15.04.1966
Neðri deild: 70. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 821 í B-deild Alþingistíðinda. (664)

8. mál, Stýrimannaskólinn í Reykjavík

Frsm. (Axel Jónsson):

Herra forseti. Mál þetta er 8. mál Ed., og í ræðu hæstv. menntmrh. í þessari hv. d., þegar hann mælti fyrir frv., kom það fram, að ráðh. hafði skipað 5 manna nefnd hinn 17. jan. 1964 til þess að endurskoða gildandi lög um Stýrimannaskólann í Reykjavík. Í nefndina voru skipaðir þeir Jónas Sigurðsson skólastjóri stýrimannaskólans, sem var skipaður form. nefndarinnar, Guðmundur H. Oddsson skipstjóri. Jón Pálsson tómstundaráðunautur Æskulýðsráðs Reykjavíkur. Jón Sigurðsson form. Sjómannasambands Íslands og Sverrir Júlíusson alþm. Var nefndin sammála um sínar niðurstöður.

Breytingar þær, sem nefndin leggur til, að gerðar verði á gildandi lögum um Stýrimannaskólann í Reykjavík, eru fyrst og fremst við það miðaðar að samræma kennslutilhögun skólans þeim miklu breytingum, sem orðið hafa á undanfarandi áratugum varðandi siglingatæki og veiðitæki. Þessu eru fyrirhugað að ná með breytingu á námsefni og með lengingu á skólatímanum, en lengd námstíma er reglugerðaratriði, er kemur ekki beinlínis fram í frv., en efni frv. er við það miðað, að með reglugerðarákvæði verði námstíminn lengdur.

Þá er í frv. lagt til, að samræmd verði kennsla fyrir hið minna fiskimannapróf, sem kallað er, og fiskimannapróf, þannig að þeir, sem standast próf upp úr 1. bekk fiskimannadeildarinnar í skólanum, hljóti sömu réttindi og hið minna fiskimannapróf nú veitir, og er gert ráð fyrir því, að á tveim stöðum úti á landi verði árlega starfandi 1. bekkjar deildir fiskimannadeildar á vegum og undir umsjá Stýrimannaskólans í Reykjavík, og eru tilgreindir 3 staðir á landinu, sem slík námskeið skulu haldin á annað hvert ár, ef næg þátttaka fæst, þ.e. á Ísafirði, Akureyri og Neskaupstað. Heimilt er að hafa námskeiðin á öðrum stöðum, að tilskildu samþykki samgmrn. Rétt er í þessu sambandi að geta þess, að í Vestmannaeyjum er starfandi stýrimannaskóli.

Þá er það eitt atriði í frv., að gert er ráð fyrir því, að þeir, sem lokið hafa prófi úr 1. bekk farmannadeildar skólans, skuli fá sömu réttindi og þeir, sem ljúka prófi úr 1. bekk fiskimannadeildarinnar, og um þetta segir í grg. undirbúningsnefndarinnar með frv., að reynslan sé sú, að flestir nemendur í farmannadeildinni hafi fengið talsverðan hluta af sínum tilskilda siglingatíma á fiskiskipum. Þá tekur undirbúningsnefndin það fram, að sú samræming, sem með frv. er lögð til fyrir hið minna fiskimannapróf og fiskimannapróf 1. stigs, verði til þess, að nemendur hætti síður námi, eftir að þeir hafa hlotið hið minna fiskimannapróf, heldur haldi áfram námi og afli sér þar með víðtækari menntunar en hið minna fiskimannapróf veitir.

Að öðru leyti vísast til þeirrar upptalningar í 7 stafliðum, sem er í aths. við frv. á bls. 8, og til aths. við einstakar greinar þess.

Við meðferð málsins í menntmn. hv. Ed. var leitað álits nokkurra aðila. Einnig mætti á fundi nefndarinnar form. undirbúningsnefndar, skólastjóri stýrimannaskólans, og eins og fram kemur í áliti nefndarinnar á þskj. 403, flutti nefndin nokkrar brtt., sem prentaðar eru á þskj. 408, þar sem fyrst og fremst er um orðalagsbreytingar að ræða og einnig til að gera hinar ýmsu gr. frv. ýtarlegri og gleggri.

Alger samstaða var í menntmn. hv. Ed. um afgreiðslu málsins, og samþykkti sú í deild frv. með áorðnum breytingum menntmn. samhljóða.

Á fundi menntmn. þessarar hv. þd. um málið mætti skólastjóri stýrimannaskólans og skýrði frv. og svaraði fsp., og eins og fra kemur á þskj. 472, mælir nefndin einróma með því, að frv. verði samþykkt.