31.03.1966
Efri deild: 58. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í B-deild Alþingistíðinda. (671)

118. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Í þessu frv. felast þær breytingar frá gildandi lögum um útvarpsrekstur ríkisins, að annars vegar verði fjölgað í útvarpsráði úr fimm í sjö manns og hins vegar skuli útvarpsráði heimilt að skipta með sér verkum við undirbúning dagskrár. Um rökstuðning fyrir þessum breytingum vísast til grg. með frv.

Menntmn. hefur athugað frv. og mælir með samþykkt þess með einni breytingu, sem n. flytur till. um á þskj. 414. Sú breyting er við fyrirsögn frv., og þessa breytingu leiðir beint af 2. gr. frv., ef að lögum verður, því að í 2. gr. er lagt til, að úr gildi verði numin tvenn lög, sem í fyrirsögn frv. greinir.

Ég held, að ég sjái ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið, en eins og fram kemur í nál. á þskj. 405, leggur menntmn. einróma til, að frv. verði samþ. með þessari einu breytingu.