24.03.1966
Neðri deild: 59. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í B-deild Alþingistíðinda. (574)

148. mál, Iðnlánasjóður

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Út af ræðu hv. 3. þm. Reykv. get ég sagt það, að ég fellst í öllum aðalatriðum á það, sem hann hélt fram, og er honum sammála um þau sjónarmið, sem hann reifaði, og það er alveg rétt, að hann lítur þarna raunsætt á hlutina, sem við komumst ekki hjá að gera okkur grein fyrir sjálfir, að aðstaða iðnaðarins — það má segja, að hún sé á nokkrum vegamótum. Hann mun lenda í miklu harðari samkeppni við erlendar iðnaðarvörur en hann hefur þurft að standa í fram til þessa og einmitt iðnaðarvörur hjá háþróuðum löndum. Og ég held, að það sé rétt metið hjá honum líka, að við munum eiga erfitt með að komast hjá þessu, hvort sem við viljum eða viljum ekki, hvort sem við viljum vera í einhverju fríverzlunarbandalagi eða ekki, að þetta verður, hygg ég, óhjákvæmilegt.

Varðandi hagræðingarlánin er ég honum alveg sammála um, að þar sem við höfum talað um hagræðingarlán fram til þessa, hefur það verið nokkuð handahófskennt, t.d. í sjávarútveginum. Engu að síður hefur þar átt sér stað ákaflega þýðingarmikil hagræðing, mjög þýðingarmikil og miklu reyndar meiri en menn gera sér almennt grein fyrir. Og í sambandi við nýjan lánaflokk í iðnlánasjóði, svokölluð hagræðingarlán til aukinnar framleiðni og til þess að hjálpa iðnaðinum til þess að mæta þeim nýju viðhorfum, er mér ljóst, að það þarf að vanda það nokkuð vel, hvernig um þau verður búið, og mundi það verða verkefni til ákvörðunar í reglugerð eftir nána og vandlega athugun þessa máls.

Ég vil láta þess getið í þessu sambandi og í beinu framhaldi af ræðu hv. 3. þm. Reykv., að ég hef að beiðni Félags ísl. iðnrekenda falið framkvæmdastjóra Iðnaðarmálastofnunar Íslands að kynna sér, hvernig bezt mætti koma á athugun á því, að íslenzk iðnfyrirtæki sameini sig að einhverju leyti í stærri einingar, eins og hv. þm. vék að. Það er fordæmi fyrir þessu, sem við vitum nokkuð um, frá hálfu Norðmanna, en fyrsta skref þessa máls er, að Iðnaðarmálastofnunin kanni málið og kynni sér það og geri till. til iðnmrn. um, hvernig slíka athugun mætti helzt upp taka. Þessi sjónarmið eru í hugum iðnrekenda hér og komu fram einmitt þegar við vorum með þeim ekki alls fyrir löngu að skoða iðnfyrirtæki, Kassagerðina o.fl., eins og hv. 3. þm. Reykv. vék að.

Ég hef einnig sett á laggirnar nú eða er að setja á laggirnar þriggja manna n. til þess að athuga, með hverjum hætti iðnaðinum verði bezt veitt tækniaðstoð. Þessi n. er skipuð fulltrúum frá Félagi ísl. iðnrekenda og Iðnaðarmálastofnuninni, og formaður n. er skipaður af iðnmrh., og hefur skólastjóri Tækniskólans fallizt á að taka að sér formennsku þessarar nefndar.

Ég hef áður vikið að því, að iðnaðinum var fyrir nokkru látin í té nokkur tækniaðstoð, aðallega í samvinnu við Efnahagsstofnun Evrópu, sem nú er niður fallin, og það er að mínum dómi mjög þýðingarmikið að taka þráðinn upp aftur og gera sér grein fyrir því, á hvern hátt iðnaðinum nú verður veitt — og nú er kannske meiri nauðsyn en nokkru sinni áður — veruleg tækniaðstoð, sem um munar, til þess að mæta hinni hörðu erlendu samkeppni. — Þetta vildi ég segja út af ræðu hv. 3. þm. Reykv.

Ég skal ekki víkja neitt að ræðu hv. 5. þm. Reykv. Við höfum talað um þessi mál áður í sambandi við önnur mál, sem brtt. hans og annars þm. í sambandi við þetta frv. ganga út á um eflingu iðnlánasjóðs, en um till. um lengingu lánanna hef ég ekki sérstaklega rætt áður. Hana tel ég mjög vafasama, sérstaklega í sambandi við vélalánin, og er þetta ekki sambærilegt við ákvæði fiskveiðasjóðslaganna, því að þar er aðeins gert ráð fyrir því, að lánin út á skipin megi vera allt að 15 árum, en út á annað, vélar eða tæki, á það að metast, eins og í frv. segir og eins og hefur verið gert fram til þessa, eftir endingartíma þess hlutar, sem lánað er út á. Ég hygg, að almennt sé ekki rétt að miða endingartíma véla í iðnaði við lengri tíma en 7 ár. Það er auðvitað vitað, að sumar vélar endast lengur og miklu lengur. En ég held, að hins vegar sé almennt óskynsamlegt að gera það. Aftur á móti er gert ráð fyrir því í þessu frv., eins og 2. gr. segir til um og nánar er að vikið í grg., að hagræðingarlánin svokölluðu, við notum þar eitt orð yfir þau, mundu geta orðið til lengri tíma, og við skulum segja þá 10 ára vélalán og upp í 20 ára fasteignalán, sérstaklega þó þannig, — það stendur í mínum huga, en yrði nánar ákveðið í reglugerð, — að fyrstu 3 árin t.d. væru vélalánin afborgunarlaus, meðan erfiðleikarnir væru mestir, og yrðu svo borguð niður á 7 árum eftir þann tíma, eða allt í allt í 10 ár.

Vélalánin eru veigamikill þáttur í lánum iðnlánasjóðs. eins og fram kemur í grg., þar sem fylgir yfirlit yfir efnahag, eignir og skuldir, iðnlánasjóðs, en þar eru vélalánin 86 millj. kr. og byggingarlánin 53 millj. kr. Ég hygg, að með því að hafa hin sérstöku viðbótarlán lengri, náist nokkuð það, sem hér er að stefnt, að veita sem sagt iðnaðinum lengri lán en almennt er gert ráð fyrir, en þá aðeins í sérstökum tilfellum, eins og nánar er vikið að og ég hef áður rætt um. Ég held þess vegna, að það sé ástæðulaust að samþykkja þessa brtt. sem almenna breytingu við iðnlánasjóðslögin, og að öðru leyti hef ég lýst andstöðu minni gegn hinum brtt., brtt. um, að ríkissjóður leggi á móti iðnlánasjóðsgjaldinu. Ein brtt. er náttúrlega ekki veigamikil, hvort lánsheimildin er 150 millj. kr. eða 200, eins og ég held að till. sé um. En ég benti á það, að upphaflega var almenna lánsheimildin 100 millj., það er búið að nota af henni 66.5 millj. kr., og að svo stöddu taldi ég eðlilegt og nægjanlegt, að heimildin yrði aukir í 150 millj. Að sjálfsögðu er gengið út frá því, að það mundi aldrei standa á þinginu að auka þessa heimild, ef væri búið að fullnota hana.