02.12.1965
Sameinað þing: 15. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í B-deild Alþingistíðinda. (58)

1. mál, fjárlög 1966

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég vil mjög undirstrika rökstuðning hv. þm., sem nú lauk máli sínu, varðandi till. hans um 10 millj. kr. fjárveitingu til ráðstafana gegn atvinnuleysi á Norðurlandi og í Strandasýslu. Ég býst við því, að það verði ekki einungis hv. 11. landsk., sem ræddi um þessa till. hér áðan og viðurkenndi, að full þörf væri á því að samþykkja hana, heldur muni allir þm. Vestfirðinga vilja veita henni stuðning, því að erindi hafa okkur borizt úr Strandasýslu núna að undanförnu, sem gera okkur það ljóst, að í Strandasýslu ríkir nú margþætt neyðarástand. Strandasýsla var innilokuð af ísalögum s.l. vetur og fram á vor og atvinnulífið lagðist þar í dróma, og fyrir og eftir þann atburð hefur herjað fiskleysi á þetta hérað, og útgerðarmenn á Hólmavík og Drangsnesi hafa í raun og veru alveg gefizt upp og er ekki að furða. Þeir hafa nú nálega allir eða máske allir auglýst skip sín til sölu. Þar þarf því að bregða við skjótt til hjálpar þessu nauðstadda héraði og gera ráðstafanir í atvinnulífinu, og það verður ekki gert nema með fjárframlögum. Og hér blasir málið þannig við, að hæstv. ríkisstj. gaf föst og bindandi loforð um að gera ráðstafanir í atvinnumálum á Norðurlandi og í Strandasýslu á komandi vetri og raunar yfir tvö ár, og til fullnægingar því loforði þarf að sjá fyrir fé. Ef hæstv. fjmrh. telur, að ekki þurfi nýrrar fjárveitingar við, það verði hægt að standa við þetta loforð án þess, þá ber að fagna því og þá getur hv. tillögumaður sjálfsagt tekið þessa till. aftur. En komi ekki slík yfirlýsing frá hæstv. fjmrh., sé ég ekki annað en hæstv. ríkisstj. sé skylt að veita þessari till. stuðning og tryggja henni framgang.

Það er mikið búið að ræða hér um vanefndir af hendi eins hæstv. ráðh., og ég vænti þess, að menn vilji ekki vinna það til, að hæstv. ríkisstj. verði sönn að sök um vanefndir einnig á þessu loforði, sem gefið var s.l. vor. A. m. k. var það svo, þegar því var haldið fram af okkur, nokkrum þm., að ekki væri staðið við áður gefin loforð gagnvart verkalýðshreyfingunni, þá þóttist hæstv. forsrh. ekki minni maður við það, þótt hann viðurkenndi, að við það loforð bæri auðvitað að standa, og hvarf frá, að mig minnir, eitthvað um 60 millj. kr. lið, sem þá var fyrir atbeina ríkisstj. tekinn inn í frv. hér á hv. Alþ., og við töldum það brjóta í bága við samkomulagið og kröfðumst þess, að frá þessu væri horfið. Og hæstv. forsrh. beitti sér fyrir því, til þess að ekki gæti neinn haldið því fram, að hann stæði ekki við gefið loforð. Og ég vænti, að sá andi sé enn ríkjandi í hæstv. ríkisstj., að við þetta loforð verði fyllilega staðið, annaðhvort með samþykkt till. ellegar með öðrum hætti, því að nauðsynin kallar þarna að, það getur engum dulizt.

Ég hef ásamt hv. 3. landsk. þm. (EðS) leyft mér að flytja tvær brtt. við fjárlfrv., og eru þær báðar á þskj. 134 og eru báðar breytingar á 17, gr. fjárl. Önnur þeirra a. m. k. er svo smá í sniðum, að hún getur ekki steypt fjárhagsafkomu ríkissjóðs í glötun. Hún er um það, að 150 þús. kr. fjárveiting, sem er á fjárlfrv. til A. S. Í., hækki um 50 þús. kr. í 200 þús. kr. Lengi hefur verið á fjárl. smáupphæð til Alþýðusambandsins, þ.e.a.s. til fræðslusjóðs þess. Þetta er ekki styrkur við rekstrarsjóð A. S. Í., heldur við fræðslusjóð þess, og sú upphæð var lengst af 100 þús. kr. Árið 1957 var þessi upphæð hækkuð um þriðjung, þ.e.a.s. í 150 þús., og hefur staðið óbreytt síðan 1957. Það er því augljóst mál, að 150 þús. nú eru ekki meira virði en 75 þús. kr. upphæð, þegar upphæðin var hækkuð í 150, þ.e.a.s. fyrir 9 árum. Nú má segja, að það ráði engum örlögum varðandi starfsemi A. S. Í., hvort þessi upphæð er 150 þús. kr. eða 200 þús. kr., en ég hef tekið eftir því, að annað landssamband, sem einnig hefur haft styrk til sinnar starfsemi á fjárl., þ.e.a.s. Landssamband iðnaðarmanna, það hefur fengið tvöfaldaða þá upphæð núna þrátt fyrir takmarkaða getu ríkissjóðs, og var þó upphæðin til Landssambands iðnaðarmanna helmingi hærri eða tvöfalt hærri en upphæðin til Alþýðusambandsins. Landssamband iðnaðarmanna hafði 300 þús. kr. styrk til sinnar starfsemi, en sá liður hefur nú verið hækkaður í 600 þús. kr. Ég vil því vænta þess, að það megi líta á þessa till. um 50 þús. kr. hækkun á fjárveitingunni til fræðslustarfsemi A. S. Í. sem eins konar leiðréttingu til samræmis, og held, að enginn geti bendlað mig eða meðflm. minn að till. við ósanngirni eða heimtufrekju, þó að við viljum sjá nokkra leiðréttingu á þessu.

Hin till. er um það, að fjárveiting til orlofsheimila verkalýðssamtaka, sem á þessu fjárlfrv. er 1 millj. 600 þús., verði 2 millj. kr. Það var einnig á fjárl. ársins 1957, sem í fyrsta sinn var tekin upp sú fjárveiting, til orlofsheimilis verkalýðssamtakanna. Næsta ár, 1958, var einnig 1 millj. kr. fjárveiting á fjárl. í þessu skyni, en á þriðja árinu lækkaði þessi fjárveiting niður í 500 þús. kr., og síðan var hún árlega 480 þús. kr. Hún lækkaði því að krónutölu, eftir því sem árin liðu, og hún minnkaði náttúrlega enn þá meira að verðgildi, eftir því sem árin liðu. En á sama tíma hafði Alþýðusambandið hafizt handa um stórfellda og dýra framkvæmd til þess að byggja upp orlofsheimilahverfi, er nokkru gæti orkað til þess að gera orlof verkafólks verðmætara, dýrmætara erfiðisfólki og það gæti átt þess kost með nokkru minni tilkostnaði en utanlandsferðum eða dvöl á hótelum að friðast frá sínu erfiði á mennilegum og friðsömum stað, þar sem vel gæti um það farið í orlofinu. Þessu hafði A. S. Í unnið að af nokkurri atorku og búið sig undir það að standa myndarlega að þessari framkvæmd. Þess vegna gerðum við nokkrir forustumenn A. S. Í. för okkar á fund hæstv. forsrh. s.l. haust og ræddum þetta mál við hann og fórum þess á leit, að 480 þús. kr. fjárvelting til orlofsheimilanna yrði þá hækkuð í 2 millj. kr., svo að notagildi hennar drægi langt til þess að jafngilda því, sem upphaflega upphæðin orkaði, þ.e.a.s. þá 1 millj. kr. Ég efa ekki, að það mun hafa verið fyrir atbeina hæstv. forsrh., að við þessu erindi okkar varð hv. fjvn. í sambandi við afgreiðslu fjárl. þess árs, og á fjárlfrv. þá var tekin upphæðin 2 millj. kr. En við niðurskurð á liðum fjárl. um 20% varð hún raunverulega ekki nema 1.6 millj., og það er sú krónutala, sem nú er látin gilda að því er einnig varðar þessa upphæð sem aðrar á núv. fjárlagafrv. Sú framkvæmd, sem A. S. Í. stendur að undir Reykjafjalli í Ölfusi, mundi því fá ekki aðeins verðminni raunverulegan stuðning frá hendi ríkisvaldsins, ef þessi upphæð stendur óbreytt, heldur er þarna einnig um minni upphæð að krónutölu að ræða heldur en við reiknuðum með á s.l. ári. Mér finnst ekki vera samræmi milli þessa og þess, að hæstv. ríkisstj. hefur látið það boð út ganga, að hún hafi hug á að lengja orlof verkafólks, hefur skipað n. til þess í það mál. Einkanlega á sú n. víst að kanna, hvað orlof verkafólks sé langt í nágrannalöndum okkar, og hún hefur látið uppi, að það sé stefna stjórnarinnar að lengja hér orlof, þannig að það verði álíka og í núgrannalöndunum. En mér er ekki kunnugt um, að í neina framkvæmd hafi verið ráðizt í þessu landi, sem frekar stuðli að því, að orlof verkafólks notist og notist vel, heldur en einmitt með þeirri framkvæmd, sem A. S. Í. stendur að og hefur alls ekki lokið, heldur stendur í miðjum klíðum með að framkvæma. Mér er kunnugt um, að bæði hæstv. fjmrh. og hæstv. félmrh. hafa kynnt sér, hvernig þessi framkvæmd, sem þegar er komin, hafi verið af hendi leyst, og veit ekki betur en þeir hafi á henni velþóknun og telji allmyndarlega að þessari framkvæmd staðið. Ég mundi því vilja vænta þess, að á tillögu mána og hv. 3. landsk. um það, að upphæðin verði nú ákveðin 2 millj., eins og hún var ákveðin á fjárl. þessa árs, og lækki þannig ekki að krónutölu, megi líta og verði litið sem tilmæli um sanngjarna leiðréttingu.

Þetta var nú mitt mál. og þegar ég hef lokið við að flytja það og kl. er tvö og allir ráðherrastólar auðir nema hæstv. fjmrh., finnst mér ekki vera nema eiginlega tvennt fyrir hendi: annaðhvort að nota þingmannsréttinn til þess, að ráðh. séu porraðir út og stjórnarliðið allt að undanteknum forseta og frsm. fjvn. og einum fjvn. manni úr stjórnarliðinu, sem hér situr enn þá, og að þeir verði kvaddir til að gegna sínum þingmannsskyldum eins og við hinir, sem hér höfum verið í kvöld og í nótt, ellegar þá láta sem maður sjái ekki þá fyrirlitningu, sem þingræðinu er sýnd af hæstv. ríkisstj. og stjórnarliði, og hætti að tala og gefa þannig þessum fáu stjórnarliðum einnig kost á að sofa eins og hinum flokksbræðrum þeirra. Ég ætla nú ekki að taka þann kostinn að tala hér til morguns og heimta það, að liðið sé kvatt út, en vil þó segja örfá orð. Það tekur ekki margar mínútur.

Ég tel það athyglisvert, að að þessu sinni hafa komið ákaflega fáar brtt. við fjárl. frá stjórnarandstöðunni, frá einstökum þm. stjórnarandstöðunnar. Ég man ekki eftir því í þau 20 ár, sem ég hef verið á Alþ., að svona hafi verið fátt um brtt. Af hverju skyldi þetta nú vera? Skyldi þetta vera af því, að þingheimur sé svona hjartanlega ánægður með fjárlfrv., það sé alveg eins og það eigi að vera og eina og þeir vilja allir hafa það, eða skyldi það eiga einhverjar aðrar ástæður? Ég er ekki í nokkrum vafa um, að þetta er ekki ánægjuyfirlýsing. Það gæti hugsazt, að það væri af því, að við erum búnir að fá þá reynslu núna þing eftir þing mörg ár í röð, að ýmist hefur aðeins ein eða engin af öllum till. stjórnarandstöðunnar náð samþykki. Ekki hefur nú þingræðinu verið gert hærra undir höfði en það, því að enginn þarf að segja mér, að þessar till. hafi allar verið svo vitlausar, að á þær hafi ekki verið lítandi nema eina eða enga. Ég minnist þess t.d. í fyrra, þegar við vorum að afgreiða fjárl., þá urðu menn hissa, af því að ein af öllum till. stjórnarandstöðunnar bjargaðist í gegn, var samþ., og menn fóru að hugsa: Hvað veldur því, að þessi till. var samþ., að þær voru ekki allar strádrepnar? Jú, sú rannsókn leiddi í ljós, að það, að hún var samþ., — hún var ákaflega lítil, það var till. um að reisa minnismerki yfir einn merkan Íslending og átti ekki að kosta miklu til, — en ástæðan var sú, að minnismerkið átti að vera af afa þáv. fjmrh. Ef ekki hefði viljað svona til, hefði engin till. frá stjórnarandstöðunni verið samþ. s.l. vetur.

Þó held ég ekki, að ástæðan til þess, að menn flytja svona fáar till. núna, sé sú, að menn hafi ekki nú eins og áður getað horft á allar till. sínar strádrepnar. En hvað veldur því þá? Ég held, að skýringin, sem hæstv. núv. fjmrh. gaf á þessu fyrirbæri, sé rétt, hún sé sú, að þm. dyljist nú ekki, að það sé alvara á ferðum, fjárhagur ríkissjóðs sé hvergi nærri blómlegur og það sé jafnvel ábyrgðarhluti að stuðla að því, að enn sé bætt við útgjöld ríkissjóðs, svo sem tekjuhorfur hans eru nú. Hæstv. fjmrh. sagði einmitt, að það gleddi sig, að þm. gerðu sér ljóst, að það væri alvara á ferðum. Og það er alvara á ferðum, ég er sannfærður um það. En það var öðruvísi hljóðið fyrir nokkrum árum í fyrirrennara núv. hæstv. fjmrh. Það var ekki á honum að heyra, að það væri neitt neyðarástand. Hann sagði okkur ár eftir ár, að hann væri búinn að gera sparnaðartill., sparnaðarráðstafanir, sem að vísu kæmu ekki strax að gagni, en mundu segja til sín síðar, og hann stefndi alltaf að stórkostlegum tekjuafgangi ríkissjóðs, og það voru afskaplega mikil tíðindi, sem voru birt stóru letri í blöðum stjórnarinnar, að nú stæði hagur ríkissjóðs með svo miklum blóma, að það hefði verið keypt sparisjóðsbók í einhverjum banka og lagðar inn á hana 100 millj. kr. Það var ekki hallæri þá, og ég stóð í þeirri meiningu lengi vel, að þetta væru ekki leiktjöld, þetta væru ekki Potemkintjöld, heldur bara góðærið, sem hefði valdið því, að hagur ríkissjóðs væri með blóma, gjaldeyrissjóðir hlæðust upp og tekjuafgangur væri frá ári til árs og spárisjóðsbækurnar væru sífellt með hærri og hærri innstæður.

En hefur þá ekki hallæri orðið í landinu, sem valdi því, að nú sé ekki nema eðlilegt, að sé farið að þústna að og allt komið í öngþveiti hjá ríkissjóði? Nei, það hefur engin breyting orðið á árferðinu til hins lakara, nema síður sé. Það hefur aldrei borizt önnur eins guðs gjöf að landi úr íslenzkum fiskimiðum og á næstliðnu og yfirstandandi ári. Og góðæri hefur verið í landinu, eiginlega bæði til lands og sjávar. En samt hefur einhver melur komizt í ríkissjóðinn, svo að nú er alvara á ferðum, svo að þm. setur hljóða, þeir leyfa sér ekki einu sinni að bera fram brtt. við fjárl. til útgjalda, ekki einu sinni Framsfl. Og hæstv. fjmrh. flytur þeim þakkarávarp og segir: Það gleður mig, að þingheimi er orðið ljóst, að nú er alvara á ferðum. — En samt er borið fram fjárlagafrv., sem er um. 260 millj. kr. hærra en fjárlagafrv. ársins á undan. Enn þá er látið vaða á súðum, fjárl. upp á 4 milljarða, 4000 milljónir, og þó er alvara á ferðum. Ríkissjóður stendur í vangreiðslum við íþróttasjóð, vangreiðslum til hafna, vangreiðslum til félagsheimila, vangreiðslum til skóla, vangreiðslum til sjúkrahúsa, vangreiðslum til sjávarútvegsins, sem stendur höllum fæti, og annarra undirstöðuatvinnuvega, sem allir vita, að þrátt fyrir góðærið frá náttúrunnar hendi standa mjög höllum fæti og eru fjárþurfi, ef þeir eiga ekki að dragast saman, undirstöðuatvinnuvegir þjóðarinnar. En þegar það gerist, er líka alvara á ferðum.

Og ekki er nóg með það, að ríkissjóður sé í vanskilum á flestum sviðum, mörg ár á eftir með skyldur sínar, þær skyldur, sem honum ber að inna af hendi. Auk þess er svo ríkissjóður að stofna nú í góðærinu, sem verið hefur, til stórkostlegrar lántöku, lánastarfsemi. Hvað er það, lánastarfsemi til vega, lánastarfsemi til hafna o.s.frv.? Það er bara skuld við framtíðina, það er skuldasöfnun í augnablikinu, skuld við framtíðina. Það verður ekki mikið unnið að vegamálum í þeim héruðum eftir nokkur ár, sem núna fá hæstu fúlgurnar til vegagerða, þegar fjárlagafjárveitingarnar fara í vaxtagreiðslur og afborganir af þessum lánum. Þannig eru framkvæmdirnar núna að ýmsu leyti falskar. Þær eru á kostnað komandi ára. Og þó hefur verið gripið til úrræðis, sem er algerlega ósæmilegt í lýðræðislandi. Þegar Alþingi hefur samþ. fjárlög, á vitanlega að standa við þau. Umfram allt á ekki að brjóta fjárl. á þessu eina ári, sem þau gilda fyrir. En á liðnu ári var neyðarástandið slíkt hjá ríkissjóði, að fimmta hver króna, sem Alþ. hafði ákveðið að veita, var tekin aftur, 20% niðurskurður á fjárl. nema á eyðsluliðunum. Ég er alveg viss um, að það hefði hækkað brúnin á mörgum og þá hefðu menn orðið þakklátir röggsömum fjmrh., ef hann hefði treyst sér til þess að skera niður 20% af eyðsluliðunum. Við höfum ekki efni á því að eyða svona miklu í skrifstofubáknið. Þar skulum við skera niður fimmtu hverja kr., fækka á skrifstofum, hvað sem siðspilling kunningsskaparins sagði, og skera þar niður. — Það hefur sjálfsagt ekki verið auðvelt, en ósvinna hefði það ekki getað talizt.

Íhald og afturhald hefur aldrei verið vinsælt á Íslandi. En þó er svo komið, að ég held, að ef kæmi upp flokkur í landinu, sem hefði efst á stefnuskrá sinni að lofa því að vera íhaldssamur á opinbert fé, og held bara, að sá flokkur, þótt hann lofaði engu öðru, hlyti miklar vinsældir og mikið fylgi. Ef lofað væri íhaldssemi og sá maður, sem því lofaði, væri líklegur til að standa við orð sín, mæti æru sína t.d. meira en 47 millj., fengi slíkur flokkur mikið fylgi þrátt fyrir allar óvinsældir, sem íhald í þessu landi hefur skapað sér um áratugi og aldir. Það er nefnilega sú stefna hæstv. ríkisstj., ekki sízt fyrirrennara hæstv. núv. fjmrh., að láta vaða á súðum um hvers konar eyðslu, gefa síðan glæsilegar hugmyndir um, að allt sé í stakasta lagi, allt sé með blóma, setja upp leiktjöld, Potemkintjöld, og reyna að láta líta svo út, að þessi fögru leiktjöld væru raunveruleikinn sjálfur, það er stefna, sem þjóðin fordæmir og heimtar, að frá henni sé vikið og önnur stefna sé tekin upp, „hin leiðin“ farin heldur, jafnvel hver sem hún væri.

Ég tek eftir því, að nú er ekki hægt lengur að halda því fram, að þessi ófarnaður í efnahagsmálum sé verkalýðshreyfingunni að kenna. Á því var lengi stagazt. S.l. tvö ár hafa stjórnarvöldin, sjálfir hæstv. ráðh. í ríkisstj. hver um annan þveran orðið að viðurkenna það, að verkalýðshreyfingin hafi sýnt hófsemi, sanngirni, boðið af einlægni aðstoð sína og samstarf við að ráða niðurlögum verðbólgu og dýrtíðar og að þeir kaupgjaldssamningar, sem gerðir hafa verið, a. m. k. s.l. tvö ár, séu ekki orsök þess ófarnaðar, sem nú blasir við, m.ö.o., það sé ekki hægt að bera sér það í munn, að íslenzk verkalýðshreyfing hafi stofnað efnahagsmálunum í glötun og sé sá syndahafur, sem eigi að kenna um allar ófarirnar. Það er ekki hægt. En annars hef ég orðið var, og það er það, og það þykir mér hvergi nærri gott, að fólk er farið að halda því fram, að verkalýðshreyfingin sé sek um það, að dáðlaus og ráðlaus ríkisstj. hangi enn í stjórnarstólunum, það sé verkalýðshreyfingunni að kenna, og það þykir mér í raun og veru þyngri ásökun en svo, að ég geti undir henni risið og við í raun og veru borið þá byrði lengi, og ég held, að ef sannleiksneisti er í þessari ásökun, sé hæstv. ríkisstj. í raun og veru skylt, áður en verra hlýzt af, að sitja ekki lengur í þessum stólum, fara ekki lengur með völd í ráðleysi og stjórnleysi og dáðleysi.