15.03.1966
Efri deild: 50. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í B-deild Alþingistíðinda. (636)

145. mál, Lánasjóður sveitarfélaga

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég bað um orðið til að lýsa ánægju minni yfir því, að fram er komið frá hæstv. ríkisstj. frv. um lánasjóð sveitarfélaga. Eins og hæstv. fjmrh. gat um, lá fyrir siðasta Alþ. frv. um sama efni, en allt í einu var hætt að setja það á dagskrá, og fannst ýmsum það furðulegt, vegna þess að ekki var annað vitað en það nyti almenns fylgis á þinginu. Nú hefur hæstv. fjmrh. gert grein fyrir því, hvers vegna frv. var ekki afgreitt á síðasta þingi í því formi, sem það þá lá fyrir, en aðalástæðan var sú, að hæstv. ríkisstj. treysti sér ekki til þess að láta ríkið vera þann aðila að lánasjóði sveitarfélaga, sem frv. gerði ráð fyrir, og hafa það fé fram að leggja af ríkisins hálfu, sem þar var ætlazt til. Og þetta frv., sem hér liggur fyrir, er byggt upp á þá leið, að aðild ríkisins verður nú minni en áður var hugsað, og þetta tel ég töluvert mikinn galla og frv. þetta þess vegna ekki eins æskilegt frá sveitarfélaganna sjónarmiði skoðað og hið fyrra var.

Eins og hæstv. ráðh. gerði grein fyrir, er ein aðalbreytingin frá fyrra frv. sú, að þar var gert ráð fyrir því, að ríkissjóður legði fram 15 millj. árlega til sjóðsins, eða jafnmikið og ætlazt var til að sveitarfélögin legðu fram gegnum jöfnunarsjóð sinn til sjóðsins á ári hverju. Eftir þessu frv. er gert ráð fyrir sama framlagi af hálfu jöfnunarsjóðs, en að framlag ríkissjóðs skuli ákveðið með fjárlögum ár hvert. Þess vegna á sjóðurinn framlagið undir því komið, hvernig ræðst á Alþ. hverju sinni. Og í samræmi við þetta voru svo tvær breyt., sem eru báðar í þá átt að draga úr aðild ríkisins að sjóðnum. Önnur er sú, að ríkið er ekki lengur eigandi sjóðsins eftir frv. með sveitarfélögunum, hann á nú að verða eign þeirra einna, og í öðru lagi það, að stjórn sjóðsins á að vera þannig skipuð, að fulltrúaráð sveitarfélaganna kjósi 4 af 5 í stjórnina og 1 sé ríkisskipaður, sem sé formaður stjórnarinnar. Samkv. fyrra frv. var það þannig hugsað, að Alþ. kysi 3 menn í stjórnina, sveitarfélögin 3 og ríkisstjórnin skipaði 1. Á þennan hátt verður sjóðurinn minna tengdur ríkinu og Alþ. en áður var hugsað, og ég álit þetta veikja nokkuð aðstöðu þá, sem sköpuð er með sjóðmynduninni. Aðild ríkisins verður óbeinni. Vafalaust er þetta hugsað sem ráðdeild vegna ríkisins, og það má kannske teljast ráðdeild fyrir þess hönd, en að sama skapi er minna hugsað og verr fyrir hlut sveitarfélaganna. Og ég tel, að málið sé þannig vaxið, þýðing sveitarfélaganna svo mikil fyrir þjóðfélagsheildina, að rétt sé að ætla þjóðfélagsheildinni jafnan að ganga til átaks með sveitarfélögunum þar, sem því verður við komið.

En þrátt fyrir þetta, þótt frv. sé ekki það sama og það var í fyrra, lýsi ég yfir stuðningi við frv. og hugsa mér ekki að tefja það með neinum brtt. um þessi efni, enda hefur, eins og hæstv. ráðh. gat um, orðið samkomulag um frv. við stjórn sveitarfélaganna, og síðasti fulltrúaráðsfundur sveitarfélagasambandsins, sem haldinn var fyrir stuttu, samþ. fyrir sitt leyti að mæla með þessu frv., af því að þrátt fyrir þessar breytingar taldi fulltrúaráðið frv. fela í sér mikilsvert skref í rétta átt, sem fráleitt væri að hafna. Auðvitað gefst svo síðar meir tækifæri til þess að stíga lengra, og spá mín er, að það verði fljótlega gert, því að svo þýðingarmikið hlutverk hafa sveitarfélögin fyrir þjóðina. Framsfl. vill styðja framgang þessa máls.