15.03.1966
Efri deild: 50. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 798 í B-deild Alþingistíðinda. (619)

11. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég rökstuddi mál mitt fyrst og fremst með erindum þeim, sem borizt hafa hingað til Alþ. frá Grímseyingum og Skagfirðingum, þar sem þeir gera grein fyrir, hvernig veiðum háttar og hvaða þýðingu þær hafa fyrir byggðir þeirra. Hv. 8. landsk. þm. virtist ekki vilja taka mark á því, sem þessir menn segja í erindum sínum, og lét í það skína, að hann væri kunnugri málefnum. Ég skal játa, að veiðarnar eru ekkert sérstaklega geðfelldar, en svo er um margar veiðar, sem leyfðar eru. Ég t.d. hef oftar en einu sinni, jú, oft og mörgum sinnum, séð særðar rjúpur berjast um í snjó og frosti, lamaðar eftir skot og blóðugar. Það er ljót sjón. Mér datt í hug, þegar hv. 8. landsk. var að tala, hvort hann, sem sjálfsagt hefur séð svona rjúpur eins og ég í héraði okkar heima, mundi telja sig geta afsakað það gagnvart slíkum rjúpum, að leyft er að leika þær þannig, — afsakað það með því, að afnumdar hefðu verið flekaveiðar svartfugls við Grímsey og Drangey. Hann sagði frá því, að fundizt hefði ekki fyrir löngu, — hann nefndi ekki hvenær, en ekki fyrir löngu, fleki eða uppistaða á reki utarlega í Eyjafirði, og það hefði verið ljót sjón að sjá hann. Það geta náttúrlega alltaf viljað til slys við veiðar og þessar veiðar líka, og ég kalla það slys, eins og nú er komið, ef það hefur verið eftir að samþykktirnar voru samdar, að þetta hefur átt sér stað. Ég minnist þess frá fyrri dögum, að oftar en einu sinni rak á fjörur heima hjá mér á Tjörnesi uppistöður og á þeim voru fuglaræflar, og ég velt, að það er ljót sjón að sjá fuglaræflana, ekki sízt af því að vargurinn sezt að þeim á flekunum og tætir hræin. Þá þótti engin furða, þótt fleka slíka ræki. Nú þykir svo merkilegt að finna fleka á reki, að uppistaðan er flutt til Reykjavíkur. Sýnir þetta, hve slysin eru fágætari nú en áður með flekana.

En eitt þótti mér þó eiginlega harðast hjá 8. landsk, þm., er hann segir, að tekjurnar fyrir Grímseyinga séu mjög óverulegar af flekaveiðunum, óverulegar! Ég held, að með því að meta þær þannig hljóti hann að bera heildartekjurnar saman við þjóðartekjurnar, en gæti þess ekki, að það eru aðeins 80 manns í Grímsey, og gætir þess ekki heldur og hrekur það alls ekki, sem Grímseyingar segja, að það sé ekkert fjarstæðuleg veiði, megi teljast eðlileg veiði, að maður veiði 100—200 fugla á dag, og fuglinn var s.l. ár, hvert stykki, seldur á 20 kr. Að segja manni, að það sé óverulegt fyrir hann að hafa upp 2000—4000 kr. með litlum veiðarfæratilkostnaði á einum degi, stenzt ekki með nokkru móti.

Ef þessi aflabrögð væru ekki t.d. Grímseyingum mikils virði til öryggis, þegar illa gengur að öðru leyti, sérstaklega, mundi ég vera með að banna þessar veiðar. Ég mundi vera með því að banna þær, ef þær væru bara hégómamál. En það er ekki neinn grundvöllur fyrir að segja hér, að veiðar, sem gefin hefur verið skýrsla um, eins og ég las hér, séu óverulegur bakhjallur fyrir fámennið í Grímsey.