18.11.1965
Neðri deild: 19. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í B-deild Alþingistíðinda. (602)

11. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Skýring hv. frsm. á 36. gr. fær ekki staðizt, vegna þess að samkv. fyrri málslið 36. gr. verður að sanna, að hamurinn sé fenginn á löglegan hátt. Ég skil ákvæðið svo. Sönnunarbyrðin hvílir á þeim, sem haminn hefur undir höndum, svo að einhliða umsögn hans dugir ekki, og það skilst mér, að sé alveg nóg vörn í þessu máli. En það er einnig annað ákvæði, sem ég vildi benda á og ég tel, að sé ákaflega utan við allan veruleika, jafnvel eftir að hv. n. hefur flutt brtt. við það, og það er 28. gr. Eins og hún er í frv. segir nú: „Mynda- og kvikmyndatökur af örnum, fálkum, snæuglum og haftyrðlum við hreiður þeirra skulu óheimilar nema með leyfi rn., að fenginni umsögn fuglafriðunarnefndar.“ Nú ætlast n. að vísu til þess, að þessu sé breytt, þannig að það sé óheimilt að trufla þessa fugla við hreiður þeirra. En því til viðbótar á það að haldast að efni til, að óheimilt sé að taka myndir nema með leyfi rn. að fenginni umsögn fuglafriðunarnefndar. Ég spyr nú: Hverjum dettur í hug í alvöru, ef maður kemur að hreiðri þessara fuglategunda, að hann skreppi til byggða og það verði skotið á ráðuneytisfundi og nefndarfundi til þess að skera úr um þetta vandamál? Þetta er of mikill stofulærdómur, til þess að hann fái staðizt.