18.11.1965
Neðri deild: 19. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í B-deild Alþingistíðinda. (597)

11. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það var út af smáatriði, sem ég hafði hreyft við einstaka nm., en þeir hafa ekki borið fram brtt. um, og ég tel rétt að komi til atkv. Í 36. gr. frv. segir.

„Þeim, sem starfa að því að taka ham af fuglum og setja þá upp, er óheimilt að inna þau störf af höndum, nema fuglanna hafi verið aflað á löglegan hátt. Þeim skal og óheimilt að setja upp eða taka ham af örnum, fálkum og snæuglum, jafnvel þótt þeirra hafi verið löglega aflað, nema í þágu opinberra almenningssafna íslenzkra.“

Ég tel, að þetta ákvæði sé með öllu ótækt. Ef hamanna er löglega aflað, er engin ástæða til að setja á þær hömlur, sem hér eru ráðgerðar. Það er að vísu sú röksemd færð í athugasemd frv., að hætt sé við, að fram hjá því verði farið, ef þetta bann um að setja upp hami fyrir einstaklinga sé ekki sett. En það er alveg nóg að leggja þá sönnunarskyldu á aðila, að þeir verði að sanna, að þeir hafi fengið haminn löglega, til þess að tryggja þetta. Hitt hlýtur í raun og veru að leiða til þess, að farið yrði að kanna heima hjá einstökum mönnum, hvort þeir hefðu fengið inn í sínar stássstofur, eins og í grg. segir, þessa fugla. Slíkur eltingarleikur er nánast sagt hlægilegur og ósamboðið Alþingi að setja slíka löggjöf. Það má segja, að þetta sé ekki stórt atriði, en hér er dæmi um það, hvernig menn í áhuga sínum fara allt of langt og leiðast til að setja reglur, sem með öllu eru óframbærilegar eða svo er mín skoðun.

Ég leyfi mér að flytja hér svo hljóðandi skriflega brtt.:

Brtt. við frv. til laga um fuglaveiðar og fuglafriðun. Við 36. gr. Seinni málsliðurinn falli niður.