12.04.1966
Neðri deild: 68. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í B-deild Alþingistíðinda. (661)

8. mál, Stýrimannaskólinn í Reykjavík

Menntmrh. (Gylfi Þ Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Ed., þar sem það var samþ. með shlj. atkv. að fengnum meðmælum hv. menntmn. Ed., sem gerði nokkrar brtt. við frv., sem þó lúta ekki að meginefni þess, heldur frekar að formi þess.

Þetta frv. er upphaflega samið af n., sem menntmrn. skipaði 17. jan. 1964 til þess að endurskoða lög um Stýrimannaskólann í Reykjavik. Í n. áttu sæti þeir Jónas Sigurðsson skólastjóri stýrimannaskólans, sem var formaður n., Guðmundur H. Oddsson skipstjóri, Jón Pálsson tómstundaráðunautur Æskulýðsráðs Reykjavíkur, Jón Sigurðsson formaður Sjómannasambands Íslands og Sverrir Júlíusson alþm. Þessi n. var á einu máli um frv., eins og það var lagt fyrir hv. Ed.

Sú meginbreyting, sem í frv. felst, er, að lengdur er árlegur kennslutími í fiskimannadeild stýrimannaskólans, en það er kunnara en frá þurfi að segja, að miklar breytingar hafa orðið á siglingatækjum og veiðitækjum síðan síðari heimsstyrjöldinni lauk. Bæði hafa komið fram ný tæki, sem notuð eru við siglingar og fiskveiðar, og notkun ýmissa annarra tækja hefur stóraukizt frá því, sem áður var. Þess vegna hefur verið talið nauðsynlegt, að nemendur stýrimannaskólans hljóti verulega aukna kennslu í meðferð og notkun þeirra siglingatækja, sem nú orðið eru algengust um borð í skipum, bæði farskipum og fiskiskipum.

Fyrir nokkrum árum, eða skólaárið 1960–1961, var námstíminn í farmannadeild stýrimannaskólans lengdur um tvo mánuði með það fyrir augum fyrst og fremst að auka kennslu í rafmagnsfræði og jafnframt tækjakennslu. Tilgangur þessa frv. er sá fyrst og fremst að auka einnig um tvo mánuði kennslutíma í fiskimannadeild skólans. Þá er og gert ráð fyrir því að samræma kennsluna fyrir hið svonefnda minna fiskimannapróf og almenna fiskimannaprófið, þannig að þeir, sem standast próf upp úr 1. bekk fiskimannadeildar, öðlist sams konar réttindi og hið minna fiskimannapróf hefur veitt og veitir enn. Enn fremur er gert ráð fyrir því, að á tveim stöðum utan Reykjavíkur verði árlega starfandi 1. bekkjar deildir fiskimannadeildar á vegum Stýrimannaskólans í Reykjavík. Með því að sérstök réttindi fylgja prófi upp úr 1. bekk fiskimannadeildar, sambærileg hinu minna fiskimannaprófi, fyrir utan það, að menn öðlast við það sjálfstæð réttindi, er við því búast, að fleiri haldi áfram námi í fiskimannadeildinni en átt hefur sér stað fram að þessu.

Þetta eru meginbreytingarnar, sem í kjölfar samþykktar þessa frv. mundu verða, og hefur það verið ágreiningslaust hjá öllum, sem álits hefur verið leitað hjá um málið, að það horfi til verulegra bóta. Þess vegna vildi ég leyfa mér að vænta þess, að um málið verði samstaða hér í hv. d., eins og reyndist í hv. Ed.

Að svo mæltu leyfi ég mér að leggja til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.