18.11.1965
Neðri deild: 19. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (599)

11. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Óskar E. Levy:

Herra forseti. Það varð ekki að fullu samstaða í menntmn. þessarar hv. þd. um afgreiðslu þessa máls, sem hér er tekið til 2. umr., frv. til laga um fuglaveiðar og fuglafriðun.

Þrír nm., hv. 3. þm. Sunnl., hv. 3. þm. Vestf. og ég, skrifa undir nál. á þskj. 57 með fyrirvara, og höfum við af því tilefni flutt brtt. við frv. á þskj. 67, sem ég vil gera grein fyrir og ræða málið almennt í stuttu máli.

Það er lagt til í frv., að nýsett lög nr. 50 frá 8. maí þ.á., um eyðingu svartbaks, verði algjörlega þurrkuð út, numin úr gildi, en í þeirra stað komi aðeins skv. 25. gr. frv. heimildarákvæði um, að ráðuneytið geti, — það er ekki skylda þess, — að fengnum till. fuglafriðunarnefndar sett reglugerðarákvæði um tiltekið atriði alls málsins, sem nú er ákveðið í nefndum lögum.

Ég verð að segja það, að mér finnst fuglafriðunarnefnd, þótt hún sé óefað mikill aðili í ríkinu og okkur að líkindum ber að lúta með mikilli virðingu, fara fram á allmikið sér til handa. Og ég er að velta því fyrir mér, hvort það sé raunverulega hægt siðferðilega fyrir hæstv. menntmrn., þótt til þess fáist leyfi hinnar mikilsvirtu fuglafriðunarnefndar, að setja í reglugerð svo til nákvæmlega sömu ákvæði og Alþingi Íslendinga hefur fellt úr lögum, sem með einróma samþykki voru fyrir stuttu sett.

Það virðist ekki vera veigamikill ágreiningur um meginstefnuna í þessum málum. Nær allir telja, að aðgerða sé þörf, og nær allir telja, að fara eigi inn á nýjar leiðir. Og það var einmitt þess vegna, sem lögin voru sett á s.l. vori, og það eru ákvæði í þeim lögum um það, og kem ég að því síðar í ræðu minni.

Flm. brtt. á þskj. 67 telja óforsvaranlegt að afnema nú lögin um eyðingu svartbaks frá s.l. vori og flytja því þessar till. En þær eru eingöngu um það, að lögin verði látin halda sér nú um sinn, unz þau hafa sýnt sig a.m.k. að einhverju leyti í framkvæmd.

Ég tel rétt að rifja upp nokkur helztu atriðin, sem fram komu við umr. á hv. Alþingi á s.l. vori við afgreiðslu laganna um eyðingu svartbaks. Rökin fyrir þeim lögum verða ekki betur sett fram að mínum dómi.

Flm., Bjartmar Guðmundsson, hv. 8. landsk. þm., sagði m.a. við 1. umr. málsins í hv. Ed., með leyfi forseta:

„Svartbakur eða veiðibjalla öðru nafni hefur lengi verið illa séður í varplöndum, og ýmiss konar annan usla er einnig talið og er víst að hann gerir, t.d. í veiðivötnum og veiðiám. Stundum tekur hann lömb og ýmiss konar aðra fugla en þá, sem varpfuglar geta talizt. Einkum er það æðarfuglinn, sem hefur orðið fyrir barðinu á svartbak, og hafa æðarvarpseigendur jafnan lagt mikla stund á að halda þessum fugli svo í skefjum, að honum fjölgaði ekki svo mikið, að æðarvörpum stafaði mjög mikil hætta af. Áður fyrr lögðu varpeigendur sjálfir fé til höfuðs þessum fugli, stundum allverulegar upphæðir, en hin síðari ár, eða frá 1936, hafa gilt sérstök lög um eyðingu svartbaks, og hefur hið opinbera og sýslufélögin í sameiningu staðið straum af kostnaði við það að eyða honum.

Þau lög, sem nú gilda, eru rúml. 30 ára gömul með breyt. 1941, 1951 og 1962. Almennt er talið, að þessi lög séu gagnslaus. Þar er aðeins um skotlaun að ræða, sem eru svo lág, að enginn finnur hvöt til þess að stunda svartbaksveiðar fyrir þau. Og sú sorglega útkoma er nú augljós öllum mönnum, að svartbak hefur fjölgað í landinu langt fram yfir það, sem menn vita til að hafi verið áður. Það kveður svo rammt að þessu, að í flestum æðarvörpum liggur þessi vargur svo í unganum, að mikill hluti hans fer í svartbak, um leið og æðarkollurnar leggja frá hreiðrinu með ungana til vatns. Það berast kvartanir frá varpeigendum um allt land út af þessu, og æðardúnshlunnindi eða tekjur af æðardún hafa farið minnkandi ár frá ári.

Búnaðarþing hefur rætt þetta mál oftar en einu sinni og gert um það ályktanir. Almennt er þess vænzt og krafizt af varpeigendum, að eitthvað sé gert til þess að fækka þessum fugli sem um munar. En víst er, að nýjar leiðir verður að fara, ef nokkuð á að gera, sem til gagns horfir.“

Hv. frsm. landbn. Ed., Ragnar Jónsson, sagði m.a., með leyfi forseta:

„Málum er því þannig komið í þessum efnum, að svartbakurinn gerist æ aðgangsharðari með ári hverju, og horfir til stórvandræða víða í æðarvarpi, þar sem fuglinn hefur naumast nokkurt griðland orðið fyrir þessum gráðuga vargfugli. Þá ógnar svartbakurinn og andastofninum og étur ómælt af laxaseiðum og smásilungi. Ég hygg, að það sé skoðun allra, sem fylgjast með háttalagi svartbaksins og hinni öru fjölgun hans, að það sé mál til þess komið að hefja öfluga herferð gegn honum.

Þar sem frv. það, sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir, eins og ég gat um áðan, að veiðistjóri taki að sér umsjón eyðingaraðgerðanna undir stjórn Búnaðarfélags Íslands, og heimilt er skv. frv. að ráða sérstaka menn til veiðanna til lengri eða skemmri tíma, auk hækkaðra skotmannslauna, má vænta þess, að frv., ef að l. verður, mundi stuðla að því, að svartbaknum verði fækkað verulega á skömmum tíma. Og það er áreiðanlegt, að það er fyllilega mál komið til þess að hefja öfluga herferð gegn þessum gráðuga fugli.“

Og enn fremur segir flm.: „Það, sem í þessu frv. felst, er í fyrsta lagi það, að reyndar verði alveg nýjar aðferðir til þess að eyða svartbak.“

Hér er rétt að minna á og undirstrika það alveg sérstaklega, að það eru ekki skotverðlaunaákvæði eldri laga, sem flm. og frsm. í þessu tilfelli sérstaklega undirstrika. Það er einmitt það, sem er sérstaklega undirstrikað, að fara inn á alveg nýjar leiðir í málinu.

Frsm. landbn. Nd., hv. 3. þm. Austf., Jónas Pétursson, sagði m.a., með leyfi forseta: „Segja má í skemmstu máli, að þetta sé til raun til þess eða einn liður í því, sem nú er mikið reynt, að taka vísindin og tæknina í þágu atvinnuveganna. En þó að það láti kannske ekki mikið yfir sér, er það um það að reyna nýjar aðferðir við eyðingu og útrýmingu svartbaks, sem er aðalbölvaldur og meinvættur við æðarvarp hér á landi. En það er enginn vafi á því, að í æðarvarpinu eru fólgnir miklir framtíðarmöguleikar, ef hægt er að auka það, og þess vegna mælir landbn. einróma með því, að þetta frv. verði samþykkt.“

Herra forseti. Ég hef nú rakið nokkuð gang þessa máls á síðasta þingi. Ljóst er af ræðum flm. og frsm. landbn. beggja deilda Alþ., að þeir hafa allir sem einn talið fækkun svartbaksins aðkallandi nauðsynjamál og hvatt mjög þingið til aðgerða í málinu svo og þess, að farið yrði inn á nýjar leiðir. Allir hafa þeir talið skotverðlaunaákvæðið ekki einhlítt, enda þótt þeir hafi talið það til bóta og sjálfsagt með öðrum samverkandi ákvæðum, og kem ég að því síðar í minni ræðu.

Hv. Alþ. samþykkti svo frv. um eyðingu svartbaks 8. maí á s.l. vori með samhljóða og mikilli þátttöku í atkvgr. í báðum hv. d. Alþ., og er það fyrirbæri ekki of altítt. Nú er komin fram till. utan þings um, að hv. Alþ. geri sér þá hneisu að fella úr gildi þessi lög, sem aðeins hafa staðið í 6 mánaða tíma og í engu fengið tíma til að sýna kosti sína eða galla. Ég tel slíka málsmeðferð alveg fráleita, og ef till. verður samþ., tel ég það bera vott um allt of mikla léttúð í löggjafarstarfi á Alþ.

Ég tel rétt að víkja nokkuð að l. um eyðingu svartbaks. 1. gr. kveður á um það, að veiðistjóri, sem er talinn mjög dugandi maður og hefur reynslu í starfi, skuli hafa alla stjórn á aðgerðum við eyðingu svartbaks undir yfirstjórn Búnaðarfélags Íslands. Þetta ákvæði er eðlilegt og vænlegt til árangurs.

4. gr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hinir ráðnu veiðimenn skulu vera vel útbúnir að öllum tækjum og lyfjum, sem bezt henta við eyðingu svartbaks. Eru hinum ráðnu mönnum leyfilegar eyðingaraðgerðir hvar sem er, svo sem í varpstöðvum svartbaksins og annarra fugla, við árósa, fiskvinnsluhús, sláturhús eða á öðrum stöðum, þar sem svartbakur heldur sig mikið.“

Það hefur nokkuð verið rætt um það, að koma þyrfti að nýjum aðferðum við þessa vinnslu, og er það rétt. 4. gr. kveður einmitt á um það. Það eru að vísu ekki nefnd svefnlyf í gr., sem nú eru af mörgum talin mjög líkleg til árangurs á þessu sviði, en það er talað um lyf, og vitanlega heyra þá svefnlyf undir þessa gr., sem allir tala um, að séu mjög líkleg til árangurs. En veiðimennirnir skulu vera vel útbúnir að öllum tækjum og lyfjum. Ég held, að það verði varla kveðið öllu skýrar á um þessi atriði í reglugerð. 5. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Heimilt er veiðistjóra að fela áðurnefndum ráðnum mönnum eyðingu minka, refa og hvers konar vargfugla, sem herja á æðarvarp, ef nauðsyn krefur.“

Hér er um að ræða mjög þýðingarmikla breytingu frá fyrri l. um eyðingu svartbaks, vegna þess að örugglega má gera ráð fyrir því, að þar sem ráðnir menn fara um til refa- og minkaveiða, svo sem lög gera ráð fyrir, eru á ferð hinir hæfustu menn, sem völ er á hverju sinni, það þekki ég af eigin reynd. Svo er það mjög hagkvæmt fyrir það opinbera, að vargfuglinn og hin grimmu og skaðlegu dýr, minkurinn og refurinn, séu unnin í einni og sömu ferð, þar sem svo hagar til, en það er aðallega með ströndum fram, svo og með ám og veiðivötnum.

Hér kemur líka mjög til góðs ákvæði 11. gr. um verðlaun fyrir skotinn svartbak. Þetta ákvæði hefur hneykslað nú orðið einstakan hv. þm., sem stafar mest af því, að ákvæðið er misskilið. Því hefur jafnvel verið haldið fram, að þetta ákvæði mundi verða lítt bærilegt vegna kostnaðar og íþyngja skattborgurum landsins um of. Ég lít svo á, að þetta ákvæði eldri l. hafi verið látið halda sér í núgildandi l. aðallega vegna veiðanna með ströndum fram, þar sem fuglinn er mjög dreifður, enda styggja skot þar aðra svartbaka minnst. En þessir strjálu fuglar éta jafnaðarlega mest af æðarungum, bókstaflega sitja um þá, þegar þeir ganga frá hreiðrinu. Hví skyldu minka- og refaveiðimenn, sem vinna nokkurs konar ákvæðisvinnu, hafa lögum samkv. ákveðið fyrir unnið dýr, fara að eyða tíma sínum og skotum á svartbak, ef þeir fengju ekkert fyrir að vinna vargfuglinn? Ekki væri hægt að koma við tímavinnu í þessum tilvikum hvað snertir svartbaksveiðarnar, vegna þess að veiðimennirnir eru við annað verk, þ.e. refa- og minkaveiðarnar.

Mig langar til að minna á það, sem hv. frsm. menntmn. sagði hér áðan um vörzlu á æðarvörpunum. Hann taldi, að það væri sérstaklega hagkvæmt að fara inn á þá leið að verja vörpin. En ég vil minna á, að það er einmitt það, sem æðarvarpseigendur hafa gert. En hættan hefur ekki skeð í vörpunum. Hættan hefur verið til staðar, þegar ungarnir hafa komið út úr vörpunum og dreift sér um voga og víkur meðfram allri ströndinni, þá er ekki á nokkurs manns færi að verja ungana, eins og gefur að skilja, svo að þessi röksemdafærsla hv. frsm, menntmn., held ég, fellur um sjálfa sig.

Þá segir svo í grg. Agnars Ingólfssonar, sem prentuð er með því frv., sem hér er til umr., með leyfi forseta:

„Í verstöðvum er oft hægt að skjóta svartbaka, þar sem þeir safnast saman við úrgang. Er þá oft hægt að skjóta í mávaþvöguna og hafa allmarga í skoti. En við fyrsta skot styggjast mávarnir, og líður oft langur tími, unz þeir koma aftur. Verða mávarnir því varari um sig sem oftar er skotið, unz þeir hætta alveg að koma í færi. Með þessari aðferð er því aðeins unnt að skjóta mjög takmarkaðan fjölda svartbaka.“

Ég tel, að þessi tilvitnun ætti að sannfæra flesta um, að enginn mun verða tekjuhár né ríkur af því að skjóta svartbak og buddu skattborgarans er ekki mikil hætta búin af skotverðlaunaákvæðum svartbakseyðingarlaganna. Rétt er og að benda á, að í 10. gr. þeirra er skýrt ákvæði um, að engir megi stunda þessar veiðar aðrir en ráðnir menn samkv. 3. gr. Það er því á valdi veiðistjóra hverju sinni, á hvern veg vinnslunni er hagað, og vitanlega svæfir hann eða hans menn fuglinn með lyfjum, ef það reynist hagkvæmt, og það ætti ekki að vera því opinbera ofviða að gjalda kaup miðað við hinn almenna vinnumarkað við að hálshöggva sofandi fuglinn. Tal sérfræðinga um, að hér sé um hættulegt ákvæði að ræða og ekki mundi veita af allt að 5 millj. kr. fjárveitingu í þessu skyni, ef eitthvað ætti að duga, er að mínum dómi algerlega út í hött. Hitt mun sanni nær, að smáfjárveiting, svo sem nú er gerð till. um á fjárl: frv. fyrir árið 1966, muni gera mikið gagn. Ég tel raunar, að það megi gera tiltölulega stórátak með því litla fjármagni, verði því skynsamlega varið, og það vil ég ætla, að verði gert.

Þar sem ég þekki bezt til, verpir svartbakurinn í tugþúsunda tali á tiltölulega litlu, flatlendu, afmörkuðu svæði. Ég leyfi mér að fullyrða, að væri einn maður ráðinn t.d. í vikutíma árlega til að eyða svartbaksungum á þessu svæði, mundi sem ekkert af ungum komast upp. Að halda því fram, að slík framkvæmd verði of dýr fyrir ríkið og hefði enga þýðingu upp á svartbaksstofninn, er náttúrlega fjarstæða, sem öllum er ósamboðið að halda á lofti. Það hefur ætíð verið talið til rányrkju, þegar ungviðin eru drepin, og þá sé hverri dýrategund hætta búin, og ég held, að það hljóti að vera eins með svartbaksstofninn, ef ungviðið er drepið, eigi stofninn eitthvað takmarkaða framtíð fyrir sér.

Ég geri ráð fyrir því, að svona hagi til í svartbaksvörpum víðar á landinu. Hins vegar hefur það ekki verið meiningin að mínu áliti, að veiðistjóri sendi út her manns með ærnum kostnaði, eins og sagt hefur verið af einum manni, sem vinnur með miklum áróðri í blöðum og útvarpi að því að fá svartbakseyðingarlögin numin úr gildi, enda gefur það auga leið, að veiðistjóri verður að sníða sér stakk eftir vexti í þessum efnum, því að það verður Alþ., sem ákveður það hverju sinni, hve miklu fé verður varið til þessarar nauðsynlegu starfsemi. Undanfarin nokkuð mörg ár hafa verið í lögum ákvæði, sem skyldað hafa svartbakseigendur til að taka svartbaksegg og granda svartbaksungum. Þeir, sem hér hafa átt hlut að máli, munu hafa gert þetta, eftir því sem í þeirra valdi hefur staðið. Verði nú brtt. okkar þremenninganna á þskj. 67 felldar og frv. um fuglaveiðar og fuglafriðun samþ., verða engin ákvæði í 1. um þetta efni. Ætla ég, að það geti orðið ærið áhrifaríkt til hins verra, og það mun skapa landsmönnum mikil vonbrigði.

Ég vil leyfa mér að fara nokkrum orðum um grein dr. Finns Guðmundssonar, sem birtist í Morgunblaðinu 11. þ.m. um eyðingu svartbaks. Doktorinn hefur, svo sem kunnugt er, lagt til í því frv., sem hér er til umr., að svartbakseyðingarlögin verði numin úr gildi. Nokkrum dögum eftir að frv. er lagt fram hér á Alþ., segir doktorinn í nefndri grein, með leyfi forseta:

„Á árunum 1942—1954 voru greidd verðlaun fyrir unna svartbaka, og námu þau fyrst 1 kr. og síðar 3 kr. fyrir hvern svartbak. Samkv. yfirliti um greiðslur, sem inntar voru af hendi í þessu skyni, voru að meðaltali drepnir rösklega 3000 svartbakar á ári á þessu tímabili. Það skal fúslega játað, að ég átti nokkurn þátt í setningu þeirra laga, þar sem gert var ráð fyrir þessum verðlaunaveitingum sem lið í baráttunni við svartbakinn.“

Ekki er þess getið, hve mikið hefur verið fellt á árunum 1954—1965, en ætla verður, að það hafi ekki verið minna. Líklegt má því telja, að þessir ca. 100 þús. fuglar, sem drepnir hafa verið á þessu tímabili, hefðu aukið talsvert kyn sitt, ef þeir hefðu fengið að lifa, og stofninn væri nú talsvert meiri, ef ekkert hefði verið að gert. Þá segir doktorinn enn fremur, með leyfi forseta:

„Að lokum skal hér vikið nokkru nánar að hinum nýju l. um eyðingu svartbaks og einstökum greinum þeirra. Þar er m.a. kveðið svo á, að veiðistjóri skuli undir yfirstjórn Búnaðarfélags Íslands hafa stjórn allra aðgerða við eyðingu svartbaks og skuli hann, svo sem kostur er, afla upplýsinga um svartbaksstofninn, leiðbeina mönnum um eyðingu hans, skipuleggja eyðingaraðgerðir, gera tilraunir með nýjar vinnsluaðferðir og vernda æðarfugl gegn ágangi svartbaks. Um þessi ákvæði l. er ekki nema gott að segja,“ segir doktorinn.

Um þessi ákvæði l. er ekki nema gott eitt að segja, og þetta eru meginatriði l., sem doktorinn er að ræða hér um, það eru meginatriði l. frá s.l. vori. Hin atriðin eru bara tiltölulega smávægileg atriði hjá þessu.

Þetta er það síðasta, sem ég hef séð á prenti frá dr. Finni, og ég vil aðeins segja það að lokum, að ég fagna honum sem samherja í þessu máli, og ég tel. að hv. alþm. ættu ekki að vera í vandræðum með að greiða brtt. okkar atkv. eftir þessa yfirlýsingu dr. Finns. Og ég get að síðustu sagt aðeins þetta: Ég er dr. Finni þakklátur fyrir þessa yfirlýsingu. Hún er mjög réttmæt, og ég vil segja það, að batnandi manni sé jafnan bezt að lifa.