02.12.1965
Sameinað þing: 15. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í B-deild Alþingistíðinda. (59)

1. mál, fjárlög 1966

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það var aðeins út af orðum hv. 4. þm. Norðurl. e. og raunar einnig hv. síðasta ræðumanns, 5. þm. Vestf., sem ég stend upp og ætla ekki að lengja mikið umr.

Í sambandi við till. um það að taka upp 10 millj. kr. fjárveitingu vegna aðstoðar við byggðarlög á Norðurlandi og í Strandasýslu var vitnað til þess samkomulags, sem gert var á s.l. vori milli verkalýðsfélaganna fyrir norðan og austan og ríkisstj. í sambandi við atvinnumál þessara staða. Ég geri ráð fyrir því, að hv. þm. viðurkenni, að það hafi verið fyllilega gert það, sem gert var ráð fyrir á s.l. sumri, með þeim tilraunum, sem samþ. var að gera um flutning á síld, þó að það því miður skapaði ekki eins mikla atvinnu og efni stóðu til af ýmsum óviðráðanlegum orsökum. En tilraunin var þó gerð, og það sannaðist, að þetta mundi vera hægt að gera, og jafnframt notuðu ýmsir aðilar sér það til þess að fá styrk til sinna skipa, svo að þeir sigldu með söltunarsíld norður fyrir land. Og ég hygg, að fyllilega hafi verið staðið við það fyrirheit, sem þá var gefið.

Í sambandi við það samkomulag var það einnig tekið fram, sem rétt er, að það yrðu gerðar tilraunir á sama hátt á þessum vetri með að flytja fisk af Suðurlands- og Vesturlandsmiðum eftir atvikum til Norðurlandsins og kanna, hvort væri ekki hægt á þann hátt að bæta aðstöðu frystihúsanna fyrir norðan. Ég vil aðeins nota þetta tækifæri til þess að lýsa því yfir, að að sjálfsögðu verður staðið við þetta. Hitt er annað mál, að það liggur ekkert fyrir um það, hvað þetta muni kosta, og það má auðvitað hugsa sér ýmsar leiðir til þess að afla fjár til þeirra hluta, eðlilegri leiðir en taka það á fjárl., eins og sakir standa, enda ekki svigrúm til þess. eins og fjárlagaafgreiðslu er háttað. En ég vil aðeins láta það koma hér skýrt fram til að valda engum misskilninei. að enda þótt ég telji ekki auðið að samþykkja þá till., sem hér liggur fyrir, mun að sjálfsögðu verða staðið við það samkomulag, sem gert var í þessu efni.