17.03.1966
Neðri deild: 56. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 745 í B-deild Alþingistíðinda. (568)

148. mál, Iðnlánasjóður

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég get verið stuttorður, því að það voru ekki nema tvö atriði, sem hæstv. ráðh. minntist á, og ég skal halda mig við þau.

Annað atriðið var það, að ráðh. hélt því fram, að það væri ekki rétt að bera saman stofnlánasjóði atvinnuveganna hvað snerti gjöld þau, sem viðkomandi atvinnuvegir greiddu til þeirra, það væri ekki hægt að bera saman útflutningsgjaldið, sem rynni í fiskveiðasjóð, og bændaskattinn, sem rynni til stofnlánadeildar landbúnaðarins, og það gjald, sem iðnaðurinn er látinn greiða í iðnlánasjóð.

Ég man ekki betur en þegar upphaflega var lagt til á Alþ., að þetta gjald væri lagt á iðnaðinn, og ég held, að það hafi verið fyrirrennari hæstv. ráðh. í iðnaðarráðherrasætinu, núv. forsrh., sem mælti fyrir því máli, — ég man ekki betur en því væri haldið fram þá, að hér væri verið að leggja til, að iðnaðurinn greiddi sambærilegt gjald í sinn stofnlánasjóð og aðrir atvinnuvegir væru látnir greiða í stofnlánadeild landbúnaðarins og fiskveiðasjóð, svo að þessi skýring hæstv. ráðh. kemur mér því dálítið spánskt fyrir sjónir, vegna þess að hún er ekki í samræmi við það, sem upphaflega var sagt um þetta gjald. Eða á að skilja þetta svo, að þetta sé framkvæmt þannig, að t.d. iðnfyrirtækin borgi þetta gjald ekki sjálf, heldur megi láta það ganga inn í verðlagið? Ég hygg, að þetta sé framkvæmt a.m.k. þannig, að þar sem er um verðlagseftirlit að ræða eða verðlagshöft, þá fái iðnfyrirtækin ekki þetta tekið inn í verðlagið, og þess vegna sé um alveg hliðstætt gjald að ræða og t.d. bændurnir greiða. En ef það hefur orðið einhver breyting á þessu frá því, sem skýrt var frá hér í upphafi, þegar þetta gjald var lagt á, þá er gott að fá það upplýst. En mér sýnist a.m.k., að á þeim ályktunum, sem samtök iðnaðarmanna hafa verið að samþykkja á undanförnum fundum sínum, hafi sá skilningur komið fram, að þau teldu, að iðnfyrirtækin greiddu þetta gjald, en ekki neytendur, og þess vegna væri hér um hliðstætt gjald að ræða og aðrir atvinnuvegir greiða í sína stofnlánasjóði. En það er rétt að fá upplýst til hlítar, hvort þetta gjald er tekið af iðnaðinum eða hvort það er tekið af neytendum og er þess vegna allt annað en túlkað hefur verið. Ég skal játa það, að ef svo er komið í framkvæmdinni, að iðnaðurinn greiði þetta raunverulega ekki, heldur aðrir aðilar, þ.e.a.s. þeir, sem borga vöruna, þá er hér ekki um sambærilegt mál að ræða. En þá hafa líka iðnaðarmannasamtökin ekki heldur sótt málin á réttum grundvelli, og þá hefur þetta ekki heldur verið rétt skýrt fyrir Alþ., þegar gjaldið var upphaflega lagt á og hæstv. núv. forsrh. mælti fyrir þeirri álögu.

Hitt atriðið, sem hæstv. ráðh. ræddi um, var rekstrarfjárskortur iðnaðarins, og hann játaði. að iðnaðurinn byggi við nokkurn rekstrarlánaskort. Mér fannst hann gera samt heldur litið úr því, a.m.k. miðað við það, sem iðnrekendur halda sjálfir fram, og hann lýsti því yfir sem sinni skoðun, að það væri útilokað að bæta úr þessu með því að taka upp endurkaup á hráefna- og framleiðsluvíxlum. En það fór samt þannig hjá hæstv. ráðh., að hann svaraði sér eiginlega sjálfur og á þann veg, að þetta væri rangt hjá honum, því að hann nefndi sjálfur þó nokkuð mörg tilfelli, þó nokkuð margar iðngreinar, þar sem væri tiltölulega auðvelt að framkvæma þetta, eins og t.d. skipasmíðastöðvar, eins og vélsmiðjur, eins og veiðarfæragerðir o.s.frv., eða öll þau fyrirtæki, sem þurfa að liggja með verulega lagera, og þess vegna er hægt að finna út og mæla, hver lánsþörf þeirra er í sambandi við þetta, og leggja á það mjög svipaðan mælikvarða og hjá sjávarútvegi og landbúnaði. Þetta gildir vitanlega um fjölmörg iðnfyrirtæki, margar iðngreinar aðrar. Það er þess vegna ekki eins erfitt að framkvæma þetta og hæstv. ráðh. vill í öðru orðinu vera láta, þar sem hann játar það í hinu orðinu, að það sé tiltölulega auðvelt að framkvæma þetta hjá tilteknum iðngreinum, enda er alveg víst, að iðnrekendur eru ekki slíkir bjálfar, að þeir séu að gera þessar kröfur ár eftir ár og geri sér ekki grein fyrir, að þetta sé framkvæmanlegt. Og ég er alveg viss um það. að ef hæstv. ráðh. fengi um þetta, þótt ekki væri nema litla lexíu hjá núverandi sessunaut sinum, þá ætti hann að geta sannfærzt um þetta.