28.03.1966
Neðri deild: 60. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 810 í B-deild Alþingistíðinda. (645)

145. mál, Lánasjóður sveitarfélaga

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Seint á síðasta þingi var lagt fram af þáv. hæstv. fjmrh. frv. um lánasjóð sveitarfélaga. Frv. þetta hafði verið undirbúið af sérstakri mþn., og var það efnislega á þá leið, að settur skyldi á laggirnar sérstakur lánasjóður sveitarfélaga, sem í höfuðatriðum væri þannig uppbyggður fjárhagslega, að úr jöfnunarsjóði yrðu lagðar 15 millj. kr. af óskiptu því fé, sem renna á til sveitarfélaganna, og síðan skyldi koma jafnhá fjárhæð frá ríkissjóði á móti. Þetta frv. varð ekki afgreitt á síðasta þingi, og er það ekkert launungarmál út af fyrir sig, að meginástæðan til þess var sú, að svo sem ástatt var fjárhag ríkissjóðs, var augljóst, að ekki var auðið að taka á ríkissjóð umrætt 15 millj. kr. framlag, nema því aðeins að nýjar tekjur kæmu á móti. Það var að vísu ekki gert ráð fyrir, að þetta framlag kæmi til greiðslu fyrr en á árinu 1966, en svo sem öllum hv. þdm. er kunnugt, var þannig ástatt í sambandi við afgreiðslu fjárl. fyrir það ár í haust, að gera varð margvíslegar ráðstafanir til þess að afla tekna, svo að auðið væri að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög, og hefði reynzt óumflýjanlegt að gera nýjar tekjuöflunarráðstafanir, ef hefði átt að samþykkja þá fjárhæð, sem hér um ræðir, til lánasjóðs sveitarfélaga.

Með hliðsjón af þessu hóf fjmrn. umr. við stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga um það. hvort ekki væri hægt að fá samkomulag um að leggja þó frv. fram í einhverju því formi sem stjórn sambandsins teldi viðhlítandi, og niðurstöðuna af þeim umr. er að finna í því frv., sem hér liggur fyrir. Á því frv. er sú meginbreyting gerð varðandi ráðstöfunarfé lánasjóðsins, að ekki er ákveðið neitt fast framlag úr ríkissjóði, heldur verði það framlag ákveðið hverju sinni í fjárl. Jafnframt er tekið inn í greinina varðandi ráðstöfunarfé lánasjóðsins nýtt ákvæði, sem er árlegt lán úr Framkvæmdasjóði Íslands, en þetta byggist á því, svo sem hv. þdm. öllum er kunnugt, að í sambandi við endurskipulagningu lánasjóðakerfisins og niðurlagningu Framkvæmdabankans verður það óumflýjanlegt, að þeir aðilar, sem gert er ráð fyrir að njóti aðstoðar hjá væntanlegum framkvæmdasjóði, en áður fengu að einhverju leyti lánveitingar úr Framkvæmdabankanum, hafi sem millilíð ákveðinn stofnsjóð, sem geti tekið þessi lán. Framkvæmdabankinn hefur í ýmsum tilfellum lánað sveitarfélögunum fé, og það má gera ráð fyrir því, að þörfin á því verði vaxandi, og er þegar af þessari ástæðu nauðsynlegt, að til sé sérstakur lánasjóður sveitarfélaganna, er haft geti milligöngu um þessi lán. Jafnframt hafa farið fram allverulegar athuganir á því og er mikill áhugi hjá forráðamönnum sveitarfélaga á því, að gerðar verði framkvæmdaáætlnir fyrir sveitarfélögin á svipaðan hátt og gert er nú fyrir framkvæmdir ríkisins, og miðað við, að svo verði gert, sem ég tel að væri til mikilla bóta, bæði fyrir sveitarfélögin og fjárhagskerfi landsins í heild, verður vaxandi nauðsyn á, að einhver ákveðinn aðili annist milligöngu um lántökur til þessara framkvæmdaáætlana. Það er enda einnig augljóst, að hvað sem líður framlagi ríkisins, er lánasjóður þessi mjög mikilvægt tæki til þess að aðstoða einstök sveitarfélög, bæði við öflun stofnlána og jafnframt til þess í vissum tilfellum, eins og gert er ráð fyrir, að greiða fyrir samningum um lausaskuldir þeirra og leggja drög að því að styrkja þau veitarfélög sérstaklega með ábyrgð sjóðsins, sem vegna afkomu sinnar eru þess ekki umkomin að fá lán sem sjálfstæðir lántökuaðilar, nema þá með millitryggingu, sem sjóðurinn mundi vita.

Ég geri ráð fyrir því, að talsmenn veitarfélaganna hefðu að sjálfsögðu óskað eftir því fremur, að þetta framlag úr ríkissjóði hefði verið til staðar, og vafalaust má finna mistök fyrir því. En þó tel ég ekki, að það sé neitt sjálfsagt við það, að ríkissjóður leggi á móti því framlagi, sem hér er um að ræða, sem er til komið með þeim hætti, að þar er um að ræða fjárhæð, sem ríkissjóður leggur sveita félögunum til af árlegum tekjustofnum sínum. Varð enda niðurstaðan sú, að eftir atvikum féllst stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga á það með hliðsjón af nauðsyn þess að fá þetta kerfi nú þegar byggt upp, að frv. yrði flutt í því formi, sem það nú liggur hér fyrir. Með hliðsjón af því, að ekki er gert ráð fyrir lögbundnu framlagi ríkissjóðs, heldur eftir mati Alþ. hverju sinni, þykir sanngjarnt að fallast á þá tilhögun, sem sveitarfélögin hafa einnig óskað eftir, að breytt yrði yfirstjórn sjóðsins, þannig að honum verður stjórnað af stjórn, sem að 4/5 hlutum er tilnefnd af fulltrúaráði Sambands ísl. sveitarfélaga, og því jafnframt slegið föstu, að sjóðurinn sé sameign allra sveitarfélaganna á landinu, en ekki sameign ríkis og sveitarfélaga, eins og var í upphaflega frv., og gildir það að sjálfsögðu, enda þótt til komi framlög þau, sem Alþ. kann að meta hverju sinni fært að leggja til sjóðsins. Það er því aðeins gert áð fyrir því, að af ríkisstj. hálfu sé tilnefndur inn maður í sjóðsstjórnina, en þó jafnframt, að hann verði formaður stjórnarinnar.

Enda þótt, eins og ég áðan sagði, frv. þetta leiði af sér það, að nokkru minna fé er til ráðstöfunar af eigin fé heldur en gert var ráð fyrir í upphaflega frv., er þó, miðað við þær heimildir, sem þarna eru um lántökur, bæði h á Framkvæmdasjóðnum og almennar lántökur, opnuð leið til þess, að sjóðurinn geti orði sveitarfélögunum til mikilla hagsbóta. Jafnramt er gert ráð fyrir því, sem er nýtt í þessu seinna frv., að sjóðurinn hafi heimild til þess að taka til vörzlu ýmsa þá sérsjóði, sem sveitarfélögin kunna að hafa yfir að ráða, sem getur á einnig aukið ráðstöfunarfé sjóðsins hverju sinni.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, nema tilefni gefist til, að ræða málið nánar, en legg aðeins áherzlu á það, sem ég áðan sagði, að um það er samkomulag við stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, eins og það hér liggur fyrir. Vil ég leggja til, að frv. verði að þessari umr. lokinni afgr. til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.