12.04.1966
Neðri deild: 68. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í B-deild Alþingistíðinda. (647)

145. mál, Lánasjóður sveitarfélaga

Frsm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er komið frá Ed. og var afgreitt til þessarar hv. d. óbreytt frá því, sem það var lagt fram.

Lánasjóður eða lánastofnun fyrir sveitarfélögin er gamalt mál. sem lengi hefur verið rætt, bæði á fundum fulltrúaráða sveitarfélaganna og einnig á landsþingum þeirra. Ég hygg, að öllum, sem við sveitarstjórnarmál fást, hafi verið og sé ljóst, að lánamöguleikar sveitarfélaganna eru mjög takmarkaðir. Tekjustofnar þeirra eru taldir það óvissir, að lánsstofnanir hafa ekki treyst sér yfirleitt til þess að lána til þeirra neitt sem heitir, hvorki rekstrarfé né stofnlán. Það skal viðurkennt, að með lögum um jöfnunarsjóð batnaði hagur sveitarfélaganna mjög að þessu leyti, bæði við það, að þau með jöfnunarsjóðnum fengu ákveðinn og öruggan tekjustofn, sem þau gátu útvegað sér lán út á, ef þannig stóð á, að þau þurftu á því fé að halda fyrr en það féll til útborgunar úr ríkissjóði.

Frv. sama efnis og hér liggur fyrir var lagt fyrir síðasta Alþ., en varð þá ekki útrætt. Í því frv., sem nú liggur fyrir til umr., eru tvær meginbreytingar, miðað víð frv., sem lagt var fyrir síðasta Alþ. Það er í fyrsta lagi, að í frv., sem lagt var fyrir Alþ. síðast, var gert ráð fyrir ákveðinni fjárveitingu úr ríkissjóði að upphæð 15 millj. kr. á móti framlagi sveitarfélaganna úr jöfnunarsjóði, sem einnig voru 15 millj. Í þessu frv. er gert ráð fyrir samkv. 1. gr. þess, að árlegt framlag úr ríkissjóði skuli vera samkv. ákvörðun fjárl. hverju sinni. Auk þess er í 5. gr. frv. nú gert ráð fyrir árlegu láni úr Framkvæmdasjóði Íslands og einnig gert ráð fyrir öðrum lántökum, eftir því sem stjórn sjóðsins telur eðlilegt og nauðsynlegt. Í öðru lagi er sú breyting á frv. frá því í fyrra, að nú er gert ráð fyrir, að stjórn lánasjóðsins skuli aðeins skipuð 5 mönnum og skuli 4 þeirra tilnefndir af fulltrúaráði sveitarfélaganna, en einn þeirra, sem jafnframt verði formaður, skuli skipaður af ráðh. Áður hafði verið gert ráð fyrir, að um 7 manna stjórn væri að ræða, og skyldu þá þrír skipaðir af sameinuðu Alþ., þrír af fulltrúaráði sveitarfélaganna, en einnig var gert ráð fyrir, að formaður yrði skipaður af ráðh. Þessi breyting á stjórn sjóðsins er eðlileg, þar sem segja má, að lánasjóður sveitarfélaganna verði nú þeirra eign eingöngu, en áður var gert ráð fyrir, að hann yrði byggður upp sameiginlega af ríkissjóði með ákveðnu framlagi og einnig af framlagi úr jöfnunarsjóði, sem þá yrði tekið af framlagi sveitarfélaganna.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta frv., en vil geta þess, að það lá fyrir til umr. á síðasta fulltrúaráðsfundi sveitarfélaganna, sem haldinn var nú fyrir skömmu, og var ýtarlega rætt þar og ekki gerðar till. um neinar breytingar á því, og liggur fyrir áskorun frá fulltrúaráði sveitarfélaganna um, að það verði afgreitt nú og gert að lögum á þessu þingi.

Heilbr: og félmn., sem fékk þetta frv. til meðferðar, leggur til, að það verði samþ., en þrír nm. hafa þó áskilið sér rétt til þess að flytja eða fylgja breytingartillögum, sem fram kunna að koma.