02.12.1965
Sameinað þing: 15. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í B-deild Alþingistíðinda. (63)

1. mál, fjárlög 1966

Frsm. 1. minni hl. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég skal ekki fara að þreyta hér kappræður. Það voru nokkur atriði, sem fram komu í ræðu síðasta ræðumanns, hv. 11. landsk., sem ég vildi vekja athygli á.

Það var að nokkru leyti ríkisstj. að þakka að hans dómi, hve vel hafði fiskazt, og hann var undrandi yfir því, að við skyldum hafa haldið uppi nokkurri uppbyggingu, á sama tíma sem ég sýndi hér fram á í dag að aðalframleiðsluvaran hefur aukizt um 92%. En ríkisstj. átti þátt í því. Það var ekki hægt að kenna ríkisstj. það, þó að útgerðarkostnaðurinn hefði aukizt meira en fiskverðið. Því gat ríkisstj. ekki haft vald á.

Hv. þm. þarf ekki að halda, að ég sé neitt sár undan því, þó að hann hagi svo máli sínu, að það sé ekki á þann veg, sem á að gera hér í þingsölum. Það er hans mál, en ekki mitt, og læt ég honum það eftir.