08.03.1966
Efri deild: 47. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 842 í B-deild Alþingistíðinda. (705)

109. mál, meðferð opinberra mála

Frsm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Það hefur löngum verið orð á því gert, að langur tími færi til rannsóknar og meðferðar dómsmála hér á landi, bæði einkamála og sakadómsmála. Erfitt hefur reynzt að ráða bót á þessu, þótt ærin viðleitni hafi verið sýnd til þess á undanförnum árum og áratugum. Nokkuð hefur þó áunnizt, en þess er naumast að vænta, að slíkur hraði geti orðið á afgreiðslu dómsmála og dómsmeðferð sem almenningur mundi óska. Hætt er við, að slíkur hraði gæti aðeins fengizt á kostnað vandaðrar málsmeðferðar, sem hver málsaðili á skilyrðislausan rétt á. Því er ekki að neita þó, að sum sakadóms mál eru svo einföld, að áhættulaust er, að meðferð þeirra og afgreiðsla verði með nokkru meiri hraða og einfaldari hætti en hingað til hefur tíðkazt.

Frv. þetta um breyt. á l. um meðferð opinberra mála fjallar einmitt um meðferð nokkurra minni háttar sakadómsmála og miðar að því að fá skjótari málalok en nú tíðkast og þar með að auka varnaráhrif með því, að viðurlögum sé beitt sem skemmstum tíma eftir að brot er framið. Jafnframt gæti það nokkuð minnkað álag á dómendur sakadómsmála með dálitlum vinnusparnaði.

Í aths. við frv. segir, að dómsmrh. hafi falið saksóknara ríkisins, lögreglustjóranum í Reykjavík og yfirsakadómaranum í Reykjavík að vinna með dómsmrn. að tillögugerð um þessi efni og felist till. þessara aðila í frv. Helztu breytingar, sem ætlazt er til, að gerðar verði með frv., eru þessar:

Í fyrsta lagi að heimila dómara ákvörðun allt að eins árs ökuleyfissviptingar án málshöfðunar, ef brot er skýlaust sannað og ef telja má, að refsing fari ekki fram úr sektum, ef málið gengi til dóms. Og enn fremur er það skilyrði. að sakborningur játist undir þessa ákvörðun og saksóknara sé heimilt að kæra málið til hæstaréttar, ef hann telur rangt með farið.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir, að lögreglustjórum séu heimilaðar sektaraðgerðir fyrir brot gegn umferðarlögum, áfengislögum og lögreglusamþykktum allt að 5000 kr. sektum. Sakborningi sé í sjálfsvald sett, hvort hann gengst undir slíka sektarákvörðun lögreglustjóra. Geri hann það, er máli hans þar með lokið, ella gengur málið til dóms. Í gildandi l. er einungis slík heimild til sektarákvörðunar fyrir lögreglumenn, sem standa vegfarendur að broti gegn umferðarlögum eða lögreglusamþykkt og sektarupphæð takmörkuð við 300 kr. Sú hámarksupphæð er hækkuð í 1000 kr. í frv.

Og í þriðja lagi er í frv. ákvæði um sérstök afskipti saksóknara ríkisins af sektargerðum lögreglustjóra og lögreglumanna, þannig að saksóknari skuli láta lögreglustjórum í té skrá yfir þau brot, sem sektarheimildirnar n til, og skuli einnig veita leiðbeiningar um sektarupphæðir fyrir hverja tegund brota.

Allshn. þessarar hv. d. hefur haft frv . til meðferðar á fundum sínum, og niðurstað n. er sú að leggja til, að það verði samþ. eð þeirri einni breyt., sem getið er í nál. á þskj. 283, en breytingin er sú, að á eftir orðinu „ áfengislögum“ í 2. mgr. 1. gr. komi: lögum um tilkynningu aðsetursskipta, — og mundu þau þannig hlíta sömu lögum og áfengislög og lögreglusamþykktir.

Þessi brtt. er þannig til komin, að hagstofustjóri hefur mælzt til þess við dómsmrn., að það kæmi á framfæri tilmælum hans um að þessi breyt. yrði sett inn í frv., og hefur n. borizt erindi frá rn. um þetta, og fellst hún á þessa till. Þegar n. afgreiddi frv., var ein nm., hv. 3. þm. Norðurl. v. (ÓlJ), fjarverandi, og á hann því ekki hlut að afgreiðslu málsins í nefndinni.