31.03.1966
Efri deild: 58. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í B-deild Alþingistíðinda. (655)

8. mál, Stýrimannaskólinn í Reykjavík

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér er til umr., er undirbúið af n., sem hæstv. menntmrh. skipaði árið 1964 til, að endurskoða gildandi lög um Stýrimannaskólann í Reykjavík. Í grg., sem fylgdi till. þessarar n. og prentuð er í aths. við frv., er gerð grein fyrir þeim breytingum, sem frv. hefur að geyma. Þar segir m.a., að eftir þær miklu breytingar, sem orðið hafa á siglingatækjum og veiðitækjum á árunum eftir síðari heimsstyrjöldina, þegar ný tæki hafa komið fram, bæði við siglingar og fiskveiðar, sé það nauðsynlegt, að nemendur stýrimannaskólans fái kennslu í gerð, meðferð og notkun þeirra siglingatækja, sem eru algengust um borð í skipum og þeir eiga svo að nota í starfi sínu eftir námið.

Þessar breytingar, sem frv. hefur að geyma, eru svo til að öllu leyti við það miðaðar, að þetta geti orðið bæði með breyttu og auknu námsefni og lengingu árlegs skólatíma í einstökum deildum. Um síðara atriðið, engingu námstímans í einstökum deildum, er það að segja, að það er reglugerðaratriði og kemur þess vegna ekki beinlínis fram í frvgr. en efni frv. er sem sé við það miðað, að slík lenging verði ákveðin í reglugerð. Þá er í frv. lagt til, að samræming verði gerð á kennslunni fyrir minna fiskimannapróf, sem svo er kallað, og fiskimannapróf, þannig að þeir, sem standast próf upp úr 1. bekk fiskimannadeildar skólans, öðlist sams konar réttindi og hið minna fiskimannapróf nú veitir, og er gert ráð fyrir, að á tveim stöðum úti á landi verði árlega starfandi 1. bekkjar deildir fiskimannadeildar á vegum og undir umsjá Stýrimannaskólans í Reykjavík.

Þá er það eitt mikilvægt atriði í frv., að það er gert ráð fyrir, að þeir, sem ljúka prófi upp úr 1. bekk farmannadeildar, skuli á sömu réttindi og þeir, sem ljúka prófi úr 1. bekk fiskimannadeildar, enda segir í grg. frá undirbúningsnefndinni, að reynslan hafi veri sú, að flestir nemendur í farmannadeild hafi fengið talsverðan hluta af sínum tilskilda siglingatíma á fiskiskipum.

Þá tekur undirbúningsnefnd fram, að sú samræming, sem með frv. er lögð til fyrir hið minna fiskimannapróf og fiskimannapróf 1. stigsins, eins og það er í frv., verði til þess, að nemendur hætti síður námi, eftir að þeir hafa hlotið hið minna fiskimannapróf, heldur haldi þeir áfram og ljúki 2. bekk og þar með fullnaðarprófi frá fiskimannadeildinni og er vitnað til þess, sem kunnugt er, hvaða vandamál hefur risið á seinni árum vegna þess, að ýmsir hafa ekki hirt um að afla sér víðtækari menntunar en hið minna fiskimannapróf nú veitir.

Að öðru leyti vil ég vísa um efni frv. til þeirrar upptalningar í 7 stafliðum, sem er í aths. við frv. á bls. 8, þar er gerð í stuttu máli grein fyrir till. n., og einnig vil ég vísa til aths. við einstakar greinar frv.

Menntmn. hefur rætt frv. á allmörgum fundum og sent það nokkrum aðilum til umsagnar. Þá mætti einnig skólastjóri Stýrimannaskólans í Reykjavík, sem jafnframt var formaður þeirrar n., sem undirbjó frv., á fundi n., og voru þar rædd ýmis atriði, sem til umr. höfðu komið í n., og álits skólastjórans leitað um þau.

Það er rétt að taka það fram, að í einni þeirra umsagna, sem n. bárust, þ.e.a.s. í umsögn frá skólastjóra Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum, voru allmargar ábendingar, aðallega varðandi námsefni í skólanum og í einstökum deildum. N. leitaði að sjálfsögðu álits skólastjóra Stýrimannaskólans í Reykjavík, er hann kom á fundinn til n., um þessi atriði, og hann upplýsti það m.a., að sumt af því efni, sem ábendingar skólastjórans í Vestmannaeyjum lytu að, væri nú þegar kennt í skólanum. Menntmn. var á einu máli um það, að ábendingar skólastjóra Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum varðandi námsefni væru það sérfræðilegs eðlis, að n. treystist ekki til þess að dæma um þær eða taka til þeirra afstöðu, þannig að fluttar yrðu brtt. í þá átt, sem þar var lagt til. En hins vegar taldi n. eðlilegast, að þessar ábendingar yrðu teknar til athugunar í sambandi við nýja reglugerð fyrir skólann, sem að sjálfsögðu verður að gefa út, ef frv. þetta verður að lögum.

Eins og fram kemur á þskj. 404, flytur n. nokkrar brtt. við frv. Það má segja, að allt séu það minni háttar brtt. Þær yfirleitt miða að því annars vegar að færa orðalag til betri vegar að mati n. og gera það fyllra í einstökum greinum.

Ég skal þá fyrst víkja að 1. brtt. frá menntmn., sem er um það, að ný grein komi á undan 1. gr. frv., og efni þeirrar gr. er, að í stað orðsins skipstjórapróf í 1. gr. l. komi orðin „próf skipstjóra“. 1. gr. 1. hljóðar þannig: „Markmið stýrimannaskólans er að veita þá fræðslu, sem þarf til að standast fiskimannapróf, farmannapróf og skipstjórapróf á varðskipum ríkisins.“ Þetta þótti n. óeðlilegt orðalag og leggur til, að orðalag verði þannig: „próf skipstjóra á varðskipum ríkisins“. Efnisbreyting er þetta að sjálfsögðu engin. Þetta orðalag: „skipstjórapróf á varðskipum ríkisins“ — kemur fyrir víðar, bæði í l. og í frv., og eru ýmsar af brtt. menntmn., sem á eftir koma, við það miðaðar að færa þetta orðalag til betra vegar að okkar dómi.

Um annað atriði, sem snertir margar af brtt., skal ég fara nokkrum orðum. Í frv. er gert ráð fyrir því, að deildir skólans skuli vera þrjár, þ.e.a.s. tveggja ára deild fyrir fiskimannapróf, þriggja ára deild fyrir farmannapróf og sérstök deild fyrir skipstjóra á varðskipum ríkisins. Próf í fiskimannadeild eru skilgreind þannig, að próf eftir fyrra árs nám er nefnt fiskimannapróf 1. stigs og eftir annað árið í fiskimannadeild fiskimannapróf annars stigs, sem er þá fullnaðarpróf úr fiskimannadeild. Farmannadeildin er hins vegar þriggja ára deild. Það er talað um farmannapróf 1. stigs eftir fyrsta árið, 2, stigs eftir annað árið, en eftir þriggja ára nám og þegar tekið er fullnaðarpróf úr þeirri deild, þá er það skilgreint aðeins sem farmannapróf. Þetta þótti okkur óeðlilegt og gæti valdið nokkrum misskilningi og ruglingi, og leggjum við því til, að alls staðar, þar sem talað er um farmannapróf í l. og í frv. í þeim skilningi, að það sé fullnaðarpróf frá farmannadeild, þá bætist við orðin „3. stigs“, og er það í samræmi við skilgreiningu á öðrum prófum í farmannadeild og reyndar einnig í fiskimannadeild.

Þá skal ég aðeins víkja að 2. brtt. n. Í því sambandi vil ég upplýsa það, að n. barst erindi frá íþróttafulltrúa ríkisins, þar sem hann gerir aths. við það, að með 2. gr. frv., eins og það liggur fyrir, sé lagt til, að orðið íþróttir falli niður, en í stað þess komi sund. Eftir atvikum þótti n. rétt að flytja þá brtt. við frv., að ekki yrði sleppt orðinu íþróttir, heldur héldist það, en við bættust orðin „einkum sund“ og þar með auðvitað gefið í skyn, að aðaláherzluna skyldi leggja á sundkennsluna.

Þá vil ég víkja að 6. brtt., sem er um það, að í stað orðsins „stórþjóðamáli“ í 2. mgr. komi: stórþjóðarmáli. Það þótti betur á því fara að tala um stórþjóðarmál. Það má vera, að slíkt sé nokkurt matsatriði, en sú varð þó niðurstaðan, að n. flytur þessa brtt.

Þá er 7. brtt. n., sem er við 12. gr. frv. Í 12. gr. frv. er lagt til, að í stað orðsins „fimm“ kennarar í 13. gr. 1, komi: sex. En í l., eins og þau eru, segir, að við Stýrimannaskólann í Reykjavík skuli auk skólastjóra að jafnaði vera 5 skipaðir kennarar, 4 í siglingafræði og tungumálakennari, og stundakennarar eftir þörfum. Okkur þótti rétt að orða þetta þannig, að það yrðu eigi færri en 6, svo að ekki þyrfti þá, er til kæmi að fjölga kennurum í skólanum, að breyta l. í hvert sinn. — Sama gildir um b-lið 7. brtt. n., í stað orðsins „fimm“ komi: eigi færri en fimm.

Þá er loks að geta um síðustu brtt., sem er við 15. gr. frv., gildistökugreinina. Verði frv. þetta að lögum nú á þessu þingi, munu þau l. að sjálfsögðu koma til framkvæmda næsta haust, og þótti okkur því rétt að miða gildistöku við það, að l. öðluðust þegar gildi. Nú er það svo að þegar l. koma til framkvæmda, þá verður að byrja að framkvæma þau smátt og smátt, þ.e.a.s. það verður byrjað að framkvæma þau í 1. bekk skólans og síðan áfram, vegna þess að síðari námsárin byggja að sjálfsögðu á undirstöðunni, sem lögð er í 1. bekk, og þar er einmitt ætlunin að breyta töluvert um. Gerir því n. till. um það orðalag, sem í 9. brtt. segir, að ákvæði l. frá 1955, þ.e.a.s. núgildandi laga, gildi um þá, sem hafa byrjað nám í skólanum, áður en l. komu til framkvæmda.

Ég held, að ég þurfi svo ekki að hafa fleiri orð um málið. Eins og fram kemur í nál. á þskj: 403 leggur n. til, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem ég nú hef gert grein fyrir.