14.10.1965
Neðri deild: 3. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í B-deild Alþingistíðinda. (591)

11. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Árið 1948 gerðist Ísland aðili að alþjóðaráði um fuglavernd. Var þá komið á fót nefnd til þess að koma fram fyrir Íslands hönd í þessum samtökum og hefur hún verið nefnd fuglafriðunarnefnd. Í henni eiga nú sæti dr. Finnur Guðmundsson náttúrufræðingur, sem er formaður n., Kristinn Stefánsson prófessor, Þorbjörn Jóhannesson kaupmaður og Þorsteinn Einarsson íþróttafulltrúi. 1954 voru síðan felld saman í eina heild ýmis sundurlaus ákvæði í íslenzkum lögum um rétt til fuglaveiða, friðun fugla og veiðitíma, svo og ákvæði um fuglaveiðisamþykktir. Er hér um að ræða gildandi lög um þessi efni, nr. 63 frá 1954, um fuglaveiðar og fuglafriðun. 2 lögunum voru ýmis nýmæli, svo sem ákvæði um stjórn fuglafriðunar- og fuglaveiðimála, ákvæði um veiðitæki og veiðiaðferðir, inn- og útflutning fugla, kaup og sölu þeirra o.fl. Var leitazt við, að þessi lagasetning væri að efni til í sem nánustu samræmi við alþjóðasamþykkt um verndun fugla, sem gerð hafði verið í París 1950. Hin nýju lög tóku gildi í ársbyrjun 1955, og ári síðar eða í janúar 1956 fullgilti ríkisstj. Íslands fyrrnefnda alþjóðasamþykkt um verndun fugla.

Síðar kom í ljós, að óhjákvæmilegt virtist, að heimild væri til þess í lögunum að leyfa veiði sumra fugla á friðunartíma þeirra, þar eð þeir kunna að valda tilfinnanlegu tjóni á nytjum eða hindra viðkomu og aukningu fuglategunda, sem æskilegt er að viðhalda og fjölga. En þar sem þá var enn fremur ljóst, að nauðsynlegt væri, að fram færu rannsóknir á veigamiklum þáttum þessara mála, varð að ráði að fresta endurskoðun l., unz þeim rannsóknum væri lokið. Sem dæmi má nefna, að brýna nauðsyn bar til þess að rannsaka vandlega tjón á nytjagróðri af völdum grágæsa. Af ýmsum ástæðum reyndist þó ekki unnt að hefjast handa um aðgerðir í því máli fyrr en á árinu 1963, að samið var við brezka aðila um framkvæmd rannsóknanna. Þessir aðilar unnu síðan í tvö sumur, 1963 og 1964, í samráði við íslenzka aðila að víðtækum athugunum á íslenzka grágæsastofninum, stærð hans, útbreiðslu og lífsháttum. Þegar niðurstöður af þessum rannsóknum lágu fyrir, en það var haustið 1964, var talið ástæðulaust að fresta lengur endurskoðun l. frá 1954.

Í júní 1959 hafði menntmrh. falið fuglafriðunarnefnd að endurskoða l. frá 1954. 30. okt. 1964 fól rn. nefndinni að ljúka sem allra fyrst endurskoðun l., og störfuðu þeir Agnar Ingólfsson náttúrufræðingur og Birgir Thorlacius ráðuneytisstjóri með n. að því verki. Niðurstaðan varð sú, að samið var nýtt frv. til l. um fuglaveiðar og fuglafriðun, og er það frv., sem hér er nú flutt. Frv. hafði verið sent búnaðarþingi til umsagnar og breytt nokkuð að fenginni umsögn þess. Höfundar frv. eru í öllum aðalatriðum á einu máli um ákvæði þess. Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja efni frv. í einstökum atriðum. Þó skal ég geta helztu nýmælanna, sem í því felast.

Í 11. gr. er það nýmæli, að heimild er þar til að veita undanþágu frá friðunarákvæðum frv., þegar um er að ræða tegundir, sem valda veru legu tjóni á nytjum. Enn er reynslan talin hafa sýnt, að brýn nauðsyn sé á því, að slík heimild sé í l. um fuglaveiðar og fuglafriðun. Er kveðið svo á, að hægt sé að veita einstökum handhöfum fuglaveiðiréttar tímabundið leyfi til veiði slíkra fugla, á hvaða tíma árs sem er. En þó er gert ráð fyrir, að þessi undanþáguheimild taki ekki til sjaldgæfari tegunda, svo sem arnar, fálka og snæuglu. Sérákvæði eru um grágæsir, og miða þau að því að gera leyfisveitingar einfaldari að því er þessa tegund varðar. Í gr. eru og ákvæði um heimild til töku grágæsareggja, án þess að leyfi komi til. Samkv. gildandi 1. eru grágæsir alfriðaðar, frá því að þær koma á vorin og þangað til 19. ágúst. Þetta hefur valdið mikilli óánægju hjá bændum í sumum héruðum landsins, sem hafa orðið fyrir nokkrum búsifjum af þeirra völdum. Samkv. ákvæðum gr. geta bændur fengið leyfi til að veiða grágæsir á hvaða tíma árs sem er, svo framarlega sem þær valda tilfinnanlegu tjóni á nytjagróðri. Einstakir veiðirétthafar geta fengið leyfi til slíkra veiða, en hreppstjórar geta fengið leyfi til slíkra veiða, en hreppstjórar geta fyrir þeirra hönd einnig fengið slíkt leyfi. Þrátt fyrir þessar víðtæku heimildir verður þó að teljast mjög ólíklegt, að með gæsaveiðum verði hægt að koma í veg fyrir, að grágæsir valdi spjöllum á nytjagróðri, enda eru sáralítil líkindi til, að hægt sé að hafa nokkur veruleg áhrif á stærð grágæsastofnsins með veiðum einum, jafnvel þótt grágæsir væru ófriðaðar með öllu. Nauðsynlegt er því, að menn geri sér ljóst, að þessar undanþáguheimildir útiloka alls ekki nauðsyn ráðstafana til þess að verja ræktað land fyrir gæsum með ýmsum ráðum, sem gefizt hafa vel, t.d. í Skotlandi og víðar.

Í 27. gr. er ákvæði um, að óheimilt skuli að brenna sinu eftir 1. maí ár hvert. Það hefur farið í vöxt á síðari árum, að sina sé brennd á vorin, og er ekki óalgengt, að þetta sé gert í maímánuði og jafnvel fyrri hluta júnímánaðar. Slíkt er talið með öllu óviðunandi, því að þá eru fuglar almennt komnir á varpstöðvarnar og margir farnir að verpa. Afleiðingin af þessu verður sú, að hreiðrum og eggjum margra fugla er eytt í eldi. Til þess að koma í veg fyrir slíkt er vart um annað að ræða en banna sinubruna eftir 1. maí ár hvert, en það eru þau tímatakmörk, sem eðlilegast er talið að miða við.

Önnur nýmæli frv. eru ýmist í tengslum við þessi atriði eða minni háttar, og sé ég því ekki ástæðu til að rekja þau nánar né heldur það efni frv., sem er samhljóða gildandi lögum.

Að svo mæltu leyfi ég mér að leggja til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.