22.03.1966
Efri deild: 54. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 809 í B-deild Alþingistíðinda. (640)

145. mál, Lánasjóður sveitarfélaga

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Það er nú ef til vill ekki mikil ástæða til að svara síðasta ræðumanni, sem gerði hér grein fyrir þeirri brtt., sem hann flytur við frv. Ég vil að mestu vísa til þess, sem fram kom hjá hæstv. fjmrh. við 1. umr. málsins. Mér heyrðist síðasti hv. ræðumaður tala eins og lánasjóðurinn mundi ekki hafa neitt fé til ráðstöfunar annað en þessar 15 millj., sem skv. 5. gr. frv. renna til hans úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga. En það er að sjálfsögðu gert ráð fyrir því, að sjóðurinn hafi miklu meira fé til ráðstöfunar en þessar einu 15 millj., og má þá benda á aðra stafliði í 5. gr. frv.

Mér fannst það heldur fáránleg hugmynd hjá hv. þm., þegar hann talaði um, að með því að verja 15 millj. kr. úr jöfnunarsjóði í lánasjóðinn væri verið að níðast á sveitarfélögunum, og sagðist þó eftir atvikum geta sætt sig við það, ef framlag kæmi á móti af hálfu ríkisins. Ég vil þá benda á, að það framlag, sem fer í lánasjóðinn úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga, er tekið af hinu stóra framlagi ríkisins til allra sveitarfélaganna í heild. Þetta fé kemur að sjálfsögðu í þarfir sveitarfélaganna, eftir því sem aðstæður á hverjum tíma kalla á í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Það er sem sé gert ráð fyrir því í 5. gr. frv., að einnig komi árlegt lán úr Framkvæmdasjóði Íslands og aðrar lántökur, og það verður að sjálfsögðu eitt meginverkefni sjóðsins að hafa milligöngu um lánsútveganir fyrir sveitarfélögin, eins og fram kom við 1. umr. málsins.

Þá er einnig gert ráð fyrir, að árlegt framlag komi úr ríkissjóði, en að vísu ekki tiltekin fjárhæð, heldur verði það skv. ákvörðun fjárlaga hverju sinni.

Ég held, að ég sjái ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um málið, og með tilliti til þess ekki sízt að þetta frv., eins og það liggur nú fyrir, er samið og flutt í samráði við stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga og sambandið eftir atvikum getur fellt sig við frv. eins og það nú liggur fyrir, þá mun ég greiða atkv. gegn brtt. hv. þm.