kr. fjárlög, sem við hér erum að ræða, og ég þykist ekki þurfa að afsaka mig neitt, þó að ég leggi hér til ofur lítil útgjöld um nokkur af okkar menningarmálum. Ég vildi bara minna um leið á mál, sem samþ. var hér fyrir skömmu í þinginu og ég var líklega einn á móti. Það var 1 millj. kr. framlag til Skálholts, sem mér skilst að eigi að vera til þess að standa undir tapi af fjársöfnun til Skálholts eða kannske af bókakaupum, ég veit það ekki. Ég skal líka minna á þær 330 þús. kr., sem varið var fyrir sérstakan íslenzkan prest í Kaupmannahöfn. Meðan menn geta kastað um sig með svona vitleysum eins og þessar fjárveitingar eru, vil ég leyfa mér að halda því fram, að þær till., sem ég flyt hér á þskj. 133, eigi rétt á sér.

Ég legg það til í fyrsta lagi, að hæstv. menntmrh. sé heimilað að launa 3 háskólakennara, sem hann setur til kennslu í íslenzkum sögubókmenntum, og þessum mönnum sé gefinn kostur á vísindastarfi um leið. Ég hélt hér úr þessum stól fyrir nokkrum árum ræðu, þar sem ég kom inn á Háskóla Íslands, eins og ég hef raunar gert oftar, og ræddi alveg sérstaklega um það, að ég álíti, að okkar háskóli ætti að vera miðstöð germanskra fræða í okkar hluta heims, og benti þá á, að það væri rétt að tvöfalda tölu þeirra prófessora, sem kenna hér íslenzkt mál, íslenzka bókmenntasögu og íslenzka sögu. Það hafa komið fram ýmsar till. um aukningu prófessora og kennara við háskólann síðan, en það hefur aldrei fengizt neitt aukið á þessu sviði. Og þó er þetta það svið, sem við eigum fyrst og fremst að setja stolt okkar í að auka. Á þessu sviði getum við virkilega afkastað hlutum, sem hafa gildi ekki aðeins fyrir okkur, heldur líka fyrir heimsmenninguna. Nú veit ég, að það er til lítils að koma hér með till. um að skapa ný föst embætti. Þess vegna hef ég yfirleitt ekki lagt í það að reyna að flytja lagafrv. um slíkt. Það er orðin föst regla, að lagafrv., sem við úr stjórnarandstöðunni flytjum, eru svæfð í þeirri n., sem þau fara til. Með þessari till. mundi hæstv. menntmrh. hafa rétt til þess að setja menn til eins árs, og við höfum nóg af mönnum á að skipa, sem væru ágætir háskólakennarar og þræla nú í því að vera t.d. stundakennarar við gagnfræðaskóla og annað slíkt, menn, sem eru mjög „kvalifiseraðir“ sem vísindamenn, og menn, sem öðru hverju eru ráðnir sem háskólakennarar við háskólann í Kaupmannahöfn eða Osló eða annars staðar. En á Íslandi er ekki hægt að nýta þá út af þröngsýninu í fjárveitingunum til norrænudeildarinnar við háskólann. Það er m.ö.o. verið að reka þá menn burt af landinu eða láta þá svo að segja eyðileggja sig með því að þræla í stundakennslu við gagnfræðaskóla og slíkt, sem eru með bezt hæfu vísindamönnum á Norðurlöndum í þessum efnum. Og það er mál, að þessu linni. Mér finnst, að það ætti ekki að vera neitt ofverk Alþ. að gefa menntmrh. heimild til þess að ráða í eitt ár menn með sæmilegum launum til slíks. Ef það þykir ofrausn, er hægt að láta þá fara að kenna aftur íslenzku eða dönsku eða eitthvað slíkt í gagnfræðaskólunum hérna. En vitað er, að svo lélega er íslenzki háskólinn rekinn, að þar sem hver einasti háskóli annars staðar í heiminum kennir sína eigin sögu fram til 1945, ef það væri í Bandaríkjunum, ef það væri í Noregi, þá er 20. öldin enn þá ekki til í íslenzkukennslu í Háskóla Íslands og 19. öldin heldur léleg. M.ö.o.: mér finnst, fyrst háskólinn sjálfur gerir ekki kröfu til þess, að það sé fjölgað prófessorum í þessum greinum, eigi Alþ. að hafa þá reisn að segja: Ég vil vita, hvort það er ekki þörf á þessu. — Og mér finnst sérstaklega, að okkur hér, því að hér á þessum stað er þó fyrst og fremst verið að skapa sögu Íslands á þessari öld, — okkur beri skylda til þess að reyna að sjá um, að það sé eitthvað gert að því að stúdera þá sögu og kenna hana. Og ég vil bara minna á, að með hverju árinu sem líður fer fleira og fleira af þeim mönnum í gröfina, sem væru að mörgu leyti beztu heimildir um svo og svo mikið af öllu því, sem gerzt hefur á þessari öld. Við komum ekki til með að hafa bréf eins og þau, sem þeir skrifuðu sín á milli á 19. öld, helztu forkólfar í íslenzkri sjálfstæðisbaráttu, til þess að styðjast við, þegar við förum að rannsaka sögu þessarar aldar. Hér hefur flest farið fram nú í símtölum og öðru slíku eða samtöl um annað, og það verður allt erfiðara að rannsaka. Ég vil þess vegna mjög alvarlega leyfa mér að óska þess, að hv. þm. athugi, hvort það sé nokkur ofrausn á 4000 millj. kr. fjárl. að ætla sér að launa einn vetur 3 háskólakennara í íslenzkri sögu og bókmenntum fyrir ca. 800–850 þús. kr.

Þá legg ég enn fremur til, að viðvíkjandi háskólanum sé varið til þess að kosta nokkra sendikennara við erlenda háskóla í íslenzkum bókmenntum og menningarsögu svipaðri upphæð, 850 þús. Það er svo, að áhugi erlendis á íslenzkri menningu fer meira vaxandi en áhugi á íslenzkri menningu hér í Háskóla Íslands og kannske því miður á Alþ. Það er engin tilviljun, að verið er að gefa — við skulum segja Njálssögu út í Penguin-útgáfu í 50 þús. eintökum, og hún var fyrir nokkru ásamt fleiri Íslendingasögum gefin út á rússnesku í 90 þús. eintökum, að verið er að þýða Njálu og búið að gefa út fyrri hlutann af henni í Rúmeníu í álíka upplagi, að verið er að gera það sama í Ungverjalandi, að í hverju landinu á fætur öðru í heiminum, austan tjalds og vestan, fer vaxandi áhuginn á okkar bókmenntum. Það er ekki aðeins Halldór Kiljan Laxness og okkar nútímabókmenntir, það eru líka gömlu bókmenntirnar, sem nazismanum um tíma tókst að setja nokkurn blett á og gerði okkur dálítið erfitt fyrir fyrst eftir stríðið. Það eru líka gömlu bókmenntirnar okkar, sem menn koma núna auga á í vaxandi mæli. Og ég held, að meira að segja þær þjóðir, sem nú eru að brjótast fram, þær þjóðir, sem einu sinni voru menningarþjóðir, eins og við vorum á 10. og 11. öld, og lentu síðan í fátækt og niðurlægingu og nýlendukúgun, þjóðirnar t.d. í Afríku, sem áttu við hámenningu að búa á 10. og 11. öld margar hverjar, en voru eyðilagðar með þrælahaldinu og þrælaveiðunum, þjóðir eins og í Mið-Afríku, sem sköpuðu einhverja fegurstu höggmyndalist næst þeirri grísku, — þessar þjóðir mundu, ef þær þekktu okkar bókmenntir frá þeim tímum, þegar við lifðum við svipað þjóðfélag og þær bjuggu við, ættarsamfélagið, mundu geta lært mikið, sem gæti hjálpað þeim í þeirra erfiðleikum núna við að byggja upp nútímaþjóðfélag. Til allrar hamingju erum við Íslendingar þó á vissum sviðum til fyrirmyndar. Og við eigum sannarlega að gera meira að því en við gerum að kynna erlendum þjóðum okkar sögu og okkar menningu. Ekki sízt þegar meiri hl. af öllum íbúum heimsins er nýlenduþjóðir, fyrri nýlenduþjóðir, sem eru að brjótast undan okinu og skapa sér sjálfstæða menningu, þá megum við gjarnan hafa það stolt til að skilja það, að við höfum dálítið að gefa þessum þjóðum. En til þess þurfa þær að fá að kynnast okkar menningu og okkar þjóð. Þess vegna legg ég þarna til, að við verjum litlum 850 þús. kr. til þess að kosta sendikennara við erlenda háskóla. Ég veit, að á Norðurlöndum þurfum við þess ekki. Norðurlönd kosta sjálf íslenzka sendikennara. Og það gera fleiri þjóðir, þær sem nær okkur standa. En ég þykist viss um, að ef við byðum fram nokkurt fé, mundu fjölmargar þjóðir vilja taka á móti sendikennurum og kosta að sínu leyti, kannske til hálfs á við okkur, einn mann til að halda fyrirlestra við erlenda háskóla í þessum efnum.

Mér þykir leitt, að hæstv. menntmrh. skuli ekki vera hérna núna, en ég heyrði það einmitt á hans skýrslu, t.d. frá Tékkóslóvakíu, ferðalagi hans þar, hve það snart hann að finna þar menn, sem hafa þýtt öndvegisrit íslenzkra bókmennta, unnið að því að kynna íslenzkar bókmenntir, en aldrei á sinni ævi haft efni á því að komast til Íslands. Og við eigum slíka vini og áhugamenn úti um allan heim, menn, sem er það enn þá draumur, eins og það var fyrir vissa vini okkar t.d. suður í Danmörku á 19. öldinni, að koma hingað og kynnast Íslandi. Þess vegna eigum við að gera ráðstafanir til þess að kynna okkar menningu á þennan máta, og þetta er ekki neitt stórfé, og við höfum vel efni á því, betur efni á því en t.d. þeim margumtöluðu sendiráðum ýmsum.

Síðan er ég þarna með till. um, að við hækkum nokkuð styrkinn til þjóðminjasafnsins, til aðstoðar, að liðurinn, sem nú er 460 þús. og ég held að fjvn. leggi nú til að hækki um 100 þús., sé settur upp í 600 þús. Sannleikurinn er, að þetta er alveg til skammar lítið, sem við gerum þeim vísindamönnum, sem þarna starfa, mögulegt að vinna. En það er svo með þessa vísindamenn marga, að þeir eru það hæverskir í sínum kröfum, að fjvn., sem er vön að hafa ýmsa gamma yfir sér, sleppur eiginlega of billega, þegar þessir menn eru við hana að tala. Mér finnst það stundum, þegar ég horfi á, hvað kirkjan fær meira og meira í sinn hlut, að það lítur helzt út fyrir, að herra biskupinn og aðrir vinni með kapítalistískri áfergju að því að afla sér jarðneskra fjármuna úr ríkissjóði, en okkar beztu vísindamenn sýni hins vegar kristilegri undirgefni og þolinmæði, þegar þeir eru að fara fram á fjárveitingar úr ríkissjóði. Ég vil þess vegna ofur lítið bæði ýta undir þá og hv. fjvn. með að hafa hausavíxl á þessum hlutum.

Þá legg ég enn fremur til, að settur sé nýr liður í sambandi við þjóðminjasafnið, það er til kvikmyndagerðar, til „dokument“-mynda af sögulegum minjum. Ég hef flutt þetta áður og ég skal ekki hafa mörg orð um það. En við erum framúrskarandi duglegir í því, Íslendingar núna, að eyðileggja sögulegar minjar. Því meira og harðar sem við heimtum handritin heim, því meira eyðileggjum við hérna hringinn í kringum okkur, ekki sízt hér í Reykjavík, og er líklega stílað upp á að eyðileggja hana enn þá meira. Það er ekki stórt að fara fram á, að áður en menn eyðileggja þessa hluti, kvikmyndi menn þá, að það séu þó a. m. k. til „dokument“-myndir, og ég býst við, að mörgum hefði þótt vænt um, ef það hefði verið hægt að búa til „dokument“filmur af þeim handritum, sem voru eyðilögð eða brunnu. Ég held þess vegna, að menn ættu að athuga þetta alvarlega. Þetta á ekki neitt skylt við fræðslumyndasafnið, það gerir lítið í þessum hlutum.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta. Ég hef flutt það tvisvar eða þrisvar áður, og það hefur ekki fundið náð fyrir augum fjvn.

Þá legg ég enn fremur til að hækka ofur lítið laun og rannsóknarstyrki við Handritastofnunina, hækka það upp í 1½ millj. Það er núna 1 millj. 22 þús. Ég verð að segja það, að mér finnst til skammar fyrir okkur, hvernig við búum að þessari stofnun, eins háværir og við erum í okkar réttlátu kröfum um handritin. Og mér finnst, að við eigum að hugsa um þessa stofnun rétt eins og við hugsum um háskólann. Þessi stofnun á að vera alveg sérstakt stolt okkar. Ég verð meira að segja að segja það, fyrst við höfum hjá háskólanum bæði risnu og ferðakostnað, ættum við að hafa það við Handritastofnunina líka. Það er vitanlegt, að það eru gerðar þær kröfur til þeirra manna, sem í Handritastofnuninni eru, að þeir séu sífellt að taka á móti gestum, sífellt að sýna mönnum. Það eru jafnvel fleiri, sem koma þangað, heldur en til háskólans. Og við hljótum að ganga út frá því, að einmitt til þessarar stofnunar séu gerðar kröfur frá erlendum þjóðum og erlendum háskólum og erlendum söfnum, erlendum þjóðminjasöfnum og öðrum, að þeir fái menn frá henni til þess að flytja fyrir sig fyrirlestra.

Og svo að lokum flyt ég þarna till. um, að til viðhalds Viðeyjarstofu sé varið 500 þús. kr. Ég flutti fyrir 10 árum, þegar fjárl. frá 1956 voru til umr., till. hérna til viðhalds Viðeyjarstofu, þá fyrir 100 þús. kr., og það var náttúrlega ekki samþykkt. Ég hef nokkrum sinnum síðar flutt slíkar till., og ég hef séð mér til mikillar ánægju, að það er þó farið að skrifa meira um það í blöðin nú, hvílík skömm sé að því, hvernig þar er umhorfs. Nú var á síðasta þingi samþ. í fjárl. heimild til handa ríkisstj., á 22. gr. 38. lið, að kaupa Nesstofu og Viðeyjarstofu ásamt hæfilegri lóð. Og ég vildi beina þeirri fsp. til hæstv. ráðh., ef hann væri hér viðstaddur: Hefur þetta verið gert? Er þessu lokið? Er búið að kaupa þetta? Við hvaða verði hefur það verið keypt? Og þarf ekki ríkissjóður fé til viðhalds Viðeyjarstofu í því ástandi, sem hún er? Ég vildi gjarnan fá að vita um þetta, því að jafnvel þótt það væri ekki þetta há upphæð, þarf þó einhver upphæð að koma þarna inn, ef það er ekki meiningin, að við látum þetta litla, sem til er enn þá af sögulegum byggingum á Íslandi, grotna niður og eyðileggjast í höndunum á okkur, þegar við höfum þá sjálfir ekki annaðhvort rifið það eða brennt það, eins og gert hefur verið við nokkuð af þeim elztu húsum, sem til hafa verið á Íslandi.

Það var eftirtektarverð saga, sem sögð var. Einn sá maður, sem mestan áhuga hefur á að stúdera gömlu húsin hér og byggingarlist þeirra, skrifaði um einn stað úti á landi og birti mynd af húsi, sem væri nauðsynlegt að varðvelta. Húsið var rifið rétt á eftir. Ég held, að hreppsyfirvöldin hafi staðið að því. Þau óttuðust, að það kynni að leiða einhvern kostnað af því, að það ætti að fara að viðhalda þessu húsi. Barbarisminn í sambandi við þau gömlu hús og það gamla, sem til er hérna, er svo dæmalaus, að það er eins og við séum að gera grín að okkur sjálfum, þegar við tölum um handritin. Ég held þess vegna, að við þurfum að vera ofur lítið sjálfskrítískari á okkur en við erum, og þess vegna hef ég verið að reyna að flytja þessar till., þó að þær hafi fengið lítinn hljómgrunn.