31.03.1966
Efri deild: 58. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 834 í B-deild Alþingistíðinda. (696)

135. mál, mat á sláturafurðum

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Í sambandi víð athugasemdir, sem hv. 6. þm. Sunnl. var að tala um, hvort það væri gert ráð fyrir einhverjum breytingum frá því, sem hefur tíðkazt, að hér er stundum talað um kælingu og frystingu kjötsins, þá hygg ég, að svo sé ekki. En þeir, sem sömdu þetta frv., yfirdýralæknirinn, Jón Sigurðsson borgarlæknir, Jónmundur Ólafsson kjötmatsformaður og Sæmundur Friðriksson, ættu að fylgjast með því, hvernig kjötið er meðhöndlað, en í þeim frystihúsum, sem ég þekki, er forkælir, og ég geri ráð fyrir, að þeir hafi reiknað með því. En ef það nýjasta er nú að byggja frystihúsin án forkælis, sýnist vera horfið frá því í framkvæmd, þar sem því er við komið, og hætt við kælingu, og þá er það af fenginni reynslu, að það sé til bóta, og þá getur ekki verið, að hér sé verið að setja þetta orð inn til þess að fara aftur til baka í það, sem áður var. Í tilefni af þessari aths. finnst mér það vel vera athugandi að spyrja þessa menn, sem sömdu frv., um það, hvað fyrir þeim vakir með þessu. Ég staldraði ekkert við þetta orð, vegna þess að ég hef vitað, að kjötið er venjulega sett inn í forkæli, áður en það er sett í frystirúm og kassa. En sennilegt er það, að það megi hvort tveggja vera, en sjálfsagt er að spyrja um það, hvað meint er með þessu, þar sem ég hef ekki skýringar á takteinum út af því.

Þá spyr hv. 6. þm. Sunnl. um það, hvort með þessu frv. sé stefnt að því að leyfa ekki slátrun, nema þar sem frystihús er til staðar. Það er ekki stefnt að því með þessu frv., og 12. gr. eiginlega gerir ráð fyrir því, að það sé mögulegt að slátra, án þess að frystihús sé við, því að það er gert ráð fyrir, að sláturafurðirnar séu fluttar jafnvel um langan veg, og ef ekki sé vel frá öllu gengið, geti það komið fyrir, sem hefur skeð, að varan sé ekki góð, og þess vegna er gert ráð fyrir því, að það sé heimilt að heimta endurmat á vörunni. Þá finnst mér það sjálfsagt, ef til þess þarf að koma, að það sé gert á þann hátt, sem er kostnaðarminnstur fyrir þann aðila, sem í hlut á og á að borga kostnaðinn við það. Það sýnist vera alveg sjálfsagt.

Þá er það um löggildinguna. Hv. 6. þm. Sunnl. taldi eðlilegt, að það væri einn aðili eða þá yfirdýralæknir, sem gæfi meðmæli um það, hvort ætti að löggilda hús, en hér er sagt í 2. gr.: „Yfirdýralæknir eða hlutaðeigandi héraðsdýralæknir“. Þetta er eins og það er í gildandi 1., alveg tekið orðrétt upp eins og það er í gildandi l. En nú er þetta strangara en þó í gildandi 1. að því leyti, að þegar á að byggja sláturhús, er gert ráð fyrir, að viðkomandi sendi teikningar inn til rn. og að teikning fái staðfestingu yfirdýralæknis eða héraðsdýralæknis, áður en hún fær löggildingu. Vitanlega er það heppilegast fyrir þann, sem ætlar að ráðast í byggingu sláturhúss, að vita fyrir fram, áður en byrjað er á byggingunni, hvort hús, sem byggt er samkv. þessari teikningu, fær löggildingu. En það er náttúrlega matsatriði, hvort það er talið eðlilegt, að það sé yfirdýralæknirinn einn, sem þarna komi við sögu, eða héraðsdýralæknirinn. Ég vil benda á, að þannig er þetta í gildandi l., og héraðsdýralæknar eiga að vera fagmenn í þessu, eiga að vera dómbærir um að, hvort teikningin er fullnægjandi eða ekki, og það gæti verið, að þeim þætti nærri sér höggvið, ef þeir væru felldir þarna út. Ég skal ekkert segja um það, ég hef ekkert athugað það, þetta er sem sagt matsatriði. Hins vegar er sag á öðrum stað í frv., að héraðsdýralæknar skuli hafa eftirlit með sláturhúsum undir yfirstjórn yfirdýralæknis, þannig að ég held, að það sé yfirleitt svo góð samvinna milli héraðsdýralækna og yfirdýralæknis, að þeir viti yfirleitt alltaf hverjir um aðra og héraðsdýralæknar beri á aflega oft mál undir yfirdýralækni.

En ég vænti þess, að þetta frv. fái skjóta ferð gegnum hv. d. Ef eitthvert atriði í frv. sýnist þurfa að lagfæra, breyta til bóta, er það vitanlega sjálfsagt og hægt að gera en , þótt það verði til þess, að málið þurfi að fa a aftur til Nd. Ég skal ekki við því amast, þótt einhverri setningu í frv. verði breytt, ef það sýnist vera til bóta.