15.03.1966
Efri deild: 50. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 790 í B-deild Alþingistíðinda. (617)

11. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. 23. gr. í frv. þessu, sem hér er til umr., hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Eftirtalin tæki eða útbúnað má eigi nota til fuglaveiða: Fleka (snörufleka), stingi eða króka, öngla, boga, gildrur, blys eða annan ljósaútbúnað, svo og allar aðrar fastar veiðivélar, þótt hér hafi ekki verið taldar.“

Í gildandi l. eru ákvæði þessi á sama hátt orðuð að öðru leyti en því, að aftan við gr. í áframhaldi af þeim er svo hljóðandi undantekningarheimild. sem breytir miklu um gr.:

,.Þó má með ákvæðum í fuglaveiðisamþykkt heimila að nota fleka (snörufleka) til fuglaveiða á takmörkuðum svæðum.“

Samkv. frv. á að fella þessa undantekningarheimild niður, eins og hv. frsm. n. gerði líka grein fyrir. Mér vitanlega hefur heimildin aðeins verið notuð á tveim takmörkuðum svæðum á seinustu árum: við Drangey í Skagafirði og við Grímsey nyrðra. Nú á að svipta þá, sem þessar veiðar hafa stundað, þessu bjargræði. ekki af því, að svartfuglastofninn þurfi að friða fyrir veiðum, síður en svo, því að hann er sagður óþarflega yfirgangsmikill á sumum svæðum, heldur af því, að flekaveiðar séu ómannúðlegar umfram aðrar veiðiaðferðir, sem leyfðar eru. Og rétt er það, að fyrrum voru flekaveiðarnar sóðalegar, þegar bandingjar voru látnir velkjast á flekunum langtímum saman,

stundum ekki vitjað um flekana nema eins og verkast vildi, og hafrót sleit þá oft og tíðum upp, svo að þá rak víða um sjó með bandingjana. En nú orðið gegnir öðru máli. Í fuglaveiðisamþykktunum fyrir þessi svæði hafa verið sett ströng ákvæði um flekaveiðarnar og eftirlit fyrirskipað. Seinustu árin hefur því ekki verið um svo ómannúðlegar flekaveiðar að ræða sem þær voru fyrrum. Raunar er hægt að segja, að allar veiðar séu ómannúðlegar. Öllu lífráni fylgir grimmd og ljótleiki. En náttúran er þannig upp byggð af höfundi sínum, að eins líf er annars dauði, og það verður ekki upphafið. Þetta frv. okkar hér viðurkennir líka lífránið. Þó mætti e.t.v. segja, að hægt væri að friða dýr gegn veiðum, sem menn gera sér eingöngu til skemmtunar, en það er alls ekki gert, og ég er ekki að halda því fram, að svo eigi að vera Hver veiðir t.d. lax á stöng eftir kúnstarinnar reglum nema sér til skemmtunar? Ég held, að það geri varla nokkur maður af bjargræðisástæðum. Ætli hér fyrirfinnist nokkur, sem vildi banna stangarveiðar? Aftur á móti á samkv. frv., sem við erum að ræða, að banna Grímseyingum og Skagfirðingum algerlega að veiða lengur svartfugl á fleka, þótt þeir geri það eingöngu af nytsemisþörf, m.ö.o. geri það sér til lífsbjargar og veiðiaðferðin sé alls ekki sumum öðrum veiðiaðferðum ómannúðlegri.

Grímseyingar skrifuðu okkur þm. sínum, þegar þeir urðu þess varir, að svipta átti þá réttinum til flekaveiða, og báðu okkur að gæta réttar síns og þarfa í þessum efnum. Skagfirðingar skrifuðu einnig sínum þm. vegna sinna hagsmuna sams konar beiðni. Ég vil nú kynna hv. Ed.- þm. meginkafla úr erindum Grímseyinga og Skagfirðinga og bið hæstv. forseta um leyfi til að mega lesa þessa kafla. Erindi Grímseyinganna er til mín sem 1. þm. Norðurl. e., og var ég beðinn að leggja það fyrir aðra þm. kjördæmisins og hef gert það. Það er ritað af Óla Bjarnasyni, útvegsbónda í Grímsey, og fylgir því yfirlýsing frá Magnúsi Símonarsyni hreppstjóra. Erindi Skagfirðinganna er frá sýslunefndinni þar. Grímseyingar segja:

„Þessar veiðar eru aðeins stundaðar við sérstök veiðiskilyrði og flekar ekki yfirgefnir, á. meðan þeir eru úti. Þannig verður biðtími fugla á flekum mjög stuttur og aldrei um það að ræða, að flekar glatist með veiði. Enn fremur mun það tæpast koma fyrir með þessari aðferð, að missist særðir fuglar. Hins vegar vita það allir, sem fást við fuglaveiðar með skotvopnum, að margir fuglar sleppa frá þeirri aðför meira eða minna særðir, stundum álíka margir eða jafnvel fleiri en þeir, sem falla í valinn. Frá sjónarmiði heilbrigðrar dómgreindar hlýtur því aðferð okkar Grímseyinga við þennan veiðiskap með snöruflekum að teljast síður en svo ómannúðlegri en ef skotvopnum væri beitt.

Þá er hin hlið málsins, sú er snýr að fjárhagslegri þýðingu þessara veiða. Það skal strax tekið fram, að þessar fuglaveiðar hafa ekki verið stundaðar hér á hverju ári, heldur einkum þegar illa árar með aðra tekjumöguleika. Eins og þm. mun flestum kunnugt, byggja Grímseyingar afkomu sína mest á fiskveiðum á smábátum.

Að vísu hafa flestar fjölskyldur einhvern stuðning af landbúnaði, en það er aðeins til heimilisnota. Stærð eyjarinnar og aðstaða leyfir ekki, að sú atvinnugrein sé aukin, svo að neinu nemi. Þegar því sjávarafli bregzt eða reynist rýr, er ekki í mörg horn að líta eftir bjargarleiðum, sem geti létt undir, þar til úr rætist. Það er undir þvílíkum kringumstæðum, sem við teljum þessar svartfuglaveiðar hafa verulega þýðingu fyrir hag okkar eyjarbúa, enda markaður nægur og góður fyrir þær afurðir. En vegna þess, hvað umræddar fuglaveiðar hafa verið stundaðar óreglulega af fyrrnefndum ástæðum, er ekki auðvelt að gefa nákvæma skýrslu um heildartekjur af þeim hér í Grímsey á tilteknu árabili. Einnig hefur verðmæti þeirra afurða verið breytilegt, farið hækkandi, eins og flestra annarra. Það yrði því nokkuð villandi, þótt nefndar væru tölur yfir þær t.d. s.l. 5 ár, hvað þá lengra aftur í tímann. Hins vegar ætti það að gefa nokkra hugmynd um tekjumöguleika þennan og þýðingu hans, ef annað bregzt, að það eru talin eðlileg afköst, að einn maður veiði þetta 100—200 fugla yfir daginn við góðar aðstæður. S.l. sumar seldist fuglinn á 20 kr. stk. Mun því sízt oftalið, þó að reiknað sé með því eftir núverandi verðlagi, að heildartekjur eyjarbúa af þessum veiðum gætu orðið á einu ári 150—200 þús. kr., ef nauðsyn krefði, að menn stunduðu þær almennt um tíma. Af þessum fáu orðum mætti mönnum verða ljóst. að afgreiðsla þessa máls getur haft talsverða þýðingu fyrir okkur Grímseyinga.

Mér og raunar víst fleirum hefur skilizt, að þm. kosti til þess allmiklum tíma og ærnum bollaleggingum að ráða fram úr því, hvað hægt sé að gera til stuðnings ýmsum þeim stöðum víðs vegar um landið, þar sem atvinnulíf er mjög einhæft og stopult. Og hvað sem segja má um góða viðleitni í þeim efnum og stundum nokkurn árangur, blasir við sú staðreynd, að víða heldur uppflosnunin áfram í hinum dreifðu byggðum, öllum til óheilla, ef ekki vandræða. Það væri því gróft spor í öfuga átt, ef í þessu tilfelli ætti að kippa í burtu einni þýðingarmikilli bakstoð í atvinnuöryggi smástaðar, ég vil segja í nafni misskilinnar mannúðarviðleitni.

Við viljum því eindregið fara fram á, að 23. gr. hins umrædda lagafrv. verði breytt, hvað snertir ákvæði um flekaveiði, þannig, að sú veiði verði leyfð áfram með því skilyrði, að flekar verði aldrei yfirgefnir, á meðan þeir eru notaðir sem veiðitæki. Með því móti yrði komið í veg fyrir misnotkun þessarar veiðimennsku. Einnig teldum við eftir atvikum ekki óeðlilegt né ósanngjarnt gagnvart neinum öðrum, ef betur þætti henta að hafa 23. gr. óbreytta. en aftan við hana kæmi viðauki, er fæli í sér staðbundna undanþágu Grímseyingum til handa til þessara veiða, gegn því skilyrði, sem ég áðan nefndi.

Grímseyingar geta ekki notfært sér nema að mjög takmörkuðu leyti ýmsa þá fyrirgreiðslu, sem hið opinbera lætur af hendi til stuðnings aukins landbúnaðar vegna lítils landrýmis og strjálla samgangna, og raunar ekki sjávarútvegs heldur, sökum lítilla hafnarskilyrða. Þess vegna munum við ekki fást til að trúa því, fyrr en þá á reynir, að þingfulltrúar sýni einhug sinn í því að svipta okkur á útkjálka þessum drjúgum tekjumöguleika, er við hingað til höfum notið stuðnings af, ef illa hefur árað, nema þá að tryggja okkur um leið annan bakhjarl til tekjuöflunar, er eigi væri lakari. En fari svo, gagnstætt vonum okkar, að þessi málaleitan hljóti engan hljómgrunn meðal þingfulltrúa, þá munum við ekki geta séð mikið samræmi milli orða og athafna í viðhorfi þeirra gagnvart málum dreifbýlisins, a.m.k. kæmi þá í ljós, að raunhæf umhyggja þeirra fyrir þeim málum næði ekki hingað norður undir heimskautsbaug“.

Þetta skrifar Óli Bjarnason. Og neðan við kemur yfirlýsing, svo hljóðandi:

„Ég undirritaður votta hér með, að framanskráð ummæli Óla Bjarnasonar um veiðiaðferð og verðmæti þeirra veiða, er þar um ræðir, svo og þýðingu þeirra fyrir Grímseyinga, er illa aflast til sjávarins, er í alla staði rétt, og vænti ég, að mál þetta fái þá afgreiðslu, sem þar er farið fram á.

Grímsey, 1. febrúar 1966.

Magnús Símonarson,

hreppstjóri, Grímsey.“

Eins og ég gat um áðan, skrifuðu Skagfirðingar líka þm. þess héraðs, eða Norðurl. v., og þeirra erindi er að aðalefni til samþykkt sýslufundar Skagafjarðarsýslu 15. febr. s.l., en þá halda þeir aukafund. Hér er eftirrit af 5. lið fundargerðar, það er frá atvinnumálanefnd:

„Fyrir Alþ. liggur frv. til l. um fuglaveiðar og fuglafriðun, sem ætlað er að komi í stað laga þeirra, sem nú gilda um þetta efni. Í frv. er m.a. gert ráð fyrir að banna án undantekningar að nota fleka (snörufleka) til fuglaveiða. Þessi breyt., ef að lögum yrði, mundi hafa í för með sér afnám þeirra ákvæða í samþykkt um fuglaveiði í Drangey, sem heimilar nú flekaveiði við eyna með takmörkuðum hætti. Af þessu banni mundi leiða, að loku mundi verða skotið fyrir allverulegan tekjustofn, sem héraðsmenn hafa að fornu og nýju haft af flekaveiði við Drangey. Verður eigi séð, að gild ástæða sé til að banna þessa veiðiaðferð af mannúðarsökum frekar en ýmsar aðrar, enda verður eftir atvikum ekki séð, að við Drangey verði við komið annarri veiðiaðferð hentugri, en vart getur ætlun löggjafans verið, að fuglaveiði við eyna leggist með öllu niður, og væri illa farið, ef svo yrði. Með skírskotun til framanritaðs skorar sýslunefnd Skagafjarðarsýslu á Alþ. að breyta 23. gr. téðs frv. á þá leið, að greinin verði algerlega samhljóða 21. gr. laga nr. 63 1954, um fuglaveiðar og fuglafriðun. Telur sýslunefndin þm. kjördæmisins skylt að vinna að framgangi þessa máls á Alþingi.“

Þetta var samþykkt með 9:1 atkv., og svo er staðfestur útdráttur þessarar fundargerðar. En með þessari áskorun senda þeir greinargerð frá manni þeim, sem hefur verið og er eftirlitsmaður Drangeyjar. Og ég ætla, með leyfi forseta, að leyfa mér að lesa upp þessa grg.:

„Fuglaveiðar hafa verið stundaðar við Drangey í nokkrar undanfarnar aldir. Eigi er vitað með vissu, hvenær þær hófust, en talið er, að menn frá Hólum í Hjaltadal hafi fyrstir farið að nota snörufleka og hafi þeir fengið hugmyndina þannig, að þeir sáu rekaviðartré alþakið fugli. Þeir, sem veiðarnar stunduðu, fóru til veiða fyrsta miðvikudag í sumri, eða næsta færan dag, ef veður hamlaði. Þá tóku menn sér byrgisstæði og byggðu byrgi, sem notuð voru, á meðan fuglaveiðin stóð yfir. En það mun hafa verið frá því um miðjan maímánuð til loka júli. Til veiðanna voru notaðir flekar úr þunnum fjölum, 2x3 fet að stærð hver fleki. Á hverjum fleka voru um 100 hrosshárssnörur. Þrír flekar voru bundnir saman, og var það kölluð niðurstaða. Flekunum var lagt við stjóra, sem á voru bundin kefli til að varna því, að flekarnir sykkju. Um niðurstöðurnar var vitjað tvisvar í sólarhring, eftir ákvörðun umsjónarmanns. Flekaveiðar voru lítið eða ekki stundaðar á árunum frá 1935—1951. Þá brá svo við, að varpið minnkaði stórlega. Úr eynni fengust oft um 12000 egg fyrir þann tíma, en árið 1951 fengust aðeins tæp 4000 þús., og var þó mjög hagstætt veður yfir sigtímann. Eftir að farið var að stunda flekaveiðar aftur, hefur varpið aukizt jafnt og þétt, og nú mun eggjatakan vera orðin svipuð og hún var áður.

Nú eru flekaveiðar stundaðar á stærri bátum en áður var. Veiðimenn halda til í bátunum og geta því dregið upp niðurstöður sínar á mjög skömmum tíma, ef veður spillist. Á fleka veiðist eingöngu geldfugl, og getur það átt sinn þátt í, að varpið minnkar með minnkandi fuglaveiði, því að geldfuglinn situr í bjarginu og veldur þar ónæði. Einnig er eyjarinnar gætt fyrir skotum þann tíma, sem fuglaveiði er stunduð, og mun það aðalorsökin. Kunnugir telja það útilokað, að um ofveiði muni geta orðið að ræða við Drangey, eins og nú er málum háttað, en telja flekaveiðar heppilega grisjun, sem ekki verður við komið með öðrum veiðiaðferðum. Ekki hefur tekizt að veiða svartfugl í háf í Drangey, þótt vanir menn hafi gert tilraunir til þess.

Eins og fyrr segir hafa fuglaveiðar verið bjargræðisvegur Skagfirðinga í aldaraðir, enda Drangey nefnd „vorbæran“ Skagfirðinga. Aldrei hefur atvinnuvegur þessi notið styrks frá opinberum aðilum, þrátt fyrir niðurgreiðslu á kjöti, og í mörg ár hefur svartfugl verið seldur á samkeppnisfæru verði við annað kjöt. Nú eiga allmargir menn góðan Drangeyjarútveg og báta, sem keyptir hafa verið til að nota þá til fuglaveiða. Menn þessir verða því fyrir tilfinnanlegu tjóni, ef veiðar þessar verða bannaðar fyrirvaralaust, því að reiknað hefur verið með, að veiðarnar yrðu leyfðar áfram, þar sem samþykkt var staðfest um þær 1962. Að áliti fiskifræðinga og sjómanna er svartfugl einn mesti skaðvaldur í fiskistofninum, og væri æskilegt að leita umsagnar fiskifræðinga um frv. Stuttu eftir aldamót var fuglaveiði yfir vorið um 70000 fuglar að meðaltali, eftir því sem skýrslur frá þeim tíma herma. Þá stunduðu um 60 bátar veiðar við Drangey. Það virðist harla undarleg afstaða til atvinnuveganna að ætla fyrirvaralaust að banna aldagamlan atvinnuveg á þeim forsendum, að hann sé ómannúðlegur, á sama tíma og Alþ. sér sér ekki fært að banna fuglaskytterí yfir messutíma á sunnudögum. Munu þó fuglaveiðar með skotum vafalaust ómannúðlegri en flekaveiðar.

Í fuglaveiðasamþykkt Skagafjarðarsýslu fyrir Drangey eru strangar reglur um veiðarnar. Til veiðanna þarf sérstakt leyfi. Einnig skal vitja um niðurstöður á ákveðnum tíma. Óheimilt er að veiða á helgidögum. Enn fremur skal draga upp niðurstöður, ef útlit er fyrir slæmt veður. Þess má einnig geta, að kosnir eru eftirlitsmenn Drangeyjar af sýslunefnd og bæjarstjórn Sauðárkróks, sem m.a. eiga að sjá um, að samþykkt þessi sé ekki brotin.

Á það má benda, að nú eru uppi háværar raddir um að heimila minkaeldi hér á landi og væri fróðlegt að bera saman þær veiðiaðferðir, sem beitt er gegn villiminknum, og flekaveiðarnar. Dýrabogar, stingir, hundar og gildrur með lifandi fiski, enn fremur benzín og ýmislegt fleira, er notað við minkaveiðar. Enginn heyrist tala um, að slíkt sé ómannúðlegt.

Fiskveiðar, sem eru aðalatvinnuvegur þjóðarinnar, eru mjög hliðstæðar flekaveiðum, hvað mannúðinni víðvíkur, en ef það er borið saman, er svarið: Fiskurinn er með köldu blóði. Loks skal á það bent, að í alþjóðasamþykkt um fuglafriðun segir svo í 6. gr.:

„Með því að sérstakir atvinnuhagsmunir eru í húfi í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Færeyjum, mega rétt stjórnarvöld í löndum þessum gera undanþágu og leyfa sérstök frávik frá ákvæðum þessarar samþykktar. Ef Ísland skyldi gerast aðill að samþykktinni, mundu hinar sömu undanþágur og frávik verða leyfð þar, skyldi þess verða æskt.“

Staddur á Sauðárkróki, 15. febr. 1966.

Jón Eiríksson, eftirlitsmaður Drangeyjar.“

Það liggur ljóst fyrir af þessum erindum frá Grímseyingum og Skagfirðingum, að þeir telja sér mikilsvert að mega nota snörufleka sem veiðitæki. Grímseyingarnir taka fram, að þeir noti þessar veiðar einkum til vara, þegar fiskveiðar, sem eru aðalatvinnuvegur þar, bregðast, eins og alltaf vill brenna við öðru hverju, því að svipull er sjávarafli. Þetta er þá til lífsbjargar hjá þeim, fuglinn er þá bæði söluvara og matbjörg í bú hjá þeim. Tölur þær, sem nefndar eru í erindi Grímseyinganna um tekjur af flekaveiðum, eru að vísu ekki stór hluti af tekjum þjóðarinnar, en þó allmikils virði fyrir fámennið í Grímsey, þegar annað bregzt. Fyrir Grímseyinga er ekki auðvelt að svifa sér til eftir atvinnu. Það gerir einangrunin, eins og öllum má ljóst vera. Skagfirðingar telja flekaveiðarnar hafa verulega þýðingu hjá sér, og eiga þeir þó að vísu fleiri kosta völ en Grímseyingarnir.

Í athugasemdum þeim, sem fylgja frv. frá þeim, er sömdu það, er svo að heyra, að flekaveiðar samrýmist ekki alþjóðasamþykkt um verndun fugla, en að þeirri samþykkt gerðust Íslendingar aðilar 1956. Þetta er ekki rétt hermt hjá frv.-höfundunum. Ég hef lesið samþykktina, eins og hún er í íslenzka lagasafninu. Þar er einmitt talað um undanþágur fyrir tilgreind lönd, eins og eftirlitsmaður flekaveiðanna í Skagafirði skýrði frá og tók upp orðrétt, og má Ísland vera í þeim hópi. Enn fremur er talað um, að í löndum, þar sem veiðar, svo sem snörur, net, eitrað eða deyfandi agn, séu heimilar aðferðir skv. lögum, skuli smátt og smátt tekin í lög ákvæði, sem banni þær eða setji notkun þeirra takmörk. Ég bið hv. þm. að taka eftir orðunum „eða setji notkun þeirra takmörk“. Flekaveiðum voru sett takmörk 1954 í l. um fuglaveiðar og fuglafriðun, sem nú gilda. Gildandi lög eru því ekki að þessu leyti í ósamræmi við alþjóðasamþykktina. Eigi nú að afnema algerlega flekaveiðarnar, er þar af leiðandi lengra gengið en alþjóðasamþykktin gerir kröfu til. Af því að svona standa sakir, hef ég ásamt hv. 3. þm. Norðurl. v. leyft mér að flytja till. til breyt. við frv. Er í till. gert ráð fyrir heimild, mjög takmarkaðri heimild til flekaveiða. Þetta er viðbót við 23. gr. og hljóðar á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Þó má með ákvæðum í fuglaveiðasamþykkt heimila að nota fleka (snörufleka) til fuglaveiða á takmörkuðum svæðum, þar sem það telst mikilvægt til bjargræðis, enda sé það skilyrði sett m.a., að veiðimennirnir liggi yfir flekunum til þess að aflífa fuglinn og tryggja, að flekarnir verði ekki reköld.“

Till. er, eins og menn sjá og heyra, um áframhald á heimild til flekaveiða á takmörkuðum svæðum með sérstöku leyfi, þar sem veiðarnar metast mikilsverðar til bjargræðis, og ákvæði sett um, að flekarnir verði ekki yfirgefnir. Er því með till., ef hún yrði samþ., hert á núgildandi veiðireglum, þó að þær séu ekki afnumdar. Þessum reglum telja Grímseyingar sig geta fylgt, enda aðstaða þar mjög góð til þess vegna nálægðar veiðisvæðisins meðfram fjörunum í Grímsey. Og Skagfirðingar telja sig geta þetta líka, ef krafizt verður. Verður auðvitað eftir setningu slíkra ákvæða sem í till. felast enn fráleitara að tala um, að brotin sé alþjóðasamþykkt um fuglafriðun og fuglaveiðar með slíkri heimild.

Þegar litið er raunhæft á veiðiaðferðina, eftir að henni hafa verið sett umrædd takmörk, er hún síður en svo ómannúðlegri en margar aðrar aðferðir, sem frv. heimilar. Þegar skotið er með höglum í fuglahóp, er stofnað til óútreiknanlegrar særingar og örkumla, en það heimilar frv. Frv. heimilar í 22. gr. að veiða lunda í net, sem ekki þarf að vitja um oftar en tvisvar á dag, en það þýðir tvisvar á sólarhring í langdeginu, því að það er aðeins um þetta að ræða í langdeginu. Frv. heimilar í 25. gr. einnig að eitra fyrir fugla. Fari maður út fyrir þetta frv. og minnist dýrabogans, sem leyft er að nota, tekur enn verra við. Kópar eru veiddir í net í látrum á vorin. Hafið þið séð kópana „með barnsaugun djúpu og hreinu“, svo að ég noti orð skáldsins, berjast um, flækta í netunum og reyna að verjast köfnun?

Ég þykist ekki vera kaldlyndari en gerist og gengur gagnvart dýrum. En mér virðist ekki vera samræmi í því að taka af Grímseyingum rétt til að veiða svartfugl á flekum eftir ströngum reglum, meðan hverjum sem vill er heimilt að skjóta í fuglahópa með höglum, varpeigendum er leyft að leggja net yfir lundaholur, og heimilt er að eitra fyrir vissar fuglategundir o.s.frv. Ef Skagfirðingar treysta sér til að fylgja jafnströngum reglum og Grímseyingar, verða þeir að mega halda áfram flekaveiðum líka. Hins vegar standa Grímseyingarnir, eins og ég sagði áðan, mjög vel að vígi og betur að vígi en Skagfirðingar til að fylgja ströngum reglum.

Um þörf Grímseyinga vil ég sérstaklega segja þetta að lokum: Þeir sitja hina sögufrægu eyju og eru einangraðasta byggðarlag á Íslandi. Atvinnuvegir þeirra eru mjög einhæfir, aðallega fiskveiðar. Þegar fiskgengd er góð, hafa þeir nóg við að vera. Bregðist fiskaflinn, eru þeir illa settir, því að þeir eiga ekki í annað hús að venda eftir atvinnu. Í Grímsey mun mannfjöldi búsettra um 80. Þar voru við síðasta manntal tæplega 30 karlmenn á aldrinum 16—67 ára. Þessi fámenni hópur vinnandi karlmanna má illa við því að tvístrast til lands í atvinnuleit, þegar fiskveiðar bregðast. Og mikilsvert er fyrir Grímseyinga að geta þá gripið í að veiða svartfugl með ódýrri aðferð, eins og flekaveiðarnar eru.

Í bréfi Grímseyinganna segir, að talin séu eðlileg afköst, að maðurinn veiði 100—200 fugla á dag. Síðasta sumar, segir þar, seldist fuglinn á 20 kr. stk. Þarna getur því verið um 2—4 þús. kr. brúttótekjur að ræða fyrir mann á dag. Það er ekki lítil búbót og ekki alls staðar hægt að grípa slíkt upp. Það er þess vegna ekki lítið af mönnunum tekið, ef á að banna þeim að veiða á þennan hátt. Það er að mínu áliti mjög ósanngjarnt að svipta þá rétti til að bjarga sér með þessum hætti, eða vili Alþ. stuðla að því, að Grímsey fari í eyði? Það held ég alls ekki. En ef svo er ekki, má Alþ. ekki meina íbúum hennar að nota þær matarholur, sem þar eru og notaðar hafa verið og átt hafa mikinn þátt í að gera eyna byggilega til þessa dags. Það væri sannarlega öfugsnúið að tala um, að styðja þurfi dreifbýlisstaði, en taka um leið af þeim bjargræði, sem þeir hafa haft. Hér er þá ekki heldur um að ræða ómannúðlegri veiðiaðferð, eins og reglurnar hljóða, en aðferðir, sem þótt hefur rétt að leyfa á öðrum stöðum.

Ég leyfi mér að vænta þess, að hv. þm., sem telja t.d. rétt að leyfa að skjóta í fuglahópa og þreyta lax á stöng, fallist á tillögur okkar þm. norðurhjarans um að banna ekki flekaveiðar, en herða á mannúðlegri aðgát við þær, banna þær ekki, af því að þær eru bjargræðisvegur fólks, þar sem fárra kosta er völ, og þurfa alls ekki að vera ómannúðlegri í framkvæmd en ýmsar aðrar veiðar.